Undraheimar Suður-Marokkó
3. – 14. nóvember 2024 (12 dagar)
Hin undraverða Marokkó er suðupottur menningarheima þar sem áhrifa gætir frá berberskum, arabískum, afrískum og evrópskum hefðum. Þessi fjölbreytni endurspeglast í byggingarlist, matargerð, tónlist og siðum heimamanna. Marokkó búar eru þekktir fyrir einstaka gestrisni sína en hún er hluti af þeirra þjóðarsál. Gestir eru gjarnan boðnir velkomnir inn á heimili, hótel og riads (hefðbundin gistiheimili), þar sem þeir upplifa gjafmildi, virðingu og hlýju marokkóskrar gestrisni. Leið okkar liggur til Suður-Marokkó um ávala fjallgarða, ævintýralegt eyðimerkur landslag, leirhúsabyggðir, berbaborgir, aldingarða, sveitir og sólríkar strendur. Í Taroudant, sem oft hefur verið kölluð litla Marrakesh, kynnumst við medínunni og í Ait Mansour förum við í leiðangur um dásamlega pálmalundi og þorp Ait Mansour gljúfranna. Við kynnumst mögnuðum jarðmyndunum í Atlasfjöllunum, fornum búskaparháttum og handverkshefð úr menningarbrunni Berba, Araba og gyðinga. Ævaforn leirhúsahefðin, sem er algeng í Norður Afríku, er mjög merkileg og minnir um sumt á torfhúsahefð okkar Íslendinga. Við kynnumst óviðjafnanlegri matarhefð og fáum innsýn í fornan heimilisiðnað sem lifir góðu lífi á þessu svæði. Við skoðum einnig litla kastala (kasbah), fornar korngeymslur og markaði sem eiga engan sinn líka. Ferðin endar í litríku Marrakesh sem er sannkölluð veisla fyrir skynfærin sem nær hápunkti á hinu fræga torgi Djema El Fna. Við heimsækjum Jardin Majorelle garðinn og förum á marokkóskan veitingastað þar sem við njótum skemmtunar í dansi og tónlist.