Almennir skilmálar

Almennir skilmálar

Hér á eftir fylgja ýmsar upplýsingar og skilmálar sem við hvetjum viðskiptavini okkar til að kynna sér vel.

1. Upplýsingar og pöntun

Í öllum auglýsingum og markaðsefni tilgreina Bændaferðir verð og allar upplýsingar sem snerta ferðina á eins greinargóðan og nákvæman hátt og kostur er. Bændaferðir áskilja sér rétt til leiðréttinga á villum, rangfærslum eða mistökum sem kunna að birtast í auglýsingum og markaðsefni, sem t.d. má rekja til uppsetningar eða tæknilegra ástæðna.

Pöntun á ferð er bindandi samningur milli farþega/hópa og Bændaferða, en þó því aðeins að Bændaferðir hafi staðfest pöntunina skriflega til baka og farþegi/hópur hafi greitt tilskilið staðfestingargjald. Með því að panta ferð staðfestir viðkomandi að hann hafi lesið og samþykkt almenna skilmála Bændaferða. Sé pantað fyrir hóp ber sá sem pantar ábyrgð á því að kynna almenna skilmála Bændaferða fyrir þeim sem tilheyra hópnum.

Ef farþegi/hópur hefur sett fram sérstakar kröfur um þjónustu skal það koma fram í samningi aðila. Bændaferðir ábyrgjast ekki að í öllum tilvikum sé hægt að verða við beiðni farþega um þjónustu.

2. Greiðslur

Uppgefið verð ferðar, eins og það er á greiðsludegi, skal greitt samkvæmt auglýstum skilmálum Bændaferða.

Staðfestingargjald

Staðfestingargjald skal greitt við bókun og fer upphæðin eftir verðskrá Bændaferða á hverjum tíma. Staðfestingargjald er óafturkræft ef meira en 5 dagar eru liðnir frá bókun eða ef ferðaskrifstofan riftir samningi vegna vanefnda farþega.

Innágreiðslur

Farþegi getur greitt inn á keypta ferð inni á Mínar síður á vef Bændaferða. Farþegi ræður upphæð innágreiðslu.

Fullnaðargreiðsla

Fullnaðargreiðsla þarf að hafa borist 8 vikum fyrir brottför, nema annars sé getið.

Breytingargjald

Ef breytingar eru gerðar á pöntun meira en viku eftir staðfestingu bókunar greiðist breytingagjald. Ef breyting er gerð á pöntun fyrir útgáfu farseðla er breytingagjaldið 10.000 kr á mann. Ef Breyting er gerð á pöntun eftir útgáfu farseðla er breytingabjaldið 16.000 kr á mann. 
Ef breyting felur í sér hækkun á verði ferðar, t.d. vegna fargjaldamismunar, greiðir farþegi mismuninn að auki.

Tilboðsgjald

Fyrir ráðgjöf og vinnu að tilboðsgerð vegna ferða sérhópa greiðist tilboðsgjald, 10.000 kr. Tilboðsgjald er óendurkræft en gengur upp í bókun ef tilboði er tekið.
Sé tilboða óskað til fleiri en eins áfangastaðar er greitt sérstaklega fyrir hvern viðbótarstað.


Skilmálar samstarfsaðila Bændaferða kunna að fela í sér frekari greiðslur en samkvæmt skilmálum Bændaferða. Slíkir skilmálar samstarfsaðila gilda þá jafnframt um viðkomandi pöntun eða ferð.

3. Verð og verðbreytingar

Uppgefin verð Bændaferða miða við þá dagsetningu þegar pöntun er gerð eða þegar ferð er auglýst og kann að taka breytingum ef breyting verður á einum eða fleiri af eftirfarandi verðmyndunarþáttum:
• Flutningskostnaði, þar með töldum eldsneytiskostnaði.
• Sköttum eða gjöldum fyrir tiltekna þjónustu, s.s. lendingargjöldum eða gjöldum fyrir að fara um borð eða frá borði í höfnum eða á flugvöllum.
• Verulegum gengisbreytingum á gengi þess gjaldmiðils sem á við um tiltekna ferð.

Ferð sem er að fullu greidd tekur þó ekki slíkum breytingum ef 20 dagar eða minna eru í ferð.

Bændaferðir áskilja sér jafnframt rétt til að leiðrétta villur varðandi verð sem kunna að leynast í bókunarkerfi, bæklingum, auglýsingum eða á vefsíðu ferðaskrifstofunnar.


Innifalið í verði pakkaferðar er flug, flugvallarskattar, hótel, rúta, íslensk fararstjórn og annað sem tilgreint er í ferðalýsingu.

4. Afbókun eða breytingar á pöntun

Farþega er heimilt að afturkalla ferðapöntun, án kostnaðar, sé það gert innan 5 daga frá því að pöntun var gerð enda séu að lágmarki 5 vikur í brottför. Að þeim tíma liðnum er bókun bindandi og lýtur skilmálum um afbókanir.

Ef farþegi mætir ekki til brottfarar á réttum tíma eða getur ekki hafið ferðina vegna skorts á gildum ferðaskilríkjum, svo sem vegabréfi, áritun þess, vottorðs vegna ónæmisaðgerða eða af öðrum ástæðum, á hann ekki rétt á endurgreiðslu ferðarinnar.

Ef ferð er afpöntuð gilda afbókunarskilmálar hér að neðan. Endurgreiðsla vegna afbókunar nemur aldrei lægri upphæð en sem nemur staðfestingargjaldinu fyrir hvern bókaðan farþega.

Afbókun skal berast Bændaferðum skriflega.

a) Almennar ferðir

Ferð afpöntuð 15-28 dögum fyrir brottför: Ferðaskrifstofan heldur eftir 50% af verði ferðar.

Ferð afpöntuð 8 – 14 dögum fyrir brottför: Ferðaskrifstofan heldur eftir 75% af verði ferðarinnar.

Ferð afpöntuð 7 dögum eða minna fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.

b) Sérferðir og aðrar stærri ferðir

Ferð afpöntuð meira en 90 dögum fyrir brottför: Bændaferðir halda eftir staðfestingargjaldi.
Ferð afpöntuð 71 – 89 dögum fyrir brottför: Bændaferðir halda eftir 50% af verði ferðar.
Ferð afpöntuð 70 dögum eða síðar fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.

Þegar skilmálar samstarfsaðila okkar ganga lengra en að ofan greinir, gildir sú regla sem gengur lengra.

Viðskiptavini er ávallt heimilt að afturkalla pöntun vegna stríðsaðgerða, lífshættulegra smitsjúkdóma eða annarra hliðstæðra tilvika sem hafa afgerandi áhrif á framkvæmd ferðar þegar 14 dagar eða færri eru til brottfarar. Í slíkum tilvikum ber Bændaferðum að endurgreiða ferðina að frádregnu staðfestingargjaldi. Þetta gildir þó ekki ef farþegi hefði mátt sjá fyrir um ofangreinda atburði og ástand er samningur var gerður.

Bændaferðum er heimilt að breyta dagsetningu ferðar ef breytingin er gerð með meira en 30 daga fyrirvara. Sé það gert eftir þann tíma skoðast það sem afbókun og ný bókun og áskilja Bændaferðir sér rétt til greiðslu samkvæmt því, sbr. Afbókunarskilmála hér að ofan.

Ef bókun er breytt úr einni auglýstri ferð í aðra skoðast það alltaf sem afbókun og ný bókun.

5. Framsal bókunar

Farþegi getur framselt bókun sína til aðila sem fullnægir þátttökuskilyrðum. Skal farþegi sem og framsalshafi tilkynna Bændaferðum strax um slíkt framsal skriflega. Framseljandi ferðar og framsalshafi eru þá sameiginlega og hvor í sínu lagi ábyrgir gagnvart Bændaferðum að því er varðar greiðslu á eftirstöðvum og öllum aukakostnaði sem slíkt framsal kann að leiða af sér.

Ekki er hægt að framselja ferð eftir að farseðill hefur verið gefinn út eða í þeim tilvikum þar sem aðilar sem selja þjónustu í ferðina hafa sett ákveðin skilyrði þannig að það sé ekki í valdi Bændaferða að breyta þeim. Bændaferðir taka ekki ábyrgð á sölu ferða frá einum farþega til annars.

6. Aflýsing og breytingar á ferðaáætlun

Bændaferðir bera enga ábyrgð á óvenjulegum og ófyrirsjáanlegum aðstæðum sem ferðaskrifstofan fær engu um ráðið. Í slíkum tilvikum er ferðaskrifstofunni heimilt að breyta eða aflýsa ferðinni með öllu, enda verði farþegum tilkynnt þar um tafarlaust.

Bændaferðum er heimilt að gera breytingar á pakkaferð áður en ferð hefst. Geri ferðaskrifstofan breytingar á ferð áður en hún hefst skal tilkynna það farþega svo fljótt sem unnt er. Sé um verulega breytingu að ræða ber farþega að tilkynna ferðaskrifstofunni eins fljótt og unnt er hvort hann óski eftir að rifta samningnum eða gera viðbótarsamning er tilgreini þær breytingar sem gerðar eru á upphaflega samningnum og áhrif þeirra á verð og önnur kjör.

Sé ferð aflýst, eða farþegi riftir samningi þegar um verulega breytingu er að ræða á ferð áður en hún hefst, á farþegi rétt á að fá að fullu endurgreiðslu eða taka í staðinn aðra ferð sambærilega að gæðum eða betri, ef ferðaskrifstofan getur boðið slík skipti. Ef ferðin sem boðin er í staðinn er ódýrari fær farþegi verðmismuninn endurgreiddan. Ef ferðin er dýrari greiðir farþegi mismuninn.

Tímasetningar sem gefnar eru upp við pöntun ferðar eru áætlaðar og geta breyst.

Bændaferðum er heimilt að aflýsa ferð ef í ljós kemur að þátttaka er ekki næg að hennar mati. Tilkynna ber þátttakendum um aflýsingu eigi síðar en 21 degi fyrir áætlaðan brottfarardag. Ferðum sem vara í 7 daga eða skemur má þó aflýsa með sjö daga fyrirvara.

7. Skyldur farþega

Farþegi er skuldbundinn að fylgja fyrirmælum fararstjóra eða starfsfólks þeirra aðila er ferðaskrifstofa skiptir við. Farþegi er skuldbundinn að hlíta lögum og reglum opinberra aðila í þeim löndum sem hann ferðast um, taka tillit til samferðarmanna sinna og hlíta þeim reglum er gilda á hverjum stað enda ber hann ábyrgð á því tjóni sem hann kann að valda með framkomu sinni. Farþegi sem mætir ekki á brottfararstað (s.s. flugstöð) á réttum tíma hefur fyrirgert rétti sínum til bóta ef hann af þeim sökum verður af pöntuðu fari.

Brjóti farþegi af sér í þessum efnum eða gefi við upphaf ferðar tilefni til þess að ætla að hann verði samferðafólki sínu til ama með framkomu sinni, er ferðaskrifstofu heimilt að hindra hann í að hefja ferð sína eða halda henni áfram og verður hann þá að ljúka henni á sinn kostnað, án endurkröfuréttar á hendur ferðaskrifstofu.

Bændaferðum er heimilt að hafna viðskiptum við fólk vegna fyrri óviðeigandi hegðunar svo og við þá sem ferðaskrifstofan telur ekki færa til að ferðast vegna sjúkdóma o.þ.h.

8. Vegabréf og áritanir

Ferðaskrifstofan hvetur farþega til að gæta vel að gildistíma vegabréfs fyrir brottför. Er það alfarið á ábyrgð farþega að afla sér upplýsinga um og tryggja sér þau ferðaskilríki og áritanir sem hafa þarf meðferðis fyrir það land sem ferðast er til.

Huga þarf að því hvort vegabréf sé gilt nægilega lengi, en ákveðin lönd gera kröfu um að vegabréf farþega sé í gildi í allt að 6 mánuði frá þeim degi er farþegi yfirgefur viðkomandi land. Alltaf skal ferðast með vegabréf, jafnvel þegar ferðast er innan Schengen svæðisins.
Áður en ferð hefst þarf að kanna hvort vegabréfsáritunar sé þörf eða annarra skjala. Upplýsingar varðandi vegabréfsáritanir er að finna á vefsíðu Utanríkisráðuneytisins. Ef um millilendingar er að ræða þarf einnig að huga að hvort þörf sé á áritun á millilendingarstað.

9. Tryggingar

Ferðaskrifstofan hvetur viðskiptavini til að huga vel að tryggingarmálum sínum áður en lagt er upp í ferð.

Viðskiptavinum er bent á að kaupa á sinn kostnað ferða-, slysa/sjúkra- og farangurstryggingu hjá tryggingafélögum. Þá eru ferðatryggingar oft í boði fyrir handhafa kreditkorta. Slík vernd er ekki innifalin í verði ferðar. Farþegar eru því hvattir til að kynna sér sína tryggingavernd og þá skilmála sem gilda um þær tryggingar sem þeir hafa keypt.

10. Takmörkun ábyrgðar og skaðabætur

Bændaferðir áskilja sér rétt til að takmarka skaðabætur í samræmi við takmarkanir sem kveðið er á um í landslögum eða alþjóðasamningum.
Bændaferðir gera ráð fyrir að þátttakendur í hópferðum séu heilir heilsu þannig að ekki sé hætta á að þeir valdi öðrum óþægindum eða tefji ferðina vegna sjúkdóms. Ef farþegi veikist í hópferð ber hann sjálfur ábyrgð á kostnaði sem af því kann að hljótast sem og kostnaði við heimferðina. Farþegi á ekki rétt til endurgreiðslu frá Bændaferðum þó hann ljúki ekki ferð af þessum ástæðum eða öðrum, sem ferðaskrifstofunni verður ekki um kennt.

Hugsanlegar athugasemdir vegna ferðar skulu berast fararstjóra eða Bændaferðum án tafar svo hægt sé að greiða úr vandanum. Athugasemd skal berast Bændaferðum skriflega á netfangið bokun@baendaferdir.is eins fljótt og við verður komið og í síðasta lagi innan mánaðar frá því viðkomandi ferð lauk. Að öðrum kosti verða hugsanlegar bótakröfur ekki teknar til greina og farþegi með aðgerðaleysi sínu samþykkt að fella niður allar slíkar kröfur á hendur ferðaskrifstofunni.

Verði farþegi fyrir tjóni vegna þess að ferð er ófullnægjandi á hann rétt á skaðabótum nema því aðeins að:
• vanefnd á framkvæmd samningsins verði ekki rakin til vanrækslu ferðaskrifstofu eða annars þjónustuaðila,
• vanefnd er sök farþega eða þriðja aðila sem ekki tengist þeirri þjónustu sem samið var um og er ófyrirsjáanleg eða óhjákvæmileg eða,
• vanefnd er vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.

Ef ferð fullnægir ekki ákvæðum samnings getur farþegi krafist þess að ráðin sé bót á nema það hafi í för með sér óeðlilegan kostnað eða veruleg óþægindi fyrir Bændaferðir Ef ekki er hægt að bæta úr því sem á vantar eða einungis með lakari þjónustu á farþegi rétt á verðlækkun á ferðinni sem jafngildir mismuninum á þeirri þjónustu sem samið var um og þeirri sem veitt er.

Bændaferðir bera ekki ábyrgð ef aðbúnaður eða þjónusta gististaða er tímabundið ekki fyrir hendi, t.a.m. sökum bilana og viðgerða eða lokunar á veitingastöðum.

Bændaferðir bera ekki ábyrgð á skemmdum sem kunna að verða á farangri í flugi eða í öðrum farartækjum svo sem rútum og áætlunarbifreiðum. Verði skemmdir á farangri í flugvél ber farþega að fá skriflega skýrslu hjá þjónustuaðila flugfélagsins á viðkomandi flugvelli við komu. Athugið að geyma þarf brottfararspjaldið og tjónaskýrsluna. Flugfélagið greiðir farþega bætur fyrir skemmdan farangur samkvæmt alþjóðlegum reglum og skulu bætur sóttar þangað. Hafi farþegi ekki látið gera tjónaskýrslu er ekki hægt að fá farangur bættan. Ferðaskrifstofan ber ekki ábyrgð á ef farangur tapast eða ef hann berst farþega seint.

Að öðru leyti er vísað til gildandi reglugerða bæði innanlands sem og erlendis hvað varðar réttindi farþega.

Sérákvæði

Flugfélög hafa rétt til breytinga á flugáætlun og flugtímum vegna veðurs, tafa vegna mikillar flugumferðar eða vegna seinnar komu vélar úr öðru flugi eða bilana. Flugfélög hafa einnig rétt til að skipta um flugvélakost reynist það nauðsynlegt eða breyta sætaröðun í flugvélinni. Bændaferðir bera ekki ábyrgð á slíkum töfum flugfélaga eða breytingum frá fyrirfram staðfestri flugáætlun og bera enga skyldu til endurgreiðslu eða fjárhagslegra bóta til handa farþegum.
Bændaferðir áskilja sér rétt til að breyta upplýsingum sem fram koma á vefsíðu ferðaskrifstofunnar, sem og skilmálum þessum, án fyrirvara.

Útgefið 02. júní 2022




Póstlisti