Hjólað við Zell am See

Hér er á ferðinni einstaklega þægileg hjólaferð þar sem hjólað verður á hæfilegum hraða, á góðum hjólastígum með það að markmiði að njóta þess sem fyrir augu ber. Gist verður í bænum Kaprun, sem liggur við hið fagra vatn Zell í Salzburgerlandi og þaðan munum við halda í fјölbreyttar dagsferðir um fallegar sveitir. Haldið verður í ævintýralega dagsferð að Krimmlerfossunum og til bæjarins Saalfelden en þar verður hjólaður skemmtilegur hringur sem að hluta tilheyrir hinni frægu Tauern hjólaleið. Að sjálfsögðu verður einnig hjólað umhverfis vatnið Zell. Gist verður á 4* heilsuhóteli þar sem auðvelt verður að láta líða úr sér eftir yndislega útiveru. Í þessari ferð fer saman útivist og hreyfing í fјölbreyttu og heillandi umhverfi. 

Verð á mann 367.700 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 42.400 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í tveggja manna herbergi í 7 nætur á 4 * hóteli í Kaprun.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelinu.
 • Boðið verður uppá einn 7 rétta hátíðarkvöldverð.
 • Aðgangur að heilsulind hótelsins sem býður m.a. upp á mismunandi gufuböð og innisundlaug.
 • Baðsloppur og inniskór fyrir dvölina.
 • Frítt internet á hótelinu.
 • Rútuferð til og frá bænum Saalfelden með hjólin.
 • Rútuferð með hjólin að Krimmlerfossum.
 • Innlend leiðsögn í völdum hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á 24 gíra trekkinghjóli með tösku og lás í 6 daga 27.600 kr.
 • Leiga á rafhjóli með tösku og lás í 6 daga 48.000 kr. 
 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.
 • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Þetta er létt til miðlungserfið hjólaferð og dagleiðirnar spanna um 30 -65 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að æfa sig vel fyrir ferðina, fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Fararstjóri mun boða farþega sína í stutta hjólaferð eða ferðir hér heima áður en haldið verður utan. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir hjóladaga ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í hjólaferðir á eigin vegum.

14. september | Flug til München & ekið til Kaprun

Flogið frá Keflavík með Icelandair kl. 07:20. Mæting u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Rúmlega þriggja tíma keyrsla er á hótelið í Kaprun. Þessi huggulegi 3.000 manna bær kúrir milli fjallanna í nágrenni vatnsins og hér komum við okkur fyrir.

15. september | Umhverfi Zell am See

Þennan fyrsta hjóladag förum við í hjólabúðina í bænum Zell þar sem hver og einn fær hjól við sitt hæfi. Síðan kynnum við okkur umhverfið nánar og hjólum umhverfis þetta yndislega vatn. Farið verður um fallegt svæði á góðum hjólastígum og fyrir augu bera byggingar og kastalar eins og Schloss Prielau, sem í dag er nýttur sem lúxushótel. Möguleiki er að fara líka í skemmtilega bátsferð um vatnið áður en haldið er heim á hótel. Áætluð dagleið u.þ.b. 30 km.

Opna allt

16. september | Krimmlerfossar

Við förum með hjólin í rútu upp að Krimmlerfossunum í Salzachdalnum. Fossarnir falla milli háu Tauernfjallanna og Kitzbühel-Alpanna og er þetta einn glæsilegasti foss Alpanna. Leiðin aftur niður til Kaprun er ævintýralega falleg og verður að hluta til hjólað á hinum þekkta Tauernradweg. Áætluð dagleið u.þ.b. 60 km.

17. september | Almdorf

Frá Kaprun hjólum við með fram vesturhlið vatnsins Zell og til Almdorf, sem er þyrping af vinalegum gömlum bóndabæjum í alpastíl. Þaðan til baka til Ritzensee, sem er fallegt stöðuvatn í Saalfelden. Þar gefst möguleiki á að heimsækja snafsframleiðanda eða skoða héraðssafnið í Ritzen kastalanum. Hjólað verður um fallegar sveitir til baka á hótelið í Kaprun. Áætluð dagleið u.þ.b. 45 km.

18. september | Frídagur í Kaprun

Frjáls dagur og hverjum og einum gefst tækifæri á að kanna umhverfið á eigin vegum. Bærinn Kaprun er þekktur fyrir að vera staðsettur við svokallað Evrópu-íþróttasvæði og því vinsæll ferðamannabær jafnt sumar sem vetur. Upplagt er að taka stuttan hjólatúr til bæjarins Zell am See eða nota aðstöðuna á hótelinu; fara í gufu, heitan pott eða láta dekra við sig í heilsulind hótelsins.

19. september | Steinbergrunde & Pillersee

Eftir góðan morgunverð mun rúta keyra okkur til Saalfelden og verða hjólin að sjálfsögðu með í för. Þaðan hjólum við einstaklega fallega hringleið sem nefnist Steinbergrunde og liggur milli bæjanna St. Martin bei Lofer, Waidring, St. Ulrich við Pillersee, Hochfilzen og Leogang. Að loknum góðum hjóladegi mun rútan keyra okkur aftur á hótelið í Kaprun. Áætluð dagleið u.þ.b. 65 km.

20. september | Kaprun Kitzlochklamm

Í dag verður hjóluð geysilega falleg leið, svokallaður Tauern hjólreiðavegurinn. Þessi leið liggur frá hótelinu að hinu fagra Kitzlochklamm gljúfri, sem með sínum hrikalegu klettum og kröftugu fossum telst til fallegustu gljúfra austurrísku Alpanna. Hjólaleiðin liggur að hluta til með fram ánni Salzach og á vegi okkar verða lítil þorp og ólýsanleg náttúrufegurð hvert sem litið er. Hjólaleiðin er þægileg, u.þ.b. 23 km, um 1,5-2 klst. Við gefum okkur góðan tíma til að skoða og njóta hinnar mikilfenglegu náttúru við og í kringum gljúfrið. Hjóluð verður sama leið til baka að hótelinu.

21. september | Heimferð

Strax eftir morgunverð verður lagt af stað út á flugvöll. Brottför frá flugvellinum í München kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hjalti Kristjánsson

Hjalti Kristjánsson er fæddur 1978. Er giftur og á tvö börn. Hann ólst upp í Kópavogi og hjá íþróttafélaginu Breiðabliki, þar sem stundaðar voru margar íþróttir í mörg ár. Hjalti lauk M.Sc í þjálfunar- og lífeðlisfræðum frá USA, en hann bjó og lærði í Sacramento Kaliforniu og La Crosse Wisconsin. Hjalti hefur unnið á Reykjalundi síðan 2002. Hann er einnig félagi í Hjálparsveit Skáta í Kópavogi. Hjalti hefur mikinn áhuga á allskyns hreyfingu, útiveru og ferðalögum innanlands sem utan.

Hótel

Hotel Kaprunerhof

Fjölskyldurekna 4* hótelið Kaprunerhof er á kyrrlátum stað í þorpinu Kaprun, vel staðsett fyrir göngu- og hjólaleiðir svæðisins. Boðið er upp á fjögurra rétta kvöldverði með valréttum og morgunverðarhlaðborðið er fjölbreytt með framboði af lífrænum afurðum. Herbergin eru öll með baði/sturtu, hárþurrku, sjónvarpi með gervihnattastöðvum, síma, öryggishólfi og minibar. Líkamsræktaraðstaða og heilsulind eru á hótelinu með gufu- og eimbaði, nuddpotti og sundlaug.  Gestir fá baðslopp og inniskó til afnota á meðan á dvölinni stendur. Golfvöllur er í nágrenninu og 25% afsláttur fyrir hótelgesti. Auk þess fá allir gestir fríðindakort sem veitir afslætti af samgöngum og þjónustu á svæðinu. Ókeypis þráðlaust net er á öllu hótelinu.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790
Póstlisti