Bilbao & Baskaland

Í þessari glæsilegu ferð um Baskahéruð Spánar upplifum við í senn dásamlega  náttúrufegurð, heillandi menningu og iðandi mannlíf. Ferðin hefst í Madríd, höfuðborg Spánar, og munum við skoða markverðustu staði hennar en borgina einkennir afar fallegur miðaldablær. Við förum um Baskahéraðið á Norður-Spáni og njótum nærveru Cantabria fjalla á leið til Burgos, einnar mikilvægustu borgar á hinum þekkta Jakobsvegi, en þar hafa varðveist merk ummerki frá blómaskeiði borgarinnar. Í líflegu hafnarborginni Bilbao gefst okkur tækifæri til að skoða hið fræga Guggenheimsafn og á för okkar með ströndinni til Santander, mætir okkur hrífandi fegurð. Farið verður til Comillas, sem er litríkur sjávarbær, og San Sebastian þar sem við fetum í fótspor kvikmyndastjarna og virðum fyrir okkur perluhvítan sandinn við baðströndina Bahía de la Concha við Biscaya flóann. Að endingu förum við um hjarta Spánar, fallega héraðið Kastilia. 

Verð á mann í tvíbýli 349.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 93.600 kr. 

 
Innifalið

 • 8 daga ferð
 • Flug með Play og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður á hótelum.
 • Sex kvöldverðir á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Einn kvöldverður í Madríd. 
 • Siglingar og ferjur. 
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Guggenheimsafnið. Athugið að nauðsynlegt er að gestir bóki miða á safnið tímanlega en það má gera í gegnum vefsíðu safnsins.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

9. júní | Flug til Madríd

Brottför frá Keflavík kl. 15:00. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Madríd kl. 21:25 að staðartíma. Í Madríd verður gist í tvær nætur á hóteli.

10. júní | Skoðunarferð um Madríd

Madríd er höfuðborg Spánar og situr á miðjum Iberíuskaganum í 667 m hæð yfir sjávarmáli. Borgina einkennir fallegur miðaldarblær og skreytt hús og byggingar frá Habsborgartímanum vekja verðskuldaða athygli. Við byrjum á að fara í skoðunarferð um áhugaverðustu staði borgarinnar en síðan gefst góður tími til að njóta þess sem borgin hefur upp á bjóða á eigin vegum. Listasöfn borgarinnar eru víðfræg, El Prado þar fremst í flokki. Einnig er gaman að virða fyrir sér glæsilegu konungshöllin El Palacio Real. Einstaklega gaman er að rölta um þessa líflegu borg og njóta spænskra veitinga á spennandi kaffihúsum, börum eða veitingahúsum og kíkja jafnvel á kaupmennina. Kvöldverður á eigin vegum.

11. júní | Burgos & Bilbao

Nú kveðjum við Madríd og höldum út á hásléttuna með fjallstindana við sjóndeildarhringinn. Áð verður í miðaldaborginni Burgos í sjálfsstjórnarhéraðinu Castille-León. Þetta er ein af mikilvægustu borgunum á Jakobsveginum og hér hafa varðveist merk ummerki frá blómaskeiði borgarinnar á miðöldum. Eitt af meistaraverkum gotneskrar byggingarlistar er dómkirkjan sem áhugavert er að skoða. Hér verður farið í stutta skoðunarferð og eftir það verður gefinn tími til að fá sér hressingu og kanna líf bæjarbúa. Ekið verður áfram til hafnarborgarinnar Bilbao í Baskahéraði þar sem gist verður í fimm nætur.

Opna allt

12. júní | Skoðunarferð um Bilbao

Bilbao er ein helsta hafnarborg Spánar. Eitt frægasta kennileiti borgarinnar er hið fræga Guggenheim listasafn sem hannað var af Frank Ghery. Farið verður í fróðlega skoðunarferð en söguleg arfleið og menning sést vel á arkitektúr og glæsilegum byggingum sem skreyta elsta hluta borgarinnar. Að skoðunarferð lokinni er frjáls tími þar sem þeir sem áhuga hafa geta farið á Guggenheimsafnið (athugið að nauðsynlegt er að bóka með góðum fyrirvara) og aðrir geta notað tímann til að endurnærast á einum af vínbörunum eða tapas veitingastöðunum sem borgin er þekkt fyrir.

13. júní | Santander & Comillas

Heillandi náttúrufegurð mætir okkur í dagsferð með fram Cantabria ströndinni til Santander, sem er höfuðstaður héraðsins. Santander var á miðöldum mikilvæg hafnarborg en er í dag vinsæll baðstrandarbær. Á 19. öld fór aðallinn og ríkar fjölskyldur frá Spáni að sækja hér til strandarinnar og ber hverfið El Sardinero þess merki. Lúxushótel, spilavíti og litlar sumarhallir setja mark sitt á umhverfið og sjálfur Spánarkonungur, Alfons VIII, byggði hér einnig. Sumarhöll hans reis á tanganum La Magdalena en þar nú er starfræktur sumarháskólinn Ménéndes Palayo. Hafnarhverfið Barrio Pesquero á sér langa sögu og þangað er skemmtilegt að koma, jafnvel væri tilvalið að fá sér þar hádegisverð. Síðdegis verður ekið í litríkan og skemmtilegan bæ, Comillas, þar sem margt áhugavert er að skoða s.s. höllin Marqueser de Comillas en í garði hennar er fallegt lystihús eftir sjálfan Antoni Gaudí. Það hýsir nú einn þekktasta veitingastað bæjarins.

14. júní | Frjáls dagur í Bilbao

Í dag tökum við það rólega í Bilbao. Upplagt er að skoða borgina betur á eigin vegum og njóta þess að hafa nægan tíma til að rölta um götur hennar, sýna sig og sjá aðra. Áhugasamir gætu einnig farið á Guggenheimsafnið í dag (athugið að nauðsynlegt er að bóka með góðum fyrirvara) og eins er hægt að líta inn á kaupmenn og á eitthvert hinna fjölmörgu kaffi- og veitingahúsa.

15. júní | Skoðunarferð til San Sebastian

Í ferð dagsins liggur leið okkar í hina áttina með fram þeirri fögru strönd til San Sebastian við Biscaya flóann. San Sebastian bærinn er svo sannarlega réttnefndur perla flóans en baðströndin Bahía de la Concha hefur verið einn þekktasti ferðamannastaður Baskahéraðs allt frá 19. öld. Lögun strandarinnar minnir á skel og gerir bæjarstæðið undurfagurt. Við förum í skoðunarferð um elsta hluta borgarinnar þar sem við fetum í fótspor kvikmyndastjarna sem dvelja hér ár hvert meðan á kvikmyndahátíð stendur. Að lokinni skoðunarferðinni gefst tími til að njóta lífsins og skoða sig betur um í borginni.

16. júní | Heimflug frá Madríd

Heimferðardaginn kveðjum við Baskahérað eftir yndislega daga og höldum til Madríd. Á leiðinni verður ekið um hjarta Spánar, fallega héraðið Kastilia. Hvarvetna verðum við vitni að því hvernig stórfenglegir kastalar og hrífandi kirkjur setja svip sinn á borg og bæi en héraðið er fyrrum greifadæmi og var um tíma konungsríki. Að sjálfsögðu verður staldrað við á fallegum stað á leiðinni til að fá sér hressingu. Heimflug er frá Madríd kl. 22:25 og lending í Keflavík kl. 01:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Aðalheiður Jónsdóttir

Aðalheiður, eða Alla eins og hún er alltaf kölluð, hefur verið fararstjóri á Costa del Sol, Mallorca, Kanaríeyjum, í Portúgal og Brussel, auk þess sem hún hefur verið leiðsögumaður innanlands fyrir smærri hópa. Á ferðalögum leggur hún áherslu á að njóta þess sem áfangastaðurinn hefur upp á að bjóða og njóta ólíkrar menningar.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00
Póstlisti