Costa del Azahar & Valencia

Ævintýraleg ferð til Costa del Azahar á Spáni eða hinnar svokölluðu Appelsínustrandar. Ferðin hefst í hinni fögru Rómarborg og þar skoðum við Forum Romanum, Colosseum, Pantheon, Vatíkanið og Péturskirkjuna. Siglt verður síðan frá Civitaveccia til Barcelona, höfuðborgar Katalóníu, og stefnan tekin á Costa del Azahar ströndina sem er pálmum prýdd. Castell Papa Luna kastalinn stendur tignarlega uppi á háum kletti í hinum söguríka bæ Peñíscola sem verður okkar aðaldvalarstaður. Þessi rómantíski miðaldabær, sem er á lista yfir fallegustu bæi Spánar, er sögulegt verndarsvæði en stórbrotið landslagið hefur þjónað sem umgjörð í ótal kvikmyndum. Við hverfum aftur til miðalda í Morella en hún tilheyrir takmörkuðum fjölda borga um allan heim sem hafa varðveist nánast fullkomlega sem sögulegt útisafn. Við kynnumst einnig ólífurækt í heimsókn til stórbónda og skoðum áhugaverða safnið Valltorta þar sem við fræðumst um hellamálverk og förum í stutta hellaskoðun. Einnig sækjum við heim yndislega miðaldabæinn San Mateo. Sögufræga borgin Valencia er dásamleg og tímalaus fegurð hennar heillar. Þjóðgarðurinn Sierra de Espadán tekur á móti okkur og farið verður í ævintýralegri siglingu á ánni San José og um neðanjarðarhella hennar en hún er lengsta neðanjarðará í Evrópu. Einnig verður komið til Vilafamés sem talinn er með fallegustu smábæjum Spánar. 

Verð á mann 358.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 93.600 kr.


Innifalið

  • 13 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverðir á hótelum. 
  • Kvöldverðir á hótelinu í Peñíscola.
  • Ferjusigling frá Civitaveccia til Barcelona með gistingu um borð. 
  • Morgun- og kvöldverður á skipinu.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu. 
  • Sigling um bláa hellinn San José.
  • Heimsókn og snarl ásamt drykk hjá ólífubónda. 
  • Valltorta hellasafnið.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, kláfa og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Kvöldverðir í Róm.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Aðgangur í Páfahöllina u.þ.b. € 5.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

24. maí | Flug til Rómar

Brottför frá Keflavík kl. 07:50 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Róm kl. 14:25 að staðartíma. Róm var byggð á sjö hæðum og var á blómaskeiði sínu fyrsta borg heims til að ná einni milljón íbúa. Gist verður í þrjár nætur í þessari sögufrægu borg.
Kvöldverður á eigin vegum.

25. maí | Skoðunarferð um Rómaborg

Á dagskránni í dag er fróðleg skoðunarferð um hina fornu Róm og munum við staldra við á helstu stöðum borgarinnar. Meðal þess sem skoðað verður er Piazza Venezia, Kapítólhæð, Forum Romanum, Palatínhæð og munum við koma að Colosseum, Treví brunninum og Spænsku tröppunum. Einnig verður frjáls tími til að kynnast borginni og mannlífinu eins og hverjum og einum lystir.
Kvöldverður á eigin vegum.

26. maí | Péturskirkjan og frjáls tími í Róm

Eftir morgunverð verður haldið að Vatíkaninu og Péturskirkjunni, meistaraverkum síns tíma. Þeir sem vilja geta farið upp í kúpul kirkjunnar. Frjáls tími verður eftir hádegi og verður þá hægt að skoða Sixtínsku kapelluna og safn Vatíkansins á eigin vegum eða annað sem heillar í Rómaborg. Kvöldverður á eigin vegum.

Opna allt

27. maí | Frjáls tími í Róm & ferjusigling frá Civitaveccia til Barcelona

Nú er upplagt að njóta þessarar glæsilegu borgar en fáar borgir vekja eins mikla aðdáun og söguríka Róm. Ein af perlum borgarinnar eru Spænsku tröppurnar og Trevi brunnurinn sem er einnig frægur fyrir hið ljúfa líf kvikmyndar Fellínís, La dolce vita. Það er líka dásamlegt að stoppa á yndislega torginu Piazza Navona þar sem listamenn sitja og bjóða verk sín og finna má fjöldann allan af skemmtilegum veitingahúsum. Svo má ekki gleyma Piazza della Rotonda torginu við best varðveittu fornbyggingu Rómar, Pantheon. Kaupmenn láta sig ekki heldur vanta í borginni, fínar verslanir eru við Spænsku tröppurnar en aðalverslunargöturnar eru Via del Corso og Via dei Condotti. Seinnipartinn verður stefnan tekin á hafnarborgina Civitaveccia þar sem við stígum um borð í skip sem siglir með okkur til Barcelona. Gist verður í tveggja manna klefum með baðherbergi.

28. maí | Sigling til Barcelona & Peñíscola við Appelsínuströndina

Í dag verðum við á siglingu til Barcelona. Við komuna þangað verður stefnan tekin á Costa del Azahar eða Costa dels Tarongers eins og Katalóníubúar kalla hana, Appelsínuströndina. Við gistum í átta nætur í Peñíscola sem er á lista yfir fallegustu bæi Spánar og er einnig sögulegt verndarsvæði. Við hótelið er útisundlaug, heitur pottur og sólbekkir. Á hótelinu eru einnig líkamsrækt, heilsulind með sánu og tyrkneskt bað.

29. maí | Skoðunarferð í Peñíscola, páfahöllin & frjáls tími

Við ströndina er ólýsanlega fagurt, röð pálmatrjáa og rómantískur miðaldablær svífur yfir. Við sjáum fyrrum páfahöllina, Castell Papa Luna, og vita sem stendur í 67 m hæð uppi á háum kletti. Stórbrotið landslagið hefur þjónað sem umgjörð í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum og má þar m.a. nefna El Cid með Sophiu Loren og Charlton Heston og Game of Thrones. Gamli bærinn er heillandi með litlum kalkhvítum húsum sem lokuð eru af með borgarmúrum og kastala frá miðöldum. Við förum í töfrandi skoðunarferð um bæinn og kastalann eftir hádegi og njótum náttúrufegurðar staðarins. Eftir það verður gefin tími til að skoða bæinn, njóta aðstöðunnar við hótelið eða taka sér sundsprett í Miðjarðarhafinu.

30. maí | Borgin Morella, heimsókn til ólífubónda & hádegishressing

Þessi frábæra dagsferð leiðir okkur aftur til miðalda um Maestrazgo svæðið með sínum ólífu- og möndlutrjám. Við heimsækjum Morella en þessi miðaldabær tilheyrir takmörkuðum fjölda borga um allan heim sem hafa varðveist nær fullkomlega sem sögulegt safn. Er hann eitt besta dæmi um uppbyggingu miðaldabæja, umkringdur miklum borgarmúr með turnum og hliðum en Morella er einnig á heimsminjaskrá UNESCO. Eftir það verður ekið í skemmtilega heimsókn til ólífubónda þar sem boðið verður upp á hádegissnarl, m.a. tortilla de papas, skinku, ost og vín en einnig verður ólífuræktunin skoðuð. Héðan fara allir saddir og sælir heim á hótel eftir yndislegan dag. 

31. maí | Hellamálverkasafn, hellaskoðun & San Mateo

Nú ætlum við að aka til bæjarins Tírig og á Valltorta hellasafnið þar sem við fræðumst um stórmerkileg hellamálverk sem fundist hafa í Valltorta og Gasulla giljunum sem eru í um 500 metra fjarlægð frá bænum. Þessi málverk eru mikil menningarverðmæti og svæðið er komið á heimsminjaskrá UNESCO. Við skoðum þetta áhugaverða, litla safn og förum í stutta göngu til að skoða heillandi hellamálverk í þessu fallega umhverfi. Eftir það verður ekið til miðaldarbæjarins San Mateo í héraðinu Castello en þar í nágrenninu er rómverski vegurinn Via Augusta sem er í dag þekkt hjóla- og gönguleið. Hér ætlum við að njóta lífsins og kynna okkur líf bæjarbúa. Einnig verður gefin frjáls tími til að fá sér hressingu og líta á kaupmenn bæjarins. 

1. júní | Sögufræga borgin Valencia

Þessum dag ætlum við að eyða í sögufrægu borginni Valencia en tímalaus fegurð hennar heillar. Á göngu okkar um elsta hluta borgarinnar komumst við í tæri við meira en 2000 ára sögu hennar, þ.á m. gotnesku bygginguna La Lonja, fyrrum skiptimarkað með silki, sem er nú komin á heimsminjaskrá UNESCO. Rétt eins áhrifamikil er dómkirkjan sem byggð er á rústum mosku. Í meira en þúsund ár hefur fundur hins einstaka vatnadómstóls (Tribunal de les Aigües de València) sem ráðstafar vatnsréttindum, verið haldinn vikulega við inngang dómkirkju Valencia, hjá styttunum af tólf lærisveinum Jesú, Los Aposteles. Við reikum um þröngar götur borgarinnar og töfrar hennar hrífa okkur með sér. Auðvitað verður gefinn frjáls tími til að fá sér hressingu og upplifa borgina á eigin vegum. Endum daginn í lista-, menningar- og vísindahverfinu, með nútímabyggingum og skúlptúrum, en hverfið er orðið eitt mesta aðdráttarafl borgarinnar og einn af 12 fjársjóðum landsins.  

2. júní | Sigling um bláa hellinn San José & bærinn Vilafamés

Þjóðgarðurinn Sierra del Espadán tekur á móti okkur í dag og nú verður ekið til La Vall d'Uixó. Farið verður á bátum í gegnum neðanjarðarhella þar sem lengsta neðanjarðará í Evrópu, San José, rennur um. Ótrúlegt náttúrufyrirbæri. Við líðum áfram á kristaltæru bláu ánni, um leðurblökusalinn og um sal djöflavatnsins eins og hann er kallaður. Eftir það verður ekið til bæjarins Vilafamés sem talinn er með fallegustu smábæjum Spánar og hefur að geyma miðaldakastala sem varðveitir fornar leifar frá rómverskum, maurískum og kristnum tíma. Einnig verður gaman að rölta um á eigin vegum, fá sér hádegishressingu og njóta dagsins.

3. júní | Rólegheit & slökun í Peñíscola

Nú er komið að því að slaka á eftir annasama daga á þessum fagra stað. Hægt er að nýta sér aðstöðuna á hótelinu eða ganga með pálmaströndinni inn í Peñíscola, kanna þennan fallega bæ betur og líta inn á kaupmenn bæjarins. Og síðast en ekki síst er auðvitað nauðsynlegt að fá sér sundsprett í Miðjarðarhafinu seinnipart dags. 

4. júní | Frjáls dagur & „hop on hop off“ með smálest

Góður dagur í rólegheitum og við njótum samverunnar á þessum fagra stað. Við flatmögum við sundlaugina og þeir sem vilja, geta tekið litla smálest, hop on hop off, um svæðið. Boðið er upp á fjórar leiðir, tvær um nágrennið, útsýnisferð og ferð um Peñíscola. Bátsferðir eru einnig í boði frá litlu bátahöfninni.

5. júní | Heimflug frá Barcelona

Nú er komið að því að kveðja þennan draumfagra stað og aka á flugvöll í Barcelona. Brottför þaðan kl. 15:45 og lent í Keflavík kl. 18:20 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti