Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
28. maí           Flug til Mílanó & BergamoBergamo

Brottför frá Keflavík kl. 16.50. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 22.40 að staðartíma. Þaðan verður ekið til Bergamo sem er einn af fegurstu bæjum Ítalíu við rætur Alpanna og jaðar Pósléttunnar. Við gistum 2 nætur í miðbæ Bergamo.

 
 
29. maí           Bergamo

Þessi dagur byrjar rólega en eftir góðan morgunverð förum við í stutta göngu að sérkennilegu lestarvögnunum sem flytja okkur upp brattann í gamla bæjarhlutann efri Bergamo, sem umkringdur er fornum virkisveggjum. Glæstar byggingar taka á móti okkur þegar upp er komið ásamt töfrandi þröngum götum og iðandi mannlífi þessa yndislega bæjarhluta. Sagt er að þetta sé „eins og að vera í draumi milli himins og jarðar“. Ekki að undra að margar kvikmyndir hafi verið teknar hér upp, en eitt vinsælasta myndefnið er gamli brunnurinn á aðaltorginu. Við gefum okkur góðan tíma til að rölta um, njóta lífsins og fá okkur hressingu. Ekki má gleyma að fá sér ís, en íbúarnir eru frægir fyrir ísgerð. Bergamo er einn af menningar- og listabæjum Ítalíu. Umhverfis bæinn við rætur Alpanna er hinn einstaklega fallegi Parco dei Colli þjóðgarður.

 
 
30. maí           Sigling frá Genúa til Palermo á SikileySigling frá Genúa til Palermo á Sikiley

Eftir góðan morgunverð verður ekið í rólegheitum til Genúa þar sem við stígum um borð í skip sem siglir til Palermo. Brottför þaðan kl. 22.00 og tekur siglingin um 20 klst. Gist verður í tveggja manna klefum á skipinu og verður kvöldverður snæddur um borð. Þetta er einstaklega skemmtileg sigling og góð aðstaða um borð. Upplagt er að hafa með sér sundföt, prjóna eða góða bók.

 
 
31. maí           Sigling & slökun á Miðjarðarhafi

Við njótum okkar á siglingunni á Miðjarðarhafinu þar sem siglt verður framhjá eyjum svo sem Korsíku, Elbu, Sardiníu og Liparísku eyjunum. Förinni er heitið til Palermo, höfuðborgar Sikileyjar og er áætlaður komutími kl. 18.00. Borg heilagrar Rósalíu, eins og Palermo er stundum nefnd, stendur við einn fallegasta flóa eyjunnar og er hún jafnframt aðal menningar-, viðskipta- og stjórnsýsluborg eyjunnar. Ekið verður beint til Cefalú og gist þar í 2 nætur á góðu hóteli í nágrenni bæjarins. Hótelið býr yfir góðri aðstöðu, en þar er að finna einkabaðströnd, fallegan pálmagarð, útisundlaug og heilsulind, með m.a. sauna og gufubaði.

 
 
1. júní           Stutt skoðunarferð í Cefalú & frjáls tímiStutt skoðunarferð í Cefalú

Í dag njótum við þess að vera á þessum undurfagra stað. Farið verður í skemmtilega skoðunarferð um borgina Cefalú. Borgin er þekkt fyrir sérstakan arabískan blæ, en arabar sem þar voru við völd í rúm 200 ár settu mark sitt á samfélagið. Við skoðum gamla miðaldahluta borgarinnar, meðal annars dómkirkjuna, sem er ein áhugaverðasta miðaldabygging Sikileyjar. Að loknum frjálsum tíma í Cefalú verður ekið aftur á hótel með tíma aflögu til að njóta frábærrar aðstöðu hótelsins.

 
 
2. júní           Ferjusigling frá Messina & Tropea í Calabría

Við kveðjum Sikiley. Ekið verður til Messina þar sem við tökum ferju um klukkutíma leið yfir til Villa San Giovanni á meginlandi Ítalíu. Þá erum við komin í Calabría héraðið syðst á Ítalíu. Það er líka oft nefnt Magna Graecia því Grikkir stofnuðu sínar fyrstu nýlendur hér á 8. öld f.Kr. Það er ólýsanlegt að aka eftir klettóttri ströndinni og sjá ótrúlega staðsetta bæi, sjávarþorp, kirkjur og miðaldakastala á leyndardómsfullum, háum klettasyllum og hvítar sandstrendur fyrir neðan. Einstök og stórbrotin fegurð sem hrífur alla. Ekið verður eftir Costa Viola ströndinni og stefnan tekin á Tropea, bæjarperlu við Tyraníska hafið. Við gistum í nágrenni bæjarins á mjög góðu hóteli í 7 nætur. Á hótelinu er útisundlaug með fallegum garði, pálmatré, snakkbar og einkabaðströnd sem er við Costa degli Dei eða Guðs ströndina. Einnig er þar heilsulind og hjólaleiga.

 
 
3. júní           Stuttur dagur í Tropea & PizzoGrískar fornminjar í Locri & miðaldabærinn Gerace

Í dag skoðum við bæinn Tropea. Lega bæjarins er engri lík, en hann kúrir inn á milli klettanna við skjannahvíta ströndina og trónir elsta byggðin á 60 m hárri klettasyllu. Aðaltorg bæjarins, Piazza Ercole, stendur efst upp á klettasyllunni. Magnaður staður og ekki furða að þetta sé einn vinsælasti ferðamannastaður héraðsins. Á einum klettinum gnæfir stórmerkilega kirkjan Santa María dell‘Isola. Á leið okkar um svæðið munum við einnig heimsækja klettabæinn Pizzo við St. Eufemia flóann. Þessi skemmtilegi og litríki bær er þekktastur fyrir framleiðslu sína á truffluís sem við fáum að smakka. Komið snemma heim á hótel.

 
 
4. júní           Grískar fornminjar í Locri & miðaldabærinn Gerace

Í dag fetum við í fótspor forngrikkja í nágrenni bæjarins Locri, en þar eru mjög áhugaverðar fornminjar frá 650 f.Kr. Hér stóð gamli gríski bærinn Epizephrian Locris. Einstaklega skemmtilegt er að skoða minjarnar sem veita okkur innsýn í mannlífið hér fyrr á tímum. Á 8. öld flúðu allir íbúarnir bæinn og ströndina vegna malaríu og árása sjóræningja. Þá byggðist miðaldarbærinn Gerace upp á bergi í nágrenninu, en hann heimsækjum við einnig í dag. Gerace talinn fallegasti bær Suður-Ítalíu og er þar að finna stærstu dómkirkju Calabría héraðsins og Normanna kastala. Að læðast um litlar, hlykkjóttar götur bæjarins heillar alla upp úr skónum. Við skoðum okkur um og heimsækjum einn af elstu veitingastöðum héraðsins og borðum saman í hádeginu. Haldið verður til baka á hótel síðdegis.

 
 
5. júní           Eldfjallaeyjarnar, Liparí, Vulcano & Stromboli

Einn af hápunktum ferðarinnar er sigling yfir til eldfjallaeyjanna Liparí sem nefndar eru eftir stærstu eyjunni Liparí. Þær eru einnig stundum kallaðar Aeolian eyjar í höfuðið á grískum guði vindanna. Við höldum fyrst til Liparí og þegar nær dregur birtist mikil náttúrufegurð sem kemur verulega á óvart. Hér vex ólívuviður upp um allar hlíðar og vín-, ávaxta- og möndlurækt er frá fjöru til fjalls. Hrafntinna hefur fundist víða við Miðjarðarhafið og á 2. öld f.Kr. var hrafntinna unnin til útflutnings frá eyjunni. Stutt sigling er yfir á Vulcano eyju þar sem glóandi hraunrennsli blasir við. Eyjan er þekkt fyrir náttúruleirböð, heit sjóböð og litríkan gróður. Við endum svo á því að sigla yfir á eyjuna Stromboli. Þetta er lítil eyja en þar er ein virkasta eldstöð heims, sem frægust er fyrir lítil gos með reglulegum sprengingum frá smágígum með glóandi hraunslettur.

 
 
6. júní           HvíldardagurSerra San Bruno & Stilo

Við tökum daginn rólega og njótum þess að hvílast. Upplagt er að njóta aðstöðunnar við hótelið, taka gott sjóbað eða fá sér göngu eftir ströndinni, sem er einstaklega fögur. Einnig væri hægt að skreppa inn í bæinn Tropea og skoða betur mannlífið þar.

 
 
7. júní           Dagsferð um hálendið, Serra San Bruno & Stilo

Í dag vendum við okkar kvæði í kross og höldum inn í land. Framundan er glæsileg ferð um græna hálendið Serre, þar sem fjallafegurð og töfrandi útsýni verða endalaust á vegi okkar. Komið verður til bæjarins Serra San Bruno sem er í dalverpi inn á milli fjallanna. Bærinn heitir eftir St. Bruno frá Köln, sem stofnaði Kartausa klaustur hér á 11. öld og nokkru seinna St. Stefano klaustrið sem enn starfar í upphaflegri mynd. Þaðan verður ekið um Bivongi hérað til bæjarins Stilo. Á leiðinni njótum við náttúrufegurðar sem magnast eftir sem nær dregur og umhverfis Stilo er fegurðin einstök. Í Stilo ein mikilvægasta og merkilegasta kirkja Calabría héraðsins Cattolica sem er varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO.

 
 
8. júní           Stuttur dagur í Vibo Valentia - osta & salamí smökkun

Í dag förum við í stutta heimsókn til Vibo Valentia. Borgin er ein af þeim stærri á þessu svæði en hún stendur í 476 m hæð við St. Eufemia flóann. Útsýnið þaðan er sérlega glæsilegt. Í borginni gefur enn að líta leifar af grískum virkisveggjum frá 5. öld f.Kr sem og kastala sem hýsir mjög áhugavert fornleifa- og minjasafn. Áður en við förum til baka á hótel er okkur boðið í osta- og pylsusmökkun. Sérréttur heimamanna er salamí pylsan Nduja sem þýðir einstök. Komið snemma aftur á hótel.

 
 
9. júní          Calabría hérað kvatt - sigling frá PalermoCalabría hérað kvatt - sigling frá Palermo

Nú kveðjum við Calabría héraðið eftir dásamlega daga og tökum ferju aftur yfir á Sikiley. Ekið verður til höfuðborgar eyjarinnar, Palermo, en þar verður gefinn frjáls tími til að kanna mannlíf borgarinnar og líta inn til kaupmanna. Milli kl 19.30 - 20.00 verður stigið um borð í skipið þar sem við neytum kvöldverðar. Brottför frá Palermo er kl 22.00 að staðartíma.

 
 
10. júní           Sigling á Miðjarðarhafi til Genúa

Við njótum þess að vera í rólegheitum á skipinu. Komið verður að landi í Genúa kl 18.00 og þá verður ekið á hótel í borginni þar sem kvöldverður bíður okkar. Hér gistum við síðustu nóttina.

 
 
11. júní          Frá Genúa til Milanó & Heimferð

Nú er komið að heimferð eftir yndislega og ævintýralega ferð. Eftir góðan morgunverð er ekið til heimsborgarinnar Mílanó. Við förum þar í stutta göngu og síðan gefst frjáls tími til að skoða sig betur um eða líta í verslanir. Upplagt er að fá sér kvöldverð á einhverjum af hinum fjölmörgu veitingastöðum borgarinnar áður en ekið er út á flugvöll. Flug þaðan kl. 23.40 og lending í Keflavík kl. 01.55 að staðartíma.

 
 
Fararstjóri getur fært dagskrárliði milli daga eftir því sem þörf þykir þegar komið er á staðinn.

 
  
 
Verð: 339.900 kr. á mann í tvíbýli.          Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 62.900 kr.

 Suður-Ítalía & Sikiley
 
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Sigling til og frá Palermo.
• Kvöld- og morgunverður í skipinu til og frá Palermo.
• Morgunverður allan tímann á hótelum.
• Kvöldverður allan tímann á hótelum nema fyrsta kvöldið.
• Ferja frá og til Messina.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Íssmökkun í Pizzo.
• Osta og pylsusmökkun.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. Siglingar aðrar en siglingin til og frá Palermo og til og frá Messina. Hádegisverðir. Þjórfé. Sameiginlegur hádegisverður á dæmigerðum Tattoria veitingarstað ca € 25.

 
 
Valfrjálst:

Lest í Bergamo ca € 4. Bátsferð til eldfjallaeyjanna Liparí ca € 45. Grískar fornminjar í Locri ca € 4.

 
 
 
  
 
Ferðaskilmálar Bændaferða

 
 

 

Tengdar ferðir