Inga og Guðni fararstjórar

Inga og Guðni fararstjórar

 
Inga Erlingsdóttir 
Inga Erlingsdóttir
er fædd og uppalin í Grindavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð og starfaði við kennslu upp frá því í mörg ár. Ferðamálanámi lauk hún 1989 frá Sviss og starfaði eftir það við ferðamál til 2009 bæði á Íslandi og í Noregi og hefur skipulagt fjölda ferða fyrir bæði einstaklinga og hópa.
 
Inga hefur búið í Noregi í 16 ár, fyrstu árin við ferðamennsku en frá 2009 hefur hún starfað hjá Íslenska Söfnuðinum í Noregi. Hluti af hennar starfi hefur m.a. verið að skipuleggja fermingarfræðslu íslenskra fermingarbarna í Noregi. Að hausti og á vori koma þau alls staðar frá Noregi, safnast saman í Osló og fara svo með rútu til Svíþjóðar þar sem þau hitta fermingarbörn frá Svíþjóð og Danmörku. Saman eyða þau helgi við nám og leik. Inga hefur verið fararstjóri í þessum ferðum og bílstjóri þegar það hefur þurft.
 
 
 
 
 
Guðni ÖlverssonGuðni Ölversson
er fæddur í Reykjavík en uppalinn á Eskifirði. Hann lauk kennaraprófi 1973 og hefur starfað sem kennari nær sleitulaust allar götur síðan. Hann hefur lengst verið kennari í Grindavík, í Biskupstungum bæði í Reykholti og á meðferðarheimilinu á Torfastöðum og í Öldutúnsskólanum í Hafnarfirði. Á námsárunum og í sumarfríum eftir að námi lauk stundaði hann sjómennsku.
 
Guðni hefur búið í Noregi í 16 ár og hefur starfað þar sem kennari alla tíð í fjölmenningarskóla í miðborg Oslóar.
 
Margir þekkja Guðna úr fjölmiðlum, bæði frá sjónvarpi og útvarpi. Hann starfaði fyrir íþróttadeild Stöðvar 2 og Bylgjunnar um árabil og var hann með vikulega pistla í “Samfélagi í nærmynd” hjá RÚV í mörg ár.
 
Guðni starfaði um árabil sem leiðsögumaður í hestaferðum um Suðurland og hálendi hjá Íshestum, einnig hefur hann verið fararstjóri hjá Úrval-Útsýn í ferðum til Liverpool og nú síðustu ár í Noregi þar sem hann tekur á móti hundruðum íslenskra ungmenna sem koma á Norway Cup og spila fótbolta í vikutíma.
 
   
Inga og Guðni eru fararstjórar í ferðinni Sumar 10 - Í tröllahöndum í Noregi  25. - 30. júní  2016
 
  


 
 

  
 

 

Tengdar ferðir