Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
18. september           Flug til München & Fügen í ZillertalKrimmlerfossar

Brottför frá Keflavík kl. 7.20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13.05 að staðartíma (+ 2 klst.). Byrjum á því að aka til bæjarins Fügen í Zillertal sem er stærsti bærinn í dalnum. Zillerdalurinn er oftast kallaður „dalur söngsins“ og er þar bæði sungið mikið og jóðlað. Það má því segja að rætur Tírólatónlistar liggi hér á þessu svæði. Við gistum í 7 nætur á góðu hóteli í dalnum. Á hótelinu er inni- og útisundlaug, fallegur garður, heilsulind og sauna.

 
 
19. september           Mayrhofen, Krimmlerfossar & Kitzbühel

Skemmtileg hringferð er í boði í dag. Byrjum á Mayrhofen í Zillerdal, en dalur sá er við jöklasvæði Zillerdal-Alpanna og er rómaður fyrir fegurð. Síðan heldur ferðin áfram að Krimmlerfossum í Salzachdalnum milli háu Tauernfjallanna og Kitzbühleralpanna þar sem við sjáum glæsilegasta foss Austur-Alpanna. Á leiðinni til baka verður áð í Kitzbühel sem er í dag einn af þekktari vetraríþróttabæjum landsins. Á 16. og 17. öld blómstraði bærinn vegna kopar- og silfurvinnslu. Miðbærinn hefur að geyma gömul bindingsverkshús, Katharinen-kirkjuna, sem er í gotneskum stíl og mikið úrval af fínum verslunum.

 
 
20. september           Innsbruck & Kristalsheimur SwarovskiKristalsheimur Swarovski

Í dag skoðum við Innsbruck, höfuðborg Tíról, sem er umvafin fjöllum og töfrandi náttúrufegurð. Innsbruck var ein af borgum Habsborgaranna, einnar mikilvægustu valdsættar Evrópu. Blómatími hennar var á 15. öld undir stjórn Maximilian I af Habsborg. Hann lét byggja helsta kennileiti borgarinnar, húsið með gullþakinu, sem stendur við eitt fallegasta torgið í Tíról. Nú verður hægt að kanna borgina á eigin vegum, líta inn til kaupmanna í Maria-Theresien-Straße eða setjast niður á eitthvert hinna fjölmörgu kaffi- og veitingahúsa og virða fyrir sér iðandi mannlíf borgarinnar. Eftir skemmtilega skoðunarferð og frjálsan tíma í borginni verður ekið til Wattens en þar er að finna Swarovski kristalverksmiðjurnar, safnið og verslun sem hafa verið í 120 ár í Inn dalnum.

 
 
21. september           Rólegur dagur í Fügen

Við tökum það rólega í dag og því er upplagt að nota aðstöðuna á hótelinu, fara í sund, gufu eða heitan pott. Í þessu dásamlega umhverfi í dalnum inn á milli fjallanna er tilvalið að fara í gönguferð og njóta fjallaloftsins. Eins er bærinn Fügen mjög snotur og gaman að rölta um hann og skoða.

 
 
22. september           Hintertux & Kláfur að jökliHintertux & Kláfur að jökli

Ævintýraleg fjallaferð til Hintertux innst inn í Zillerdalnum en þar tekur stórbrotin fjallafegurð á móti okkur. Farið verður með kláf upp að Tuxar Fernerhaus sem er í 2.660 m hæð við Hintertux jökulinn en hæsti jöklatindurinn er í 3.476 m hæð. Stórkostlegt útsýni er til jökulsins og ólýsanleg fjallafegurð allt um kring. Það er tilvalið að fá sér hádegisverð þarna uppi og njóta dýrðarinnar. Eftir góðan tíma verður ekið tilbaka á hótelið.

 
 
23. september           Gufulest að Achensee & Gramai-Alm þjóðgarðurinn

Í dag verður farið í skemmtiferð með gamaldags gufulest frá Jenbach upp að Achensee-vatninu sem er eitt fallegasta og jafnframt stærsta vatnið í Tíról. Á leiðinni verður komið við í Pertisau sem er snotur bær. Við ökum svo til Gramai–Alm, þjóðgarðs Karwendel-fjalla sem er í 1.263 m hæð. Við fáum okkur snarl og skoðum síðan osta- og pylsusel frá 16. öld.

 
 
24. september           Kúasmölunarhátíðin í FügenKúasmölunarhátíð í Fügen

Það stendur mikið til hjá bæjarbúum í dag, því nú er komið að sjálfri kúasmöluninni. Bændur reka kýr sínar til byggða eftir dvöl í seljum í fjöllunum, en kýrnar koma niður um hádegisbilið. Hefð er fyrir því að skreyta kýrnar og gjöfulasta kýrin er mest skreytt. Mikil hátíðahöld eru í hlíðinni fyrir ofan bæinn á dásamlegum stað. Hátíðin hefst með markaði með afurðum frá bændum og alls staðar hljómar tónlist að hætti Tíróla. Síðan verður að sjálfsögðu matur, bjór, söngur og dans.

 
 
25. september           Heimferð frá München

Eftir indæla og skemmtilega ferð verður ekið til München. Brottför þaðan kl. 14.05 og lending í Keflavík kl. 16.00 að staðartíma.

 
 
 
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

 
  
 
Verð: 186.300 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 18.800 kr.

 
 Tíról & Alparósir
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgun- og kvöldverður allan tímann á hóteli.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Aðgangur að kúasmölunarhátíðinni í Fügen.
• Aðgangur inn í Gramai - Alm þjóðgarðinn.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur. Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll. Siglingar. Hádegisverðir. Þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Kristalsheimur Swarovski ca. € 19. Kláfur að Hintertux jökli ca. € 21. Gufulest að Achensee ca. € 20. Krimmlerfossar ca. € 3.

 
 

 Ferðaskilmálar Bændaferða

 
 

 

Tengdar ferðir