Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
18. júní          Flug til Mílanó

Flogið verður með Icelandair til Mílanó þann 18. júní. Brottför frá Keflavík kl. 16.50, en mæting í Leifsstöð er í síðasta lagi 2 klst fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 22.40 að staðartíma. Gera má ráð fyrir að rútuferðin frá flugvellinum á gististað taki rúmlega 3 klst.

 
 
Tillaga að dagleiðum 18. - 25. júní

Hjalti fararstjóri er reyndur hjólamaður og mun hann hafa innlendan staðarleiðsögumann sér til stuðnings á hjólaleiðunum. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir 5 hjóladaga og 1 frídag sem fararstjóri getur skipulagt eftir eigin höfði ásamt því að breyta eða bæta við þeim stöðum sem honum þykir áhugavert að heimsækja.

 
1. LuccaLucca

Við gefum okkur tíma til að hvíla okkur eftir flugið, en hjólum svo í rólegheitum af stað til Lucca. Leið okkar liggur upp eftir einum hinna fornu vega sem lágu til Rómar. Við komum að sögulegu þorpi, Pietrasanta, en hér er tilvalið að líta á San Martino dómkirkjuna frá 14. öld. Lucca er gömul virkisborg og var á 13. og 14. öld ein af valdamestu borgum Evrópu. Við munum hjóla eftir virkisveggjunum frá miðri 17. öld og njóta stórkostlegs útsýnis yfir borgina. Við förum í stutta skoðunarferð fótgangandi um Lucca. Giacomo Puccini tónskáld er fæddur í borginni og er húsið, sem hann fæddist í, safn í dag. Ekið verður tilbaka á hótelið með rútu.
 
          Vegalengd: ca. 40 km
          Hækkun: 270 m
          Erfiðleikastig leiðar: Létt

Pisa


 
2. Pisa

Við reynum aðeins meira á okkur í dag á leið okkar til Pisa. Við hjólum frá hótelinu og komum til þorpsins Viareggio, sem er með þeim flottari við Versilia ströndina. Áfram höldum við í Migliarino þjóðgarðinn, þar sem við hjólum milli sandhólanna þar til við komum til Pisa. Borgin er þekktust fyrir skakka turninn á torginu Piazza dei Miracoli. Þessum frístandandi klukkuturni, sem tilheyrir dómkirkjunni í Pisa, var eðlilega ætlað að standa lóðrétt, en eftir byggingu annarrar hæðar hans tóku undirstöður turnsins að síga. Við skoðum okkur um og myndum í gríð og erg áður en rútan flytur okkur aftur á hótelið.
 
          Vegalengd: ca. 68 km
          Hækkun: engin
          Erfiðleikastig leiðar: Miðlungserfið

 
 
3. Marmarinn í Carrara og SarzanaMarmarinn í Carrara og Sarzana

Í dag sjáum við draumalandslag og staði í Toskana og Liguria héruðum. Þar ber fyrst að nefna miðaldabæinn Massa sem hringar sig um Malaspina kastalann. Við hjólum áfram til Carrara sem er höfuðstaður marmaravinnslu á Ítalíu. Þar getum við lært ýmislegt um marmara í safni staðarins. Bærinn Sarzana er frægur fyrir sína turna og virkisveggi. Við röltum um götur og stræti þessa heillandi bæjar og hjólum svo til vínbónda í nágrenninu þar sem okkur gefst kostur á að smakka gæða vín úr Liguriahéraði. Heimferð á hótelið með rútu.
 
          Vegalengd: ca. 55 km
          Hækkun: 390 m
          Erfiðleikastig leiðar: Miðlungserfið

 
 
4. Massaciuccoli vatn – á slóðum PucciniMassaciuccoli vatn – á slóðum Puccini

Í dag verður engin rúta sem flytur okkur tilbaka. Við hjólum alla leið. Leiðin liggur um draumfagurt svæði á fáförnum götum gegnum landslag Toskana, þar til við komum til Torre del Lago við Massaciuccoli vatnið. Bærinn gengur líka undir nafninu Puccini, eftir frægasta íbúa þess sem bjó hér og samdi hér flestar sínar frægustu óperur. Að sjálfsögðu er bronsstytta til minningar um Puccini niður við vatnið. Áfram hjólum við að Balbano skarði og meðfram Pisan fjöllum til Vecchiano. Alla leiðina höfum við dásamlegt útsýni yfir vatnið og ströndina og njótum gróðursældar í kringum okkur.
 
          Vegalengd: ca. 58 km
          Hækkun: 140 m
          Erfiðleikastig ferðar: Létt til miðlungserfið

 
 
5. Montemarcello og SkáldaflóiMontemarcello þjóðgarðurinn

Við byrjum daginn á smá áskorun, en vegurinn til Montemarcello þjóðgarðsins er nokkuð brattur. Umbun erfiðis okkar er einstakt útsýni yfir La Spezia flóa. Við hjólum áfram í rólegheitum og njótum sýnarinnar yfir Portovenere með hafnarborgina Luni. Við komum til Lerici við Golfo dei Poeti flóann, eða Skáldaflóa eins og hann heitir á íslensku. Við dveljum nokkra stund í þessum einstaklega snotra bæ og tilvalið er að njóta hádegisverðar með útsýni út á flóann. Síðasti áfanginn á leið okkar í dag er hafnarborgin La Spezia, en þaðan flytur rútan okkur aftur á hótelið.
 
          Vegalengd: ca. 52 km
          Hækkun: 390 m
          Erfiðleikastig ferðar: Miðlungserfið

 
 
25. júní           Flug til Keflavíkur

Rúta flytur okkur til Mílanó, en þaðan verður flogið kl. 23.40. Lending á Íslandi kl. 1.55 að staðartíma.

 
 
HótelMiðlungserfið hjólaferð

Gist verður á 4* hóteli í strandbænum Lido Di Camaiore, Hotel Caesar. Herbergin sem eru nútímaleg og björt, eru innréttuð í káetustíl. Þau eru búin loftkælingu, sjónvarpi, síma, hárþurrku og minibar. Hótelið er mjög vel staðsett við sjávarsíðuna á einum vinsælasta sumardvalarstað Ítalíu. Stór garður er í kringum hótelið með sundlaug og huggulegri sólbaðsaðstöðu. Einnig er innisundlaug með nuddi, líkamsræktaraðstöðu og heilsulind með sauna, tyrkneskri gufu og ýmsu fleira. Boðið er upp á aðgang að heilsulindinni og margskonar heilsumeðferðum gegn gjaldi. Frí nettenging er allsstaðar á hótelinu.

 
 
Undirbúningur

Þetta er miðlungserfið hjólaferð sem ætti að henta flestu hjólafólki. Við ráðleggjum gestum okkar að fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Fararstjóri mun boða farþega sína í stutta hjólaferð eða ferðir hér heima áður en haldið verður erlendis. Ennfremur verður einn undirbúningsfundur með fararstjóra.

 
  
 
Verð: 229.900 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 32.200 kr.

 
 Toskana Vín
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
• Ferðir á milli flugvallarins í Mílanó og hótelsins.
• Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4 stjörnu hóteli.
• Morgunverðarhlaðborð.
• Vel útilátinn 3 rétta kvöldverður á hóteli.
• Hjóladagskrá.
• Rútuferðir tilbaka frá stöðum samkvæmt prógrammi.
• Íslensk fararstjórn
• Staðarleiðsögn í hjólaferðum

 
 
Ekki innifalið:

Leiga á 21 gíra hjóli í 6 daga er 24.500 kr. Leiga á rafmagnshjóli í 6 daga er 30.200 kr. Hjólataska 5.700 kr. Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur. Hádegisverðir og þjórfé. Aðgangur að heilsulind hótelsins.

 
 
Valfrjálst:

Vínsmökkun hjá vínbónda ca. € 15.

 
 
 


  
Ferðaskilmálar Bændaferða

 
 
 

 

Tengdar ferðir