Princes býður uppá 3 x 9 holur (Shore-Himalayas-Dunes) sem allar eru stórskemmtilegar og völlurinn er alltaf til fyrirmyndar. Princes hefur oft verið notaður sem „Regional Qualifying“ völlur fyrir The Open. Æfingasvæðið (högg, vipp, pútt) er frábært og hér er hægt að æfa og spila í marga daga án þess að láta sér leiðast. Þessu til viðbótar bjóða þeir uppá gistingu í The Lodge, sem er snyrtilegt, rólegt og sérhannað fyrir golfiðkendur. The Lodge er staðsett við teig hinnar alræmdu 14. holu Royal St. Georges og því umlukið golfi frá komu til brottfarar.
Royal Cinque Port er í 5 mín akstursfjarlægð frá The Lodge og er mjög íhaldssamur enskur völlur. Mjög algengt er að þú spilar fyrri 9 í meðvindi og svo seinni 9 í húrrandi mótvindi. Þetta er gamall og glæsilegur völlur sem gaman er að heimsækja og hefur mörg einkenni sem maður man lengi eftir.
Hér er bannað að spila í stuttbuxum, nema vera í hnéháum sokkum.
Royal St. Georges þarf líklega ekki að fjölyrða um. Collin Morikawa vann Open hér 2021 og þar sem hann gisti í The Lodge þá nefndu þeir hamborgarann sinn eftir honum. Íhaldið á hér höfuðstað og miklar reglur eru allt umlykjandi. Völlurinn er mjög glæsilegur og það er sannarlega einstök upplifun að koma þarna og spila.
Reglur klúbbsins eru 18,4 hámarksforgjöf á gesti. Jakki og bindi skilyrði í veitingasal fyrir hádegismat og hnéháir sokkar ef stuttbuxur.
Nánar um ferðina
Flogið er til Heathrow, þaðan sem rúta keyrir okkur niður til Kent.
5 golfhringir.
Í boði eru 18 tveggja manna herbergi og 4 einstaklingsherbergi. Upplýsingar hér.
Morgunverður alla daga.
Kvöldverður 2 kvöld í The Lodge og 2 „frjáls“ kvöld.
Hádegisverður eftir hring á Royal Cinque Port og Royal St. Georges.
Flugið
Flogið verður með Icelandair til Heathrow þann 20. apríl. Brottför frá Keflavík kl.07:40 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending á Heathrow kl. 11:55 að staðartíma. Frá Heathrow eru um 160 km til Sandwich svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki um 2 klst. Á brottfarardegi er flogið heim kl. 21:25 frá Heathrow. Lending á Íslandi um miðnætti.