Hvernig er best að undirbúa sig fyrir skíðagönguferð?

Hvernig er best að undirbúa sig fyrir skíðagönguferð?

Bændaferðir hafa boðið upp á skíðagönguferðir síðan árið 2005. Þessir ferðir hafa vaxið mikið í vinsældum síðastliðin ár enda æ fleiri sem leggja stund á skíðagöngu á Íslandi. Í ferðunum er ávallt gist í fögrum, evrópskum fjallabæjum með frábærri aðstöðu til skíðaiðkunar og annarri margvíslegri afþreyingu.
Það er að mörgu að huga við undirbúning fyrir skíðaferð erlendis. Ekki er hægt að treysta á það að alltaf sé hægt að stunda mikla skíðagöngu á Íslandi vikurnar fyrir brottför og því er gott að vita hvað annað er hægt að gera til að mæta vel undirbúin til leiks.
Við höfum tekið saman nokkur ráð sem við teljum gott að hafa til hliðsjónar áður en lagt er af stað í skíðagönguævintýri.

Skíðaganga

Kennsluferðir og afþreyingarferðir

Skíðagönguferðunum okkar er skipt í tvo flokka sem við köllum kennsluferðir og afþreyingarferðir. Í kennsluferðum er skipulögð skíðakennsla frá íslenskum skíðakennurum og henta þær bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Í þeim ferðum sem við köllum afþreyingarferðir er ekki skipulögð kennsla heldur eru fararstjórar með hópnum sem leiða hann í bæði lengri og styttri ferðir um nærliggjandi svæði. Þessar ferðir henta frekar aðeins lengra komnum sem þurfa ekki sérstaka kennslu og geta fylgt hópi, þó að sjálfsögðu hver á sínum hraða. Tveir fararstjórar fylgja afþreyingarhópi og oft er val um að fara lengra eða styttra á degi hverjum.

Fyrir hverja eru ferðirnar

Skíðagönguferðir Bændaferða henta flestum þeim sem eru við góða heilsu og njóta þess að hreyfa sig utandyra. Þeir sem ekki hafa prófað gönguskíðin en langar að fara með er bent á kennsluferðirnar. Þær henta bæði algjörum byrjendum sem og lengra komnum. Fólk fær þó mun meira út úr ferðinni ef það hefur stigið áður á skíðin, lært að festa þau á sig og fara úr þeim og farið allavega nokkra hringi á sléttlendi. Afþreyingarferðir henta þeim sem hafa áður stigið á skíðin og finna sig örugga í sporinu.
Alla daga í Bændaskíðaferðum hafa þátttakendur val um vera á eigin vegum í sporinu eða taka hvíldardag.

Skíðaganga

Njóta en ekki þjóta

Skíðagönguferðirnar okkar eru engar keppnisferðir heldur eru þær hugsaðar sem gott tækifæri til að stunda útivist, læra eitthvað nýtt og æfa nýja tækni og leiðir til að njóta íþróttarinnar enn betur. Einnig eru þær hugsaðar til að þátttakendur eignist nýja skíðavini og hittist áfram í sporinu hér heima.


Undirbúningur og þjálfun

Til að undirbúa sig fyrir skíðagöngu er mælt með því að fara í sporið. Gott er að vera búin að stíga á skíðin áður en haldið er í ferð. Gönguferðir með stafi í höndum gera líka mikið gagn og í raun allt sem kemur blóðinu á hreyfingu í klukkustund eða meira. Best er að nýliðar fari á byrjendanámskeið hér heima. Það þarf ekki að vera langt og 1-5 klst. námskeið gerir mikið. Gönguskíðaíþróttin er auðlærð og langflestir ná góðum tökum á þessari íþrótt. Að sama skapi er hún afar heilsusamleg því hún reynir á hendur, fætur og bolvöðva. Einnig eykst jafnvægi við að stunda þessa íþrótt. 
Gönguskíðin reyna sérstaklega á axlir, mjóhrygg, nára og kálfa (hásinar). Gott að muna það við undirbúning og armbeygjur eiga að vera reglulegur undirbúningur. Ekki má gleyma að stunda teygjuæfingar fyrir þessi álagssvæði (axlir, nári, kálfar).
Ekki gleyma að nota hversdaginn til æfinga. Ganga í búðina er gott dæmi um slíkt og öll hreyfing hjálpar. Að ganga upp í mót er einstakleg gott fyrir þolið og ef tíminn er naumur þá gerir stutt og kröftug æfing alveg heilmikið. Mælt er með því að velja sér heimafjall eða heimabrekkur og nota svæðið reglulega til æfinga.

Búnaður

Listinn hér að neðan telur upp það helsta sem fólk ætti að taka með sér en hann er ekki tæmandi og aðeins leiðbeinandi því markmiðið er að hverjum líði sem best á ferðalaginu

Skíðaganga

Skíðagöngubúnaður

Það er skíði, skór og stafir í þar til gerðum skíðapoka. Einnig er hægt að leigja skíðabúnað á staðnum ef fólk kýs það frekar. Til eru áburðarskíði, skinnskíði og riffluð skíði. Þeir sem eiga áburðarskíði þurfa að hafa með sér áburð og búnað til að bera á skíðin. Fyrir skinnskíðin þarf að hafa frostvörn meðferðis í brúsa (skin anti freezer). Einnig er hægt að kaupa þetta á staðnum.
Öll skíði þurfa viðhald og nauðsynlegt að koma með skíðin vöxuð (rennslisáburður) áður en haldið er af stað. Margir sjá sjálfir um viðhald skíða en það er líka hægt að kaupa svona þjónustu.

Nettur bakpoki eða mittistaska fyrir nauðsynjar dagsins.

Um er að ræða poka sem dugar fyrir eina aukaflík, vatnsflösku, smávegis snarl, sólgleraugu, aukahúfu og buff. Pokinn þarf að liggja vel að bakinu, má ekki hindra axlahreyfingar og hafa bæði mittisól og brjóstól.

Þægilegur göngufatnaður, húfa og hanskar.

Gott að vera í nokkrum lögum og klæða svo af sér kuldann og öfugt. Gönguskíðin eru talin erfið íþrótt hvað varðar áreynslu og mikill bruni á sér stað. Hendur og fætur eru notaðar samhliða og margir kófsvitna. Mörgum reynist vel að klæða sig þannig að innsta lagið er úr ull eða fiber, svo kemur annað lag úr ull eða fíber og þriðja lagið er vindheldur jakki. Fjórða lagið er svo létt dúnúlpa eða primaloft sem er sett í bakpokann þegar líkamsbruninn er kominn vel af stað. Einnig þarf að hafa vatnshelda skel yfirhöfn meðferðis en það fer eftir veðri hvort fjórða lagið er dúnstakkur eða vatnsheld skel. Stundum er skelin líka fimmta lagið ef bæði er kalt og hríð.
Gott að vera í þunnum hönskum og hafa aðra í pokanum. Einnig er gott að vera með aukahúfu í pokanum. Í gönguskíðaferðum er oft stoppað á veitingastað í hádeginu og sumir hafa auka innsta lag meðferðis því sumir svitna það mikið að gott er að eiga flík til skiptanna.

Sólarvörn (helst númer 50)

Sólin skín vonandi glatt og þá er nauðsynlegt að verja húðina, sérstaklega þar sem endurkast er mikið frá snjónum. Þumalputtareglan er að smyrja sig með sólarvörn á að minnsta kosti þriggja tíma fresti í útiveru.

Sólgleraugu

Þau eru nauðsynlegur búnaður og skíðader getur einnig komið sér vel. Stundum er éljagangur og þá er nauðsynlegt að hlífa augunum.

Hælsærisplástrar og fótakrem

Nauðsynlegt er að huga vel að fótum í gönguskíðaferð. Það er alltaf möguleiki að skórnir fari eitthvað að nudda. Hafið með hælsærisplástra og gætið þess að sinna fótaumhirðu. Táneglur þarf að klippa og verja þarf húðina með fituríku kremi.

Drykkjarflaska

Mikilvægt er að vökva sig vel. Drekka þarf vel af vatni eða safa í morgunverðinum og gott að hafa 0,5 lítra flösku meðferðis fyrir vatn eða orkudrykki. Svo má fylla á í hádegishléi. Einnig er hægt að kaupa vatnspoka í langflesta göngubakpoka.

Sundfatnaður

Hótelin bjóða flest upp á gufu og heita potta og eins eru stór almenningsböð á langflestum gönugskíðasvæðum.

Inniskór

Betri fatnaður til kvöldverða

Athugið að hótel eru oft vel kynnt og mörgum er einnig heitt eftir hamagang dagsins. Léttar blússur/skyrtur koma sér vel.

 

Tengdar ferðir
Póstlisti