Þriggja landa ganga við Adríahafið

Í þessari nýju og spennandi gönguferð til Slóveníu og Ítalíu verður lengst af dvalið í fallega, slóvenska bænum Izola. Gengið verður við Monte Lussari, fjallið sem rís úr júlíönsku Ölpunum, og okkar bíður fallegt útsýni yfir svæðið þar sem Ítalía, Austurríki og Slóvenía mætast. Við göngum fallega leið við hin tæru Fusine jökulvötn og njótum heillandi umhverfisins í kringum þau. Litla þorpið Piran, sem er sannkölluð perla Istríastrandarinnar, verður heimsótt og við upplifum einstakt útsýni yfir Adríahafið, þar sem strandlengjur nærliggjandi landa virðast svo nálægt okkur. Farið verður í þorpið Prosecco og hinn rómantíski Miramare kastali heimsóttur. Í gamla listamannabænum Grožnjan líta húsin út fyrir að vera listagallerí, hvert hús hefur sögu að segja. Einnig verða hinir merku Škocjan hellar á Karst hásléttunni skoðaðir og við göngum fallega leið um Rosandra dalinn, sem liggur við landamæri Slóveníu og Ítalíu. Þessi ferð býður upp á fjölbreyttar gönguleiðir, þar sem alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu.

Verð á mann 349.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 38.700 kr.


Innifalið

 • 10 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í München og hótela í Tarvisio og Izola.
 • Tvær nætur í tveggja manna herbergi með baði á 3* hóteli í Tarvisio.
 • Sjö nætur í tveggja manna herbergi með baði á 4* hóteli í Izola.
 • Morgunverður allan tímann á hótelum.
 • Kvöldverður öll kvöld á hótelum.
 • Akstur í gönguferðum þar sem við á.
 • Kláfur fram og til baka upp á Monte Lussari.
 • Hádegisnesti þann 6. september.
 • Aðgangseyrir inn í Škocjan hellana.
 • Vínsmökkun 9. september.
 • Kaffi og kaka í Trieste 10. september.
 • Göngudagskrá.
 • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í gönguferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir aðrir en þeir sem eru innifaldir.
 • Þjórfé.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðu gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara t.d. upp að Steini í Esjunni vikulega í u.þ.b. 6-8 vikur fyrir ferð. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar og niður aftur á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir göngur ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í léttar gönguferðir á eigin vegum.

Gönguferðirnar

Farið verður í skipulagðar gönguferðir með staðarleiðsögumanni en íslenski fararstjórinn verður að sjálfsögðu með í för. Hér fyrir neðan eru dæmi um mögulegar dagleiðir en teknar verða ákvarðanir um leiðirnar með skömmum fyrirvara eftir veðri og öðrum aðstæðum. Hvaða dag sem er geta farþegar valið að fara styttri leiðir á eigin vegum eða taka það rólega á hótelinu og njóta þess sem nágrennið hefur upp á að bjóða.

2. september | Flug til München

Brottför frá Keflavík kl. 07:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Gist verður í tvær nætur á hóteli í Tarvisio sem er indæll ítalskur bær, m.a. þekktur fyrir skíðasvæði sitt. Þarna mætast ítölsk, austurrísk og slóvensk menning enda bærinn nánast á landamærum landanna þriggja.

Opna allt

3. september | Monte Lussari

Fyrsta gangan okkar hefst við fjallið Monte Lussari sem tilheyrir Ítalíu og er vinsæll áfangastaður margra pílagrímsferða ítalskra, slavneskra og þýskra trúboða. Monte Lussari rís úr Ölpunum suður af Camporosso og er í tæplega 1800 metra hæð yfir sjávarmáli. Við tökum kláf frá Camporosso og þaðan verður genginn góður hringur þar sem ógleymanlegt útsýnið yfir allan fjallgarð júlíönsku Alpanna fangar okkur og Ítalía, Austurríki og Slóvenía mætast.

 • Göngutími: u.þ.b. 3 klst.
 • Erfiðleikastig: miðlungs
 • Hækkun: 350 m

4. september | Fusine vötnin

Eftir góðan morgunverð verður keyrt að Fusine vötnunum, tveimur fallegum jökulvötnum sem liggja rétt við slóvensku landamæri Ítalíu og virðast aðskilin en í þau bæði rennur þó vatn úr sama árfarveginum sem liðast í gegnum þéttvaxinn greniskóg Fusine dalsins. Ganga dagsins er einmitt í kringum þessi tvö fallegu vötn. Á leið okkar til baka verður gengin þægileg leið í gegnum skóginn þangað til við komum að upphafsstað göngunnar. Þar verður snæddur hádegisverður. Gist í sjö nætur í Izola.

 • Göngutími: u.þ.b. 2,5 klst.
 • Erfiðleikastig: létt
 • Hækkun: 150 m

5. september | Piran & Strunjan

Í dag heimsækjum við litla þorpið Piran sem er sannkölluð perla Istríastrandarinnar. Eftir rölt um gamla miðbæinn verður gengin skemmtileg gönguleið rétt fyrir utan þorpið. Hluti leiðarinnar liggur með fram sjónum og að Strunjan saltverksmiðjunni. Leiðin liggur svo í gegnum Strunjan útivistarsvæðið og upp að hæstu klettabrúninni við Adríahafið. Héðan virðist hafið svo nálægt okkur og heillandi útsýnið yfir strandlengjur nærliggjandi landa gerir þetta að ógleymanlegri upplifun.

 • Göngutími: u.þ.b. 3 klst.
 • Erfiðleikastig: létt
 • Hækkun: 200 m

6. september | Strada Napoleonica, Prosecco & Miramare kastalinn

Nú verður genginn skemmtilegur hringur sem hefst í Opicina þaðan sem gengið verður yfir í þorpið Prosecco, sem er hvað þekktast fyrir freyðivínið samnefnda. Héðan göngum við síðan gamlan fiskimannaslóða þar sem ótrúlegt útsýni yfir Trieste flóann blasir við okkur. Við heimsækjum einnig hinn rómantíska Miramare kastala sem stendur á miklum klettagarði og var reistur 1865 af austurríska erkihertoganum og Habsborgaranum Maximilian og eiginkonu hans Charlotte. Kastalagarðurinn er rómaður fyrir afar sjaldgæf og tignarleg tré sem voru handvalin af erkihertoganum.

 • Göngutími: 3,5 klst.
 • Erfiðleikasig: létt til miðlungs
 • Hækkun: 250 m

7. september | Škocjan hellarnir í Slóveníu

Í dag fáum við fróðlega leiðsögn frá slóvenskum heimamanni sem gengur með okkur að mjög merkilegu svæði úr kalksteini þar sem hellar, neðanjarðarlækir og sprungur liggja víða. Við heimsækjum hina merku Škocjan hella en þeir eru hluti af svokölluðu neðanjarðar hellakerfi Karst hásléttunnar sem teljast til merkustu hella á heimsvísu og eru á heimsminjaskrá UNESCO.

 • Göngutími: 2,5 klst.
 • Erfiðleikastig: létt
 • Hækkun: 200 m

8. september | Frídagur

Þennan dag ætlum við að njóta þess að vera á þessum fagra stað. Tilvalið er að hvíla lúin bein en einnig er gaman að fara í rólegan göngutúr eftir strandlengjunni. Það er líka ánægjulegt að setjast á kaffihús og fylgjast með mannlífinu í yndislega bænum Izola.

9. september | Listamannabærinn Grožnjan & víngerð

Í dag förum við með rútu til gamla listamannabæjarins Grožnjan, þar sem hvert hús lítur út fyrir að vera listagallerí og hafa sögu að segja. Eftir stutta skoðunarferð um bæinn göngum við að öðrum litlum og sjarmerandi bæ, Zavrsje, en byggingar bæjarins þykja fyrir sinn gamla byggingarstíl einkar fallegar. Við endum gönguferð dagsins í bænum Oprtalj og heimsækjum víngerð þar sem við fáum að smakka á þekktustu vínum Istría héraðsins.

 • Göngutími: 3 klst.
 • Erfiðleikastig: létt
 • Hækkun: 100 m

10. september | Rosandra dalurinn & Trieste

Við förum nú með rútu að Karst hásléttunni þaðan sem farið verður í gönguferð um Rosandra dalinn en hann á landamæri að bæði Slóveníu og Ítalíu og var gerður að þjóðgarði árið 1984. Gengin verður falleg leið að Trieste sem kallast Rosandra Beck leiðin og liggur með fram gömlum járnbrautarteinum, þar sem leifar lúinna vatnsveita og ummerki gamalla vatnsmylla verða á vegi okkar. Við skoðum okkur aðeins um í hafnarborginni Trieste en skipulag borgarinnar ber keim af austurrískum, ungverskum og slóvenskum áhrifum. Við heimsækjum einnig elsta bakarí borgarinnar og smökkum á góðum kræsingum.

 • Göngutími: 3,5 klst.
 • Erfiðleikastig: létt
 • Hækkun: 250 m

11. september | Heimflug frá Mílanó

Nú er komið að heimferð en brottför er með flugi kl. 15:10 og er áætluð lending í Keflavík kl. 17:25 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Perla Magnúsdóttir

Perla Magnúsdóttir er ung og lífsglöð útivistarkona úr Hafnarfirðinum. Hún er menntaður leiðsögumaður og ferðamálafræðingur sem hefur starfað í íslenskri ferðaþjónustu undanfarin 11 ár. Í dag starfar hún aðallega við alls konar leiðsögn og fararstjórn, og að byggja upp fyrirtæki sitt; NáttúruPerla. Hún býr í smáíbúðahverfinu í Reykjavík með yndislegum ketti og enn betri manni.

Perla hefur óbilandi áhuga á útiveru og ferðalögum. Hún hefur ferðast mikið hérlendis sem og víðs vegar um heiminn. Ferðalögin eiga það öll sameiginlegt að hafa aukið víðsýni hennar, sjálfsbjargarviðleitni og þakklæti. Það er í raun ekkert sem nærir hana meira heldur en útivera í fallegu umhverfi, með góðu fólki og stemmningu.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00

 

Tengdar ferðir