Kastalar & klettastrendur Suður-Englands

Voldugir kastalar, stórskornar strandlengjur sem rísa yfir hafinu bláa og strandbærinn Torquay við sjávarsíðu Suður-Englands, eru meðal þess sem hægt er að njóta í þessari spennandi ferð. Glæsilegar hallir endurspegla líf breska fyrirfólksins á árum áður og er konungshöllin Windsor í London, þar sem saga Englands hefur verið skrifuð í gegnum aldirnar, sérstaklega áhrifarík. Bærinn Bath, sem kennir sig við heitar laugar, þær einu í öllu breska konungsveldinu, er einnig lýsandi dæmi um lífsstíl 18. aldar. Í Torquay má finna eina merkilegust steinaldarhella Evrópu og það er eins og að fara aftur í tímann að heimsækja bæinn Cockington með sínum dæmigerða enska smábæjarsjarma. Dartmoor héraðið með hæðóttu landslagi og vindsorfnum klettum er einstaklega myndrænt og það er sérlega áhrifamikið að koma til hins dularfulla Stonehenge sem er einn merkilegasti staður Bretlands. Það er líka ævintýralegt að ganga um Stourhead lystigarðinn sem fyrst var opnaður fyrir almenning árið 1740 og var þá lýst sem lifandi listaverki. Við njótum þess svo að skoða okkur um í líflegu borginni Brighton þar sem sjá má hinn þekkta Pier við ströndina og stórbrotnu höllina Royal Pavilion. Sögur og sjávarþorp, landslag og lystigarðar, mannlíf og menning, te og skonsur í þessari fjölbreyttu ferð. 

Verð á mann í tvíbýli 369.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 94.300 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
  • Aðgangur í Roman Baths safnið.
  • Aðgangur í Knighthayes Gardens.
  • Aðgangur í Kents steinaldarhella.
  • Aðgangur að Stonehenge.
  • Aðgangur að Stourhead lystigarðinum.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur, sem ekki er talið upp undir innifalið.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

10. ágúst │ Flug til London & Bath

Flug til London kl. 7:40 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í London kl. 11:55 að staðartíma. Við ökum af stað til Bath þar sem við gistum fyrstu nóttina. Bærinn Bath kennir sig við heitar laugar, þær einu í öllu breska konungsveldinu. Við förum í stutta skoðunarferð um miðborgina fyrir kvöldmat á hótelinu.

11. ágúst │ Bath

Þennan dag ætlum við að skoða okkur betur um í Bath en hér eru merkilegar minjar frá tímum Rómverja. Royal Crescent byggingin sem byggð var í hálfboga og endurspeglar vel lífsstíl 18. aldarinnar og Pulteney brúin sem var hönnuð árið 1769 og er svo gott dæmi um georgískan arkitektúr. Við skoðum að sjálfsögðu rómönsku böðin þar sem fyrrum íbúar Bath slökuðu á allt frá árinu 43 e.Kr. en höldum svo áfram ferð okkar og gistum næstu fjórar nætur á hóteli í Torquay.

12. ágúst │ Tintagel kastalinn & bær Doktor Martins

Í dag fáum við að njóta fallegs útsýnis á vesturströnd Cornwall en hátt yfir sjónum gnæfa rústir Tintagel kastalans, sem talinn er fæðingarstaður Artúrs konungs. Í fjörunni neðan við kastalann er hellir Merlíns, 330 metra langur hellir hvar voru heimkynni þessa þekkta galdrakarls. Við komum síðan við í sjávarþorpinu Port Isaac sem margir kannast við úr sjónvarpsþáttunum vinsælu um Doktor Martin. Bærinn er líka heimahöfn hins þekkta sönghóps Fisherman‘s friends.

Opna allt

13. ágúst │ Bærinn Cockington & Kents steinaldarhellarnir

Í Torquay má finna eina merkilegust steinaldarhella Evrópu, Kents hellana. Þegar við göngum í gegnum víðáttumikið völundarhús hellanna upplifum við sterkt þá tíma þegar þeir voru heimili forfeðra okkar sem kveiktu hér elda, smíðuðu verkfæri og drógu inn hin ýmsu ísaldar dýr í skjóli fyrir aftakaveðrum. Eftir að hafa skoðað hellana höldum við í bæinn Cockington en það er eins og að fara aftur í tímann að heimsækja hann og ganga eftir þröngum götunum og fram hjá húsum með hálmþökum. Sagan drýpur af hverju strái en hér er vatnsmylla, járnsmiðja og jafnvel krikketvöllurinn var á miðöldum dádýragarður. Við upplifum í Cockington dæmigerðan enskan smábæjarsjarma, röltum um og fáum okkur hádegishressingu áður en haldið verður aftur til Torquay.

14. ágúst │ Dartmoor

Þessi dagur er tileinkaður Dartmoor svæðinu en ekið er um þjóðgarðinn í hæðóttu landslagi með sérkennilegum klettamyndunum. Svæðið er heillandi með ám, grösugum engjum og fallegum þorpum og bæjum. Margar kvikmyndir hafa verið teknar á þessu svæði enda umhverfið einstaklega leyndardómsfullt. Við munum sjá fallega fossa og stöðuvötn, fornminjar allt frá bronsöld og aldrei er að vita nema það bregði fyrir sjaldgæfum fuglum og fiðrildum. Svo má geta þess að í Dartmoor búa stærstu sniglar í heimi. Við förum í rólegheitum um garðinn og njótum þess sem fyrir augu ber og fáum okkur te og skonsur i einhverju af hinum rótgrónu sveitaþorpum sem eru innan þjóðgarðsins.

15. ágúst │ Stourhead & Stonehenge

Nú yfirgefum við Torquay og stefnum í átt að Stonehenge. En þessi leyndardómsfulli steinhringur sem mörg þúsund árum eftir að hann var reistur veldur enn ófáum sérfræðingum heilabrotum. Á leiðinni til Stonehenge skoðum við hinn heimsfræga Stourhead lystigarð sem fyrst var opnaður fyrir almenning árið 1740 og var þá lýst sem lifandi listaverki. Við endum daginn í Brighton þar sem við gistum síðustu tvær nætur ferðarinnar.  

16. ágúst │ Gönguferð um Brighton & frjáls dagur

Eftir morgunverð verður farið í stutta gönguskoðunarferð með fararstjóra um Brighton. Við njótum þess svo að slaka á í þessari líflegu borg en hér er mikið úrval markaða, verslana og veitingastaða, ásamt hinum þekkta Pier við ströndina. Það er einnig áhugavert að skoða stórbrotna höll George IV, The Royal Pavilion, sem sumir flokka sem eina af mest töfrandi og framandi byggingum Bretlandseyja.

17. ágúst │ Winchester, Windsor & heimferð

Nú höldum við frá Brighton og ökum til Winchester sem er höfuðborg gamla konungsríkisins Wessex. Þar getum við ekki aðeins dáðst að dómkirkjunni heldur einnig að hringborði Artúrs konungs og riddara hans í Great Hall. Síðan er ekki úr vegi að rölta um götuna High Street þar sem finna má fjöldann allan af verslunum og kaffihúsum. Því næst er ferðinni haldið að Windsor kastala en breska konungsfjölskyldan, sem bar þýska ættarnafnið Saxe-Coburg-Gotha, tók upp nafn kastalans árið 1917. Þar í nágrenninu er Eton College en í skólann hafa gengið hvorki meira né minna en 20 breskir forsætisráðherrar sem og prinsarnir William og Harry. Við fáum okkur snemmbúinn kvöldverð í Windsor áður en við höldum á flugvöllinn í London. Flug til Íslands kl. 21:25 og lending í Keflavík kl. 23:40 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir




Póstlisti