Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
11. september           Flug til München og akstur til LinzVínarborg

Brottför frá Keflavík kl. 7.20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13.05 að staðartíma. Þaðan verður ekið til Linz í Austurríki, þar sem gist verður fyrstu nóttina. Fegurð borgarinnar sem byggðist upp beggja megin Dónár er mikil og setur Niflungabrúin svip sinn á Linz.

 
 
12. september           Linz & Vínarborg

Nú kveðjum við Linz og ökum fagra leið til Vínarborgar, höfuðborgar Austurríkis. Vínarborg er talin með glæsilegri borgum Evrópu og stendur á bökkum Dónár. Við dveljum í þessari einstöku lista- og menningarborg næstu 3 nætur.

 
 
13. september           Skoðunarferð um VínarborgSchönbrunn höllin

Við hefjum dvöl okkar hér á skoðunarferð um þessa virðulegu höfuðborg Austurríkis til að skoða helstu byggingar, hallir og garða. Litið verður inn í Stephans dómkirkjuna og farið að hinu þekkta Hundertwasser húsi, svo eitthvað sé nefnt og ekki má gleyma hinni stórfenglegu Belvader höll. Eftir skoðunarferð verður frjáls tími til að fá sér hressingu og kanna borgina á eigin vegum. Ef veður er gott er bráðskemmtilegt að fara í hestvagnaferð um Hofburghöllina og upplifa borgina á óvenjulegan hátt.

 
 
14. september          Schönbrunn höllinni & frjáls tími í borginni

Við byrjum daginn rólega, en að loknum morgunverði verður ekið að Schönbrunn höllinni, sem var byggð á árunum 1692–1780. Þetta var sumarhöll Maríu Theresíu keisaraynju og fjölskyldu hennar. Höllin var einnig notuð af öðrum Habsborgurum og er með fallegustu síðbarokkhöllum Evrópu. Hægt verður að fara inn í höllina eða skoða lystigarðinn í kring, en þar er að finna fallega gosbrunna í barokkstíl, Gloriette heiðursminnisvarða keisarahersins, kaffihús og minjagripaverslanir. Eftir fróðlega og skemmtilega skoðunarferð, verður ekið inn í borgina og gefin frjáls tími í miðborg Vínar. Mikið er um áhugaverð söfn í borginni og margt að skoða.

 Bratislava
 
15. september           Sigling frá Vín til Bratislava & Gullborgin Prag

Nú kveðjum við þessa glæsilegu borg og leggjum í rómantíska siglingu á hinni bláu Dóná. Við líðum áfram um fjölbreytilegt landslag. Mikil náttúrufegurð og lítil þorp skapa myndir sem minna á falleg málverk á leið okkar til hinnar heillandi Bratislava sem er höfuðborg Slóvakíu og helsta menningar- og listaborg landsins. Enginn fer um þessa borg án þess að verða fyrir miklum áhrifum. Hér fara saman merkar byggingar og rík menning. Eftir hádegishlé förum við fallega leið til Prag, höfuðborgar Tékklands. Hún er ein glæsilegasta borg Evrópu. Hér verður gist í 3 nætur á góðu hóteli í miðbæ borgarinnar.

 
 
16. september           Dagur í Prag & hallarsvæðið Hradčany

Það bíður okkar skemmtilegur dagur í skoðunarferð um Dagur í Prag  virðulegu gullborgina Prag. Íbúar borgarinnar eru 1,2 milljónir en Prag hefur verið ein helsta menningarmiðstöð Evrópu um aldir. Við byrjum á að skoða hallarsvæði Hradcanykastala, en hér hefur bústaður forseta lýðveldisins verið síðan 1918. Þarna byrjaði fursta- og biskupsdæmið í Prag að byggjast upp á 9. öld. Svæðið er einn merkilegasti og sérstakasti hluti Prag og er glæsilegt útsýni frá hallarsvæðinu yfir borgina. Tækifæri gefst til að fá sér hádegishressingu áður en förinni um borgina verður haldið áfram, en við förum m.a. að Karlsbrúnni, ráðhúsinu með stjörnuklukkunni og Wenzeltorginu.

 
 
17. september           Frjáls dagur í Prag

Í dag gefst hverjum og einum tækifæri til að kanna nánar eitthvað af því sem tæpt var á í skoðunaferð gærdagsins. Ótal margt er að sjá og skoða í þessari einstöku borg. Um að gera að skoða sig betur um, kynna sér líf bæjarbúa og umfram allt njóta dagsins. Um kvöldið verður sameiginlegur kvöldverður á veitingastað frá 13. öld við ráðhústurninn. Hann prýðir ein af frægustu stjörnuklukkum veraldar.

 
 
18. september           Prag - Regensburg

Við kveðjum Prag og ökum til Regensburg í Bæjaralandi, sem er gömul rómversk borg með rúmlega 2.000 ára sögu. Þar hefur dulúð miðalda markað borgina og mótað sögu hennar, enda hefur borgin verið varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO um árabil. Við gistum hér 2 nætur.

 
 
19. september           Skoðunarferð um RegensburgRegensburg

Farin verður áhugaverð skoðunarferð um Regensburg. Meðal annars verður gengið að gamla ráðhúsinu og að Haidplatz torgi með gistihúsinu Goldene Kreuz frá 13. Öld, þar sem konungar og keisarar dvöldu á ferðum sínum fyrr á tímum. Við lítum á gamlar miðaldabyggingar, Golíathúsið, steinbrúnna frægu og sjáum nokkur af gömlu turnhúsum aðalsmannanna. Regensburg státar af einu merkasta dæmi gotneskrar byggingarlistar í Bæjaralandi, Dómkirkjunni, en þar er starfandi einn frægasti drengjakór landsins Regensburger Domspatzen.

 
 
20. september           Heimferð frá München

Eftir glæsilega ferð verður ekið til München. Flug þaðan kl. 14.05. og lent í Keflavík kl. 16.00 að staðartíma.

  
 
 
Fararstjóri getur fært dagleiðir milli daga eftir því sem þörf þykir þegar komið er á staðinn.


  
 
Verð: 228.200 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 54.400 kr.

 Prag 
 
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
• Einn kvöldverður á veitingastað frá 13. öld við ráðhústurninn í Prag.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Sigling frá Vínarborg til Bratislava.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. Siglingar aðrar en talið er upp í innifalið og vínsmökkun. Hádegisverðir. Þjórfé

 
 
Valfrjálst:

Schönbrunn höllinni € 19. Aðgangur í gullgötuna og Hradčany kastalann ca. € 17.


Bændaferðir starfa samkvæmt meðfylgjandi ferðaskilmálum.

 

Tengdar ferðir