Hjólað & siglt í Króatíu

Í þessari ferð upplifum við ógleymanlegt hjólaævintýri um hrífandi strandir, tærbláan sjó og söguríkar borgir í Króatíu. Þessi ferð sameinar afslappandi siglingu um einstakar eyjar Adríahafsins við fjölbreyttar hjólaleiðir um friðsæl sjávarþorp, fjallvegi og náttúruperlur. Ferðin hefst í Split og leiðir okkur á næstu dögum m.a. um litla þorpið Rogoznica, Kornati þjóðgarðinn, náttúruparadísina Telašćica og sögulegu borgirnar Zadar, Šibenik og Trogir. Einn hápunktanna er heimsókn í Krka þjóðgarðinn sem er sannkallaður gimsteinn Dalmatíustrandarinnar en þar blasir við ólýsanleg fegurð þegar fossar, stallar og hyljir mynda saman stórkostlegt náttúrusjónarspil. Á hjólinu fáum við tækifæri til að kynnast menningu og náttúru landsins í rólegum takti – frá ólífuökrum og sveitaþorpum til aldagamalla heillandi menningarborga. Við gistum allan tímann í Króatíu um borð í mótortréskipi þar sem við njótum innlendrar matargerðar, félagsskaparins og töfrandi útsýnis. Í þessari ferð sameinast náttúra, saga, menning og hreyfing á einstakan hátt.
Við njótum lífsins, hjólum um fjölbreytt landslag, syndum í Adríahafinu og upplifum Króatíu með öllum skilningarvitum.

Verð á mann 499.900 kr. fyrir káetu í tvíbýli á neðra þilfari

12.100 kr. aukagjald á mann fyrir káetu í tvíbýli á miðju þilfari.

24.200 kr. aukagjald á mann fyrir káetu í tvíbýli á efra þilfari.

Aukagjald fyrir einbýli 60.500 kr.


Innifalið

  • 9 daga ferð.
  • Flug með Icelandair til Kaupmannahafnar og flugvallaskattar. 
  • Flug frá Kaupmannahöfn til Split og flugvallaskattar.
  • Gisting í eina nótt ásamt morgunverði í tveggja manna herbergi með baði á flugvallarhóteli í Kaupamannahöfn.
  • Sigling ásamt gistingu á mótorseglskipi í 7 nætur.
  • Morgun-, hádegis- og kvöldverður skv. ferðalýsingu og framreitt um borð á skipinu.
  • Hjóladagskrá í 7 daga.
  • Innlend leiðsögn í hjólaferðum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegis- og kvöldverðir aðrir en taldir eru undir innifalið. 
  • Leiga á trekking hjóli í 7 daga 24.100 kr.
  • Leiga á rafhjóli í 7 daga 36.200 kr. 
  • Þjórfé fyrir áhöfn skipsins. 
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Dagleiðirnar í þessari hjólaferð spanna um 16-45 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum fólki að fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og fólk nýtur sjálfrar ferðarinnar betur ef það æfir og undirbýr sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir hjóladaga ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. 

Erfiðleikastig er 2 af 6.

Tillögur að dagleiðum

Bjarni Torfi Álfþórsson fararstjóri er reyndur hjólamaður og mun hann fylgja hópnum í alla hjóladagana. Með í för er einnig innlendur hjólaleiðsögumaður. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir hjóladagana sem fararstjóri og hjólaleiðsögumaðurinn geta skipulagt eftir eigin höfði ásamt því að breyta eða bæta við stöðum.

21. ágúst | Flug til Kaupmannahafnar

Flug seinnipartinn til Kaupmannahafnar og gist eina nótt á flugvallarhóteli.

Opna allt

22. ágúst | Flug til Split, siglt til Rogoznica & hjólað af stað

Nú verður flogið frá Kaupmannahöfn til Split í Króatíu. Við komuna þangað höldum við til hafnar, innritum okkur í klefana og heilsum áhöfninni áður en við siglum af stað til litla sjávarþorpsins Rogoznica. Við leggjum að bryggju og undirbúum fyrstu hjólaferðina, hringferð sem liggur í gegnum ólífuakra og upp að útsýnisstað með fallegu útsýni yfir strandlengju Dalmatíu. Þessi stutta ferð gefur okkur tækifæri til að kynnast hjólunum okkar. Um kvöldið gefst tími til að skoða sig um í þessu heillandi sjávarþorpi.

  • Vegalengd: u.þ.b. 16 km
  • Hækkun: u.þ.b. 165 m
  • Máltíðir innifaldar: Hádegis- & kvöldverður

23. ágúst | Kornati þjóðgarðurinn & náttúruparadísin Telašćica

Við byrjum daginn á því að hjóla frá Vodice yfir á eyjuna Murter sem tengd er meginlandinu með brú. Seinnipartinn siglum við inn í þjóðgarðinn Kornati sem samanstendur af mörgum smáeyjum með fjölbreyttu dýra- og jurtalífi. Við förum í land á Telašćica-náttúruverndarsvæðinu á suðurhluta Dugi Otok-eyjar, þaðan sem er stórkostlegt útsýni frá yfir 100 metra háum klettunum. Ef við erum heppin sjáum við hérna villta asna á sveimi.

  • Vegalengd: u.þ.b. 28 km
  • Hækkun: u.þ.b. 175 m
  • Máltíðir innifaldar: Morgun-, hádegis- & kvöldverður

24. ágúst | Dugi Otok eyja & menningarborgin Zadar

Hjólaferð dagsins er frá hinu fallega Telašćica-svæði og eftir stórbrotinni leið meðfram Dugi Otok-eyju. Útsýnið til vesturs yfir Adríahafið nær nánast til Feneyja og til austurs má sjá Velebit-fjöllin á meginlandinu. Eftir hádegisverð siglum við framhjá Ugljan-eyju í átt að aldagömlu lista- og menningarborginni Zadar. Njótum kvöldsins í gamla bænum í Zadar þar sem aldagömul sagan blandast við nútímalegan blæ þannig að úr verður áhugavert andrúmsloft.

  • Vegalengd: u.þ.b. 34 km
  • Hækkun: u.þ.b. 480 m
  • Máltíðir innifaldar: Morgun- & hádegisverður

25. ágúst | Grænja eyjan Ugljan & hin friðsæla eyja Zlarin

Dagurinn hefst á stuttri siglingu til Ugljan-eyju sem er þakin grænum ólífutrjám, furuskógum og litlum þorpum. Við leggjum að í litla bænum Preko og hjólum fallega leið sem sameinar strandútsýni, sveitavegi og græna náttúru niður til bæjarins Tkon. Ferðin liggur einnig um heillandi smáþorp. Hádegissnarl snæðum við um borð í bátnum. Seinnipartinn siglum við til hinnar friðsælu eyjar Zlarin og á leiðinni njótum við útsýnis yfir heillandi víkur og strandþorp.

  • Vegalengd: u.þ.b. 32 km
  • Hækkun: u.þ.b. 220 m
  • Máltíðir innifaldar: Morgun-, hádegis- & kvöldverður

26. ágúst | Krka þjóðgarðurinn – gimsteinn Dalmatíustrandarinnar

Nú siglum við frá Zlarin til bæjarins Skradin sem liggur við Krka-ána. Við hjólum um sveitavegi í gegnum gróskumikla dali, græna skóga og gegnum þorpin Dubravice, Plastovo og Velika Glava. Þar sem sjá má leifar frá Króatíustríðinu ásamt vínekrum og ólífutrjám. Eftir hádegisverð í Skradin hjólum við stutta leið inn í Krka-þjóðgarðinn sem er sannkallaður gimsteinn Dalmatíustrandarinnar. Þarna blasir við ólýsanleg fegurð þegar fossar, stallar og hyljir mynda saman stórkostlegt náttúrusjónarspil.

  • Vegalengd: u.þ.b. 20/30 km
  • Hækkun: u.þ.b. 350/620m
  • + 10 km á sléttri malarbraut
  • Máltíðir innifaldar: Morgun- & hádegisverður

27. ágúst | Sögufræga borgin Šibenik

Við siglum niður Krka-ána til borgarinnar Šibenik sem er elsta borgin við Adríahafið. Þetta er einstaklega glæsileg borg og hér er meðal annars hægt að heimsækja hina áhrifamiklu St. Jacob dómkirkju sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Einnig er hægt að hjóla út að St. Nikolaus virkinu og upp að tveimur fallegum útsýnisstöðum yfir borgina og innsiglinguna.

  • Vegalengd: u.þ.b. 20 km
  • Hækkun: u.þ.b. 190 m
  • Máltíðir innifaldar: Morgun- & hádegisverður

28. ágúst | Síðasti hjóladagurinn & Split

Nú er komið að lokahjóladeginum og þá er val á milli tveggja leiða. Hægt er að hjóla langa brekku upp á hásléttuna og þá verða launin stórkostlegt útsýni á leiðinni niður aftur til Trogir. Einnig er hægt að velja að hjóla stutta leið út að ströndinni á eyjunni Ciovo og fara þar í gönguferð um markaðinn í gamla bænum sem býður upp á staðbundinn ost, pylsur og vinsæla valhnetulíkjörinn Orahovac. Eftir hádegi siglum við til Split og þar höfum við tíma til að skoða miðbæinn sem er eins og lifandi safn og er á heimsminjaskrá UNESCO. Diokletianhöllin er einn af merkilegustu minnisvörðum byggingarlistar frá tímum Rómverja en hún var byggð á mettíma á árunum frá 295 – 305 e. Kr. Höllin er líflegur staður og er oft talað um hana sem hjarta borgarinnar.

  • Vegalengd: u.þ.b. 45 km
  • Hækkun: u.þ.b. 750 m
  • EÐA 18 km á nánast jafnsléttu
  • Máltíðir innifaldar: Morgun-, hádegis- & kvöldverður

29. ágúst | Flogið frá Split til Kaupmannahafnar

Nú er komið að ferðalokum eftir yndislega daga í paradís Dalmatíustrandarinnar. Við vöknum snemma og eftir góðan morgunverð verður haldið út á flugvöll í Split þaðan sem flogið verður til Kaupmannahafnar. Flogið áfram til Keflavíkur seinnipart dags.

  • Máltíðir innifaldar: Morgunverður

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er ekki fæddur á hjóli en hefur samt farið yfir 40 hjólferðir erlendis , mestmegnis með gesti Bændaferða. Bjarni er menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur og hefur frá 2011 verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi. Bjarni hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um íþróttir og útiveru, en hann hefur m.a. verið formaður Íþróttafélagsins Gróttu í 6 ár auk þess að vera virkur í margskonar öðru félagsstarfi. Hann hefur þjálfað unglinga bæði í knattspyrnu og handknattleik og auk þess farið margar ferðir sem farastjóri með íþróttahópa erlendis. Bjarni er giftur 4 barna faðir og á auk þess 5 barnabörn. Bjarni Torfi bjó lengi í Kaupmannahöfn.

Skip

Skipið - Hjólað & siglt í Króatíu

Siglt verður á mótorseglskipi úr tré með plássi fyrir 20–30 farþega. Þar eru eins og tveggja manna káetur með sér baðherbergi og salerni. Í boði eru káetur með hjónarúmi og aðskilin rúm sem eru þá kojur. Þar sem ferðast er á seglskipi eru káeturnar í minna lagi. Um borð er einnig borðsalur, bar sem er opin allan daginn (ekki er leyfilegt að koma með eigin drykki um borð) og sóldekk. Hámarks siglingarhraði skipsins er um 9 hnútar. Áhöfnin samanstendur af skipstjóra, stýrimanni, kokki, þjón og háseta. Aðeins er siglt að degi til og stundum lagt við akkeri í víkum og flóum þegar þörfin fyrir sundsprett grípur farþegana. Aðgengi að sjónum er auðvelt með tröppu niður í vatnið þannig að ekki þarf að stökkva frá þilfarinu. Um nætur er alltaf dvalið við bryggju eða við akkeri. Við mælum með að hafa eyrnatappa meðferðis til að sofa með þegar dvalið er við bryggju.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti