Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
9. október           Flug til Frankfurt og ekið til OberkirchFreiburg & Klukkuvegurinn

Brottför frá Keflavík kl. 7.25. Mæting í Leifsstöð um 2 klst. fyrir brottför. Lending í Frankfurt kl. 12:50 að staðartíma (+2 klst). Ekin verður falleg leið um Svartaskóg til Oberkirch sem er skemmtilegur lítill bær. Gist þar í sjö nætur.

 
 
10. október           Freiburg & Klukkuvegurinn

Eftir morgunverð liggur leið okkar til Freiburg, hliðið inn í suðurhluta Svartaskógar. Freiburg eða hin frjálsa borg er einnig borg skógarins, gotneskrar listar og víns. Eftir gott stopp í Freiburg ökum við hluta af Klukkuveginum, leiðina sem er aðallega þekkt fyrir frægar klukkuverslanir. Hér væri hægt að fara á gauksklukkuverkstæði til að sjá hvernig klukkurnar eru búnar til.

 
 
11. október           StrassburgStrassburg

Við förum í skoðunarferð um Strassburg, höfuðborg Alsace héraðsins. Byrjum á því að fara í skemmtilega siglingu á ánni Ill sem rennur um borgina, en þar sjáum við glæsibyggingar og komum m.a. að Evrópubyggingunum. Eftir það göngum við inn í gamla hlutann, með gömlum bindiverkshúsum og að Münsterkirkjunni, stolti borgarbúa. Mjög merkilegt stjörnu- og sólúr er inni í kirkjunni. Að skoðunarferðini lokinni gefst frjáls tími til að fá sér hressingu og ganga um listamannahverfið sem nefnist „Litla Frakkland“.

 
 
12. október          Heidelberg

Við byrjum daginn á ferð til Heidelberg sem er ein elsta háskólaborg Þýskalands. Borgin stendur á bökkum árinnar Neckar sem setur svip á þennan annars glæsilega gamla bæ, en miðbærinn er einstaklega áhugaverður með gömlum byggingum og fallegri dómkirkju. Ekki skemmir rómantík Heidelbergar hallarinnar sem trónir yfir borginni. Eftir skoðunarferð gefst tími til að njóta borgarinnar á eigin vegum áður en haldið verður aftur á hótel.

 
 
13. október           Frjáls dagur í OberkirchBasel

Þennan dag er frjáls dagur í Oberkirch, sem er lítill og huggulegur bær. Nú er hægt að taka það rólega, njóta þess að vera í þessu fagra umhverfi og rölta um bæinn.

 
 
14. október           Basel

Í dag er upplagt að fara yfir landamærin til Basel í Sviss. Þessi fjölskrúðuga menningar- og listaborg á sér mörg andlit og margar hliðar, svo sem hrífandi gamlar byggingar og ótal söfn. Margir telja að miðbærinn sé einn sá fallegasti í Evrópu.

 
 
15. október           Vínslóðin til RiquewihrRiquewihr

Ekið verður um Vínslóðina í Alsace þar sem við þræðum ótal falleg smáþorp. Byrjum á því að stoppa í Obernai, yndislegum litlum bæ. Eftir það verður ekið um Barr og Ribeauvillé til Riquewihr, sem er ævintýrabær með gömlum bindiverkshúsum, bæjarturni og jólabúðinni frægu. Svo eru það vínbændurnir með vínkjallarana sína í öðru hverju húsi sem heilla. Upplagt væri að enda daginn á vínsmökkun áður en ekið verður til baka, um Markelsheim, Plobsheim og yfir til Oberkirch.

 
 
16. október           Heimferð

Nú kveðjum við Svartaskóg og Alsace héraðið eftir góða daga. Að morgunverði loknum verður lagt af stað út á flugvöll og fljúgum við heim kl. 14:00. Lending í Keflavík er kl. 15:35 að staðartíma.

 
 
 
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

 
  
 
Verð: 169.900 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 18.200 kr.

 
 Dansað í Freiburg
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgun- og kvöldverður allan tímann á hóteli.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Íslensk fararstjórn.


 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur. Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll. Siglingar og vínsmökkun. Hádegisverðir. Þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Sigling í Strassburg ca. € 13. Vínsmökkun ca. € 10. Heidelberg kastali og lyfta ca. € 7.

 

 
 
  
 

 Ferðaskilmálar Bændaferða

 
 

 

Tengdar ferðir