Hjólað um ítölsku rivíeruna

Í yfir heila öld hefur strandlengja Lígúríu verið einn vinsælasti ferðamannastaður Evrópu. Sólardagar ár hvert telja um 280 og loftslagið er einstaklega milt. Við heimsækjum fallegustu staði Ponente rivíerunnar eða hinnar svokölluðu blómarivíeru. Hjólað verður eftir gömlu lestarleiðinni til strandbæjarins San Remo en þar er frægt spilavíti í glæsilegri byggingu. Einnig komum við til smærri bæja líkt og San Lorenzo al Mare sem er frægur fyrir ólífuolíuna sína, fiskiþorpsins Arma di Taggia og nornabæjarins Triora. Litríkur gamli bæjarhluti Taggia tekur á móti okkur sem og listamannaþorpið Bussana Vecchia. Við skreppum til Frakklands þar sem við hjólum frá Nice til vinsæla ferðamannastaðarins Antibes sem er umlukinn borgarvirki frá 16. öld. Hjólum því næst til kvikmyndaborgarinnar Cannes. Á frídeginum gefst tækifæri til að heimsækja furstadæmið Mónakó. Í þessari töfrandi hjólaferð verða hvert sem litið er á vegi okkar skrautjurtir, pálmatré, ólífulundir, glæsihús í júgendstíl, fallegir miðaldabæir og fornar hallir.

Verð á mann í tvíbýli 274.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 47.900 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í Mílanó og hótelsins.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4 stjörnu hóteli.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hóteli.
 • Aðgangur að útisundlaug hótelsins.
 • Ein vatnsflaska á dag.
 • Hjólaprógramm í 5 daga.
 • Skoðunarferð til Mónakó með rútu.
 • Innlend leiðsögn í hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á 24 gíra hjóli í 6 daga 35.500 kr.
 • Leiga á rafhjóli í 6 daga 46.600 kr.
 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Siglingar, lestarferðir og leigubílaakstur.
 • Hádegisverður.
 • Þjórfé.

Undirbúningur

Þetta er létt til miðlungserfið hjólaferð sem ætti að henta flestu hjólafólki. Dagleiðirnar spanna um 40 -50 km. Meðal hækkun er 200-300 m. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Fararstjóri mun boða farþega sína í stutta hjólaferð eða ferðir hér heima áður en haldið verður utan. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Flug

Flogið verður með Icelandair til Mílanó þann 13. júní. Brottför frá Keflavík kl. 16:45 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 23:00 að staðartíma. Frá Malpensa flugvellinum eru ca 300 km til hótelsins í Santo Stefano al Mare svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki um 4 klst. Á heimleið 20. júní er flogið frá Malpensa flugvellinum í Mílanó kl. 23:50. Lending á Íslandi kl. 02:05 að staðartíma, aðfaranótt 21. júní.

Tillaga að dagleiðum 14. - 19. júní

Bjarni Torfi Álfþórsson fararstjóri er reyndur hjólamaður og mun hann skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við enskumælandi innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum alla hjóladagana. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir fimm hjóladaga sem fararstjóri getur skipulagt ásamt því að breyta eða bæta við stöðum. Gert er ráð fyrir einum frídegi.

1. San Remo

Frá hótelinu liggur hjólaleið dagsins meðfram ströndinni og hjólað verður eftir gömlu lestarleiðinni til strandbæjarins San Remo. Þessi leið er einstök og bíður upp á dásamlegt útsýni yfir ströndina. San Remo er einn elsti vetrardvalarstaðurinn á þessum slóðum og þar er að finna frægt spilavíti í glæsilegri byggingu. Við upplifum þennan fallega bæ hjólandi og gefum okkur tíma til að fá okkur hressingu áður en hjólað er til baka á hótelið. 

 • Vegalengd: ca 40 km
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið
Opna allt

2. Nornabærinn Triora

Í dag förum við frá hótelinu og hjólum út í úthverfi sem er með einstökum miðaldablæ. Þaðan liggur leiðin í svonefndan Argentínudal en um hann rennur samnefnd á. Skógivaxnar hlíðar til beggja handa með litlum þorpum, eins konar listaverk í guðsgrænni náttúrunni. Brátt komum við að fyrsta dæmigerða þorpi þessa dals, Badalucco, og skömmu síðar erum við í Malino di Triora. Senn náum við takmarki dagsins, þorpinu Triora sem er hrífandi miðaldabær í 800 m hæð yfir sjávarmáli. Þorpið er þekkt sem „þorp nornanna“ og fyrir einstaklega gómsætt brauð. Þaðan hjólum við svo til baka á hótel.

 • Vegalengd: ca 40 km
 • Hækkun: 780 m
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið

3. Arma di Taggia, Bussana Vecchia, Taggia

Frá hótelinu höldum við í notalegan hjólatúr um sveitir Lígúríu. Við þræðum litla bæi og byrjum á því að heimsækja litla sjávarþorpið Arma di Taggia. Áfram höldum við til listamannabæjarins Bussana Vecchia en bærinn fékk endurnýjun lífdaga snemma á sjöunda áratugnum eftir að hafa verið yfirgefinn draugabær. Að síðustu tekur litríki gamli bæjarhluti Taggia á móti okkur, sem er þekktur fyrir ólífur og söguminjar.

 • Vegalengd: ca 40 km
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið

4. Frjáls dagur & Mónakó

Þennan dag er tilvalið að láta hugsanlegar harðsperrur líða úr sér og njóta þess sem hótelið hefur upp á að bjóða, slappa af við sundlaugina eða kynna sér nágrennið á eigin vegum. Einnig stendur til boða að heimsækja furstadæmið Mónakó, stundum kallað dvergríkið Mónakó. Þar er m.a. hægt að skoða kaktusgarðinn en þaðan er glæsilegt útsýni yfir borgina og klettinn sem gamli bærinn var reistur á. Fara í skoðunarferð um klettaborgina en þar er að finna höll furstafjölskyldunnar og dómkirkjuna þar sem Grace Kelly var borin til grafar. Einnig er gaman að skoða glæsilega byggingu Grand Casino spilavítisins í Monte Carlo hverfinu.

5. Cannes, Antibes & Nice

Í dag verður farið með rútu til heillandi borgarinnar Nice við Côte d’Azur í Provence héraði í Frakklandi. Þaðan verður hjólað framhjá Cagnes og Villeneuve Loubet áður en haldið verður til Antibes sem er einn elsti miðaldabærinn við Côte d’Azur. Antibes er oft nefndur paradís strandarinnar og er ekki að undra að m.a. listamennirnir Picasso og Henri Matisse hafi fengið innblástur hér fyrir mörg af verkum sínum. Áfram höldum við að Cap d’Antibes, framhjá glæsihýsum og dásamlegum ströndum með stórfenglegu útsýni yfir hafið og eyjarnar í Cannes. Þaðan verða hjólaðir 22 km eftir hinni frægu Promenade de la Croisette til miðbæjar Cannes og að kvikmyndahöllinni þar sem rauði dregillinn er staðsettur á meðan á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni stendur ár hvert. Þá gefst líka tími til að smakka hina hefðbundnu Tarte au Citrone.

 • Vegalengd: ca 40 km
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið

6. San Lorenzo al Mare – Imperia – Dolcedo

Frá hótelinu hjólum við í gegnum ólífuekrur til Dolcedo en staðurinn er þekktur fyrir framleiðslu á ólífuolíu. Á leiðinni sjáum við líka rómverska steinakapellu og heillandi miðaldaþorp. Síðdegis komum við að strandbænum Imperia, skoðum gamla bæjarhlutann Porto Maurizio og njótum lífsins á þessum fallega stað. Við hjólum til baka eftir strandlengjunni til Santo Stefano al Mare og munum þá hjóla framhjá Oneglia, fornu höfn Imperia.

 • Vegalengd: ca 50 km
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er fæddur 1960, menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur. Hann starfaði í átta ár í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík, þrjú ár sem grunnskólakennari og í 11 ár í hugbúnaðargeiranum. Frá árinu 2011 hefur Bjarni verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi.

Hótel

Best Western Hotel Anthurium

Gist verður á 4* Best Western Hotel Anthurium í Santo Stefano al Mare. Hótelið er staðsett 100 m frá ströndinni á milli Imperia og San Remo. Herbergin eru með loftkælingu, míníbar, sturtu, hárþurrku, sjónvarpi með gervihnattastöðvum og öryggishólfi. Í garðinum er þægileg sundlaug og hugguleg sólbaðsaðstaða með bekkjum.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir