Ástralía & Nýja-Sjáland

Þessi glæsilega ferð til Ástralíu og Nýja-Sjálands sameinar það besta frá báðum löndum - stórbrotna náttúru, litrík ævintýri og ógleymanlega upplifun. Fyrir hundruðum milljónum ára voru Ástralía og Nýja-Sjáland tengd saman en þegar þau rak í sundur þróuðust náttúran og dýralífið á ólíka vegu. Það eru ekki margir staðir í veröldinni sem jafnast á við Nýja-Sjáland. Víðáttan er mikil og landslagið fagurt. Hér eru hverasvæði, eldgígar, undurfagrir skógar, tignarleg fjöll, mikilfengleg vötn og fagrar strendur sem laða að fólk hvaðanæva úr heiminum. Við hefjum leikinn í stærstu borg Nýja-Sjálands, Auckland. Við skoðum einnig borgina Rotorua en þar er mikill jarðhiti og margt áhugavert að sjá, svo sem glóðorma sem lýsa upp hella og bæ Hobbita úr Hringadróttinssögu. Við kynnumst einkennisfugli Nýja-Sjálands, Kiwi, hinum víðfrægu sauðkindum landsins og einum bestu smalahundum heims. Þá er komið að næsta áfangastað, Melbourne í Ástralíu. Landið er mjög dreifbýlt og frumbyggjar þess hafa verið til staðar í 65 þúsund ár. Við fræðumst um sögu Melbourne út frá sjónarhóli frumbyggjanna, skoðum kóalabirni í sínu náttúrulega umhverfi á Phillip eyju og sjáum mörgæsirnar koma inn af sjónum við sólarlag. Njótum einnig kræsinga í Yarra dalnum sem er eitt besta vínræktarsvæðið í Ástralíu. Leið okkar liggur einnig til hinna mögnuðu rauðu eyðimerkur Ástralíu þar sem við sjáum t.a.m. hinn rauða klett Uluru og Simpson gljúfur í MacDonnell fjallgarðinum. Frá sykurbænum Cairns á norðausturströndinni siglum við út að Kóralrifinu mikla sem er það stærsta í heiminum. Að lokum komum við til Sydney þar sem við skoðum m.a. Óperuhúsið, Bondi ströndina og spennandi dýr Ástralíu svo sem kengúrur, kóalabirni, nefdýr, vamba og emúa. Í þessari mögnuðu ferð sjáum við tvo ólíka heima Eyjaálfu og allar þær áhugaverðu andstæður sem þar er að finna, einstaka náttúru, dýralíf og menningu. 

Verð á mann 1.999.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 374.000 kr.


Innifalið

  • 21 daga ferð.
  • Flug og flugvallarskattar með Icelandair og Emirates. Keflavík – Dubai – Auckland.  Sydney – Dubai – Keflavík.
  • Áætlunarflug með Qantas frá Auckland í NZ til Melbourne í Ástralíu.
  • Innanlandsflug í Ástralíu frá Melbourne til Alice Springs.
  • Innanlandsflug í Ástralíu frá Ayers Rock til Cairns.
  • Innanlandsflug í Ástralíu frá Cairns til Sydney.
  • Allar skoðunarferðir með loftkældri rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Vínsmökkun Waiheke eyju.
  • Aðgangur í Waitomo hellana.
  • Aðgangur í Hobbitaheim.
  • Aðgangur í miðstöð maórískrar menningar Te Pō.
  • Aðgangur að menningarmiðstöð Kulin fólksins.
  • Aðgangur að náttúruparadís kóalabirna í Phillip eyju.
  • Ferð með traktor um vínekrur og vínsmökkun í Yarradalnum.
  • Aðgangur upp á útsýnispall í Eureka turninum í Melbourne. 
  • Aðgangur að miðstöð hinna fljúgandi lækna í Alice Springs.
  • Aðgangur að hinum söglega útvarpsskóla í Alice Springs.
  • Aðgangur að Uluru þjóðgarðinum.
  • Heimsókn á vinnustofu Walkatjara frumbyggja.
  • Upplifum sólsetur við Uluru ásamt smáréttum og freyðivíni. 
  • Sigling að stærsta kóralrifi í heimi „Great Berrier Reef“ í Cairns. Freyðivín og smáréttir um borð. Möguleiki á að snorkla.
  • Ferð með útsýniskláfi og lest í Kurunda.
  • Aðgangur ásamt leiðsögn að óperuhúsinu í Sydney.
  • Aðgangur að Featherdale Wildlife þjóðgarðinum.
  • Sigling ásamt kvöldverði um höfnina í Sydney.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði á góðum hótelum skv. landsmælikvarða.
  • Máltíðir samkvæmt ferðalýsingu.
    (M = morgunv. H = hádegisv. K = kvöldv.)
  • Innlend leiðsögn á völdum stöðum.
  • Íslensk fararstjórn.
  • Undirbúningsfundur með fararstjóra fyrir ferð.

Ekki innifalið

  • eTA heimild til Nýja Sjálands.
  • eVisitor áritun til Ástralíu.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að sérferðir eru lengri ferðir á fjarlægari slóðir. Alltaf er eitthvað um göngur og mörg svæði eru bæði hæðótt og ójöfn undir fæti og aðgengi að áfangastöðum misjafnt og stundum krefjandi. Þess ber einnig að geta að suma daga eru dagleiðir í lengra lagi til þess að unnt sé að koma hópnum á milli markverðustu staða. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

15. október | Flug til London & Dubai

Brottför frá Keflavík kl. 07:40 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í London kl. 11:55 að staðartíma. Ferðin heldur áfram með Emirates flugi kl. 19:50 til Auckland með millilendingu í Dubai. Flugið frá London til Dubai tekur u.þ.b. 7 klst.

16. október | Flug frá Dubai til Auckland

Eftir u.þ.b. 4 klst. millilendingu í Dubai verður haldið áfram til Auckland kl. 10:05. Það flug tekur u.þ.b. 16 klst.

17. október | Lending í Auckland, Nýja-Sjálandi

Lending er áætluð á Norðurey Nýja-Sjálands kl. 10:50 að morgni 17. október. Athugið að tímamismunurinn frá Íslandi til Nýja Sjálands er +13 klst. Auckland er stærsta borg Nýja-Sjálands og Pólynesíu. Það sem er einna merkilegast við borgina er að úthverfi hennar standa að mestu á miklum garði eldgíga og eldkeilna, en hér gaus seinast fyrir um 600 árum. Auckland iðar af fjölbreytilegri menningu og hér er úrval listasafna, tónleikastaða, veitingastaða og verslana. Haldið verður á hótelið okkar þar sem gist verður í tvær nætur og gefst tími til að hvíla sig eftir ferðalagið. Við snæðum kvöldverð á toppi Sky Tower, sem er stærsti turn suðurhvels jarðar 328 metrar. Veitingastaðurinn snýst og þar er hægt að njóta útsýnis yfir borgina, Hauraki flóa og víðar.

  • Kvöldverður
Opna allt

18. október | Hin töfrandi Waiheke eyja

Í dag verður ekið frá hótelinu niður að ferjuhöfninni í Auckland þar sem við stígum um borð í ferju til hinnar töfrandi Waiheke eyju. Waiheke er sannkölluð paradís með vínekrum, sandströndum og ilmandi ólífulundum. Eyjan er þekkt fyrir sitt einstaka örloftslag sem gerir vínframleiðslu afar hentuga á eyjunni. Við heimsækjum þrjá af fremstu vínframleiðendum eyjunnar og njótum leiðsagnar frá heimamanni sem segir frá sögu, menningu og daglegu lífi á eyjunni - og auðvitað smökkum við á úrvali þeirra bestu vína. Við snæðum einnig hádegisverð og siglum svo aftur síðdegis til Auckland og eigum kvöldið frjálst til að kanna borgina eða slaka á. Kvöldverður á eigin vegum.

  • Morgunverður.
  • Hádegisverður.

19. október | Glóðormar & borgin Rotorua

Eftir morgunverð liggur leið okkar að skoða einstakt náttúrufyrirbrigði í Waitomo hellunum, glóðormana. Það er ævintýri líkast að sigla í gegnum hellana sem glitra af lífljómun þessara litlu vera. Hápunkturinn er glóðormahvelfingin þar sem við sjáum tindrandi bláa birtu sem líkist stjörnubjörtum himni. Að þessu loknu verður haldið til Rotorua á hótelið okkar þar sem dvalið verður í þrjár nætur. Í Rotorua er mikill jarðhiti, goshverir og bullandi leirpollar enda hefur borgin verið vinsæl heilsulind frá því á 19. öld. Maórar litu á þetta svæði sem heilagt og hér búa margir af þeirra ættum. Eftirmiðdagurinn er frjáls og kvöldverður á eigin vegum.

  • Morgunverður

20. október | Heimsókn í hobbitaheim

Leið okkar liggur í dag til Matamata þar sem við sjáum tökustað kvikmyndanna um Hobbitana og Hringadróttinssögu. Við fáum leiðsögn um ævintýraheim Bilbo Baggins, huggulegar hobbitaholurnar og krá Græna drekans, þar sem hægt er að njóta drykkja að hætti Hobbita. Við snæðum hádegisverð á staðnum áður en haldið verður aftur til Rotorua þar sem við eigum frjálsan tíma seinnipartinn.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

21. október | Kiwi fuglar, nýsjálensk sveitasæla & menning Maóra

Kiwi er einkennisfugl Nýja-Sjálands. Þessi ófleygi fugl ber fjaðrir sem líkjast feldi, ólíkt öðrum fuglum er hann með nasir á goggnum og ferðast mest um á næturnar í leit að æti. Eggin sem hann verpir eru allt að 20% af hans eigin líkamsþyngd. Tegundin á undir högg að sækja og þess vegna hefur verið komið á fót klakstöð sem tileinkuð er þessari einu tegund. Við fræðumst og sjáum hinn merkilega Kiwi fugl. Eftir hádegið kynnumst við áströlskum landbúnaði í Agrodome. Hér eru aðalstjörnurnar kindur enda er sauðfjárrækt mikilvæg á Nýja-Sjálandi og afurðirnar þekktar um allan heim. Hér gefst okkur kostur á að sjá 19 ólík afbrigði kinda og rúningu sem er mikið keppnissport á þessum slóðum. Nýsjálenski fjárhundurinn er merkilegt dýr og við sjáum hann leika listir sínar af mikilli færni. Hér eru einnig kýr, lama- og alpakkadýr. Síðdegis förum við á merkilegt hverasvæði Nýsjálendinga í Te Wakarewarewa dalnum. Þar er miðstöð maórískrar menningar Te Pō . Við snæðum kvöldverð að hætti Maóra og kynnumst menningu þeirra. Fyrst fer fram athöfn þar sem gestir eru boðnir velkomnir að hætti maóri og síðan er sungið og dansað, meðal annars haka sem er áhrifamikill stríðs- og fagnaðardans. Eftir sýninguna skoðum við hverasvæðið sjálft og hæsta goshver á suðurhvelinu, Pōhutu.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

22. október | Flug til Ástralíu & Melbourne

Í dag er spennandi dagur þegar við fljúgum yfir til Ástralíu. Fyrsti áfangastaðurinn er menningarborgin Melbourne sem liggur við bakka árinnar Yarra og er höfuðborg Viktoríuríkis. Hún er þekkt fyrir fallega garða, spennandi matarmenningu og margbreytileika í listum og menningu. Við byrjum á skoðunarferð um borgina og þar verður á vegi okkar Shrine of Remembrance, sem er minnisvarði um fallna hermenn í fyrri heimsstyrjöld sem börðust og dóu í fjarlægri heimsálfu og áttu aldrei afturkvæmt. Þetta var staður þar sem ættingjar þeirra gátu komið og minnst þeirra. Við komum í Fitzroy garðinn og förum á markað Viktoríu drottningar sem hefur verið starfræktur frá árinu 1878. Þar fæst ýmislegt girnilegt svo sem ostar, kjöt, fiskmeti, kaffi, kökur og annað góðgæti ásamt ýmiskonar handverki. Við skoðum einnig Sports Precinct, þar sem mikilvægir íþróttaviðburðir fara fram, meðal annars fyrstu sumarólympíuleikarnir á suðurhveli jarðar árið 1956. Kvöldverður á eigin vegum.

  • Morgunverður

23. október | Kulin fólkið við Yarra ána & Phillip Island

Í dag fræðumst við um sögu Melbourne út frá sjónarhóli frumbyggjanna, Kulin, sem leiða okkur í sannleikann um hvernig samfélagið og landið sem borgin stendur á hefur þróast. Við heyrum hvernig Yarra áin, eða Birrarung Wilam eins og Kulin kalla hana, og landið meðfram henni hefur tekið breytingum, en hún hefur ætíð haft mikið trúarlegt, andlegt, menningarlegt og lífvænt gildi fyrir frumbyggja þessa svæðis. Hádegisverður á eigin vegum. Eftir hádegi höldum við út í Phillip eyju sem er sannkölluð náttúruparadís. Hér er mikið dýralíf, við fáum meðal annars að skoða kóalabirni í sínu náttúrulega umhverfi, ekalyptus trjánum. Einnig er hér stærsta látur loðsels í Ástralíu. Við fáum kvöldverð á eyjunni og fylgjumst með við sólsetur þegar hundruðir lítilla mörgæsa koma í land. Yfir daginn halda þær til á sjónum og ná sér í æti en synda svo til lands í hópum til að komast í holurnar sínar. Þetta daglega athæfi þeirra er mikið sjónarspil. Gott er að hafa með sér góðan vindjakka þar sem það getur verið svalt að sitja við vindasama ströndina. Við ökum síðan sem leið liggur aftur heim á hótel.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

24. október | Kræsingar í Yarradalnum

Framundan er spennandi dagur fyrir sælkera. Við keyrum inn í Yarradalinn sem þróaðist í mikla matarkistu fyrir Melbourne þegar timburiðnaður var á miklu skriði rétt fyrir aldamótin 1900. Hér var fyrsta vínræktarsvæðið í Viktoríu og héðan var flutt vín til Bretlands og Evrópu. Í dag er svæðið eitt af bestu svæðum Ástralíu til vínræktar. Við skoðum aldingarðinn Reyner´s Orchard en þar eru ræktaðir yfir 450 tegundir af ávöxtum, meðal annars ferskjur, nektarínur, plómur, granatepli, apríkósur, fíkjur, kiwi og sítrusávextir. Hægt er að fá að smakka á afurðunum, jafnvel týna beint af trjánum. Við fáum okkur hádegisverð og förum í smökkun í De Bortoli víngerðinni. Okkur gefst síðan færi á að stoppa í súkkulaðigerð, þar geta þeir sem vilja keypt sér gómsætan ís. Eftir þessa góðu veislu fyrir bragðlaukana höldum við heim á hótel, en komum við í Melbourne Skydekk sem er útsýnispallur í miðborginni og staðsettur í Eureka turninum.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

25. október | Flug til rauðu eyðimerkurinnar

Ferð okkar liggur til Alice Springs, höfuðborgar áströlsku óbyggðanna. Hér hefur Arrernte fólkið búið í tugþúsundir ára en vestræn áhrif hófust með lítilli símstöð árið 1870 og lagningu símalínu, sem við munum skoða. Bærinn óx einkum samhliða ferðamennsku og er hliðið inn í hina rauðu eyðimörk Ástralíu. MacDonnell fjallgarðurinn, rauðir klettar, gljúfur og þurrar sléttur setja svip sinn á umhverfið. Við heimsækjum Royal Flying Doctors Service, eina stærstu fluglæknastöð heims. En vitjunarsvæðið nær yfir 7,69 milljón ferkílómetra á hrjóstrugasta svæði Ástralíu. Hádegisverður á eigin vegum. Eftir hádegið skoðum við hinn skemmtilega útvarpsskóla, The Alice Springs School of the Air. Mörg börn í óbyggðum Ástralíu fengu enga menntun fyrr en þessi skóli komst á laggirnar en hann útvarpar fjölmörgum kennslustundum á dag og skólastofan sjálf nær yfir 1,3 milljón ferkílómetra. Að síðustu njótum við útsýnis frá Anzac Hill áður en við skráum okkur inn á hótel þar sem við gistum næstu tvær nætur.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

26. október | Eyðimörkin, Rungutjirpa & Angkerle Atwatye

Við leggjum af stað snemma morguns í Alice Springs eyðimerkurgarðinn. Þar er hægt að sjá og fræðast um hvernig dýr og menn bjarga sér í þessu harðbýla landslagi. Frumbyggjar Ástralíu hafa fundið leiðir til að finna mat, lyfjagrös, dýr og plöntur til að komast af. Næst liggur leið okkar að Simpson gljúfri í MacDonnell fjallgarðinum. Þetta svæði var mikilvægt fyrir frumbyggjanna Arrernte, en þeir kalla það Rungutjirpa. Hér má gjarnan sjá frænkur kengúrunnar, svartfættar vallabíur. Forfeðurnir eru nálægir í landslaginu, dýrum merkurinnar og á heilögum stöðum eins og Rungutjirpa. Gljúfrið er ekki síst mikilvægt þar sem þar er svokölluð vatnshola, varanlegt vatnsból, í botni Todd árinnar. Skuggi fjallanna sér til þess að vatnið gufi hægar upp og þar af leiðandi er hér að finna vatn allt árið. Margar þjóðsögur Arrernte eru tengdar gljúfrinu enda er vatnið í því uppspretta alls lífs á svæðinu. Næst verður á vegi okkar gilið Angkerle Atwatye eða Standley Chasm. Litirnir eru einstakir í þessu fallega gili, rauðir og appelsínulitaðir klettaveggirnir varpa fallegri birtu á umhverfið. Kvöldverður á eigin vegum. 

  • Morgunverður

27. október | Rauði kletturinn Uluru

Í dag höldum við suður á bóginn í hjarta rauðu eyðimerkurinnar. Við stoppum í Mount Conne þar sem við fáum grillaðan hádegismat. Syðst í óbyggðum Norðursvæðis Ástralíu er afskekkti bærinn Yulara, þaðan er stutt til rauða klettarins Uluru sem er eitt þekktasta fyrirbrigði Ástralíu og helgur staður frumbyggjanna, Anangu. Svo virðist sem kletturinn skipti um lit eftir því hvernig birtan fellur á hann. Við stöldrum við á góðum útsýnisstað og verðum vitni að litadýrð Uluru við sólsetur. Síðan höldum við á hótelið okkar í Yulara þar sem gist verður í 2 nætur. 

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

28. október | Sólargangur við Uluru, list Anangu & hljóðfærið Didgeridoo

Við tökum daginn snemma og verðum vitni að því þegar sólin rís aftur yfir Uluru. Í þessari merkilegu sandsteinsmyndun má finna hella, útskorin listaverk forfeðra, einar stærstu eðlur heims (Perentie frýnur) dingó hunda og fjölmargar fuglategundir. Við fáum innsýn inn í menningu Anangu með listamönnum úr þeirra röðum og sjáum hvernig þau tengjast landinu í gegnum sína list. Eftir þetta skemmtilega sjónarspil höldum við á hótelið, fáum okkur morgunverð og búum okkur undir daginn. Við skoðum Mutitjulu vatnsbólið, heimili vatnasnáksins wanampi. Þar varð hluti sköpunarsögu Uluru til. Við kynnumst einnig punktamálun frumbyggja Ástralíu á Walkatjara vinnustofunni og fræðumst um hvernig hún kom til. Við förum aftur heim á hótel fyrir hádegi. Hádegisverður á eigin vegum og frjáls tími fram að kvöldverði. Við njótum kvöldverðarins frá Dune Top, en þar er fallegt útsýni yfir listaverkið Field of Light eftir Bretann Bruce Munro. Hér er um að ræða yfir 50.000 led ljós á stilkum sem ná yfir nokkra hektara. Útsýnið yfir til Uluru er dásamlegt og við njótum þess að hlusta á hljóðfæri frumbyggjanna Didgeridoo. Höldum síðan aftur heim á hótel eftir langan og viðburðaríkan dag.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

29. október | Flug til Cairns, Queensland

Í dag ferðumst við um langan veg til sykurbæjarins Cairns, á norðausturströndinni. Við tökum flug frá Ayers Rock og yfir til Queenslandríkis. Hér hafa Yirrganydji og Gimuy Walubara Yidinji fólkið búið í þúsundir ára og eiga hér mikið landssvæði. Á 19. öld var vinnsla sykurs stór atvinnugrein en í dag sinna bæjarbúar fólki sem kemur til að skoða náttúruna og ekki síst Kóralrifið mikla sem er úti fyrir ströndinni. Við skráum okkur inn á hótelið okkar sem stendur við höfnina. Kvöldverður á veitingastað í Cairns. 

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

30. október | Sigling að Kóralrifinu mikla

Eftir morgunverð röltum við út á bryggju og hefjum þaðan siglingu á tvíbytnu að Kóralrifinu mikla. Við komum að Michaelmas Cay, ósnortinni sandeyri sem er umlukin kóralrifjum. Hér er mikið friðland fugla, hægt er að snorkla og fylgjast með litríku lífinu í sjónum, skoða rifið úr bátnum, njóta sín á strönd eyrinnar eða um borð í tvíbytnunni. Kaffi og hádegisverður um borð. Við komum aftur til baka síðdegis.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

31. október | Ferð um regnskóginn, Kuranda & útsýnislest

Í dag könnum við regnskóginn við Cairns úr kláfum sem flytja okkur yfir trjákrónurnar til þorpsins Kuranda. Okkur gefst tími til að skoða okkur um en hér blandast saman mennning frumbyggjanna Djabugay og sterkt tenging þeirra við landið, árnar, regnskóginn, fossana og dýralífið allt um kring. Við höldum áfram með kláfinum að Regnsskógastöðinni en þaðan förum við á hjólabátum í ferð um skóginn. Í hverjum báti er leiðsögumaður sem fræðir okkur um landslagið, plöntur og dýralíf. Við fáum einnig leiðsögn frá heimamanni úr röðum Djabugay sem segir okkur sögur og fróðleik úr menningu frumbyggja. Við sjáum dans Djabugay áður en við höldum aftur til Kuranda þar sem við tökum annað stutt stop. Ferðin okkar aftur til Cairns er með útsýnislest, Kuranda Scenic Railway sem hefur gengið þessa leið í yfir 130 ár. Járnbrautin vindur sig meðfram Barion ánni, í gegnum hitabeltis fjallgarðinn, skóga með risaplöntum, pálmum og fornum trjám, gljúfrum, fossum og klettabeltum. Kvöldverður á eigin vegum.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

1. nóvember | Flug til Sydney

Í dag fljúgum við niður eftir austurströndinni, alla leið til Sydney, en hún er ein stærsta borg landsins. Hér er margt í boði, verslanir, veitingastaðir, menning og útivist. Frjálst það sem eftir lifir dags í Sydney, hádegisverður og kvöldverður á eigin vegum. Hér gistum við þrjár seinustu næturnar í Ástralíu. 

  • Morgunverður

2. nóvember | Skoðunarferð um Sydney & Bondi ströndin

Við leggjum upp í skoðunarferð um borgina og byrjum á hennar frægustu perlu, Óperuhúsinu. Hvað fékk danska arkitektinn Jorn Utzon til að byggja þakið eins og þanin segl? Við fræðumst um það og fáum að sjá þetta einstaka hús að innan og utan en það er á heimslista UNESCO sem eitt af meistaraverkum mannlegrar sköpunargáfu. Við stöldrum við steinbekkinn Mrs. Macquarie's Chair og dáumst að útsýninu yfir höfnina og Óperuhúsið. Að þessu loknu fáum við okkur hádegisverð áður en við höldum ferð okkar áfram á Bondi ströndina. Hún er ein frægasta strönd Ástralíu og hér eru kjöraðstæður til brimbrettaiðkunar. Frjáls tími um kvöldið og kvöldverður á eigin vegum.

  • Morgunverður
  • Hádegisverður

3. nóvember | Featherdale Wildlife garðurinn & sigling með kvöldverði

Í dag er seinasti dagurinn okkar í þessu frábæra landi. Við kynnum okkur einstakt dýralíf Ástralíu í Featherdale Wildlife Park. Þar er að finna kengúrur, emúa, vallabíur, vamba, mjónefi og kóalabirni. Frjáls tími fram að lúxussiglingu með kvöldverði um höfnina í Sydney. Það er draumi líkast að líða um höfnina að kvöldlagi og horfa til lands á Sydney Harbour brúnna, Óperuhúsið, þetta einstaka listaverk, og Luna garðinn.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

4. nóvember | Flug til Dubai & næturflug til London

Í dag er langur ferðadagur framundan. Við fljúgum nú heim í vesturátt og þá vinnur tímamismunurinn með okkur og við náum þessu ferðlagi á einum sólarhring. Við leggjum að stað kl. 06:00 frá flugvellinum í Sydney. Áætluð millilending í Dubai er kl. 13:20. Tökum tengiflug áfram til London kl. 14:30. Lending er áætluð 18:20 á Heathrow flugvelli í London. Stutt bið áður en við leggjum upp í seinasta legg ferðarinnar til Íslands kl. 20:35. Lending áætluð í Keflavík kl. 23:55.

  • Morgunverður

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • The Grand by SkyCity – Auckland
  • Pullman Rotorua – Rotorua
  • Sofitel Melbourne On Collins – Melbourne
  • Crowne Plaza Alice Springs Lasseters – Alice Springs
  • Sails in the Desert – Yulara
  • Shangri-La The Marina – Cairns
  • Sofitel Sydney Wentworth - Sydney

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Eyrún Ingadóttir

Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, er fædd á Hvammstanga árið 1967. Hún er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1993 og diplóma í stjórnun- og starfsmannamálum frá Endurmenntun Háskóla Íslands 2003. Hún starfar hjá Lögmannafélagi Íslands og Lögfræðingafélagi Íslands og hefur frá árinu 2003 skipulagt og farið sem fararstjóri í ferðir sem félögin standa fyrir árlega. Meðal annars hefur hún farið til Japan, Suður-Afríku, Argentínu, Indlands, Georgíu, á Íslendingaslóðir í Kanada, Tyrklands (Istanbul), Eistlands, Víetnam og Kambódíu. 

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti