Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
9. júní           Keflavík – DublinDublin Clonmacnoise

Brottför frá Keflavík kl. 06:20 með Wow. Mæting í Leifsstöð amk 2 tímum fyrir brottför. Lent á Dublin flugvelli kl. 09:40 að staðartíma. Þaðan verður ekið þvert yfir Írland um blómlegar sveitir og bæi. Á leiðinni verður stoppað í bænum Athlone og litið inn í fallegan miðaldakastala til þess að kynnast merkri sögu staðarins og heimsfrægs söngvara sem þaðan kom, John McCormark. Síðan verður haldið á helgan stað á bökkum árinnar Shannon, Clonmacnoise, en þar eru merkar minjar frá frumkristni á Írlandi. Klaustrið stendur á einstaklega fallegum stað við ána. Við höldum svo beinustu leið vestur í Galway sýslu út við ströndina og gistum 2 nætur í þorpinu Kinvarra.

 
 
10. júní           Connemara - skaginn

Í dag verður farinn hringur norður um Connemara skagann en þaðan koma Connemara steinarnir frægu sem notaðir eru í skartgripi og ýmsa nytjahluti. Svæðið einkennist af fjölda vatna og mýra, umkringt fjöllum. Ekið meðfram Lough Corrib vatni, gegnum Oughterard þorpið og áfram til Kylemore þar sem hinn frægi klausturskóli er í afar fallegu umhverfi. Eftir það farið til Clifden, höfuðstaðar Connemara svæðisins. Þar er til dæmis hægt að líta inn á Ej Kings krána sem er vel þekkt ,,kennileiti‘‘ á vesturströndinni. Eftir hæfilegt stopp í Clifden verður haldið áfram til Kinvarra gegnum helsta írskumælandi svæði Írlands.

 
 
11. júní           Kinvarra – TraleeMoher Klettar

Eftir morgunverð leggjum við af stað til Tralee þar sem gist verður næstu 3 nætur. Á leiðinni verður ekið í gegn um Burren landsvæðið sem einkennist af sprungnum grjóthellum sem eru sérstakt gróður- og jarðfræðifyrirbæri. Út við hafið skoðum við hið stórbrotna Moher bjarg, sem er þverhnípt strandlengja, 200 metra há og 8 kílómetra löng. Bjargið er ein af perlum Írlands og þykir stórkostleg sýn. Á góðum degi er útsýni alla leið til Aran eyjanna sem peysurnar frægu eru kenndar við. Áfram er haldið til Killimer þar sem Shannonferjan er tekin yfir til Tarbert. Við endum þennan dag á hóteli í Tralee, sem er stærsti bær Kerry sýslunnar. Í frægu lagi er sungið um Maríu ,,rósina frá Tralee‘‘ eða Seljadalsrósina eins og hún var nefnd í íslenskri þýðingu.

 
 
12. júní           Kerry - hringurinnKillarney vötnin

Í dag förum við svo nefndan „Kerry-hring“ sem að ýmsu leyti má líkja við gullna hringinn hér heima, því flestir sem ferðast um vesturhluta Írlands vilja gjarnan fara hann. Á leið okkar verða hugguleg þorp eins og Milltown, Killorglin, Cahersiveen, Waterville, uppáhalds sumardvalarstaður Charlie Chaplin, og Sneem svo eitthvað sé nefnt. Farið verður yfir fjöllin, litið yfir landið frá útsýnisstaðnum Ladies view og haldið niður að Killarney vötnunum og Killarney bænum. Killarney er einn fjölsóttasti ferðamannastaður Írlands. Þaðan verður svo haldið áfram til Tralee.

 
 
13. júní           Dingle skaginnDingle skaginn

Þennan dag er förinni heitið út á hrjóstrugan og vogskorinn Dingle skagann. Sumir fornleifafræðingar halda því fram að fáir staðir í Vestur Evrópu geymi eins merkar og fjölbreyttar fornminjar. Hér er líka talið hafa þrifist mannlíf í nærri 6000 ár. Við njótum þess að aka hring um skagann, skoða okkur um og staldra við í litlum þorpum eða á útsýnisstöðum. Dunmore Head er á vesturströndinni og þar í fjörunni liggja leyfar flaksins af Rangá sem varð vélarvana í miklum stormi árið 1982. Skipið var leiguskip Hafskipa og var í jómfrúarferðinni til Íslands frá Spáni. Slea Head er einstakur staður suðvestast á nesinu með mögnuðu útsýni yfir á Blasket eyjarnar. Þaðan höldum við áfram áleiðis til Tralee um Fahan svæðið á sunnanverðum skaganum sem er þekkt fyrir sérkennileg kúluhús úr steini, flest talin vera frá 12. öld en eiga mun eldri fyrirmyndir.

 
 
14. júní           Tralee – Cork – DublinJameson viskí

Nú kveðjum við Tralee og höldum til Cork sýslu. Höfuðstaðurinn Cork er næst stærsta borg Írlands og þar verður staldrað við í miðbænum og hægt að líta í verslanirnar, á matsölustaði eða krár. Við förum héðan í hafnarbæinn Cobh en þaðan héldu margir Írar á vit betra lífs í vesturheimi þegar þrengdi að heima. Þaðan fór líka Titanic í sína hinstu för. Síðdegis komum við til Midleton og heimsækjum viskíverksmiðjuna þar sem Jameson er búið til ásamt fleiri viskítegundum. Saga viskígerðar á Írlandi er löng og merkileg og henni fáum við að kynnast og auðvitað líka framleiðslunni, ef menn vilja. Því næst er stefnan tekin á Dublin þar sem gist verður í 2 nætur.

 
 
15. júní           Skoðunarferð um DublinDublin

Í Dublin förum við í skemmtilega skoðunarferð um borgina fyrri hluta dags og förum m.a. framhjá frægum byggingum svo sem pósthúsinu við O´Connell stræti þar sem páskauppreisninin hófst árið 1916, gamla þinghúsinu, Trinity háskólanum, Kirkju heilags Patreks og skoðum stærsta garð innan borgarmarka í Evrópu. Ferðinni lýkur í miðbænum þar sem þeir sem vilja geta skoðað sig um, sest á bekk og notið vorsins í St. Stephen´s Green garðinum eða rölt um miðbæinn og fylgst með götulistamönnunum. Og auðvitað eru verslanir á hverju strái. Þeir sem kjósa geta farið í Trinity háskólann og skoðað hið fræga guðspjallahandrit og þjóðargersemi Íra ,,Book of Kells“ og um leið gamalt og mikilfenglegt bókasafn skólans, ,,The Long Room“.

 
 
16. júní           Heimferðardagur

Það er komið að heimför. Brottför flugs Wow er kl.12:10 og lending í Keflavík kl.13:35 að íslenskum tíma.

 
 
Fararstjóri getur fært dagskrárliði til milli daga eftir því sem þörf þykir þegar komið er á staðinn.

 
  
 
Verð: 184.400 kr á mann í tvíbýli.

Aukagjald fyrir einbýli er 32.200 kr.

 
 Kinvarra
 
Innifalið í þátttökugjaldinu: 

• Flug með Wow og flugvallaskattar
• Shannonferjan frá Killimer til Tarbert
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði
• Allar skoðunarferðir samkvæmt ferðalýsingu
• Morgunverður og kvöldverður allan tímann á hótelum
• Íslensk fararstjórn

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. Siglingar aðrar en þær sem nefndar eru sérstaklega undir innifalið. Hádegisverðir.

 
 
Valfrjálst:

Clonmacnoise klaustur ca. € 4, Kylemore klaustur ca € 12, Jameson Whiskey ca. € 15, Trinity háskóli og bókasafn ca. € 12, Moherklettar ca. € 6, Titanic Cobh ca. € 9,50
 
 
  
  
 

Ferðaskilmálar Bændaferða

 

 

Tengdar ferðir