Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
5. ágúst           Flug til München - akstur til LinzLinz

Brottför frá Keflavík kl. 7.20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13.05 að staðartíma. Þaðan verður ekið til Linz í Austurríki, þar sem gist verður fyrstu nóttina. Fegurð borgarinnar, sem byggðist upp beggja megin Dónár, er mikil og setur Niflungabrúin svip sinn á Linz. Hótelið er í miðbænum og er upplagt að rölta aðeins niður á aðaltorgið fyrir kvöldverð.

 
 
6. ágúst           Szentendre & Búdapest

Í dag liggur leið okkar til Búdapest, einnar fallegustu borgar Evrópu og höfuðborgar Ungverjalands þar sem búa um tvær milljónir íbúa. Á leiðinni verður stoppað í Szentendre, töfrandi listamannabæ, með þröngum litríkum götum og dulúðlegum miðaldarblæ. Hér er fjöldi áhugaverðra safna, gallería og minjagripaverslana og því er gaman að eiga hér ljúfa stund og rölta um. Einnig eru mjög skemmtilegir veitinga- og kaffistaðir um allan bæ. Síðdegis verður ekið á hótel nálægt miðbæ Búdapest þar sem gist verður í 3 nætur. Á hótelinu er innisundlaug, nuddpottur, sauna og gufubað. Einnig er þar líkamsræktaraðstaða.

 
 
7. ágúst            Skoðunarferð um BúdapestBúdapest

Við hefjum daginn á skoðunarferð um borgina Búdapest. Leið okkar liggur m.a. upp á Gellért hæðina, um hallarsvæðið, Fischerbastei og að Matthíasar kirkjunni. Héðan blasir þinghúsið fræga við á bökkum Dónár og glæsilegt útsýni yfir borgina heillar okkur. Við komum að Hetjutorginu og getum ekki annað en dáðst að Jugendstíl arkitektúrnum sem er ríkjandi í borginni. Við skoðum hið fræga Gellert baðhús og samnefnt hótel þar við hlið. Síðan gefst frjáls tími til að skoða mannlífið og fá sér hressingu. Um kvöldið er kvöldverður á dæmigerðum ungverskum veitingastað þar sem við njótum matar við sígaunatónlist.

 
 
8. ágúst           Frjáls dagur í Búdapest

Frjáls dagur til að kanna þessa fallegu borg á eigin vegum. Hér blómstrar mannlífið og margt er að skoða. Upplagt er að heimsækja eitthvað af fjölmörgum söfnum borgarinnar, fá sér göngutúr að markaðshöllinni, sem er rétt við aðalgöngugötuna og líta síðan inn hjá kaupmönnum borgarinnar. Meðan á dvölinni í Búdapest stendur er vert að koma a.m.k. einu sinni á kaffihúsið New York, sem er eitt fallegasta kaffihús í heimi.

 Hollokö 
 
9. ágúst           Hollokö - Eger

Við kveðjum Búdapest og stefnum norður til Hollokö, sem er friðlýstur miðaldabær í Cserhat fjallakeðjunni. Hann var fyrsta þorp í heimi til að komast á heimsminjaskrá UNESCO, en tekist hefur einstaklega vel að varðveita þennan fallega bæ, sem er nánast eins og byggðarsafn í dag. Í bænum búa um 400 íbúar og í heimsókn okkar kynnumst við lifnaðarháttum þeirra sem eru óbreyttir frá fornu fari. Konur í þjóðbúningum taka á móti okkur með snafs og dæmigerðu sætabrauði. Héðan verður ekið til hinnar undurfögru barokkborgar Eger. Á göngu um borgina verður gaman að upplifa þúsund ára sögu hennar, skoða byggingar, upplifa mannlífið og heyra stutt orgeltónverk í dómkirkjunni. «Dalur hinnar fallegu konu» nefnist hverfi sem þekkt er fyrir öldurhús og vínkjallara. Hér munum við neyta kvöldverðar við undirleik sígaunatónlistar. Þar er tilvalið að smakka þekktasta rauðvínið þeirra; Erlauer Stierblut. Í Eger verður gist í 2 nætur á hóteli í miðborginni.

 
 
10. ágúst           Szerencs & Tokaj

Þennan dag fræðumst við á ýmsan hátt um vínrækt. Rákóczi kastalinn frá 16.öld en hann var byggður utan um Benediktínaklaustur frá13.öldVið byrjum á að heimsækja borgina Szerencs, sem er kölluð hliðið að Tokaj, einu frægasta vínhéraði landsins. Við förum í stutta skoðunarferð um þessa gömlu borg og þá verður á vegi okkar einkar athyglisverð bygging. Þetta er Rákóczi kastalinn frá 16.öld en hann var byggður utan um Benediktínaklaustur frá13.öld. Við heimsækjum svo Disznokö víngerðina sem á einna fallegustu og verðmætustu vínakrana á Tokaj-Hegyalja svæðinu. Hér munum við kynna okkur framleiðsluferli þessa heimsfræga víns frá uppskeru til áfyllingar. Við ljúkum kynningunni á göngu um vínakrana og innliti í vínkjallarann. Eftir það verður farið á dæmigerðan Csarda veitingastað þar sem snæddur verður léttur hádegisverður. Við komum loks til bæjarins Tokaj, en segja má að í þeim bæ snúist allt um vínrækt. Vínguðnum Bakkusi er gert hátt undir höfði, því myndir af honum og vínþrúgum prýða annaðhvort hús í bænum. Eftir skemmtilegt rölt þar, verður okkur boðið í hinn fræga Rákóczi vínkjallara þar sem við fáum að smakka nokkur eðalvín úr Tokaj héraðinu. Síðan verður ekið til baka á hótelið í Eger þar sem kvöldverður bíður okkar.

 
 
11. ágúst           Debrecen, Opusztaszer & SzegedDebrecen

Við kveðjum Eger eftir ljúfa daga og er stefnan tekin á Szeged. Á leiðinni þangað verður áð í háskólaborginni Debrecen sem er önnur stærsta borg Ungverjalands. Hún er í dag ein af menningarborgum landsins og er rétt 30 km vestan við landamæri Rúmeníu. Þetta er afskaplega töfrandi borg með gömlum bæjarhluta frá miðöldum. Þar er að finna eina merkustu kirkju borgarinnar sem er friðuð, en borgin var eitt helsta vígi Kalvinista á sínum tíma. Hér gefst tími til að fá sér hressingu og rölta um. Eftir það heldur ferðin áfram út á ungversku sléttuna. Þegar komum við til Opusztaszer erum við skyndilega komin margar aldir aftur í tímann því hér er ótrúlegt, útisafn, sem mjög áhugavert er að skoða. Þar er einnig stórmerkilegt listaverk eftir listamannin Arpad Festy sem varðveitt er í hringlaga byggingu á safninu. Verkið er stórt, um 1.800 m2 og sýnir landnám Ungverja á 9. öld. Héðan verður svo ekið til Szeged og þar gist í 2 nætur í miðborginni.

 
 
12. ágúst           Szeged - papriku og salamismökkun - frjáls tímipapriku og salamismökkun

Við hefjum daginn á skemmtilegri skoðunarferð um hina sólríku Szeged sem er þriðja stærsta borg landsins og lífleg háskólaborg. Hún er við landamæri Serbiu og Rúmeníu þar sem árnar Tisza og Maros mætast og er bæjarstæðið einstaklega fallegt. Szeged er umkringd paprikuökrum en paprika er aðal landbúnaðarafurðin á þessum slóðum. Paprika er eitt mikilvægasta hráefnið í salamí pylsur og við kynnum okkur framleiðsluna á þeim í heimsfrægu salamíverksmiðjunni Pick og fáum að smakka. Víða í Evrópu sér maður Pick pylsurnar í mismunandi gerðum í hillum stórmarkaða en þetta er ein stærsta salamíverksmiðja landsins. Eftir hádegi verður frjáls tími til að njóta borgarinnar á eigin vegum. Um kvöldið verður borðað á frægum fiskveitingastað í borginni.

 
 
13. ágúst           Kecskemét & hestasýning hirðingjaKecskemét

Við höldum inn í „Ávaxtagarð Ungverjalands“ eins og svæðið umhverfis Kecskemét borgina er kallað. Milt loftslag og frjósamur jarðvegurinn valda því að hér er mikil vínþrúgu-, ávaxta- og grænmetisrækt. Héraðið er frægt fyrir Apríkósu-Marillen snafsinn „Barackpalinka“. Á göngu okkar um þessa töfrandi borg sjáum við margar glæstar byggingar, þar á meðal fallega ráðhúsið sem er með yndislegu klukkuspili. Þaðan hljóma tónverk eftir Kodály, Erkel og Beethoven. Við komum okkur fyrir á hótelinu og síðan verður frjáls tími áður en haldið verður út á Puszta sléttuna. Þar bíður okkar glæsileg hestasýning „Csikos“ knapanna sem sýna okkur kúnstir sínar. Við kynnumst dulúðlegum hefðum hjarðmanna sem hafa verið yrkisefni óteljandi söngvaskálda og fáum það á tilfinninguna að vera komin langt aftur í aldir til fornra hefða. Þessum degi lýkur með ljúfum kvöldverði þar sem boðið verður upp á helstu þjóðarrétti sléttunnar með ungversku víni og ógleymanlegu undirspili sígaunafiðluleikara. Gist verður í Kecskemét eina nótt á góðu hóteli í miðbænum.

 Balatonvatn 
 
14. ágúst           Balatonfüred & Balatonvatn

Áfram heldur för og nú verður ekin fögur leið til Balatonfüred sem er við hið undurfagra Balatonvatn. Á leiðinni þangað verður tekin bílaferja yfir Balatonvatnið frá Szantod til Tihany. Balatonfüred er frá fornu fari einn þekktasti heilsudvalar- og ferðamannabærinn við vatnið. Lega bæjarins við vík eina norðan Tihanyskagans er einstök og bærinn mjög skemmtilegur. Gist verður 4 nætur á góðu hóteli nálægt miðbænum. Á hótelinu er útisundlaug, einkaströnd við vatnið, sólbaðsaðstaða í garðinum og heilsulind. Um kvöldið munum við taka þátt í «ungversku sveitabrúðkaupi», sem er skemmtidagskrá með dansi og kvöldverði.

 
 
15. ágúst           Tihany & frjáls dagurTihany

Að loknum morgunverði tökum við ferju yfir til Tihany, sem er bær á litlu nesi sem gengur út í norðanvert Balatonvatnið. Þetta er sögulegur staður með mörgum fallegum byggingum, m.a. gamalli klausturkirkju sem var upphaflega byggð árið 1055. Fallegt safn er í klausturbyggingunni sem reist var á árunum 1719-1740. Skemmtilegt byggðasafn með gömlum húsum er líka að finna í bænum og alltaf er líf og fjör í kring um útimarkaðinn. Hér er mikil hefð fyrir dúkasaumi og húsfreyjur bjóða dúka til sölu við heimili sín. Við tökum ferju aftur til Balatonfüred þar sem frjáls tími er það sem eftir lifir dags.

 
 
16. ágúst           Afslöppun í Balatonfüred

Kærkominn hvíldardagur eftir ys og þys undanfarinna daga. Nú er upplagt að nota þessa frábæru aðstöðu hótelsins og auðvitað er líka gaman að rölta um bæinn eða fá sér göngutúr meðfram vatninu, því sannarlega er hér alls staðar mikil náttúrufegurð.

 Hévíz 
 
17. ágúst           Keszthelyen, Hévíz & Herendpostulín

Í dag verður ekin fögur leið meðfram vatninu uns við komum til huggulega bæjarins Keszthelyen, en hér á þessu svæði var eitt elsta landnám landsins. Farið verður í stutta skoðunarferð um þennan heillandi bæ sem er einn af vinsælustu ferðamannabæjunum við vatnið. Við ökum svo til Hévíz, lítils bæjar við vesturenda vatnsins. Þar er stærsta náttúrubað í heimi, sem eðlilega er einstaklega vinsælt hjá ferðamönnum. Þar er upplagt að fá sér hressingu áður en ekið verður til Herend að heimsækja elstu og stærstu postulínsverksmiðju Evrópu. Safn verksmiðjunnar er fjársjóður af dýrgripum liðinna alda og sýnir þróun framleiðslunnar fram til dagsins í dag. Þessir handmáluðu postulínsmunir eru vissulega einstök listaverk sem hafa prýtt borð fólks í gegn um margar aldir og gefst okkur kostur á að eignast muni í verslun staðarins.

 
 
18. ágúst           Balatonfüred & LandshutLandshut

Nú er komið að því að kveðja Ungverjaland eftir yndislega ferð um ótal marga magnaða staði landsins. Ekin verður skemmtileg leið til Landshut í Bæjaralandi þar sem gist verður síðustu nóttina á miðbæjarhóteli sem á sér langa sögu. Húsið var byggt á 15. öld í gotneskum stíl og er í fjölskyldueigu. 3 ættliðurinn rekur hótelið í dag eftir 90 ára sögu fjölskyldunnar í rekstrinum.

 
 
19. ágúst           Heimferð frá München

Að loknum morgunverði verður ekið til München. Þaðan er flogið kl.14.05 og lent í Keflavík kl.16.00 að staðartíma.

 
 
 
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

 
  
 
Verð: 328.300 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 54.900 kr.

 
 Perlur Ungverjalands
 
Innifalið í þátttökugjaldinu: 

• Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgun- og kvöldverðir allan tímann á hótelum.
• Palozenþorpið, snafs og dæmigert sætabrauð í Hollokö.
• Aðgangur í Eger kirkjuna og stuttur orgelkonsert.
• Vínsmökkun í Rakoczi kjallara.
• Skoðunarferð um víngerðina Disznokö.
• Papriku og Salamí smökkun hjá Pick og aðgangur að safninu.
• Hestasýning hjá Puszta hirðingjum með máltíð.
• Ungverskt sveitabrúðkaup skemmtun með kvöldverði.
• Bílaferjur á Balatonvatni.
• Aðgangur að safni og verksmiðju Herend postulínsframleiðslunnar.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur. Siglingar og vínsmökkun, nema það sem er í ferðalýsingu. Hádegisverðir. Þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Sigling á Dóná með einum drykk € 16, aðgangur inn í Gellert baðhúsið € 19. Aðgangur í safngarðinn í Opusztaszer € 13.

 
 

 Bændaferðir starfa samkvæmt Almennum alferðaskilmálum SAF.

 

 
 

 

Tengdar ferðir