Undraheimar Suður-Marokkó

Hin undraverða Marokkó er suðupottur menningarheima þar sem áhrifa gætir frá berberskum, arabískum, afrískum og evrópskum hefðum. Þessi fjölbreytni endurspeglast í byggingarlist, matargerð, tónlist og siðum heimamanna. Marokkó búar eru þekktir fyrir einstaka gestrisni sína en hún er hluti af þeirra þjóðarsál. Gestir eru gjarnan boðnir velkomnir inn á heimili, hótel og riads (hefðbundin gistiheimili), þar sem þeir upplifa gjafmildi, virðingu og hlýju marokkóskrar gestrisni. Leið okkar liggur til Suður-Marokkó um ávala fjallgarða, ævintýralegt eyðimerkur landslag, leirhúsabyggðir, berbaborgir, aldingarða, sveitir og sólríkar strendur. Í Taroudant, sem oft hefur verið kölluð litla Marrakesh, kynnumst við medínunni og í Ait Mansour förum við í leiðangur um dásamlega pálmalundi og þorp Ait Mansour gljúfranna. Við kynnumst mögnuðum jarðmyndunum í Atlasfjöllunum, fornum búskaparháttum og handverkshefð úr menningarbrunni Berba, Araba og gyðinga. Ævaforn leirhúsahefðin, sem er algeng í Norður Afríku, er mjög merkileg og minnir um sumt á torfhúsahefð okkar Íslendinga. Við kynnumst óviðjafnanlegri matarhefð og fáum innsýn í fornan heimilisiðnað sem lifir góðu lífi á þessu svæði. Við skoðum einnig litla kastala (kasbah), fornar korngeymslur og markaði sem eiga engan sinn líka. Ferðin endar í litríku Marrakesh sem er sannkölluð veisla fyrir skynfærin sem nær hápunkti á hinu fræga torgi Djema El Fna. Við heimsækjum Jardin Majorelle garðinn og förum á marokkóskan veitingastað þar sem við njótum skemmtunar í dansi og tónlist.

Verð á mann 389.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 42.900 kr.


Innifalið

  • 12 daga ferð.
  • Áætlunarflug með Play til og frá Marrakesh og flugvallaskattar. 
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Máltíðir samkvæmt ferðalýsingu (M = morgunverður, K = kvöldverður).
  • Hátíðarkvöldverður á ekta marokkóskum veitingastað með dansi og tónlist. 
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Innlend staðarleiðsögn.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Þær máltíðir sem ekki eru taldar upp í innifalið, drykkjarföng og persónuleg útgjöld.
  • Te í heimahúsi.
  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir ofl.
  • Matreiðslunámskeið, nudd og hammam.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

3. nóvember | Flug með Play til Marrakesh og rútuferð til Taroudant


Flogið verður með beinu flugi til Marrakesh. Brottför frá Keflavík kl. 9:00. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Marrakesh kl. 14:55 að staðartíma. Við ökum sem leið liggur í suður og gistum næstu tvær næturnar, rétt utan við borgina Taroudant, á góðu 4* hóteli með fallegum garði. Það er einstakt ævintýri að dvelja á þessu hóteli, en í garðinum eru yfir 900 tegundir af plöntum og margar þeirra afar sjaldgæfar. Við borðum saman kvöldmat, kynnumst hópnum og hvílum okkur eftir ferðalagið.

Akstursvegalengd u.þ.b. 265 km

4. nóvember | Taroudant

Eftir morgunmat og skoðunarferð um okkar sælureit, heimsækjum við Taroudant, sem oft hefur verið kölluð litla Marrakesh þar sem hún minnir um margt á stórborgina, en er minni. Við kynnumst medínunni (miðbænum) innan borgarmúranna, skoðum markaði og fylgjumst með mannlífinu á torginu. Möguleiki á matreiðslunámskeiði, nuddi og hammam (tyrkneskt bað) á hótelinu.

5. nóvember | Kasbah Tizourgane & smáborgin Tafraoute

Eftir morgunverð höldum við af stað til Tafraoute. Á miðri leið heimsækjum við borgarvirki frá 13. öld, Kasbah Tizourgane. Virkið stendur á grýttum tindi á miðri sléttunni og situr þar eins og drottning í granít hásæti. Þarna má snæða hádegisverð og skoða sig um. Áður en við yfirgefum sléttuna heimsækjum við ævagamla korngeymslu (igoudar) en slíkar geymslur voru byggðar í formi virkja og þar voru geymd ýmis verðmæti. Við gistum næstu þrjár næturnar á fallegu sveitahóteli í Ameln dalnum, nokkrum kílómetrum norðan við Tafraoute.

Akstursvegalengd u.þ.b. 165 km

Opna allt

6. nóvember | Undraveröld Berbasvæðisins

Í dag er ferðinni heitið til Tafraoute, sem stundum er kölluð „hjarta Berbasvæðisins“. Bærinn stendur í tignarlegu fjallalandslagi í vestanverðum Atlasfjallgarðinum. Við njótum einnig útivistar í litfögru granít landslagi sem er einstakt í heiminum, sannkölluð undraveröld sem lætur engan ósnortinn, stórkostlegar bergmyndanir, hrikaleg fjöll, gróðursælir dalir og fagrir möndlulundir. Á vegi okkar verður risavaxið landslagsverk eftir belgíska listamanninn Jean Verame, bláu steinarnir, sem vekur okkur til umhugsunar um mörk náttúru og listsköpunar. Við fáum te í heimahúsi og kynnumst mætti arganolíunnar en framleiðsluferli hennar er á heimsminjaskrá UNESCO.

7. nóvember | Dagsferð til Ait Mansour

Nú förum við í dagsferð til Ait Mansour. Þar er mikil náttúrufegurð, háir fjallstindar, gróskumiklir lundir og kristaltært vatn Mansour árinnar sem rennur í gegnum Atlasfjallgarðinn. Við förum í leiðangur um dásamlega pálmalundi og þorp Ait Mansour gljúfranna. Þarna lifa pálmatré, möndlutré og ólífutré saman og deila vatninu sem rennur í gegnum háþróað áveitukerfi. Okkur gefst kostur á að snæða hádegisverð hjá heimafólki í Ait Monsour.

8. nóvember | Tafraoute & Berbasafn

Í dag heimsækjum við gamalt berbaheimili í Tafraoute sem hefur verið gert að safni. Þar er hægt að verða margs vísari um heimamenn og menningu þeirra. Við færum okkur að Atlantshafinu og gistum næstu þrjár næturnar vestur af Tiznit á fallegu sveitahóteli við Atlantshafið.

Akstursvegalengd u.þ.b. 145 km

9. nóvember | Legzira ströndin og sjávarþorpið Sidi Ifni

Við heimsækjum Legzira ströndina sem er fræg fyrir náttúrulega steinboga sem Atlantshafið hefur sorfið á milljónum ára. Þar má sjá tilkomumiklan gatklett úr rauðum sandsteini, ekki ólíkan Dyrhólaey. Við kynnumst líka sjávarþorpinu Sidi Ifni sem sker sig úr með art deco byggingarstíl sem var ríkjandi á meðan Spánn hafði yfirráð á svæðinu. Undan strönd Sidi Ifni eru Kanaríeyjar en loftslagið í Sidi Ifni er um margt líkt og þar. Kanaríeyjastraumurinn flytur kaldan sjó upp að ströndinni, mildar veðurfarið og nærir fiskimiðin. 

10. nóvember| Ströndin & heimsókn til Tiznit

Við eigum rólega morgunstund við ströndina. Eftir hádegi höldum við til bæjarins Tiznit sem var stofnaður sem varðstöð og megin verslunarstaður svæðisins á 19. öld. Við skoðum okkur um í þessum heillandi bæ, sem er þekktur fyrir sinn vel varðveitta miðbæ (medina) og rauðlitaða virkisveggina þar um kring. Tiznit hefur löngum verið kölluð Silfurborgin, enda er silfursmíði rótgróin hefð í bænum, þar sem hver ættliður tekur við af öðrum og segir sögu með mynstrum og lögun sem eru einkennandi fyrir berbneska menningu.

11. nóvember | Agadir, Souk El Had & Marrakesh

Við tökum daginn snemma og ökum norður til Agadir sem er stærsta borgin í Suður-Marokkó. Íbúar hennar eru yfir hálf milljón. Helmingur þeirra eru Berbar, sem tala sitt eigið tungmál, en þeir eru frumbyggjar landsins. Við heimsækjum stærsta markað Norður Afríku, Souk El Had, en þar er afar líflegt andrúmsloft. Ilmur í lofti, úrval af ýmiskonar handverki, framandi góðmeti og mikil litagleði. Við förum í gönguferð á ströndinni en Agadir er þekkt fyrir fallega strandlengju sem teygir sig meðfram útjaðri borgarinnar. Síðla dags ökum við til Marrakesh þar sem við gistum síðustu þrjár næturnar í fallegu hefðbundnu riadi (gistiheimili) innan borgarmúra gömlu medínunnar.

Akstursvegalengd u.þ.b. 360 km

12. nóvember | Skoðunarferð um Marrakesh

Hvergi í Marokkó eru eins mikil áhrif frá afrískri og austurlenskri menningu og í Marrakesh. Þessi næst elsta keisaraborg landsins er bæði litrík og heillandi. Um 100.000 pálmatré umlykja virkisveggi borgarinnar og setja fagran svip á umhverfið. Marrakesh byggðist upp í eyðimörk, eins og sést á rauðleitum leirhúsunum, en borgin var stofnuð á 11. öld af Berbum og hún ilmar og iðar af mögnuðu mannlífi. Marrakesh er sannkölluð veisla fyrir skynfærin sem nær hápunkti á hinu fræga torgi Djema El Fna þar sem hægt er að sjá seiðmagnað alþýðuleikhús sem hefur ekki stöðvast í þúsund ár; kaupmenn, sögumenn, slöngutemjarar, akróbatar, shamanar og spákonur. Það er upplagt að fá sér kvöldverð við torgið eftir að hafa notið leiðsagnar um merka staði í Marrakesh.

13. nóvember | Ævintýraheimur Marrakesh

Við njótum þess að líða um ævintýraheim Marrakesh, skoðum markaði, söfn og garða. Við heimsækjum Jardin Majorelle garðinn sem var komið á fót af listamanninum Jacques Majorelle en hönnuðurinn Yves St. Laurent tók garðinn, og þau mannvirki sem þar er að finna, upp á sína arma þegar hann var kominn í niðurníðslu. Við njótum þess að borða saman hátíðarkvöldverð síðasta kvöldið á ekta marokkóskum veitingastað við torgið góða Djema El Fna. Þar njótum við einnig skemmtunar í dansi og tónlist.

14. nóvember | Heimferð

Nú er komið að því að halda heim á leið en brottför frá flugvellinum í Marrakesh er kl. 15:55 og lending í Keflavík kl. 20:30 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Ósk Vilhjálmsdóttir

Ósk Vilhjálmsdóttir nam myndlist við Hochschule der Künste í Berlín og hefur sinnt leiðsögn frá árinu 1992 meðfram myndlist og kennslu. Lengst af um náttúru Íslands og yfirleitt með franska og þýska ferðamenn. Árin 2003-2006 skipulagði hún ásamt Ástu Arnardóttur leiðangra um náttúrusvæði norðan Vatnajökuls. Í kjölfarið stofnaði hún eigin ferðaskrifstofu með náttúruvernd og slow-travel hugmyndafræði að leiðarljósi. Hún kom meðal annars á laggirnar námskeiðum fyrir börn og unglinga sem fjalla um náttúruskoðun og myndlist, árlegar ferðir um Þjórsárver o.fl. Undanfarinn áratug hefur hún auk þess skipulagt ferðir og námskeið fyrir Íslendinga í Marokkó, Þýskalandi og á Ítalíu. Nú hefur Ósk gengið til liðs við Bændaferðir og hlakkar til samstarfsins.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti