Þriggja landa ganga við Adríahafið
2. - 11. september 2023 (10 dagar)
Í þessari nýju og spennandi gönguferð til Slóveníu og Ítalíu verður lengst af dvalið í fallega, slóvenska bænum Izola. Gengið verður við Monte Lussari, fjallið sem rís úr júlíönsku Ölpunum, og okkar bíður fallegt útsýni yfir svæðið þar sem Ítalía, Austurríki og Slóvenía mætast. Við göngum fallega leið við hin tæru Fusine jökulvötn og njótum heillandi umhverfisins í kringum þau. Litla þorpið Piran, sem er sannkölluð perla Istríastrandarinnar, verður heimsótt og við upplifum einstakt útsýni yfir Adríahafið, þar sem strandlengjur nærliggjandi landa virðast svo nálægt okkur. Farið verður í þorpið Prosecco og hinn rómantíski Miramare kastali heimsóttur. Í gamla listamannabænum Grožnjan líta húsin út fyrir að vera listagallerí, hvert hús hefur sögu að segja. Einnig verða hinir merku Škocjan hellar á Karst hásléttunni skoðaðir og við göngum fallega leið um Rosandra dalinn, sem liggur við landamæri Slóveníu og Ítalíu. Þessi ferð býður upp á fjölbreyttar gönguleiðir, þar sem alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu.