Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
29 ágúst           Flug til Mílanó & gist þarLoreto

Brottför frá Keflavík kl. 16.50, mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 22.40 að staðartíma. Gist verður fyrstu nóttina á góðu hóteli í nágrenni flugvallarins.

 
 
30. ágúst           Mílanó & Loreto

Við ökum fagra leið til Loreto sem byggð er á hæð nálægt ströndinni. Þessi borg er einn af stóru pílagrímastöðum Ítalíu, en kirkjan Santuario della Santa Casa er önnur í röðinni á eftir Péturskirkjunni í Róm á lista yfir mest sóttu pílagrímsstaði í heiminum. Við gistum eina nótt í Loreto.

 
 
31. ágúst           Héraðið Puglia & Ostuno „Hvíta borgin“

Við hefjum daginn í Loreto á að fara stutt inn í bæ að líta í kirkjuna Santuario della Santa Casa, en þjóðsagan segir frá því að 4 englar hafi flutt hús heilögu fjölskyldunnar eða Maríu meyjar frá Nazaret til Loreto og síðan hafi kirkjan verið byggð utan um það. Á þetta að hafa gerst rétt áður en að krossfararnir töpuðu svæðinu til heiðingjanna. Við ökum svo inn í Puglia héraðið á fallegasta stígvélahæl í heimi og komum til litlu borgarinnar Ostuni sem betur er þekkt sem „ Hvíta borgin“. Þessi einstaklega töfrandi borg með hvítkölkuðum húsum sínum líkist stórri rjómatertu þegar bæinn ber við augu. Hér munum við gista 4 nætur. Frá hótelinu er stórkostlegt útsýni yfir borgina og sólarveröndin er með útisundlaug, Einnig er verönd með veitingasvæði. Frá hótelinu er 5 mínútna gangur inn í gamla miðbæinn í Ostuni.

 
 
1. september           Alberobello, Trulli hús & Castellana GrotteTrulli hús

Þennan ævintýradag byrjum við í bænum Alberobello, miðstöð Trulli svæðisins í Apulia, en árið 1996 var bærinn settur á heimsminjaskrá UNESCO fyrir sérkennilegar byggingar. Þar eru um 1000 lítil og hringlaga hvítkölkuð steinhús, hlaðin með keiluþökum. Húsin eru einkennandi fyrir svæðið og voru notuð sem hús hjarðmanna og bænda. Í stærsta Trulli húsinu er merkilegt safn á neðri hæðinni. Það er heillandi að ganga um götur bæjarins þar sem finna má fjölda minjagripaverslanna og víða býðst að smakka á „fljótandi gulli„ heimamanna; ólífuolíu. Við förum í huggulega vínsmökkun á verönd eins Trulli hússins, en síðan verður ekið að hellunum Castellana Grotte, sem Franco Anelli uppgötvaði árið 1938. Hellarnir samanstanda af röð neðanjarðarhella og göngum sem eru samtals 2 km að lengd. Á göngu okkar um hellana skoðum Grotta Bianca, eða hvíta hellinn, sem er talinn einn fegursti hellir í heimi. Undursamlegar dropasteinsmyndanir hellanna eru ógleymanlegar.

 
 
2. september           Hellaborgin Matera & Altamura

Mikil upplifun og ótrúlega gaman er að koma til borgarinnar Matera sem er á dagskrá okkar í dag, en hún hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 1993. Ólýsanlegt er að koma þangað og sjá íbúðir, kirkjur og hallir frá 4. öld f. Kr. sem hoggnar eru inn í bergið og minna á gömlu Jerúsalem eða katakomburnar. Árið 1950 bjuggu enn um 20.000 manns hér, en þessar „hellaíbúðir“ eru kallaðar Sassi. Á leiðinni til baka verður stoppað í Altamura til að skoða stæðilega dómkirkju með frægri gluggarós.

 
 
3. september           Rólegur dagur í Ostuna

Rólegur dagur hjá okkur í dag til að slaka á og njóta þessa heillandi bæjar. Um að gera að skoða sig betur um í bænum, líta inn í litlar skemmtilegar verslanir og fá sér hressingu á töfrandi kaffi- og veitingahúsum borgarinnar. Svo má líka nota sólbaðsaðstöðu eða heilsulind hótelsins til að setja tærnar upp í loft og hvílast.

 
 
4. september           Castel del Monte, Trani & ViesteSt.Nicola

Við fikrum okkur upp að „sporanum “ á hæl Ítalíustígvélsins, inn á Gargano fjalllendið sem rómað er fyrir fagrar strendur milli stórbrotinna kletta. Á leið þangað stöldrum við í borginni Trani þar sem „Drottningu dómkirkjanna“, St. Nicola il Pellegrino, er að finna. Fallegri hlið kirkjunnar snýr út að hafinu, en hún hefur merkilegar bronshurðir og einn fegursta turn í allri Apulia. Hér verður tími til að fá sér hressingu og skoða kirkjuna. Eftir það verður ekið að „Castel del Monte“ kastalanum sem Friedrich II Staufer keisari lét byggja. Kastalinn sameinar mismunandi stíl í byggingarlist og er einn mesti fjársjóður Apulia. Við ljúkum deginum í bænum Vieste við Gargano ströndina, en hér gistum við einnig 4 nætur. Á hótelinu er sólbaðsaðstaða með útisundlaug, einkabaðströnd og heilsulind með saunu og nuddpotti.

 
 
5. september           Monte Sant´Angelo & San Giovanni Rotondo

Eftir morgunverð verður byrjað á að aka til Monte Sant´Angelo sem liggur hæst allra bæja Gargano fjallanna og trónir sem kóróna í 850 m hæð. Þaðan er ægifagurt útsýni yfir Manfredonia flóann og sléttur Foggia héraðsins. Monte Sant´Angelo er einn mikilvægasti pílagrímsstaður Apulia, en sagan segir að Mikael erkiengill hafi birst þar og farið fram á að hellir á svæðinu yrði helgaður Guðsdýrkun og myndi hann þá verja bæinn gegn árásum heiðingja. Við ökum síðan til San Giovanni Rotondo. Þangað koma árlega milljónir pílagríma til að heiðra heilagan föður Pio, en hann var uppi frá 1887–1968 og var þekktur fyrir kraftaverkalækningar. Við munum leggja í útjaðri bæjarins og taka okkur far með lítilli bæjarlest inn í bæinn.

 
 
6. september          Vieste og sigling með Gargano ströndinniGargano

Við byrjum á að fara í siglingu meðfram suðurhluta Gargano strandarinnar og virða fyrir okkur ægifagra hvíta kletta og hella milli skjólsælla sólríkra stranda. Um hádegisbilið snúum við aftur, tímanlega fyrir hressingu á einum af veitingastöðum bæjarins, en eftir það verður farið í stutta skoðunarferð um þennan undurfagra bæ sem er ein af perlum Gargano strandarinnar.

 
 
7. september           Hvíldardagur í Vieste

Við hótelið er einkaströnd þar sem leigja má sólbekki rétt við sjóinn. Það er líka hægt að koma sér notalega fyrir á hótelinu, annað hvort við sundlaugina eða láta dekra við sig á heilsulind hótelsins. Fallegar gönguleiðir eru ótalmargar í nágrenninu fyrir þá sem vilja reyna eitthvað á sig og sjá meira af hvítu klettum svæðisins eða kanna bæinn nánar.

 
 Annecy-France 
8. september           Vieste & Bologna

Við kveðjum Vieste og Gargano ströndina eftir yndislega daga og ökum upp með strandlengjunni til Bologna þar sem gist verður eina nótt.

 
 
9. september           Bologna & Annecy

Frá Bologna ökum við fagra leið inn í Frakkland til borgarinnar Annecy, sem nefnd hefur verið perla frönsku alpanna. Líkt og Feneyjar er þessi glæsilega borg lögð fallegum síkjum sem gefa borginni einstakan blæ. Hér gistum við í 2 nætur á góðu hóteli í miðbænum. Hótelið er mjög vel staðsett og stutt er í verslanir og að vatninu.

 
 
10. september           Dagur í Annecy & skoðunarferðAnnecy

Við hefjum daginn á skoðunarferð á göngu um Annecy, eina af elstu borgum frönsku Alpanna. Byggingar borgarinnar eru margar hverjar frá 16.-18. öld og yfir henni gnæfir höllin Château d'Annecy. Bæjarstæðið er einstaklega fagurt, en bærinn stendur milli fjallanna við Annecy-vatnið. Eftir hádegið verður hægt að fara í siglingu á vatninu eða skoða sig betur um í borginni.

 
 
11. september           Heimflug frá Genf

Ítalski draumurinn tekur enda, nú er komið að heimferð eftir stórkostlega ferð um leyndar perlur Ítalíu. Ekið verður til Genf en flug þaðan er kl. 13.05 og lending í Keflavík kl. 15.00 að staðartíma.

 
 
 
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

 
 



 
 
Verð: 329.400 á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 62.900 kr.

 
 Trulli
 
Innifalið í þátttökugjaldinu: 

• Flug með Icelandair og flugvallaskattar
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði
• Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu
• Íslensk fararstjórn

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. Hádegisverðir. Þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Sigling með Gargano ströndinni ca. € 15. Castellana Grotte hellarnir ca. € 10. Vínsmökkun með smá hressingu ca. € 10. Hellaborgin Matera ca. € 8.

 

 
 
Ferðaskilmálar Bændaferða 

 

Tengdar ferðir




Póstlisti