Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
20. apríl           Flug til München & Brixen

Brottför frá Keflavík kl. 7.20 og er mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13.05 að staðartíma, en þaðan verður ekin fögur leið yfir Brennersskarðið til Suður-Tíról á Ítalíu og gist eina nótt í Brixen.

 
 
21. apríl           Ekið til Riva del Garda við Gardavatnið & FeneyjarEkið til Riva del Garda við Gardavatnið & Feneyjar

Að loknum morgunverði verður ekið til Feneyja. Á leiðinni verður stoppað í bænum Riva del Garda við Gardavatn, þar sem við gefum okkur góðan tíma til að fá okkur hressingu og skoða okkur um. Við komuna til Feneyja bíður okkar fljótaskipið MS Michelangelo í stórhöfninni. Eftir að hafa verið boðin velkomin með drykk og áhöfnin kynnt sig, eigum við notalega kvöldstund með góðum mat og drykk. Á meðan á kvöldverði stendur leysir skipið landfestar og siglir inn í Feneyjar í nágrenni Markúsartorgsins.

 
Feneyjar eru byggðar á 118 eyjum sem tengdar eru saman með 400 brúm. Undirstaða borgarinnar er á staurum sem reknir eru um 15 – 20 metra niður á botn síkjanna og standa svo þétt saman að þeir mynda fleka. Gist verður um borð í skipinu í 4 nætur. Eftir kvöldverð verður hægt að ganga inn á Markúsartorgið eða slaka á í setustofu skipsins við ljúfa tóna.

 
 
22. apríl           Sigling um Veneta lónið, eyjarnar Murano & BuranoSigling um Veneta lónið, eyjarnar Murano & Burano

Um morguninn verður lagt í siglingu yfir Veneta lónið sem liggur umhverfis Feneyjar og er skilið frá Adríahafinu með landrifi. Á siglingunni verða á vegi okkar þéttbyggðar eyjar, kirkjur, hallir, sjómannsskýli og munum við kynnast forvitnilegri sögu og lífi eyjaskeggja. Að loknum hádegisverði leggjum við að bryggju í Feneyjum og skiptum yfir í minni fljótabáta og siglum yfir á eyjuna Murano. Eyjan er heimsþekkt fyrir framleiðslu á kristal, sem staðið hefur óslitin frá árinu 1291, en þar er einnig að finna fjölda verslana og verksmiðja. Að skoðun lokinni höldum við för okkar áfram yfir á eyjuna Burano sem þekkt er fyrir framleiðslu á blúndu-knypplingum. Við kynnumst framleiðslunni, kíkjum í verksmiðjurnar ásamt því að virða fyrir okkur sjarmerandi lífið á eyjunni, ganga þröngar götur og skoða okkur um.

 
 
23. apríl           Skoðunarferð um Feneyjar & frjáls tímiSkoðunarferð um Feneyjar & frjáls tími

Í dag höldum við í skemmtilega skoðunarferð um Feneyjar með heimamann í fararbroddi. Auður og íburður blasir hvarvetna við í borginni, við röltum um hellulagðar og hlykkjóttar götur, yfir fjöldamargar brýr og á vegi okkar verða stórfenglegar sögulegar byggingar s.s. hertogahöllin sem er ein glæsilegasta bygging borgarinnar og Markúsartorgið þar sem Markúsarkirkjan glæsilega stendur. Kirkjan er ein merkilegasta kirkjubygging veraldar, byggð í austrænum stíl og minnir á höllina úr ævintýrinu 1001 nótt. Við komum að hinni frægu Rialto brú sem liggur yfir Grand Canal skurðinn, en hann mun vera 3,8 km langur og 900 m breiður og við hann standa hvorki meira né minna en 200 hallir.

 
Skoðunarferðin endar við MS Michelangelo, þar sem okkar býður Feneyjar hádegisverður. Eftir hádegi er frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum og gefst þá færi á að fara upp í borgarturninn eða upp á svalir Markúsarkirkjunnar. Áhugavert er að flögra um í veraldlegum íburði í hertogahöllinni, en höllin geymir málverkið Paradís eftir Tinderetto sem mun vera eitt stærsta málverk í heimi. Upplagt er að fá að fljóta með einhverjum af fjölmörgum gondólaræðurum borgarinnar um þröng en heillandi síki borgarinnar, en margir hverjir skemmta farþegum sínum einnig með söng á Ó sóló míó, sem hlýtur að vera einstök upplifun. Að loknum góðum tíma í borginni bíður okkar glæsilegur kvöldverður á fljótaskipinu okkar, MS Michelangelo.

 
 
24. apríl           Sigling að mynni stórfljótsins Po, Chioggia & Padua

Á meðan morgunverði stendur leysir skipið landfestar og siglir yfir Veneta lónið. Í dag verður siglt að mynni stórfljótsins Po og farið í land í gamla fiskiþorpinu Chioggia, en þaðan verður lagt af stað í rútu til hinnar fornu háskólaborgar Padua. Í borginni skoðum við okkur um með heimamanni í broddi fylkingar og fræðumst um viðburðarríka sögu einnar elstu borgar Ítalíu. Rúta ferjar okkur svo aftur landleiðina til Feneyja, en í kvöld verður efnt til hátíðarkvöldverðar og skemmtikvölds í einum af sölum skipsins og mun kvöldið líða við tónlist og dans prúðbúinna gesta.

 
 
25. apríl           MS Michelangelo kvatt & haldið til Innsbruck

Í dag er komið að því að kveðja áhöfnina á MS Michelangelo og yfirgefa skipið eftir dásamlega daga í Feneyjum. Nú verður ekið norður eftir til Innsbruck í Austurríki þar sem gist verður í 2 nætur. Á leiðinni verður stoppað í kastalanum Noarna sem staðsettur er fyrir ofan borgina Rovereto.Við fáum stutta leiðsögn um kastalann og snæðum síðan léttan hádegisverð að hætti íbúanna í dalnum og geta þeir sem vilja smakkað á afurðum vínbænda í leiðinni.

 
 
26. apríl           Skemmtilegur dagur í InnsbruckInnsbruck

Að loknum morgunverði hefst skemmtilegur dagur í Innsbruck og byrjum við á því að fara í stutta skoðunarferð um borgina. Innsbruck er höfuðstaður Tíról, umvafinn fjallafegurð. Miðaldahluti borgarinnar er mjög heillandi, en Innsbruck var ein af borgum Habsborgaranna, einnar mikilvægustu konungsættar Evrópu. Blómatími borgarinnar var á 15. öld undir stjórn Maximilians I af Habsborg, en hann lét byggja eitt helsta aðalaðdráttarafl borgarinnar, húsið með gullþakinu, sem stendur við eitt fallegasta torgið í Tíról. Að skoðunarferðinni lokinni verður hægt að kanna borgina á eigin vegum, líta inn til kaupmanna í Maria-Theresien-Straße eða setjast niður á kaffihús.

 
 
27. apríl           Heimferð frá München

Nú er komið að heimferð og eftir þessa glæsilegu ferð. Ekið verður út á flugvöllinn í München, brottför er þaðan kl. 14.05 og áætluð lending í Keflavík kl. 16.00 að staðartíma.

  
Um skipið:

MS Mischelangelo tilheyrir frönsku skipafyrirtæki Prestige Class Croisi Europe og var tekið í notkun árið 2000. Þar er að finna glæsilega innréttaða setustofa með bar og veitingastað, þar sem boðið verður upp á hlaðborð á morgnana, en þjónað til borðs í hádegis- og kvöldverði. Allir drykkir eru innifaldir meðan á siglingu stendur, vín, bjór, sterkir drykkir, vatn, gos, kokteilar, kaffi og kökur. Klefarnir eru allir með sér baðherbergi, útsýnisglugga, hárblásara, sjónvarpi og öryggishólfi. Loftræstikerfi er í öllum klefunum.

 
 
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

 
  
 
Verð: 239.500 á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 49.900 kr.

 
 
 
Innifalið:Feneyjar - Venice

• Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
• Hótelgisting í eina nótt í 2ja manna herbergi með baði í Brixen
• Morgun- og kvöldverður á hóteli í Brixen
• Sigling með skipinu MS Michelangelo í 5 daga
• Gisting á skipinu MS Michelangelo í 2ja manna klefa með sturtu/salerni í 4 nætur
• Morgun-, hádegis- og kvöldverður á skipinu MS Michelangelo
• Móttökudrykkur á skipinu
• Allir drykkir á meðan á siglingu stendur, vín, bjór, sterkir drykkir, vatn, gos, kokteilar, kaffi og kökur
• Hátíðarkvöldverður á skipinu þann 24. apríl
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu
• Hótelgisting í 2 nætur í 2ja manna herbergi með baði í Innsbruck
• Morgun- og kvöldverður á hóteli í Innsbruck
• Íslensk fararstjórn og erlend staðarleiðsögn

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur. Siglingar og ferjur. Vínsmökkun, hádegisverðir og þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Léttur hádegisverður og vínsmökkun í Rovereto ca. € 18

 

 
 
 

 
 

Ferðaskilmálar Bændaferða
 
 

 

Tengdar ferðir
Póstlisti