Fljótasigling á Dóná

Á siglingu um Dóná líðum við áfram um fjölbreytilegt landslag þar sem fallegar, gamlar borgir, glæsilegir kastalar og lítil þorp skapa myndir sem minna á falleg málverk. Við fljúgum beint til München og ökum til Linz í Austurríki þar sem farið er um borð í skipið MS Modigliani. Hér í hjarta Evrópu ætlum við á næstu dögum að kynnast sögu og menningu fólksins við ána. Við byrjum á því að kasta akkeri í tónlistarborginni Vínarborg og skoðum þar m.a. fallegu Schönbrunn höllina, siglum áfram til Búdapest í Ungverjalandi þar sem sjá má óteljandi brýr og glæsilegar barokkbyggingar og förum um hið rómantíska láglendi Puszta sléttunnar. Áfram er siglt til Bratislava, höfuðborgar Slóvakíu og helstu kennileiti borgarinnar skoðuð. Við siglum upp Dóná, stoppum í bænum Dürnstein og göngum um heillandi miðbæinn. Þaðan er haldið aftur til Linz með viðkomu í forna klaustrinu Melk en í Linz stígum við á land og ökum til Passau þar sem við skoðum okkur um áður en ekið verður á gististað í Bad Griesbach.

Verð á mann í tvíbýli á aðalþilfari 419.900 kr.

94.900 kr. aukagjald fyrir einbýli á aðalþilfari.

51.800 kr. aukagjald á mann í tvíbýli á efra þilfari.

Ekki er hægt að fá einbýli á efra þilfari.

Vinsamlegast athugið að dagskrá ferðarinnar getur raskast vegna breytinga á vatnsyfirborði siglingaleiða, bilunar í skipastigum eða annarra óvæntra aðstæðna.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Sigling og gisting á skipinu MS Modigliani í 2ja manna klefa með sturtu/salerni í 6 nætur.
  • Fullt fæði á skipinu MS Modigliani.
  • Móttökudrykkur á skipinu.
  • Allir drykkir eru innifaldir meðan á siglingu stendur (fyrir utan drykki á sérseðli).
  • Hátíðarkvöldverður um borð í skipinu.
  • Óperettukvöld um borð í skipinu.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Aðgangseyrir í Schönbrunn höllina, á hestasýningu og í klaustrið í Melk.
  • Hótelgisting í Bad Griesbach í eina nótt í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverður á hóteli í Bad Griesbach.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverður í Bad Griesbach. 
  • Vínsmökkun.
  • Þjórfé.
  • Þjórfé fyrir áhöfnina u.þ.b. 30 € á mann. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

3. september | Flug til München & ekið til Linz

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið til Linz í Austurríki þar sem farið verður um borð í skipið MS Modigliani. Við verðum boðin velkomin með drykk og áhöfnin kynnt. Landfestar leystar og við eigum síðan notalega kvöldstund yfir mat og drykk. Gist verður um borð í skipinu í 6 nætur.

4. september | Vínarborg

Komið verður til Vínarborgar fyrir morgunverð en að honum loknum bíður okkar skoðunarferð að Schönbrunn höllinni sem byggð var á árunum 1692–1780 sem sumarhöll Mariu Theresiu keisaraynju og fjölskyldu hennar. Höllin, sem er með fallegustu síðbarokkhöllum Evrópu, var einnig notuð af öðrum Habsborgurum s.s. Sissí drottningu og Franz eiginmanni hennar. Farin verður skoðunarferð um höllina en þaðan er gott útsýni yfir glæsilegan hallargarðinn. Þar má finna gosbrunna í barokkstíl, Gloriette heiðursminnisvarða herliðs keisarans ásamt elsta dýragarði í heimi. Eftir það verður hinn svokallaði hringvegur ekinn þar sem margar af glæsibyggingum borgarinnar er að finna, m.a. óperuhúsið, borgarleikhúsið, þinghúsið og ráðhúsið ásamt fjölmörgum minnisvörðum og grænum svæðum. Hádegisverð snæðum við um borð í skipinu en eftir hann gefst frjáls tími til að skoða Vínarborg á eigin vegum. Að kvöldverði loknum ökum við um Vínarborg og upplifum hana að kvöldlagi en það er stórkostleg upplifun að sjá voldugar byggingar borgarinnar upplýstar að kvöldi.

5. september | Búdapest

Eftir hádegi verður komið til Búdapest, sem oft er nefnd perla Dónár. Það er hrífandi stund þegar allar glæsilegustu byggingar borgarinnar og ótal brýr blasa við frá ánni og um að gera að missa ekki af því. Borgarhlutarnir tveir, hallar - og borgarhverfið, Búda og Pest, sem Dóná skilur að, eru tengdir saman með fjölda, voldugra og fallegra brúa. Eftir að akkerum hefur verið kastað, verður farin skoðunarferð um borgina. Við dáumst að hetjutorginu fræga, mörgum glæsilegum barokkbyggingum og hinu einstaka þinghúsi við ána. Ekið verður upp á Gellért hæðina að hallarhverfinu en þar er að finna Matthíasarkirkjuna sem var konungskirkja ungverska konungsins og virki fiskimannanna, Halászbástya. Þaðan er frábært útsýni yfir ána og þinghúsið. Eftir kvöldverð er boðið upp á óperettukvöld í salnum á skipinu. Skipið verður yfir nótt í Búdapest.

Opna allt

6. september | Puszta sléttan

Eftir morgunverð verður ekið út á Puszta slétturnar, sem hafa verið yrkisefni óteljandi söngvaskálda. Í hádeginu verður boðið upp á einn af þjóðarréttum landsins, gúllas með ungversku víni undir ógleymanlegum sígaunafiðluleik. Puszta sléttan er fræg fyrir hestamennsku og við sjáum glæsilega reiðsýningu. Eftir hádegi höldum við aftur til skips þar sem við fáum kaffi og meðlæti og eigum að því loknu frjálsan tíma í Búdapest til að njóta þess sem borgin hefur upp á að bjóða. Eftir kvöldverð um borð í skipinu kveðjum við Búdapest og siglum áleiðis til Bratislava í Slóvakíu.

7. september | Bratislava

Um hádegisbil kemur skipið okkar að slóvakísku höfuðborginni Bratislava. Við höldum í áhugaverða skoðunarferð um borgina þar sem við sjáum m.a. Martins dómkirkjuna, erkibiskupahöllina og þjóðleikhúsið. Seinni partinn verða landfestar leystar og siglt áfram upp Dóná. Í kvöld verður hátíðarkvöldverður um borð í skipinu.

8. september | Dürnstein & Melk

Yfir nótt fer skipið fram hjá Vínarborg og árla morguns verður lagt að landi í bænum Dürnstein í vínhéraðinu Wachau. Eftir góðan morgunverð verður frjáls tími til að rölta um þennan litríka bæ. Fyrir hádegi leggjum við síðan af stað til litlu borgarinnar Melk og njótum þess að sjá fagurt landslag líða hjá á leiðinni. Eitt fallegasta og frægasta klaustur Austurríkis gnæfir yfir Melk. Farið verður með rútu upp að klaustrinu og skoðum við þetta svæði sem byggt var upp fyrir um 900 árum en klausturskirkjan er eitt af meistaraverkum barokklistar í landinu. Um kvöldið kveðjum við Melk og siglum í átt að Linz.

9. september | Linz & Passau

Að morgunverði loknum kveðjum við fljótaskipið í Linz og ökum til Passau í Þýskalandi, sem stendur við ármót Dónár, Inn og Ilz í Bæjaralandi. Árnar þrjár setja svo fallegan svip á borgina að hún er talin með sjö fallegustu borgarstæðum í heimi. Við förum í skoðunarferð um Passau áður en haldið verður til Bad Griesbach þar sem gist verður í eina nótt.

10. september | Heimferð

Nú er ferðin á enda og að loknum morgunverði munum við aka út á flugvöll í München. Brottför er þaðan kl. 14:05 og er áætluð lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Pavel Manásek

Pavel Manasek hóf píanónám sex ára gamall. Hann lagði stund á orgelleik í Konservatoríinu í Kromeris og síðan í Prag-akademíunni. Pavel starfaði sem organisti og söngstjóri við Háteigskirkju 1993-1999 og á árunum 1991-1993 sem organisti og skólastjóri Tónlistarskólans á Djúpavogi. Jafnframt var hann undirleikari og hjá leiklistardeild Listaháskóla Íslands. 

Skip

MS Modigliani

MS Modigliani tilheyrir frönsku skipafyrirtæki og var tekið í notkun árið 2001. MS Modigliani er 110 m langt og tekur um 160 farþega. Boðið verður upp á hlaðborð á morgnana, en þjónað til borðs í hádegis- og kvöldverði. Allir drykkir eru innifaldir meðan á siglingu stendur, vín, bjór, sterkir drykkir, vatn, gos, kokteilar, kaffi og kökur. Klefarnir eru allir með sérbaðherbergi, glugga, hárblásara, sjónvarpi og öryggishólfi. Loftræstikerfi er í öllum klefunum. 

Vinsamlegast athugið að dagskrá ferðarinnar getur raskast vegna breytinga á vatnsyfirborði siglingaleiða, bilunar í skipastigum eða annarra óvæntra aðstæðna.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir




Póstlisti