Namibía - land hinna huguðu

Komdu með í ævintýraför um Namibíu sem er sagt vera eitt öruggasta land Afríku. Þar kynnumst við hrjóstrugum og heillandi heimi eyðimerkursandanna og öðlumst innsýn í sögu, menningu og dýralíf þessa sérstæða lands. Í strjálbýlu landinu sem nær yfir rúmlega 800.000 km2 er að finna fjölskrúðuga menningu en þar búa ólíkir ættbálkar hver með sína siði og hefðir. Við hefjum ferðina í höfuðborginni Windhoek, þaðan sem haldið verður til Sossusvlei í miðri Namib eyðimörkinni þar sem rauðar sandöldur teygja sig eins langt og augað eygir. Við förum í strandbæinn Swakopmund sem stendur við Suður-Atlandshafið og er umkringdur Namib eyðimörkinni úr þremur áttum. Bærinn sem var byggður undir lok 19. aldar, þegar Namibía var þýsk nýlenda, er sagður þýskari en sjálft Þýskaland. Þar fá ferðalangar innsýn inn í ótrúlegt lífríki eyðimerkurinnar sem nærist á hafþoku sem leggst yfir á nokkurra daga fresti. Við heimsækjum töfrastaðinn Twyfelfontein í Damaralandi, skoðum ævafornar hellaristur Búskmanna og lifandi safn Damaraættbálksins þar sem við kynnumst menningu og fornum lifnaðarháttum þessarar þjóðar. Þá liggur leið okkar í Etosha þjóðgarðinn með sínu fjölskrúðuga dýralífi en þar má m.a. sjá fíla, nashyrninga, ljón og gíraffa. Það er engu líkt að sitja í ljósaskiptunum við vatnsbólið og sjá dýrin safnast saman við lindina og drekka. Þá stendur tíminn kyrr. Namibía býr yfir stórkostlegri náttúru, dásamlegri villibráð og dramatískri sögu regnbogaþjóðar. Þaðan fer enginn ósnortinn.

Verð á mann 999.000 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 112.200 kr.


Innifalið

  • Áætlunarflug með Lufthansa: Keflavík – Frankfurt – Windhoek – Frankfurt – Keflavík.
  • Flugvallarskattar fyrir alla ferðina.
  • Akstur til og frá flugvelli í Windhoek.
  • Allar rútuferðir samkvæmt ferðalýsingu í loftkældri rútu. 
  • Skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu.
  • Jeppasafaríferðir í Etosha þjóðgarðinum og á Okapuka Ranch.
  • Gisting í 14 nætur í tveggja manna herbergjum á góðum hótelum, samkvæmt landsmælikvarða.
  • Máltíðir samkvæmt ferðalýsingu. 
  • Enskumælandi staðarleiðsögn.
  • Íslensk fararstjórn.
  • Undirbúningsfundur með fararstjóra fyrir ferð. 

Ekki innifalið

  • Þjórfé fyrir erlendan staðarleiðsögumann og rútubílstjóra.
  • Aðrar máltíðir en þær sem taldar eru upp í ferðalýsingu.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að sérferðir eru lengri ferðir á fjarlægari slóðir. Alltaf er eitthvað um göngur og mörg svæði eru bæði hæðótt og ójöfn undir fæti og aðgengi að áfangastöðum misjafnt og stundum krefjandi.
Þess ber einnig að geta að suma daga eru dagleiðir í lengra lagi til þess að unnt sé að koma hópnum á milli markverðustu staða. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

23. apríl | Flug til Frankfurt

Brottför með Lufthansa frá Keflavík kl. 14:20 og lending í Frankfurt kl. 19:50 að staðartíma. Þaðan verður flogið áfram með Lufthansa til Windhoek í Namibíu. Brottför frá Frankfurt er kl. 21:55.

24. apríl | Komið til Windhoek

Við lendum á Windhoek Hosea Kutako flugvelli kl. 08.10 að morgni. Næturflugið tekur u.þ.b. 10 klst. Að loknu hefðbundnu eftirliti á flugvellinum fáum við okkur morgunverð áður en haldið verður í skoðunarferð um Windhoek, höfuðborg Namibíu, sem liggur í 1700 m hæð yfir sjávarmáli. Íbúum hefur fjölgað jafnt og þétt vegna stöðugs flutnings fólks frá hinum ýmsu héruðum landsins og er fjöldi þeirra ríflega 320 þúsund. Eftir skoðunarferð verður haldið á hótel í borginni þar sem við getum hvílt okkur. Gisting eina nótt. 

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

25. apríl | Windhoek – Namib Desert Lodge

Við kveðjum höfuðborgina snemma morguns og höldum til Sossusvlei með viðkomu í bænum Rehoboth þar sem hægt er að fá sér hádegissnarl. Höldum áfram til Namib Desert Lodge þar sem verður frjáls tími það sem eftir er dags og upplagt að slaka á við sundlaugina á hótelinu. Þegar húmar að kvöldi lýsa gullnir sólargeislar himininn og rökkur læðist yfir eyðimörkina allt um kring. Gisting í tvær nætur.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður
Opna allt

26. apríl | Namib Desert Lodge – Deadvlei sandöldurnar

Við erum árla á fótum þennan morgun, komin á ról fyrir dögun því hugmyndin er að fara út í eyðimörkina til að upplifa fyrstu sólargeislana leika um sandöldurnar. Sjónarspil gullins sands og dökkra skugga morgunsins er engu líkt. Léttur göngutúr upp á eina ölduna til að upplifa þessa einstöku dagrenningu, rölta svo áfram að Deadvlei sem er þurr og litlaus tjarnarbotn á þessum árstíma. Misþykkir trjástofnar standa upp úr sprungnum leirbotninum, hér finnst ekkert líf en myndefnið er dæmalaust. Allt um kring blasa við gullnar sandöldur, baðaðar í morgunsólinni. Við fáum hressingu, nokkurs konar miðmorgunmat, eftir þessa mögnuðu upplifun. Áfram heldur för og við komum til Sesriem Canyon, gljúfri sem geymir vatnsból, einn fárra staða í eyðimörkinni. Það er nokkuð liðið dags þegar við snúum til baka á náttstað eftir ævintýralegan dag.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

27. apríl | Swakopmund

Við kveðjum Sossusvlei árla dags eftir morgunverð og höldum til hafnarbæjarins Swakopmund. Ekið verður í gegnum Walvis Bay, lítinn og fallegan bæ við hafið með rúmlega 60 þúsund íbúa. Þar má sjá ýmsar fuglategundir, s.s. flamingóa og pelíkana, selir skjóta upp kollinum úr sjónum og hnísur stökkva í öldurnar. Svæðið er einhvers konar vin milli eyðimerkur og sjávar. Gerum einnig stutt stopp við saltvinnslu áður en haldið er áfram til Swakopmund sem skartar allmerkilegum byggingum, sumar hverjar aldargamlar. Þjóðverjar eiga „heiðurinn“ af uppbyggingu á þessum stað en þeir voru athafnasamir seint á 19. öld á þessum slóðum. Bærinn varð til árið 1896 og bjuggu þýskir innflytjendur hér nokkuð fjölmennir lengi vel. Þess vegna heyrist þýska enn á stræti og torgum. Við innritum okkur inn á hótelið okkar og þeir sem hug hafa á skoðunarferðum eða annarri afþreyingu heimamanna ættu að grípa tækifærið það sem eftir lifir dags og finna eitthvað spennandi til að skoða af landi, hafi eða úr lofti. Gisting í tvær nætur.

  • Morgunverður

28. apríl | Frjáls dagur í Swakopmund

Nafnið Swakopmund er dregið úr máli innfæddra. Xwaka merkir flóðhestur og op er á. Í dag gefst tækifæri til að skoða staðinn og allt það sem hann hefur upp á að bjóða. Þeir sem bókuðu skoðunarferð drífa sig af stað, aðrir sem ekkert sérstakt hafa í huga geta gengið eftir ströndinni, skoðað byggðarsafn eða sædýrasafn, litið við á einhverju hinna fjölmörgu kaffihúsa og kíkt á kaupmenn.

  • Morgunverður

29. apríl | Frjáls dagur í Swakopmund

Í dag er frjáls dagur í Swakopmund og hver og einn getur notið hans á sinn hátt. Hægt er að rölta meðfram ströndinni, hlusta á brimið, fá sér kaffi og köku á notalegu kaffihúsi eða kíkja í verslanir.

  • Morgunverður

30. apríl | Skeleton Coast, Cape Cross & Damaraland

Að loknum morgunverði liggur leiðin norður meðfram Skeleton Coast, þar sem mölbreiður og eyðimerkurlandslagið opnast fyrir augum okkar, með útsýni yfir úfið hafið. Við stoppum við selabyggðina á Cape Cross þar sem hávaði og lyktin af selunum yfirgnæfir allt og síðan er haldið inn til landsins framhjá Brandberg, hæsta fjalli Namibíu. Nú erum við komin til Damaralands en nafn þess er dregið af ættbálknum Damara sem hér bjó. Við hverfum aftur í tímann þegar við skoðum fornar steinristur og lærum heilmikið um það mannlíf sem eitt sinn þreifst á þessum stað. Að lokinni einkar áhugaverðri skoðunarferð ökum við á náttstað í Damara Mopane Lodge. Gististaðurinn er sjarmerandi með sundlaug, sólsetursútsýni og góðri stöðu til að kanna náttúru og sögu svæðisins. Gisting í tvær nætur.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

1. maí | Steinaristur, Organ Pipes & Damaraættbálkurinn

Í dag verður farið að skoða afar merkar steinaristur í Twyfelfontein, listaverk sem San ættbálkurinn gerði fyrr á öldum. Ekki langt frá Twyfelfontein má sjá eitt af jarðfræðilegum undrum Namibíu – Organ Pipes. Þar hafa náttúruöflin skapað ótrúlega formfegurð úr hrauni sem kólnaði fyrir um 120 milljón árum. Súlur rísa eins og pípur í risavöxnu kirkjuorgeli og mynda stórbrotna sjón sem virðist nánast manngerð. Hér nálægt er einnig Burnt Mountain, fjall sem líkist landslagi eftir eldgos eða stórbruna. Okkur gefst tækifæri til að sjá og upplifa hefðbundið líf Damaraættbálksins og menningu þeirra á lifandi safni, en þetta er einstakt í allri Namibíu. Fyrir utan merkar fornminjar er landslagið hér sérstakt og dýralífið áhugavert en fílar eru algengir á þessum slóðum svo og nashyrningar og auðvitað ýmsar smærri dýrategundir. Seinni hluta dags er frjáls tími á gististað en að auki er hægt að bóka sig í kvöldsafarí.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

2. maí | Etosha þjóðgarðurinn

Í dag höldum við í hinn einstaka þjóðgarð Etosha, þar sem dýr merkurinnar hafa þraukað öldum saman, lært á duttlunga náttúrunnar, veður og vinda. Etosha þjóðgarðurinn er vin í eyðimörk, fyrst og fremst vegna vatnsbóla sem sjaldan eða aldrei þorna, en þangað leita dýrin í brennandi hita bæði til að kæla sig og líka til að svala þorsta. Hundruð ólíkra tegunda spendýra standa hlið við hlið í sömu erindum. Komið er síðdegis að Okaukuejo Camp. Þar er hægt að njóta sólseturs og fylgjast með dýralífinu við þetta fræga upplýsta vatnsból. Gisting í þrjár nætur.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

3. maí | Etosha þjóðgarðurinn

Farið verður í safaríferð snemma morguns til þess að ná dýrunum á ferðinni áður en þau láta undan sólarhitanum og skríða í skugga. Hér fer saman merkileg jarðfræði, ótrúleg náttúruundur og einstakt dýralíf en Etosha þjóðgarðurinn er einn merkilegasti þjóðgarður í sunnanverðri Afríku. Hér finnast m.a. ljón, fílar, nashyrningar, sebrahestar, gíraffar, antilópur, blettatígrar auk um 340 tegunda fugla.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

4. maí | Etosha þjóðgarðurinn

Í dag gefst aftur tækifæri til að skoða þjóðgarðinn og einstakt dýralíf hans nánar. Það er mikil upplifun að fylgjast með dýrunum í sínu náttúrulega umhverfi, hvort sem um er að ræða dramatísk augnablik þegar rándýr læðast um eða rólega stund þar sem sebrahestar og gazellur safnast saman við vatnið. Allt er þetta þó vitanlega heppni háð í hvert og eitt skipti. Eftir ógleymanlegan dag er ánægjulegt að fylgjast með kvöldsólinni hverfa bak við víðáttumikið landslag Etosha.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

5. maí | Etosha þjóðgarðurinn & Okapuka Safari Lodge

Aftur förum við snemma af stað til að sjá dýrin áður en verður of heitt. Skoðum svæði í miðjum þjóðgarðinum kallað Etosha Pan sem er sérstakur staður sem minnir í raun um margt á pönnu, því botn þessa láglendis er svo þurr eða nánast skrælnaður. Samt finnast hér dýr sem einhvern veginn draga fram lífið og hafa aðlagast þessum sérstöku aðstæðum. Stöku skugga á hreyfingu bregður fyrir sjónir, þar er dýr á ferð í fjarska. Nú kveðjum við Etosha þjóðgarðinn og stefnum í átt að Otjiwarongo, snotrum litlum bæ þar sem við getum fengið okkur hressingu áður en haldið verður á Okapuka Safari Lodge. Þar upplifum við sannkallað afrískt safarí og höfum möguleika á að sjá gíraffa, strúta, hvíta nashyrninga og fjölmargar antilóputegundir. Gisting í tvær nætur.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

6. maí | Okapuka Ranch

Snemma morguns er í boði safaríakstur til að leita að sjaldgæfari tegundum dýra, áður en snæddur er ríkulegur brunch við heimkomu. Seinni hluta dags eru valfrjálsar ferðir í boði upp til fjalla eða sérstök sólsetursferð.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

7. maí | Frjáls dagur í Windhoek

Nú verður haldið til höfuðborgarinnar Windhoek. Hér gefst tækifæri til að njóta síðustu stundanna í rólegheitum, hvort sem er við sundlaugina á hótelinu eða í rólegri gönguferð um miðbæinn. Windhoek er litríkur og líflegur staður með áhugaverða blöndu af afrískum og evrópskum áhrifum sem endurspeglast í byggingarstíl, menningu og matargerð. Um kvöldið er sameiginlegur kveðjukvöldverður. Gisting í eina nótt.

  • Morgunverður
  • Kvöldverður

8. maí | Heimferð

Í ferðalok er ljúft að geta tekið því rólega en ferðalangar geta ráðstafað fyrrihluta þessa dags að eigin vild áður en haldið verður á flugvöllinn í Windhoek. Brottför með Lufthansa kl. 19:20.

  • Morgunverður

9. maí | Frankfurt & flug heim

Lent í Frankfurt kl. 05:25 um morguninn. Flogið áfram heim kl. 11:20 að staðartíma og áætluð lending í Keflavík kl. 13:05.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Ósk Vilhjálmsdóttir

Ósk Vilhjálmsdóttir nam myndlist við Hochschule der Künste í Berlín og hefur sinnt leiðsögn frá árinu 1992 meðfram myndlist og kennslu. Lengst af um náttúru Íslands og yfirleitt með franska og þýska ferðamenn. Árin 2003-2006 skipulagði hún ásamt Ástu Arnardóttur leiðangra um náttúrusvæði norðan Vatnajökuls. Í kjölfarið stofnaði hún eigin ferðaskrifstofu með náttúruvernd og slow-travel hugmyndafræði að leiðarljósi. Hún kom meðal annars á laggirnar námskeiðum fyrir börn og unglinga sem fjalla um náttúruskoðun og myndlist, árlegar ferðir um Þjórsárver o.fl. Undanfarinn áratug hefur hún auk þess skipulagt ferðir og námskeið fyrir Íslendinga í Marokkó, Þýskalandi og á Ítalíu. Nú hefur Ósk gengið til liðs við Bændaferðir og hlakkar til samstarfsins.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti