Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
15. ágúst           Flug til Mílanó

Brottför frá Keflavík kl. 16.50, mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 22.40 (+2 klst) að staðartíma. Gist verður í Mílanó fyrstu nóttina, en eftir komu á hótelið er smá kvöldsnarl á hverju herbergi.

 
 
16. ágúst           Mílanó & RómKólosseum Colosseum

Í dag liggur leið okkar til hinnar einstöku Rómarborgar, sem byggð var á sjö hæðum og var fyrsta borg heimsins til að ná einni milljón íbúa, á blómaskeiði borgarinnar. Gist verður í 3 nætur í þessari frægu borg.

 
 
17. ágúst           Skoðunarferð um Rómaborg

Á dagskránni í dag er glæsileg skoðunarferð um hina fornu Rómaborg og munum við staldra við á helstu stöðum borgarinnar. Meðal þess sem skoðað verður er Piazza Venezia, Kapítólhæð, Forum Romanum, Palatínhæð og munum við koma að Kólosseum, Treví brunninum og Spænsku tröppunum. Einnig verður frjáls tími til að kynnast borginni og mannlífinu eins og hverjum og einum lystir.

 
 
18. ágúst           Péturskirkjan og frjáls dagur í Róm

Eftir morgunverð verður haldið að Vatíkaninu og Péturskirkjunni, meistaraverkum síns tíma. Þeir sem vilja geta farið upp í kúpul kirkjunnar. Frjáls tími verður eftir hádegi og verður þá hægt að skoða Sixtínsku kapelluna og safn Vatíkansins á eigin vegum. Í boði verður að aka inn í miðbæinn fyrir þá sem vilja skoða sig betur um í borginni og þar er upplagt að líta í verslanir, fá sér ítalskan hádegisverð á einhverjum veitingastaðnum og njóta þess sem borgin hefur upp á að bjóða.

 
 
19. ágúst           Róm & SorrentoSorrento

Nú kveðjum við Róm eftir upplifanir undanfarinna daga og ökum til Sorrento við Napólíflóa, eins fallegasta flóa landsins. Sorrento er heillandi bær í bröttum hlíðum og vinsæll hjá ferðamönnum. Í hlíðum bæjarins vaxa ólífu- appelsínu- og sítrónutré, en þess má geta að Limoncello líkjörinn frægi kemur frá þessu svæði. Gist verður 6 nætur í Sorrento á góðu hóteli með sundlaug og sólbaðsaðstöðu. Frá hótelinu er stórkostlegt útsýni.

 
 
20. ágúst           Dagur í Sorrento við Napólíflóa

Dagurinn er tilvalinn í afslöppun, en einnig er upplagt að kanna dásamlegt umhverfið í Sorrento. Í bænum eru fjöldinn allur af einstaklega heillandi þröngum, gömlum götum og afskaplega fögrum kirkjum. Hann er einn eftirsóttasti ferðamannabær við Amalfíströndina.

 
 
21. ágúst           Sigling til CapríGrotta Azzurra

Í dag höldum við í siglingu til Caprí, perlu Napólíflóans. Við skoðum eyjuna, siglum að bláa hellinum Grotta Azzurra og förum upp til Anacapri þar sem við njótum stórfenglegs útsýnis. Áhugasömum gefst einnig tækifæri til að fara með stólalyftu upp á fjallið Monte Solaro. Jafnframt verður hægt að fá sér hressingu og líta á kniplinga og alls kyns handunnar vefnaðarvörur, dúka, klæði og fatnað.

 
 
22. ágúst           Sigling & rúta með Amalfíströndinni

Í dag höldum við í töfrandi dagsferð um Amalfíströndina þar sem fegurðin er svo sannarlega einstök. Við hefjum ferðina á siglingu eftir ströndinni til bæjarins Amalfí, perlu strandarinnar, þar sem við stígum á land og skoðum okkur um. Á rölti um bæinn upplifum við glæsilega dómkirkju frá 10. öld, hrífandi veitinga- og kaffihús og litlar verslanir sem gaman er að kíkja inn í. Því næst verður ekið til bæjarins Ravello sem stendur í um 350 m hæð, en þaðan gefur að líta ægifagurt útsýni yfir alla strandlengjuna, eins langt og augað eygir. Þar er einnig að finna hina stórfallegu höll Rufoli, þar sem tónskáldið Richard Wagner var gestkomandi um tíma og fékk þar innblástur að óperu sinni Parsifal. Ekið verður með smárútum til baka eftir Amalfíströndinni um stórbrotin gil, milli smábæja og hótela sem hanga utan í klettabrúninni. Hvarvetna gefur að líta dásamlegt landslag á þessari fallegustu strandlengju Ítalíu. Við mælum eindregið með því að gestir gæði sér á grilluðum fiski í hádeginu, sem er einn helsti sérréttur íbúa svæðisins.

 
 
23. ágúst           Fornminjar í PompeiPompei

Ekið verður til Pompei þar sem skoðaðar verða einhverjar frægustu fornminjar veraldar. Rústir gömlu Pompei eru eitt stórkostlegasta dæmið um fornleifauppgröft heillar byggðar og mun heimamaður leiða okkur í allan sannleik um söguna. Áður en ekið verður aftur á hótel er upplagt að fá sér örlitla hádegishressingu. Þegar komið er á hótelið gefst góður tími til að nýta aðstöðu þess, eða jafnvel skoða sig betur um í bænum.

 
 
24. ágúst           Rólegheit & slökun

Í dag gefst heill dagur til þess að slaka á og njóta þess að vera á þessum yndislega stað. Sorrento er líflegur og skemmtilegur bær, þar er margt að skoða og tilvalið að kíkja í verslanir, á kaffi- og veitingahús. Einnig er hægt að slaka á við sundlaug hótelsins eða ganga niður að strandlengjunni.

 
 
25. ágúst           Sorrento & LuccaLucca

Nú kveðjum við þennan yndislega stað eftir góða daga. Ekin verður heillandi leið í gegnum Toskana hérað til Lucca, þar sem gist verður síðustu 2 næturnar.

 
 
26. ágúst           Dagur í Lucca & frjáls tími

Framundan er skemmtilegur dagur í Lucca. Borgin er ein af gömlu virkisborgunum, sem á 13. og 14. öld var ein af valdamestu borgum Evrópu og standa virkisveggir borgarinnar frá því á miðri 17. öld. Giacomo Puccini tónskáld er fæddur í borginni og er húsið sem hann fæddist í safn í dag. Við höldum í stutta skoðunarferð um borgina og að henni lokinni gefst frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum og líta inn til kaupmanna.

 
 
27. ágúst           Milanó & heimferðMilano

Nú er komið að því að kveðja Ítalíu eftir dásamlega daga. Við hefjum daginn í rólegheitum, en að loknum morgunverði verður hópnum ekið til heimsborgarinnar Mílanó. Þar verður farið í stutta göngu með farastjóranum og síðar gefst tími til að fá sér létta hressingu, líta inn til kaupmanna og skoða sig betur um. Upplagt er að fá sér kvöldverð áður en ekið verður út á flugvöll. Brottför þaðan kl. 23.40 og lent í Keflavík kl. 01.55 að staðartíma.

 
 
 
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

 
  
 
Verð: 338.300 á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 72.700 kr.

 
 Amalfi
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Ferja til og frá Caprí.
• Sigling & ferð með smárútum meðfram Amalfíströndinni.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll. Vínsmökkun og hádegisverðir.

 
 
Valfrjálst:

Aðgangur að fornminjum í Pompei ca. € 12. Blái hellirinn ca. € 27, Stólalyfta upp á Monte Solaro fjallið á Capri ca. € 10.

  

 

Ferðaskilmálar Bændaferða
 
 

 

Tengdar ferðir