Á gönguskíðum í Toblach

Dólómítarnir hafa löngum verið vinsælt skíðasvæði yfir vetrartímann, enda aðstæður til skíðaiðkunar með eindæmum góðar. Stórbrotin náttúra, sögulegt mikilvægi og sérstæð menning eru ástæður þess að fjallgarðurinn er skráður á heimsminjaskrá UNESCO. Í dalnum Hochpustertal liggur eitt besta skíðagöngusvæði í Suður-Tíról, enda eru skíðabrautir svæðisins um 200 km langar í öllum erfiðleikastigum. Gist verður á glæsilegu 4* hóteli í bænum Toblach, sjarmerandi fjallaþorpi þar sem ægifagrir tindar Dólómítanna bera við bláan himininn. Aðstaðan á hótelinu er góð en þar er boðið upp á valmatseðil á kvöldin, þægileg herbergi ásamt heilsulind með gufubaði, nuddpotti, sundlaug og margt fleira. Flogið er með Icelandair til Innsbruck og ekið sem leið liggur til Toblach en þangað eru um 135 km. Í þessari ferð er ekki skipulögð skíðagöngukennsla og því hentar hún ekki fyrir byrjendur.

Verð á mann í tvíbýli 329.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 38.800 kr.


Innifalið

  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Ferðir á milli flugvallarins í Innsbruck og hótelsins í Toblach.
  • Gisting í tveggja manna herbergi með sturtu/baði á fjögurra stjörnu hóteli.
  • Morgunverðarhlaðborð.
  • Kvöldverður með 3ja rétta valmatseðli ásamt salatbar. 
  • Aðgangur að heilsulind hótelsins.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Kaupa þarf sérstakt kort fyrir gönguskíðabrautir svæðisins (vikukort u.þ.b. € 50).
  • Aukagjald fyrir skíði í flug.
  • Hádegisverðir.
  • Forfalla- og ferðatrygging
  • Þjórfé.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Nánar um ferðina

Í ferðinni verða tveir fararstjórar sem munu vera með skipulega dagskrá, boðið verður upp á styttri og lengri ferðir og gjarnan staldrað við í hádegi á notalegum veitingastað. Þeir sem vilja frekar njóta þess að skíða á sínum eigin forsendum í dásamlegu umhverfi gera það. Markmiðið er að allir njóti sín á gönguskíðum við góðar aðstæður.

Skíðasvæðið

Í dalnum Hochpusterdal í Suður-Tíról má finna eitt af allra bestu gönguskíðasvæðum Dólómítanna, enda eru skíðabrautir svæðisins um 200 km langar og fjölbreyttar, en þó aðallega bláar og rauðar. Bærinn Toblach, oft kallaður „Hliðið að Dólómítunum“, liggur í miðjum dalnum og er einstaklega vel tengdur öllum helstu skíðabrautunum og því auðvelt að finna nýjar leiðir á hverjum degi. Frá Toblach liggja m.a. brautir um rómantíska dalinn Val Fiscalina en þaðan sjást vel hinir ægifögru og vel þekktu tindar Dólómítafjallanna (Drei Zinnen). Tindarnir voru eitt sinn hluti af víðáttumiklu hitabeltishafi og eru myndaðir úr kóralrifum Hægt er að ganga Tour de Ski keppnisleiðina frá Toblach til Cortina en leiðin liggur yfir breiða sléttu í 2000 m hæð í gegnum dalinn Val di Landro. Í Toblach er einnig að finna mislangar þjálfunarbrautir (Nordic Ski Arena) sem margir þekktir skíðagöngugarpar nota til æfinga. Árlega eru haldnar heimsþekktar skíðagöngukeppnir í Toblach eins og t.d. Tour de Ski, Pustertaler Ski Marathon og Dobbiaco-Toblach – Cortina.

Vefsíða svæðisins.

Flugið

Flogið verður með Icelandair til Innsbruck þann 18. janúar. Brottför frá Keflavík kl. 09:55 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Innsbruck kl. 15:05 að staðartíma. Frá flugvellinum í Innsbruck eru um 135 km til Toblach svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki rúmar 2 klst. Á brottfarardegi er flogið heim kl. 16:05 frá Innsbruck. Lending á Íslandi kl. 19:40.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Marelsdóttir

Íris er sjúkraþjálfari og leiðsögumaður og starfar sem yfirsjúkraþjálfari hjá Reykjavíkurborg. Hún hefur verið gönguskíðaleiðsögumaður hjá Bændaferðum síðan 2005 og farið fjölmargar gönguskíðaferðir til Ramsau, Toblach og til Seefeld. Íris lauk leiðsögumannsprófi frá MK árið 2015 og hennar aðaláhugamál er útivist af öllu tagi og gönguleiðsögn að sumri sem að vetri. Hún fékk gott veganesti inn í fjallalífið sem björgunarsveitarmaður í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. 

Árni Ingólfsson

Árni Ingólfsson er fæddur 1961 í Kópavogi. Hann er vélvirki, vinnur í vélsmiðjunni Héðni hf og sér um gæða- og öryggismál fyrirtækisins. Hann hefur verið félagi í Hjálparsveit skáta Kópavogi um 30 ára skeið og starfar þar með rústaflokki sem er hluti af íslensku alþjóðasveitinni. Útivist hefur hann stundað alla tíð og farið í jeppaferðir, gönguferðir, skíðaferðir og kayakferðir.

Hótel

Park Hotel Bellevue

Í þessari ferð verður gist á 4* hótelinu Park Hotel Bellevue í bænum Toblach. Hótelið á sér einstaka sögu, byggt 1902 og er enn í eigu sömu fjölskyldu. Hótelið er eitt af fyrstu hótelunum sem byggð voru í dalnum og státar af fallegri staðsetningu með útsýni yfir hinn tignarlega Dólómíta fjallgarð og tindana þrjá. Auðvelt er að komast á gönguskíðasvæðið þar sem ein af göngubrautunum liggur beint aftan við hótelið. Jafnframt tekur einungis nokkrar mínútur að ganga að skíðagöngumiðstöðinni.

Hægt er að ganga (10-15 mín.) í gamla miðbæinn en einnig er hægt að taka strætó sem stoppar fyrir utan hótelið. Herbergin á hótelinu eru öll með sturtu/baði, síma, sjónvarpi, öryggishólfi og hárblásara. Á hótelinu er einnig að finna glæsilega heilsulind með sundlaug, ýmsum tegundum af gufuböðum, nuddpotti og fleira þar sem hægt er að slaka á eftir góðan skíðadag. Hægt er að panta nudd og aðrar heilsumeðferðir gegn gjaldi. Á hótelinu er skíðageymsla með aðstöðu til að bera á skíðin og hitaherbergi til að þurrka skóna. 

Vefsíða hótelsins

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti