Að upplifa Pontresina á gönguskíðum

Að upplifa Pontresina á gönguskíðum

Anna Sigga, okkar frábæri fararstjóri ætlar að leiða gönguskíðaferð til Pontresina í Sviss í janúar 2025. Hún segir okkur frá sinni skíðagönguvegferð og hvers vegna Pontresina er frábær valkostur.

Anna Sigga og Palli í Pontresina

Árið 2011 fór ég í mína fyrstu skíðagönguferð til Austurríkis, til Achensee í Tíról. Ég var á glænýjum áburðaskíðum og kunni lítið. Ég fékk leiðbeiningar frá fararstjórum og farþegum sem voru búin að fara í margar ferðir með Bændaferðum og kunnu eitt og annað í sambandi við íþróttina. Mín fyrstu kynni af skíðagöngufólki voru frábær og þarna kynntist ég dásamlegu fólki sem var tilbúið að miðla af reynslu sinni og þekkingu til nýgræðingsins. Ein kenndi mér að bremsa, annar kenndi mér tvöfalt staftak og sá þriðji kenndi mér eitt og annað um skíðaáburð. Ég lærði mikið í þessari fyrstu ferð og kolféll fyrir skíðagöngunni.

Kostir skíðagöngu

Skíðaganga er frábær hreyfing og hentar fólki á öllum aldri. Skíðaganga bætir þol, styrk og jafnvægi og reynir á samhæfingu. Í skíðagöngu reynir á marga vöðva án þess að of mikið álag sé lagt á liði. Þetta er mjúk hreyfing sem fer vel með líkamann, bætir andlega líðan og dregur klárlega úr streitu.

Pontresina2

Eftirlætis skíðagöngusvæði

Veðrið á Íslandi gerir það að verkum að það getur verið ansi töff að stunda þessa íþrótt hér en ég hef verið svo heppin að vera fararstjóri í skíðagönguferðum hjá Bændaferðum í mörg ár. Bændaferðir hafa boðið upp á skíðagönguferðir til 10 mismunandi staða frá árinu 2005

Pontresina5

Í ár bjóða Bændaferðir upp á ferðir til fjögurra mismunandi staða. Ég hef komið á flesta staði sem Bændaferðir hafa boðið upp á og finnst erfitt að gera upp á milli þeirra en auðvitað á ég mér uppáhaldsstaði. Mér hefur þótt erfitt að gera upp á milli Seefeld, Ramsau, Toclach og Achensee því þetta eru allt frábærir staðir sem bjóða upp á fullt af kílómetrum, fjölbreyttar skíðaleiðir, fallegt umhverfi, skemmtilega menningu og oftast nægan snjó. Síðasti vetur var þó frekar snjóléttur á flestum svæðum og það getur alltaf gerst. Ég var í Seefeld í 3 vikur í fyrra en þar er framleiddur snjór í ákveðnar brautir sem það gerði það að verkum að við gátum alltaf gengið á skíðum þó ekki væru allar brautir opnar.

Að kynnast Pontresina

Eftir 3 vikur í Seefeld sem liggur í 1.200 m hæð fór ég til Pontresina í Sviss sem liggur í 1.800 m hæð. Þar var líka frekar snjóléttur vetur en þar sem bærinn liggur hærra voru samt flestar brautir opnar. Ég skoðaði svæðið með það í huga að þetta gæti verið næsti áfangastaður fyrir skíðagönguferð Bændaferða og komst að þeirri niðurstöðu að Pontresina væri frábær kostur.

Pontresina8

Mestu máli skipta auðvitað brautirnar sem eru um 220 km af öllum gerðum. Mér fannst líka skipta máli hve svæðið stendur hátt sem eykur líkur á nægum snjó. Það sem heillaði mig líka voru allir þessir dalir sem bjóða upp á fallega göngu upp og skemmtilegt rennsli niður, Roseg dalurinn með útsýni yfir Roseg jökulinn og gangan upp að Morterasch jökulröndinni eru sérstaklega eftirminnilegar. Í þessari ferð er hægt að spreyta sig á leiðinni sem farin er í Engadin skíðamaraþoninu (42 km) sem byrjar í Maloja og endar í S-Chanf. Sú leið er algjörlega mögnuð.

Afþreying og fleira skemmtilegt

Pontresina og svæðið í kring býður líka upp á skemmtilega afþreyingu ef fólki langar að hvíla gönguskíðin. Það er t.d. hægt að taka kláf upp í Muttos Morage og að renna sér á sleða niður eða upplifa lestarferð með Bernina lestinni um stórbrotið landslag sem er á minjaskrá UNESCO. Svo er hægt að skreppa til St. Moritz og fá sér kampavín og kavíar, nú eða bara kaffi. Í St. Moritz er líka hægt að skoða skakka turninn, Casa Futura, Kempinski hótelið eða taka kláf upp í rúmlega 3.000 m hæð. Svo er auðvitað hægt að skella sér á svigskíði og skíða eins og James Bond. Krakkar á öllum aldri taka lestina til Preda, leigja sér sleða og renna sér niður til Brägens. Sumir krakkar fara aftur og aftur upp með lestinni og renna sér aftur og aftur niður. Ofurhugar geta keypt sér far í bobsleða í St. Moritz þar sem farið er á 135 km hraða niður 1,7 km bobsleðabraut á 5 sekúndum.

Matur og drykkur

Matar- og vínmenningin á þessu svæði er svolítið ólík þeirri sem við þekkjum frá Austurríki. Í Sviss er ekki svona mikil bjórmenning en að sjálsögðu hægt að fá hinn ljúffenga Engadiner bjór. Hér er meiri vínmenning og snapsamenning. Svisslendingar framleiða eigin vín en reiða sig líka á vín frá nágrannalöndunum, sérstaklega Ítalíu og Frakklandi.

Hér eru talsverð ítölsk áhrif enda ekki langt til Ítalíu. Svo er auðvitað drukkið te, t.d. jurtate með jurtum frá nærliggjandi svæðum s.s. Albula og. Bernina.

Pontresina3

Í Sviss snýst allt um osta og í Sviss notum við ekki ostahníf, bara góðan hníf og skerum miklu þykkari sneiðar. Osturinn er oftast bragðmikill og feitur enda þurfum við mikla orku. Ostafondú er algjörlega ómissandi og það fer enginn frá Engadin nema smakka Engadiner Nusstorte sem er kaka gerð úr hveiti, hunangi og mikið af valhnetum. Kannski eigum við leið í bakaríið í Zouts en þar fást víst bestu kremsnitturnar sem eru svona mjúkar tertusnittur. Ekki má gleymi perubrauðinu sem passar mjög vel með gráðosti og kannski góðu vínglasi.

Það er nóg af góðum mat í Sviss.

Eini ókosturinn við Sviss er á að það er um 30% dýrara að vera þar en í Austurríki, þess vegna er svo gott að fara í ferð þar sem mikið er innifalið.

Heilluð af Pontresina

Að mínu mati raðar Pontresina sér í sæti með Seefeld, Ramsau, Achensee og Toblach þegar kemur að því að meta staðinn sem skíðagöngusvæði. Öll svæðin hafa sinn sjarma og sín einkenni. Mögulega er Pontresina uppáhaldsstaðurinn minn núna og það er vegna þess að skíðaleiðirnar eru svo fjölbreyttar og umhverfið stórfenglegt. Pontresina er virkilega sætur bær og bæirnir í nágrenninu s.s. St. Moritz setja líka sinn svip á svæðið, menninguna og söguna. Matarmenningin er líka skemmtileg og sjarmerandi. Ég hlakka til að fara til Pontresina í vetur.

Þú getur bókað þitt sæti í einstaka skíðagönguferð til Pontresina í dag!

 

Tengdar ferðir




Póstlisti