10. – 16. ágúst 2020 (7 dagar)
Spennandi ferð til höfuðborgar Eistlands, Tallinn sem er ein best varðveitta miðaldaborg í Norður-Evrópu.
Flogið verður til Helsinki og þaðan siglt til Tallinn. Farið verður í skoðunarferð um þessa rómantísku 800 ára gömlu borg og gengið eftir þröngum steinlögðum götum á milli vel varðveittra bygginga frá 11. - 15. öld. Því næst heimsækjum við hina stórfenglegu Pétursborg sem var höfuðborg Rússlands á árunum 1712-1918. Borgin hét Leningrad áratugum saman, til heiðurs Lenin og bar hún það nafn þar til eftir fall Sovétríkjanna árið 1991. Pétursborg er án efa miðstöð menningar og lista og gætir áhrifa borgarinnar á bókmenntir, tónlist og leiklist víða um heim. Margir telja borgina eina þá fallegustu í heimi, en miðbær hennar er á heimsminjaskrá UNESCO. Farið verður í áhugaverðar skoðunarferðir um borgina þar sem við kynnumst sögu og menningu landsins. Skoðum m.a. virki heilags Péturs og Páls, dómkirkju heilags Ísaks og Vetrarhöllina. Hér er því margt sem gleður augað og margir hápunktar í þessari einu og sömu ferð!