Haustgleði í Króatíu

Það er draumi líkast að ferðast um eyjaperlur Króatíu úti fyrir Kvarner flóa og kynna sér menningu og lifnaðarhætti eyjarskeggja. Fyrstu nóttina verður gist í nágrenni Feneyja en síðan ekið til Króatíu og komið til bæjarperlunnar Crikvenica. Farið verður í töfrandi ferðir, m.a. yfir á eyjuna Krk þar sem fegurðin gælir við okkur og við heimsækjum höfuðstað eyjunnar Krk, samnefnda virkisbæinn en þessi fjölsótti bær er menningarmiðstöð eyjunnar. Siglum yfir til Cres, sem er ásamt Krk stærsta eyja Adríahafsins, en Cres er tengd við eyjuna Lošinj sem er blóma- og furuparadís. Þar skoðum við yndislega bæinn Mali Lošinj með sínum þröngu, hlykkjóttu hliðargötum og dýrðlegu útsýni. Við upplifum eina af glæsilegustu náttúruleiksýningum Austur-Evrópu í vatnaþjóðgarðinum Plitvička Jezera sem er þakinn vötnum, fossum, ám og lækjum. Farið verður í draumasiglingu yfir á Rab eyjuna en íbúar hennar eru sagðir hamingjusömustu íbúar landsins. Upplifum þar einnig miðaldabæinn Rab sem talinn er einn fallegasti hafnarbær Kvarner flóans.

Verð á mann 239.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 32.200 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Play og flugvallarskattar. 
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverðir á hótelum.
 • Fjórir kvöldverðir á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, kláfa og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Þrír kvöldverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Heimsókn til vínbónda u.þ.b. € 16.
 • Sigling til eyjunnar Cres u.þ.b. € 8. 
 • Vatnaþjóðgarðurinn Plitvička jezera u.þ.b. € 25.
 • Sigling yfir á eyjuna Rab u.þ.b. € 6.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

26. september | Flug til Feneyja

Brottför frá Keflavík kl. 14:45 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Feneyjum kl. 21:05 að staðartíma. Ekið á hótel í nágrenni flugvallar þar sem gist verður fyrstu nóttina.

27. september | Crikvenica í Króatíu

Eftir góðan morgunverð verður ekið til bæjarperlunnar Crikvenica við Kvarner flóa í Króatíu. Hér verður gist í sex nætur á hóteli í miðbænum en hótelið er örfáum skrefum frá ströndinni. Einnig er heilsulind á hótelinu með saunu og gufubaði.

28. september | Eyjan Krk & vínbóndi

Ævintýraferð í dag um fallegu eyjuna Krk með heimamanni sem fræðir okkur um líf eyjarskeggja, menningu og listir. Eyjan er tengd meginlandinu með Krk brúnni eða svokallaðri Tito-brú eins og hún hét áður. Hún var byggð stuttu eftir lát forseta landsins árið 1980 og nefnd eftir honum. En nú bíður höfuðstaður eyjunnar eftir okkur, gamli virkisbærinn Krk, en þessi fjölsótti bær er menningarmiðstöð eyjunnar og upplifum við hann á skemmtilegri göngu. Þessi góði dagur endar á akstri til bæjarins Vrbnik þar sem vínbóndi verður heimsóttur.

Opna allt

29. september | Rólegur dagur Crikvenica

Við ætlum að taka lífinu með ró í dag og skoða umhverfið í þessum fagra bæ við Kvarner flóann. Farið verður í skemmtilega göngu um þennan fræga ferðamannabæ þar sem íbúar hafa byggt afkomu sína á ferðaþjónustu í 125 ár. Eftir það verður frjáls tími til að kanna bæinn á eigin vegum. Pálmum prýdd strandgatan er falleg og það er gaman að kynnast lífi og menningu bæjarbúa. Einnig væri upplagt að nýta sér aðstöðu hótelsins.

30. september | Eyjan Lošinj & Mali Lošinj

Í dag ætlum við að fara í smá eyjahopp. Byrjum á því að aka til Valbiska á Krk þar sem við tökum ferju yfir til Merag á Cres sem er ein af landbúnaðareyjunum. Ekið verður yfir á eyjuna Lošinj sem er blóma- og furuparadís eyjanna í Króatíu. Hér er að finna suðrænan gróður, s.s. pálma- og furutré, agave plöntur, lárviðarrós, sítrónutré, salvíu og lofnarblóm. Eyjan telst til sólríkustu staða Evrópu og státar af yfir 2500 sólarstundum á ári, sem þýðir að það eru um 300 nánast skýjalausir dagar á ári. Komum til Mali Lošinj, höfuðstaðar hennar, en þar liggur miðbærinn upp frá smábátahöfn með fjölmörgum, huggulegum verslunum og kaffi- og veitingahúsum sem bjóða upp á dæmigerða Miðjarðarhafsrétti. Það er gaman að ganga um þröngar, hlykkjóttar hliðargötur og fara upp að aðalkirkju bæjarins en þaðan er dýrðlegt útsýni yfir bæinn og flóann.

1. október | Vatnaþjóðgarðurinn Plitvička Jezera

Þennan dag leggjum við land undir fót og heimsækjum þjóðgarðinn Plitvička Jezera. Garðurinn er þakinn 16 vötnum, fossum, ám og lækjum sem saman mynda stórkostlegt náttúrusjónarspil. Þessi undursamlegi staður hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 1979 og er fegurðin ólýsanleg. Hér er um að gera að klæðast góðum skóm, því eina leiðin til að virða fyrir sér dýrðina er fótgangandi.

2. október | Sigling yfir á Rab eyjuna & miðaldabærinn Rab

Dásamlegur dagur sem byrjar á siglingu yfir á draumaeyjuna Rab sem er skógi vaxin með undurfallegar sandstrendur, umvafin kristalstærum sjó. Íbúar eru sagðir þeir hamingjusömustu í allri Króatíu og náttúrufegurðin hér lætur engan ósnortinn. Miðaldabærinn Rab tekur þar á móti okkur en hann byggðist út á keilulöguðum tanga, er með sterkum feneyskum blæ og af mörgum talinn einn fallegasti hafnarbær Kvarner flóa. Fjórir turnar bæjarins eru tákn hans og tróna yfir rauðum leirþökum húsanna sem gera þennan miðaldabæ svo hrífandi. Eftir skemmtilega göngu með heimamanni um gamla bæinn þar sem við kynnumst sögu hans og menningu verður frjáls tími sem upplagt er að nota til að kynnast mannlífinu á torgum og strætum, í verslunum og kaffi- eða veitingahúsum.

3. október | Trieste & heimferð frá Feneyjum

Nú er komið að heimferð eftir ævintýralega og skemmtilegu ferð. Við förum frá Crikvenica áleiðis til flugvallar en komum við í fallegu borginni Trieste þar sem tækifæri gefst til að rölta um og fá sér hressingu áður en ekið verður út á flugvöllinn í Feneyjum. Brottför þaðan kl. 22:05 og lending í Keflavík kl. 00:40 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir er fædd árið 1975 og ólst upp á sveitabæ norðan Vatnajökuls innan um kindur og hreindýr. Hún er menntuð í fjölmiðlafræði og ljósmyndun og starfaði lengi fyrir útgáfufélagið Birtíng sem blaðamaður og ljósmyndari. Hún útskrifaðist úr Leiðsöguskólanum vorið 2022 úr göngu- og almennri leiðsögn og tekur bæði að sér almenna rútuleiðsögn og fjallgöngur. Ragnhildur hefur mikinn áhuga á útivist, stundar fjallgöngur, utanvegahlaup og gönguskíði. Þá hefur áhugi hennar á jarðfræði aukist mikið á undanförnum árum og hún hefur gengið fjölda ferða að gosstöðvunum í Fagradalsfjalli með erlenda ferðamenn. Að auki hefur Ragnhildur verið fararstjóri í gönguferðum bæði á Ítalíu og Tenerife. Ragnhildur býr nú í Hafnarfirði, er gift og á tvo syni, og starfar við leiðsögn, fararstjórn og ljósmyndun. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790
Póstlisti