Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
27. ágúst           Flug til Glasgow - Loch Lomond - Fort William

Brottför frá Keflavík kl. 7.35 með flugi Icelandair til Glasgow. Mæting í Leifsstöð um 2 klst. fyrir brottför. Lent verður í Glasgow kl.10.40 að staðartíma. Ekið verður til Loch Lomond, stærsta stöðuvatns Skotlands, en það liggur í grösugum dal með fjallið Ben Lomond í bakgrunni. Við munum staldra við í bænum Luss á bökkum vatnsins og halda svo áfram til Tarbet. Þó Tarbet sé vel inn í landi komu þangað víkingar árið 1263 dragandi á eftir sér heilt víkingaskip! Áfram höldum við m.a. um þann sögufræga dal Glen Coe til Fort William, þar sem gist verður fyrstu tvær næturnar.

 Eyjan Skye 
 
28. ágúst           Eyjan Skye

Í dag tökum við daginn snemma, því margt er að sjá. Að loknum morguverði ökum við til bæjarins Mallaig og siglum til eyjarinnar Skye. Þó margar eyjar séu við Skotland, er sagt að eyjan Skye sé þeirra allra fegurst. Nafnið Skye er dregið af orðinu ský og er upprunið frá víkingunum. Landslagið er stórbrotið enda hafa hæðirnar Cuillin Hills verið kallaðar Alpar Bretlands. Víkingarnir héldu mikið til á eyjunni og bera mörg staðarheiti þess merki. Við stöldrum við í höfuðstaðnum Portree og heimsækjum víkingakastalann Dunvegan þar sem við fáum að heyra örlítið um dvöl víkinganna á þessu svæði. Eyjan er einnig þekkt fyrir fallegt handverk sem við fáum vonandi að kynnast. Þetta verður því spennandi dagur á þessari einstöku eyju. Síðla dags er komið aftur á hótel.

 
 Loch Ness
29. ágúst           Loch Ness & Inverness

Eftir morgunverð verður ekið um Fort William og staldrað við þekktan ferðamannastað í nágrenni við hæsta fjall Bretlands, Ben Nevis (1343 m) sem er 10 km norðar. Þaðan verður haldið beinu brautina til Forth Augustus, Urqhart kastala og til Inverness sem af mörgum er talin fallegasta leiðin á Bretlandi. Ekið er meðfram vatninu Loch Ness, en þar heldur til eitt frægasta skrímsli veraldar, Nessie sem talið er vera náskylt Lagarfljóts orminum víðfræga. Komið tiltölulega snemma til Inverness þar sem við munum gista tvær nætur.

 
 
30. ágúst           Inverness – Dunrobin höll – Whisky brugghús

Í dag ökum við norður með stöndinni til Dunrobin hallar, en umhverfis hana er afar fallegur skrúðgarður þar sem finna má merkilegt fuglalíf. Að lokinni göngu um garðinn og skoðun um kastalann verður komið við í Glenmorange Whisky brugghúsinu við bæinn Tain þar sem okkur gefst kostur á að kynna okkur afurð þessa fræga brugghúss.

 
 Glenmorange Whisky smökkun 
31. ágúst           Smalahundasýning – Pitlochry - Perth - Edinborg

Eftir morgunverð verður farið á einstaka smalahundasýningu í fjallendinu suður af Inverness. Eftir sýninguna höldum við til smábæjarins Pitlochry sem er aðallega þekktur fyrir fjölda whiskey brugghúsa í nágrenninu. Að lokinni heimsókn okkar höldum við áfram til Perth sem var höfuðborg Skotlands frá 11. öld til ársins 1437. Hér verður staldrað við, áður en ekið verður áfram til Edinborgar, þar sem við munum gista síðustu þrjár nætur ferðarinnar. Hótelið er staðsett í miðbænum, rétt við helstu verslunargötu borgarinnar.

 
 
1. september           Edinborg – Frjáls tímiEdinborg

Á dagskránni í dag er skoðunarferð um fallegustu borg Skotlands, höfuðborgina Edinborg. Meðal þess sem við munum skoða eru Holyrood House höllin, Royal Mile og Edinborgarkastali sem staðsettur er á gríðarstórum kletti sem gnæfir yfir borgina. Í eftirmiðdaginn gefst svo tími til að njóta borgarinnar á eigin vegum, en stemningin í þessari grænustu borg Stóra-Bretlands er eitthvað sem allir ættu að upplifa. Listinn yfir áhugaverða staði til að skoða er óendanlegur; hvort sem þú hefur áhuga á að arka um Royal Mile, versla á Princess Street, kynnast Edinborgarkastala betur eða jafnvel fara á eitt hinna fjölmörgu safna borgarinnar.

 
 
2. september           Glasgow eða frjáls tími í Edinborg

Í dag höldum við til Glasgow, stærstu borgar Skotlands. Þessi hafnarborg við ána Clyde var áður mikið í alþjóðaviðskiptum, útflutningi og skipasmíði. Mikil endurnýjun hefur átt sér stað í miðborginni undanfarin ár og er hér að finna mikið um glæsilegar verslanir, söfn og garða. Eftir skoðunarferð um borgina verður gefinn frjáls tími til að njóta borgarinnar á eigin vegum. Þeir sem það kjósa geta sleppt Glasgow ferðinni og notið dagsins í Edinborg.

 
 
3. september           Heimferð

Eftir síðasta skoska morgunverðinn ökum við sem leið liggur til flugvallarins, en brottför frá Glasgow flugvelli er kl. 14.05 og lent verður í Keflavík kl. 15.25 að staðartíma.

 
 
 
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

 
  
 
Verð: 199.900 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 52.500 kr.

 Glasgow tour 
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
• Ferja yfir til eyjarinnar Skye.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir, kastala og kirkjur. Siglingar. Vín- eða whiskeysmökkun. Hádegisverðir. Þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Dunvegan kastali ca. £11. Urqhart kastali ca. £8,50. Dunrobin höll ca. £10,50 Glenmoreange Whisky brugghúsið ca. £15. Smalahundasýning ca. £15.
 
 
 


Ferðaskilmálar Bændaferða

 

Tengdar ferðir