13. - 20. september 2025 (8 dagar)
Kaprun er lítill, fallegur bær í sambandsríkinu Salzburg sem rómaður er fyrir einstaka náttúrufegurð. Hann liggur í um 780 m hæð yfir sjávarmáli og er umlukinn austurrísku Ölpunum. Kaprun stendur nálægt vatninu Zell am See og yfir honunm gnæfir Kitzsteinhorn jökullinn. Í þessari útivistarferð verður boðið upp á fjölbreyttar gönguleiðir sem liggja allar um stórkostlegt landslag, fjöll og dali. Sem dæmi má nefna gönguferð upp að Krimmler fossunum, hæstu fossum Austurríkis og fimmtu hæstu fossum í heimi. Eins göngum við í Sigmund Thun Klamm gljúfrinu. Gangan þar er einstök upplifun, en hér eru mjög öruggar en djarflega byggðar göngubrýr meðfram þröngum klettaveggjum. Einnig verður boðið upp á hjóladag þar sem hjóluð verður um geysilega fallega leið, svokallaðan Tauern hjólreiðaveg, að hinu fagra Kitzlochklamm gljúfri. Gist verður á góðu 4* hóteli í ekta, austurrískum stíl þar sem úrvalsmatur úr héraði er á borðum. Á hótelinu er einnig heilsulind með gufubaði, sánu, nuddpotti o.fl. þar sem gott er að láta líða úr sér eftir göngur. Hér gefst einstakt tækifæri til þess að anda að sér fersku fjallalofti, njóta útiveru í tilkomumiklu landslagi og hreyfa sig í skemmtilegum félagsskap.