Hjólað um perlur Suður-Frakklands

Í þessari einstöku hjólaferð um dásamlegar sveitir Provence héraðsins í Suður-Frakklandi munum við hjóla um hugguleg fjallaþorp, á kyrrlátum árbökkum og við frjósamar vínekrur sem laða fólk að svæðinu. Farið verður að ævintýralega klettabænum Le Baux de Provence þar sem stórbrotin fegurð umvefur staðinn og útsýnið yfir Alpilles fjöllin er óviðjafnanlegt. Hjólum einnig til St. Remy þar sem málarinn frægi Van Gogh málaði mörg sinna þekktustu verka. Við sjáum hina einkar áhugaverðu Pont du Gard brú, hæstu vatnsleiðslubrú sem Rómverjar byggðu og eitt af stórkostlegustu meistaraverkum þeirra tíma. Hjólum um kyrrlátt víðerni Camargue svæðisins sem er friðlýst vatnasvæði myndað af framburði Rhône og telst með fallegri náttúrusvæðum Evrópu. Við eigum frídag í aldagömlu virkisborginni Avignon og gaman er að rölta um miðbæinn en stór hluti hans er varðveittur á heimsminjaskrá UNESCO. Við hrífumst af landslaginu með fram friðsælum bökkum Durance árinnar á leiðinni til bæjarins Isle sur la Sorgue og það sama má segja þegar haldið verður með fram bökkum Rhône til vínþorpsins heimsfræga Châteauneuf du Pape. Þessi ferð gefur áhugasömum hjólagörpum frábært tækifæri til að upplifa hrífandi náttúrufegurð Suður-Frakklands og skoða helstu sögulegu minjar svæðisins. 

Verð á mann 489.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 115.400 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í Nice og hótels.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á vel staðsettum hótelum.  
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Leiga á VTC trekking hjóli í 6 daga.
 • Hjólaprógramm í 5 daga. 
 • Flutningur á fólki og hjólum samkvæmt hjólaprógrammi. 
 • Aðgangur að Pont du Gard.
 • Innlend staðarleiðsögn í hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á rafhjóli í 6 daga 20.400 kr. 
 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur. 
 • Leigubílaakstur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.
 • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Dagleiðirnar í þessari hjólaferð spanna um 45 -60 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum fólki að æfa sig vel fyrir ferðina, fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og fólk nýtur sjálfrar ferðarinnar betur ef það æfir og undirbýr sig vel fyrir ferðina. Fararstjóri mun boða þátttakendur í stutta hjólaferð hér heima áður en haldið verður utan.
Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir hjóladaga ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í hjólaferðir á eigin vegum.

Tillaga að dagleiðum

Bjarni Torfi fararstjóri er reyndur hjólari og mun hann skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við enskumælandi innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum alla hjóladagana. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir fimm hjóladaga sem fararstjóri getur skipulagt ásamt því að breyta eða bæta við stöðum. Gert er ráð fyrir einum frídegi.

6. júní | Flug til Nice & Arles

Flogið verður með Icelandair til Nice þann 6. júní. Brottför frá Keflavík kl. 16:25 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í Nice kl. 22:30 að staðartíma. Frá flugvellinum í Nice eru u.þ.b. 240 km til hótelsins í Arles því er áætlað að aksturinn taki um 3 klst.

Opna allt

7. júní | Arles & Camargue

Í þessari fyrstu hjólaferð okkar förum við um fallegu borgina Arles við bakka Rhône en hún er stútfull af sögu og menningarlífi. Við hjólum um heillandi götur og sjáum rómverskar rústir og aðrar leifar fortíðarinnar. Þegar við fjarlægjumst Arles breytist landslagið smám saman í kyrrlátt víðerni Camargue svæðisins sem er friðlýst vatnasvæði myndað af framburði Rhône og telst með fallegri náttúrusvæðum Evrópu. Hér er hjólað um mýrlendi og víðáttumiklar saltsléttur og kyrrð ósnortinnar náttúru heillar öll skilningarvit. Hjólum að lokum til baka til Arles.

 • Vegalengd: u.þ.b. 45 km
 • Aðallega flatlendi

8. júní | Le Baux de Provence & St. Remy

Nú förum við frá Arles og hjólum um gamalt vatnsveitusvæði Rómverja og áfram upp að ævintýralega klettabænum Le Baux de Provence, sem var hreinlega byggður inn í klettana og er án efa einn af áhugaverðustu bæjum landsins. Hrikafagurt landsvæðið umvefur staðinn og héðan er óviðjafnanlegt útsýni yfir Alpilles fjöllin, sérstaklega frá kastalarústunum en þær eru einkar áhugaverðar. Bærinn býr yfir miklum miðaldasjarma með sínum þröngu götum en hér var einnig miðstöð trúbadora og mótmælenda til forna. Hér eru líka áhugaverð listasöfn og handverksverslanir. Við hjólum svo áfram til bæjarins St. Remy sem er í hinni mögnuðu Alpilles fjallaþyrpingu. Listmálarinn frægi, Vincent Van Gogh, eyddi sínum síðustu árum í bænum og festi þetta undurfagra landslag á striga. Hjólum að lokum til baka um stórbrotið umhverfi Provence héraðs.

 • Vegalengd: u.þ.b. 60 km
 • Hækkun/lækkun: u.þ.b. 400 m/ 400 m 

9. júní | Pont Du Gard

Frá hótelinu liggur leið okkar út í stórkostlega náttúrufegurð Provence héraðsins, sem er með bestu vínhéruðum landsins. Við komum að Pont du Gard, sem er hæsta vatnsleiðslubrú sem Rómverjar byggðu. Þessi tilkomumikla brú er 49 m há, 279 m löng og var byggð á 1. öld eftir Krist til þess að flytja vatn um 50 km leið frá uppsprettu í nágrenni við Uzés, til rómversku borgarinnar Nimes. Brúin er eitt merkasta sögulega mannvirki rómverska tímans og er í dag á heimsminjaskrá UNESCO. Við skoðum bæði brúna og nánasta umhverfi áður en rúta sækir okkur og flytur á næsta gististað í Avignon.

 • Vegalengd: u.þ.b. 45 km
 • Hækkun/lækkun: tiltölulega slétt

10. júní | Frídagur til að skoða sig um í Avignon

Í dag hvílum við hjólin og njótum þess að rölta um þessa fögru og söguríku vrikisborg, Avignon. Virkisveggir borgarinnar eru virðulegir og brúin fræga St. Bénezet og gamli bærinn með höll páfans blasa við okkur en allt er þetta varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO. Mjög gaman er að skoða elsta hluta borgarinnar sem er rétt hjá ráðhústorginu. Þar eru spennandi verslanir, notaleg kaffihús og heillandi götur. Einnig er skemmtilegt að fara út á St. Bénezet brúna og ganga virkisveggina.

11. júní | Isle sur La Sorgue

Við hjólum í dag í fallegu landslagi með fram friðsælum bökkum Durance árinnar og í gegnum gróðursælar sveitir prýddar aldingörðum og vínekrum. Komum að bænum Isle sur la Sorgue sem er þekktur fyrir síki sín, enda stundum kallaður eyja bærinn, og skemmtilega antíkmarkaði. Hér er gaman að rölta um og detta jafnvel inn á markað eða bara dást að vatnsmyllum og heillandi brúm bæjarins. Það er líka tilvalið að setjast niður og smakka á kræsingum svæðisins á einu af fallegu kaffihúsunum með fram Sorgue ánni eða upplifa listrænt andrúmsloft bæjarins í einu af galleríi þess.

 • Vegalengd: u.þ.b. 60 km
 • Hækkun/lækkun: tiltölulega slétt

12. júní | Châteauneuf du Pape

Þessi dagur verður fullur af stórkostlegu útsýni og fróðleik um hin heimsfrægu vín Rhône dalsins. Áfangastaður dagsins er hrífandi þorpið Châteauneuf du Pape en til að komast þangað hjólum við með fram hægri bakka árinnar Rhône þar sem fagurt landslag og vínekrur fylgja okkur. Héraðið Châteauneuf du Pape er einmitt með þekktari vínhéruðum landsins. Í vínþorpinu Châteauneuf du Pape er
auðvelt að heillast af sögulegum miðbænum og gaman að skoða vínkjallara og læra um þessar ríku víngerðarhefðir sem hafa gert þorpið frægt um allan heim. Eftir góða stund hjólum við aftur til baka til Avignon.

 • Vegalengd: u.þ.b. 50 km
 • Hækkun/lækkun: ein brött brekka sem er u.þ.b. 100 m upp og 100 m niður

13. júní | Heimferð frá Nice

Nú er komið að lokum en flogið verður heim frá Nice kl. 23:30. Lending á Íslandi kl. 01:50 að staðartíma, aðfaranótt 14. júní. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er fæddur 1960, menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur. Hann starfaði í átta ár í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík, þrjú ár sem grunnskólakennari og í 11 ár í hugbúnaðargeiranum. Frá árinu 2011 hefur Bjarni verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi.

Hótel

Hótel í ferðinni Hjólað um perlur Suður-Frakklands

Gist verður í þrjár nætur á Hotel Spa Calendal í Arles sem er staðsett í heillandi 18. aldar byggingu í sögulegum miðbæ Arles. Hótelið er innréttað í hefðbundnum suður-frönskum stíl og herbergin eru með loftkælingu. Á hótelinu er heilsulind með heitum og köldum pottum í anda forn Rómverja.

Gist verður fjórar nætur í Hotel Mercure Palais du Pape í hjarta Avignon aðeins um 50 metra frá höll páfans. Herbergin eru með loftkælingu, sjónvarpi og öryggishólfi.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790
Póstlisti