Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
29. nóvember             Flug til München - SeefeldSeefeld

Brottför frá Keflavík kl. 7.20. Mæting í Leifsstöð um 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 12.05 að staðartíma (+ 1 klst. tímamismunur). Við byrjum á því að aka inn í miðborg München. Helsta kennileiti borgarinnar er gotneska dómkirkjan með laukturnunum tveimur, Marienkirche. Á Marienplatz torginu er eitt fallegasta ráðhús landsins, en úr turni ráðhússins hljómar fagurt klukknaspil 2 sinnum á dag. Á torginu er einn aðal jólamarkaður borgarinnar og mikil aðventustemning um borgina alla. Góður tími gefst til að fá sér hressingu og upplifa aðeins ljósum prýdda aðventuna. Síðar verður ekið til Tíról í Austurríki eða nánar tiltekið til Seefeld sem er í 1180 m hæð. Þetta er yndislegur bær inn á milli fjallanna og við gistum 5 nætur á góðu hóteli í miðbænum. Á hótelinu er heilsulind með nokkrum tegundum af gufubaði, innrauðum hitaklefa og fleiru.

 
 Glühwein

30. nóvember           Mittenwald - Garmisch-Partenkirchen

Eftir góðan morgunverð förum við saman í göngutúr um bæinn og könnum umhverfið. Undir hádegi leggjum við síðan af stað til bæjarins Mittenwald sem á sér engan líka, með litlum, myndskreyttum húsum, bæjarlæk og skemmtilegum verslunum. Bærinn er frægur fyrir smíði strengjahljóðfæra og stendur minnisvarði fyrir Matthias Klotz, upphafsmanns fiðlusmíði í Mittenwald, fyrir utan fiðlusafn bæjarins. Frá Mittenwald förum við til Garmisch-Partenkirchen í Þýskalandi sem er einn þekktasti skíðabær landsins. Bærinn er töfrandi á aðventunni og ylmur jólanna svífur yfir aðventumarkaði hans. Hér er upplagt að fá sér hressingu, en það tilheyrir að fá sér heitt jólaglögg á göngu um jólamarkaðinn. Einnig er hægt að fara með hestvagni um bæinn, sem er mjög huggulegur á þessum árstíma, og njóta um leið náttúrufegurðarinnar allt um kring.

 

Aðventudýrð í Swarovski
1. desember           Aðventudýrð í Swarovski og Innsbruck

Góður morgunverður bíður okkar og við gefum okkur
tíma til að njóta hans og umhverfisins. Við ökum svo til Wattens þar sem Swarovski kristalsafnið og verslun eru til húsa, en þar glitrar á ýmis djásn. Áfram höldum við til Innsbruck, höfuðborgar Tíról, sem er umvafin fjöllum og töfrandi náttúrufegurð. Innsbruck var ein af borgum Habsborgaranna, einnar mikilvægustu valdsættar Evrópu. Blómatími hennar var á 15. öld undir stjórn Maximilian I af Habsborg. Hann lét byggja helsta kennileiti borgarinnar, húsið með gullþakinu, sem stendur við eitt fallegasta torgið í Tíról. Farið verður í stutta göngu með fararstjóranum en eftir það verður frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum og fá sér hressingu og jólaglögg á aðventumarkaði borgarinnar. Borgin er sérstaklega heillandi og ævintýraleg á aðventunni því borgarbúar nota gjarnan Grimmsævintýrin sem þema í skreytingunum. Einnig verður góður tími til að líta inn til kaupmanna í Maria-Theresien-götunni sem eru fjölmargir og þar er jafnan mikil jólastemming.

 
 
2. desember           Kufstein og Kufstein kastalinn

Bærinn Kufstein er sérlega spennandi bær með Kufstein kastalinnmiðaldakastala sem gnæfir yfir borginni og jólamarkaði í borgargarðinum. Kufstein kastalinn er frægur fyrir svo kallað Hetjuorgel, sem er útiorgel í einum turni hans. Á þetta orgel er leikið daglega kl 12.00 til minningar um þá sem féllu í heimstyrjöldunum tveimur og óma tónar þess um nágrennið. Mögulegt er að fara í skoðunarferð um kastalann og hverfa um hríð aftur í aldir. Hér er hægt að sjá upprunalegt handverk sem verið er að vinna þar á aðventunni og í kastalagarðinum er einnig skemmtilegur og sérstakur jólamarkaður.

 
 
3. desember           Aðventumarkaður og kósý dagur í Seefeld

Kósý dagur í Seefeld sem er yndislegur bær í mikilli fjalladýrð. Áður fyrr var þetta mikið vatnasvæði eins og nafn bæjarins ber reyndar með sér. Þennan dag er aðventumarkaður í bænum, lifandi tónlist og mikið um dýrðir. Hér er margt hægt að gera, t.d. fara með hestvagni í rómantíska ferð um nágrennið eða ganga hringinn í kringum vatnið eftir góðum göngustíg. Mögulegt er að fara upp á Rosshütte fjallið með kláfi sem fer upp í 1.784 m hæð. Þarna uppi er gott veitingahús og upplagt að fá sér kaffi og tertusneið.

 
Jólamarkaður Seefeld

 
4. desember           Heimferð frá München

Nú er komið að heimferð eftir ljúfa ferð. Eftir morgunverð verður ekið til München. Brottför þaðan kl. 13.05 og lending í Keflavík kl. 16.00 að staðartíma.

 
 
 
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.
 

  
  
 
Verð: 155.500 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 24.400 kr.

 
 Aðventutöfrar í Tíról

 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
• Allir drykkir á bar hótelsins og einnig með kvöldverði
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll. Hádegisverðir. Þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Swarovski heimar ca 17 €.Kufstein kastalinn ca 8 €, Tónleikar í Oswald kirkju


 
 
 

 

Tengdar ferðir