20. september Flug til Genf & rómverska borgin Orange
Brottför frá Keflavík kl. 7.20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Genf kl. 13.00 að staðartíma. Ekin verður fögur leið inn í Frakkland til gömlu borgarinnar Orange, sem er fræg fyrir fornar rómverskar minjar, meðal annars mikilfenglegt hringleikahús. Við gistum 2 nætur í miðborg Orange.
21. september Ardéche gilið & Chauvet hellir með hellamyndum
Í dag skoðum við einstaka náttúrufegurð í Ardéche gili, en gilið er um 300 m hátt og 30 km langt. Mikill kraftur er í Ardéche ánni þar sem hún liðast um dalinn. Hún hefur víða brotið sig inn í bergið og myndað hella, boga og skör sem gerir gilið að ævintýrastað með einstakt landslag. Við njótum útsýnis yfir gilið á leið okkar. Árið 1994 fannst hellir í Vallon- Pont-d‘Arc með 32.000 ára gömlum hellamálverkum. Þetta er einn merkasti fornleifafundur sögunnar. Þessi hellir heitir Chauvet og nú er búið að gera eftirlíkingu af honum suður af gilinu í Pont-d‘Arc og komum við til með að skoða endurgerðina.
22. september Orange, Salvador Dalí & Tossa de Mar á Spáni
Við yfirgefum Orange og höldum til Spánar. Á leið okkar heimsækjum við Figueres, fæðingarstað Salvador Dalí, þangað sem um 600.000 ferðamenn koma árlega. Safnið Dalí Teatre-Museu er eitt mikilvægasta aðdráttarafl ferðaþjónustunnar í Katalóníu og er heilt ævintýri að koma þar inn, en Dalí sjálfur hannaði safnið. Bærinn er mjög líflegur og skemmtilegur og upplagt að fá sér hressingu áður en farið verður inn á safnið. Síðdegis höldum við ferð okkar áfram til miðaldarbæjarins Tossa de Mar við Costa Brava ströndina. Hér munum við gista 7 nætur á góðu hóteli í miðbænum. Á hótelinu er að finna útisundlaug og frábæra sólbaðsaðstöðu. Einnig er heilsulind og innilaug með nuddi, sauna og gufubaði.
23. september Rólegur dagur í Tossa de Mar & gönguferð
Við hefjum daginn á að kynna okkur heillandi staðarhætti í gönguferð um Tossa de Mar. Elsti hluti bæjarins, klettabærinn Vila Vella, er umkringdur borgarmúrum og turnum frá 14. öld. Að koma þar inn er eins og að ferðast aftur í tímann, en það ótrúlega er, að enn er búið í gömlu húsunum innan virkisveggjanna. Frá Vila Vela er stórkostlegt útsýni yfir klettaströnd Tossa. Að skoðunarferðinni lokinni gefst hverjum og einum frjáls tími til að kanna umhverfið á eigin vegum og njóta veðurblíðunnar. Fyrir áhugasama eru fornar minjar frá rómverskum tímum að finna í nágrenni hótelsins, en í bænum eru einnig margar huggulegar, litlar verslanir.
.jpg?&w=300)
24. september Heimsborgin Barcelona
Í dag heimsækjum við heimsborgina Barcelona, höfuðborg Katalóníu sem er með fegurstu borgum álfunnar. Hún er þekkt fyrir byggingar arkitektsins Gaudí, en glæsilegar byggingar skreyta borgina hvert sem litið er. Borgin er mjög gömul og saga hennar merkileg, en fegurð hennar og gestrisni íbúanna gera dvölina einstaka. Af merkum byggingum má nefna kirkjuna La Sagrada Familia eftir Gaudí og húsin Casa Battló, Casa Milá og garðinn Güell. Einnig verður ekið upp á hæðina Montjuïc, en þaðan er fallegasta útsýnið yfir borgina.
25. september San Feliu de Guíxols & útimarkaður
Þetta verður léttur og skemmtilegur dagur, því nú ætlum við að aka töfrandi leið með Costa Brava klettaströndinni sem er rómuð fyrir náttúrufegurð. Áfangastaður okkar er San Feliu de Guíxols bærinn sem stendur við undurfagra klettavík og gullna strönd. Þar er skemmtilegur útimarkaður fyrir hádegi. Við snúum til baka um hádegisbil og erum komin snemma heim á hótel.
26. september Montserrat klaustrið
Í dag heimsækjum við Montserrat klaustrið. Það var stofnað á 9. öld og stendur í 720 m hæð í Katalónsku hæðunum. Um hádegisbil fáum við að hlýða á tónleika hjá hinum fræga drengjakór klaustursins Escolania del monestir de Montserrat. Í kórnum eru 50 drengir á aldrinum 9-14 ára sem syngja þar daglega. Útsýnið frá klaustrinu er stórbrotið og fjallasýn ólýsanleg.
27. september Skemmtileg sigling til Lloret de Mar
Að loknum morgunverði verður farið í siglingu til Lloret de Mar, eins vinsælasta ferðamannabæjarins við ströndina. Þetta er mjög líflegur og skemmtilegur bær sem gaman er að rölta um. Þar er að finna fallegu kirkjuna Santa Roma frá 16. öld. Einnig er hægt að fara í skemmtilega göngu með ströndinni að miðaldavirkinu Sant Joan frá 11.öld. Siglum til baka eftir góðan tíma í bænum.
28. september Frjáls dagur í Tossa de Mar
Frjáls dagur til að hvíla sig, njóta sólarinnar, láta dekra við sig á heilsulind hótelsins eða kanna umhverfið í rólegheitum.
29. september Tossa de Mar & Annecy, perla frönsku Alpanna
Eftir yndislega daga á Spáni, kveðjum við Tossa de Mar og ökum skemmtilega leið yfir til Annecy, sem nefnd hefur verið perla frönsku Alpanna. Líkt og Feneyjar er þessi glæsilega borg lögð fallegum síkjum sem gefa borginni einstakan blæ. Hér gistum við í 2 nætur á góðu hóteli í miðbænum. Hótelið er mjög vel staðsett og stutt er í verslanir og að vatninu.
30. september Dagur í Annecy & skoðunarferð
Eftir morgunverð förum við í gönguferð um Annecy,
eina af elstu borgum frönsku Alpanna. Byggingar borgarinnar eru margar hverjar frá 16.-18. öld og yfir henni gnæfir höllin Château d'Annecy. Bæjarstæðið er einstaklega fagurt, en bærinn stendur á milli fjallanna við Annecy vatnið. Eftir hádegið verður hægt að fara í siglingu á vatninu eða skoða sig betur um í borginni.
1. október Heimferð frá Genf
Eftir glæsilega og skemmtilega ferð verður ekið til Genfar. Brottför þaðan kl. 14.00 og lending í Keflavík kl. 15.50 að staðartíma.
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.
Verð: 244.400 kr. á mann í tvíbýli. Mikið innifalið – athugið sérstaklega!
Aukagjald fyrir einbýli er 59.900 kr.
.jpg?&w=300)
Innifalið:
• Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Íslensk fararstjórn.
Ekki innifalið:
Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll. Siglingar og vínsmökkun. Hádegisverðir. Þjórfé.
Valfrjálst:
Chauvet hellir ca. 13 €. Salvador Dalí safnið í Figueres ca. € 9. Sigling til Lloret de Mar ca. € 20. Sigling á Annecy vatni ca 14 €.