31. ágúst - 7. september 2025 (8 dagar)
Comovatnið á Ítalíu býr yfir einstakri náttúrufegurð. Vatnið er við rætur Alpafjalla og hefur verið eftirsótt af hefðarfólki frá fornu fari og enn er það svo að ríka og fræga fólkið sækir þangað. Í þessari ferð verður gengið eftir aldagömlum samgönguleiðum sem lágu með fram Comovatninu, Via Regina vestan megin, en hana lögðu Rómverjar yfir Alpana, og Sentiero del Viandante austan megin. Ferðin miðar að því að skoða þetta fallega svæði fótgangandi og fá um leið innsýn í líf og menningu við vatnið, í dag sem og fyrr á tímum. Markmið ferðarinnar er að njóta en ekki þjóta. Við sjáum glæsivillur, falleg þorp, mikinn gróður og undursamlegt landslag á göngu um þetta svæði. Farið verður að Villa Balbianello sem hefur verið tökustaður fyrir margar frægar kvikmyndir á borð við James Bond og Star Wars. Einnig verður gengin Sacro Monti leiðin upp á hið heilaga fjall, þar sem göngustígurinn liggur fram hjá 14 kapellum, en þessa gönguleið gekk fólk bæði vegna mikillar náttúrufegurðar og sem hluta af trúarlegri upplifun. Í ferðinni verður Comovatnið skoðað með augum heimamanna en fararstjóri ferðarinnar hefur búið við vatnið í áratugi.