Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
26. júní           Flug til Frankfurt

Piesport

Flogið verður með Icelandair til Frankfurt þann 26. júní. Brottför frá Keflavík kl. 07.25, en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst fyrir brottför. Lending í Frankfurt kl. 12.50 að staðartíma. Frá flugvellinum í Frankfurt eru um 150 km að Bernkastel-Kues svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki um tvo tíma.

 
 
Tillaga að dagleiðum 27. júní – 2. júlí

Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir 5 hjóladaga og 1 frídag sem fararstjóri getur skipulagt eftir eigin höfði ásamt því að breyta eða bæta við þeim stöðum sem honum þykir áhugavert að heimsækja. Á frídeginum er tilvalið að skoða sig um í Koblenz á eigin vegum og kynna sér mannlífið og umhverfið þar nánar.

 
 
1. Piesport

Bernkastel-Kues er frábær staður til að hefja hjólaferð meðfram undurfögru landslagi Mósel árinnar. Við hjólum upp með ánni til Piesport. Á leið okkar förum við hjá vínekrum, en það eru aðrar freistingar sem okkur standa til boða. Við stoppum á kaffihúsi þar sem Mósel-Riesling-konfekt er í boði. Við hjólum svo hinn árbakkann tilbaka.
 
          Vegalengd: ca. 40 km

 Daun & Eifel   
 
2. Daun & Eifel

Í dag erum við keyrð til Daun að Maare-Mosel hjólastígnum, sem er einn skemmtilegasti hjólastígur Þýskalands. Við munum fara ævintýralega leið yfir forna eldfjallasvæðið í Eifel, en flestir gíganna eru fylltir djúpbláum vötnum í dag. Á þessari leið lágu lestarteinar áður en henni var breytt í hjólastíg og eins og búast má við liggur leiðin því oft í gegn um göng og yfir brýr. Við hjólum aftur í Móseldalinn.
 
          Vegalengd: ca. 55 km

 
 
3. Traben - Trarbach

Upp með ánni hjólum við framhjá einstöku landslagi og fornum sólúrum frá miðöldum. Við stöldrum við í kryddjurtagarðinum við Ürzig. Bærinn Traben-Trarbach er einn vinsælasti ferðamannabærinn við Mósel. Mikið er af fallegum byggingum og húsum í Traben-Trarbach, flest í Jugend stílnum. Við skoðum okkur um og myndum í bak og fyrir áður en við siglum með bát að gamla klaustrinu Machern, sem í dag hýsir bjórbrugghús og leikfangasafn. Frá Machern klaustri hjólum við aftur á hótelið í Bernkastel-Kues.
 
          Vegalengd: ca. 48 km

 Hatzenport 
 
4. Hatzenport

Við hjólum upp með ánni frá Koblenz í draumalandslagi. Hér eru vínakrarnir í stöllum í bröttum hlíðum og nokkrir kastalar verða á vegi okkar, eins og t.d. Eltz kastalinn, sem trónir tignarlega yfir fagurgrænu umhverfinu. Í Hatzenport er fjöldi vínbænda og tilvalið er að líta við hjá einum þeirra og smakka framleiðsluna. Hjólað aftur til Koblenz.
 
          Vegalengd: ca. 56 km

 
 
5. Boppard

Í dag verður hjólað á góðum hjólastíg meðfram ánni Rín um eitt rómaðasta svæði hins sögufræga Rínardals. Við sjáum Loreley klettinn, sem er þekktur fyrir þjóðsöguna um lokkaprúðu hafmeyjuna Loreley sem sat uppi á klettinum og leiddi fiskimenn í dauðann með seiðandi söng sínum. Fleiri töfrandi hallir og rústir bera fyrir augu okkar milli vínakranna. Möguleiki er á að heimsækja Braubach kastalann, sem er 700 ára gamall.
 
          Vegalengd: 48 km

 
 
3. júlí           Flug til Keflavíkur

Að loknum morgunverði höldum til Frankfurt, en þaðan verður flogið kl. 14.00. Lending á Íslandi kl. 15.35 að staðartíma.

 
 
Hotel zur Post - 4 næturHotel zur Post

Hotel zur Post er hlýlegt 3* hótel í sveitastíl, nálægt kjarna miðaldarbæjarins Bernkastel-Kues. Þessi rómantíski bær er mitt í vínhéraðinu með gömlum húsum og torgum. Herbergin eru með sturtu eða baðkari, hárþurrku, síma, sjónvarpi, mínibar og ókeypis nettengingu.

 
 
Cityhotel Kurfürst Balduin - 3 nætur

Cityhotel Kurfürst Balduin er snyrtilegt 3* hótel í miðbæ Koblenz innan um fjölda verslana og veitingastaða. Koblenz sem liggur á ármótum Mósel og Rín er aldagömul borg með mikla sögu. Herbergin eru með sturtu, hárþurrku, öryggishólfi, síma, sjónvarpi og ókeypis nettengingu.

 
 
Undirbúningur

Létt ferð fyrir alla, reynda og óreynda. Við mælum með því að gestir okkar hafi hjólað nokkrum sinnum í lengri dagstúra og ráðleggjum kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Farastjóri mun boða farþega sína í stutta hjólferð eða ferðir hér heima áður en haldið verður erlendis. Ennfremur verður einn undirbúningsfundur með fararstjóra.

 
 



 
 
Verð: 244.800 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 31.100 kr.

 
 Hjólað við Mósel & Rín
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
• Ferðir á milli flugvallarins í Frankfurt og hótela.
• Gisting í tveggja manna herbergi með baði.
• Morgunverðarhlaðborð alla daga.
• 7 kvöldverðir.
• Hjóladagskrá.
• Rútuferð með hjól til Daun í Eifel.
• Rútuferð með hjól og farangur til Koblenz.
• Bátsferð frá Traben-Trarbach til Machern klausturs.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Leiga á 7 gíra hjóli með lás í 6 daga € 16.900 kr. og leiga á rafhjóli með lás í 6 daga € 33.100 kr. Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur. Kláfar upp á fjöll, leigubílaakstur, hádegisverðir og þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Aðgangur í Burg Eltz ca. € 8. Baubach höllin ca. € 6. Vínsmökkun hjá vínbónda ca. € 12. Hádegismatur hjá vínbónda ca. € 14. Kaffi og konfekt ca. € 7.

 

  

 

 Ferðaskilmálar Bændaferða

 
 

 

Tengdar ferðir




Póstlisti