18. - 25. janúar 2025 (8 dagar)
Dólómítarnir hafa löngum verið vinsælt skíðasvæði yfir vetrartímann, enda aðstæður til skíðaiðkunar með eindæmum góðar. Stórbrotin náttúra, sögulegt mikilvægi og sérstæð menning eru ástæður þess að fjallgarðurinn er skráður á heimsminjaskrá UNESCO. Í dalnum Hochpustertal liggur eitt besta skíðagöngusvæði í Suður-Tíról, enda eru skíðabrautir svæðisins um 200 km langar í öllum erfiðleikastigum. Gist verður á glæsilegu 4* hóteli í bænum Toblach, sjarmerandi fjallaþorpi þar sem ægifagrir tindar Dólómítanna bera við bláan himininn. Aðstaðan á hótelinu er góð en þar er boðið upp á valmatseðil á kvöldin, þægileg herbergi ásamt heilsulind með gufubaði, nuddpotti, sundlaug og margt fleira. Flogið er með Icelandair til Innsbruck og ekið sem leið liggur til Toblach en þangað eru um 135 km. Í þessari ferð er ekki skipulögð skíðagöngukennsla og því hentar hún ekki fyrir byrjendur.