Á gönguskíðum í Pontresina

Tignarlegir tindar, jöklar og dásamlegur furuskógur umkringja friðsæla bæinn Pontresina sem er frábær áfangastaður fyrir vetrarfrí á gönguskíðum. Pontresina er í 1805 metra hæð yfir sjávarmáli og er staðsettur í Engadin dalnum sem býður upp á allt það besta til að gera ferðina að ógleymanlegu vetrarævintýri. Á svæðinu er um 220 km af skíðabrautum sem teygja sig í kringum Engadin vötnin og um fallega hliðardali. Gist verður á góðu hóteli í Pontresina en þar er innifalinn morgunverður og fjögurra rétta sælkerakvöldverður. Á hótelinu er notaleg heilsulind með sauna, eimbaði og nuddpotti. Flogið er með Icelandair til Zürich og ekið sem leið liggur til Pontresina.

Í þessari skíðagönguferð er ekki skipulögð skíðakennsla og því hentar hún ekki fyrir byrjendur.

Verð á mann 429.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 51.900 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar. 
  • Ferðir á milli flugvallarins í Zürich og hótelsins í Pontresina.
  • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á vel staðsettu hóteli.
  • Morgunverðarhlaðborð.
  • Vel útilátinn 4ra rétta kvöldverður með salathlaðborði.
  • Aðgangur að heilsulindinni.
  • Baðsloppur.
  • Góð aðstaða til að undirbúa gönguskíðin fyrir daginn.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aukagjald fyrir skíði í flug.
  • Hádegisverðir.
  • Forfalla- og ferðatrygging.
  • Þjórfé.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Nánar um ferðina

Í ferðinni verða tveir fararstjórar sem munu vera með skipulagða dagskrá. Boðið verður upp á styttri og lengri ferðir og gjarnan staldrað við í hádegi á notalegum veitingastað. Þeir sem vilja frekar njóta þess að skíða á sínum eigin forsendum í dásamlegu umhverfi gera það. Markmiðið er að allir njóti sín á gönguskíðum við góðar aðstæður.

Skíðasvæðið

Pontresina er notalegur bær í 1805 metra hæð yfir sjávarmáli í efri hluta Engadin dalsins. Svæðið er sólríkt og vel varið fyrir vindi enda umkringt fjöllum og dásamlegum furuskógi. Engadin dalurinn er sannkölluð paradís fyrir útivistarfólk bæði að sumri og vetri til. Ekki langt frá Pontresina er Bernina fjallgarðurinn þar sem tindarnir Piz Palü og Piz Bernina gnæfa yfir en sá síðari er 4049 metrar að hæð og hæsti tindur austurhluta Alpanna. Á Pontresina svæðinu eru um 220 km af skíðagöngubrautum sem teygja sig í kringum Engadin vötnin og um fallega hliðardali. Þetta er stærsta net skíðagöngubrauta í Sviss og býður að margra mati upp á fallegasta umhverfið. Hér ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi og hægt að fara nýjar og spennandi leiðir á hverjum degi. Síðan 1969 hefur Engadin skíðamaraþonið verið haldið á svæðinu og það er virkilega gaman að skíða á þeirri braut eða hluta hennar. Einnig er upplagt að ganga upp að Morteratsch jökulröndinni en jökulinn hefur hopað mikið á síðustu áratugum og búið er að merkja með minnisvörðum hvar jökulröndin var á hverjum tíma. Síðast en ekki síst er Pontresina talinn vígi krullunnar í Sviss. Sjá nánar á vefsíðu Pontresina svæðisins

Flugið

Flogið verður með Icelandair til Zürich þann 25. janúar. Brottför frá Keflavík kl. 7:20 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í Zürich kl. 12:05 að staðartíma. Frá flugvellinum eru um 235 km til Pontresina svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki rúmar 3 klst. Á brottfarardegi leggjum við snemma af stað út á flugvöll og síðan er flogið heim kl. 13:00 frá Zürich. Lending á Íslandi kl. 16:00. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Anna Sigríður Vernharðsdóttir

Anna Sigríður Vernharðsdóttir er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og starfar sem ljósmóðir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún var á árum áður félagi í Hjálparsveit skáta Kópavogi og var um tíma yfirleiðbeinandi Björgunarskólans í fyrstu hjálp.

Anna Sigga, eins og hún er alltaf kölluð, hefur áhuga á alls konar útivist og nýtir hvert tækifæri til ævintýra og útivistar. Fjallgöngur, hjólreiðar og skíðaganga eru í uppáhaldi.

Sveinbjörn Sigurðsson

Sveinbjörn Sigurðsson starfar sem sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfari við Sjúkraþjálfarann í Hafnarfirði. Hann hefur mikla reynslu af þjálfun enda þjálfaði hann í 30 ár bæði handbolta- og fótboltalið og síðustu 5 árin hefur hann komið að þjálfun skíðagöngufólks á höfuðborgarsvæðinu. Sveinbjörn hefur margþætta reynslu af hinum ýmsu keppnum bæði hér heima og erlendis og á síðustu árum hefur hann lagt meiri áherslu á skíðagöngu og skíðakennslu og sótt nær öll mót á Íslandi og helstu mót erlendis í þeirri grein.

Hótel

Sporthotel Pontresina

Gist verður allar næturnar á fjölskyldureknu hóteli í hjarta Pontresina, Sporthotel Pontresina. Innifalið er hálft fæði, morgunverðarhlaðborð og fjögurra rétta sælkeramatseðill með salathlaðborði og valmatseðli. Notaleg heilsulind er á hótelinu með sauna, eimbaði, hvíldarsvæðum og nuddpotti með útsýni yfir Roseg dalinn. Hægt er að bóka nuddmeðferðir gegn aukagjaldi. Herbergin eru öll með baði/sturtu, sjónvarpi og öryggishólfi. Gestir fá baðslopp til afnota á meðan á dvölinni stendur. Ókeypis þráðlaust net er á hótelinu. Sjá nánar á vefsíðu hótelsins.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti