21. - 29. ágúst 2026 (9 dagar)
Í þessari ferð upplifum við ógleymanlegt hjólaævintýri um hrífandi strandir, tærbláan sjó og söguríkar borgir í Króatíu. Þessi ferð sameinar afslappandi siglingu um einstakar eyjar Adríahafsins við fjölbreyttar hjólaleiðir um friðsæl sjávarþorp, fjallvegi og náttúruperlur. Ferðin hefst í Split og leiðir okkur á næstu dögum m.a. um litla þorpið Rogoznica, Kornati þjóðgarðinn, náttúruparadísina Telašćica og sögulegu borgirnar Zadar, Šibenik og Trogir. Einn hápunktanna er heimsókn í Krka þjóðgarðinn sem er sannkallaður gimsteinn Dalmatíustrandarinnar en þar blasir við ólýsanleg fegurð þegar fossar, stallar og hyljir mynda saman stórkostlegt náttúrusjónarspil. Á hjólinu fáum við tækifæri til að kynnast menningu og náttúru landsins í rólegum takti – frá ólífuökrum og sveitaþorpum til aldagamalla heillandi menningarborga. Við gistum allan tímann í Króatíu um borð í mótortréskipi þar sem við njótum innlendrar matargerðar, félagsskaparins og töfrandi útsýnis. Í þessari ferð sameinast náttúra, saga, menning og hreyfing á einstakan hátt.
Við njótum lífsins, hjólum um fjölbreytt landslag, syndum í Adríahafinu og upplifum Króatíu með öllum skilningarvitum.