Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
24. mars           Flug til München & Brixen

Brottför frá Keflavík kl. 7.20 og er mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 12.05 að staðartíma. Þaðan verður ekin fögur leið yfir Brennersskarðið til Suður-Tíról á Ítalíu og gist eina nótt í Brixen.

 
 
25. mars           Ancona & sigling á Adríahafi

Í dag höldum við ferð okkar áfram til Ancona við Adríahafið, höfuðborgar héraðsins Marche. Sögu hennar má rekja aftur til 5. aldar f. Kr. þegar Grikkir flúðu frá Sýrakúsa og settust hér að. Um kvöldið verður siglt frá Ancona til Split í Króatíu og tekur siglingin um 10 klukkustundir. Gist verður í skipinu í tveggja manna klefum með sturtu og salerni og mun kvöldverður bíða okkar um borð.

 
 
26. mars           Split, Dubrovnik & Mostar í HerzegowinaMostar í Bosníu-Hersegóvínu

Árla dags leggjumst við að landi í Split, hinni sögufrægu borg í Króatíu, sem telst með fegurri borgum landsins. Að loknum morgunverði á skipinu verður stefnan tekin á Dubrovnik. Á leiðnni þangað verður ekið til Mostar í Bosníu-Hersegóvínu þar sem heimsækjum gömlu brúnna Stari Most, sem er sögulegt tákn. Í Bosníustríðinu 1993 var henni eytt með gríðalegum spengjuárásum, en árið 2005 var hún endurbyggð og er nú á heimsminjaskrá UNESCO sem tákn fyrir friðsamlega sambúð mismunandi þjóðflokka í Mostar. Við höldum ferð okkar áfram og höldum rakleiðis til perlu Króatíu Dubrovnik, þar sem gist verður í 5 nætur á góðu hóteli við ströndina. Hótelið býður upp á góða aðstöðu, líkamsræktarstöð, útisundlaug og verönd, ásamt heilsulind með heitum potti og gufubaði.

 
 
27. mars           Skoðunarferð um Dubrovnik

Perlan Dubrovnik er ein aðal menningar- og listaborg landsins. Við förum í skoðunarferð um þessa líflegu og sögufrægu borg, sem hefur að geyma glæstar byggingar og brunna frá endurreisnar- og barokktímanum. Borgin iðar af mannlífi og hefur upp á margt skemmtilegt að bjóða. Gengið verður um gömlu virkisveggi borgarinnar sem ná utan um elsta hluta hennar.

 
 
28. mars           Svartfjallaland, Kotorflóinn & borgin Kotor

Spennandi dagur er nú fyrir höndum, en ekið verður yfir til Svartfjallalands að Kotor flóanum. Þar förum við með ferju yfir flóann á leið til gömlu Kotor borgarinnar, en elsti hluti borgarinnar er á heimsminjaskrá UNESCO. Þar förum við í skemmtilega skoðunarferð, fræðumst um örlítið brot af 2000 ára sögu borgarinnar og upplifum menningu hennar og fegurð. Tími gefst að sjálfsögðu til að fá sér hressingu og njóta þess að vera á þessum dásamlega stað.

 
 
29. mars           Dubrovnik á eigin vegum – frjáls dagur

Í dag gefst hverjum og einum tækifæri á að skoða borgina Dubrovnik á eigin spýtur, eða skipuleggja daginn með öðrum hætti. Upplagt er að taka strætisvagn inn í gamla bæinn, en einnig er að sjálfsögðu hægt að slaka á og nota aðstöðu hótelsins, ekki skemmir náttúrufegurðin sem umvefur staðinn.

 
 
30. mars           Peljesac skaginn & sigling yfir á Korcula eyjuPeljesac skaginn & sigling yfir á Korcula eyju

Peljasac skaginn og Korcula eyjan eru á dagskrá okkar í dag. Ekið verður um skagann sem er annar stærsti skagi landsins. Nátturan þar er sérlegt augnayndi og þar má sjá ólífu-, fíkju- og sítrónurækt, en þar eru einnig þekktustu vínhéruð landsins. Við siglum út í eyjuna Korcula sem er ein af perlum Adríarhafsstrandarinnar. Skoðunarferð verður farin um bæinn Korcula sem er líflegur og skemmtilegur miðaldarbær og njótum við hér sameiginlegs hádegisverðar hjá vínbónda við glaum og gleði.

 
 
31. mars           Ekið um Dalmatíu til Poreč á Ístríaskaganum í Króatíu

Í dag kveðjum við Dubrovnik eftir yndislega daga og ökum upp með Dalmatíu yfir á Istríaskagann í Króatíu þar sem gist verður í 3 nætur í bænum Poreč við eina af töfrandi náttúruströndum Króatíu. Á hótelinu er stutt ganga að ströndinni, inni- og útisundlaug, fallegur garður, líkamræktarstöð og heilsulind.

 
 
1. apríl           Skoðunarferð um Poreč

Eftir góðan morgunverð verður farið í göngu inn í miðbæ Poreč, en bærinn er með elstu bæjum við ströndina. Þeirra helsta kennileiti er Euphrasius-Basilikan frá 6. öld sem hefur verið varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1997. Borgina skreyta einnig skemmtilegar marmaralagðar götur og fagrar byggingar. Að skoðunarferðinni lokinni er hverjum frjálst að líta á kaupmenn bæjarins, fá sér hressingu og njóta náttúrufegurðarinnar sem er ólýsanleg á þessum fagra stað.

 
 
2. apríl           Slökun og rólegheit í Poreč

Í dag tökum við því rólega og njótum þess að vera í þessu töfrandi umhverfi. Upplagt er að fá sér göngu eftir ströndinni, ganga inn í Poreč og skoða sig betur um í bænum eða fá sér hressingu á einhverju af fjölmörgum veitinga- og kaffihúsum bæjarins. Einnig er hægt að fara í siglingu úti fyrir ströndinni, nú eða nýta sér frábæra aðstöðu hótelsins.

 
 
3. apríl           Ekið til Salzburg í AusturríkiSalzburg í Austurríki

Nú kveðjum við Poreč og Króatíu og ökum til Salzburg í Austurríki, þar sem gist verður síðustu 2 nætur ferðarinnar. Salzburg er þekktust sem fæðingarborg Mozarts sem og sögusvið kvikmyndarinnar Söngvaseiðs eða Sound of Music. Borgin er afar falleg og hafa barrokkbyggingar hennar varðveist vel, en borgin og stórfenglegt umhverfi Alpanna í kring eru aðdráttarafl fjölda ferðamanna ár hvert. Borgin hefur verið varðveitt á Heimsminjaskrá UNESCO síðan 1997 og er í hugum margra hin sannkallaða perla Austurríkis.

 
 
4. apríl           Dagur í Salzburg

Við byrjum á að fara í skoðunarferð um borgina, skoðum Mirabellgarðinn og göngum eftir Getreidegasse sem er með elstu og þekktustu götum borgarinnar þar sem finna má mjög áhugavert Mozartsafn. Einnig verður hægt að fara upp í kastalann Hohensalzburg, en þar var hluti kvikmyndarinnar Söngvaseiður eða Sound of Music tekinn upp. Stórkostlegt útsýni er þaðan yfir Salzburgerland og borgina í björtu veðri. Eftir það verður frjáls tími fram að kvöldverði.

 
 
5. apríl           Heimferð

Það er komið að heimferð eftir yndislega ferð, stefnan er tekin á München. Brottför er þaðan kl. 14.05 og lending í Keflavík kl. 16.00 að staðartíma.

 
 
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

 
  
 
Verð: 248.400 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 39.900 kr.

 
 
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Sigling frá Ancona til Split með gistingu um borð.
• Kvöld- og morgunverður á skipinu frá Ancona til Split.
• Ferja yfir Kotorflóann til Kotor.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur. Siglingar og ferjur. Vínsmökkun, hádegisverðir og þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Léttur hádegisverður hjá vínbónda ca. € 15, virkisveggir í Dubrovnik ca. € 14, sigling út á Korkula eyjuna ca. € 15, Euphrasius - Basilikan frá 6. öld ca. € 6 og sameiginlegur hádegisverður ca. € 15.

 
 
 

 
 
 
 
Ferðaskilmálar Bændaferða

 
 

 

Tengdar ferðir