Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
SvæðiðZugspitze, sem er hæsta fjall Þýskalands 2.962 m hátt

Ehrwald er beint við rætur fjallsins Zugspitze, sem er hæsta fjall Þýskalands 2.962 m hátt, staðsett á landamærunum við Austurríki. Ehrwald dalurinn liggur meðfram Wetterstein fjöllum og er í 1.000 m hæð yfir sjávarmáli. Hér er öll aðstaða til útivistar góð, skíði um vetur og göngur og fjallahjól á sumrin. Svæðið býður upp á einstaka náttúrufegurð og ævintýralegar gönguleiðir með viðkomu í fjallakofum. Tær fjallavötn, blómstrandi engi og stórkostleg fjallsýn er það sem við upplifum hér í Alpafjöllunum.

 
 
Gönguferðirnar

Frá hótelinu verður farið í skipulagðar gönguferðir með austurrískum gönguleiðsögumanni, en íslenski fararstjórinn verður að sjálfsögðu einnig með í för. Suma daga er mögulegt að taka þurfi strætó eða fjallakláf að eða frá göngustaðnum. Hvaða dag sem er geta ferðalangar kosið að taka það rólega og skoða sig um í næsta nágrenni hótelsins eða njóta þeirrar frábæru aðstöðu sem hótelið hefur upp á að bjóða.

 
 
UndirbúningurGönguferð

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi, en besti undirbúningurinn er að njóta náttúrunnar og ganga upp á Esjuna eða sambærilegt fjall. Gott er að ganga upp að Steini einu sinni í viku, a.m.k. tvisvar til þrisvar sinnum fyrir ferðina.

 
 
Tillaga að dagleiðum 18. – 25. maí

Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir 5 göngudaga, en einn frídagur er í ferðinni.

 
  
Thörlen fjall1. Gengið hring um Thörlen fjall

Gengið verður hring um Thörlen fjallið við rætur Zugspitze. Við byrjum á því að sækja á brattann og komum svo að selinu Hochthörlehütte þar sem lóðrétt norðurhlíð Zugspitze nemur við Thörlenfjall. Þegar hér er komið njótum við útsýnis yfir Eibsee vatnið. Á vegi okkar verða skemmtilega sniðnar tréfígúrur. Við göngum um skóglendi niður af fjallinu og svo um blómum skrýdd engi.
 
         Göngutími: 4 klst.
         Hækkun: 600 m.
         Erfiðleikastig leiðar: Miðlungserfið

 
 
2. Gengið í hlíðum KoppensteigGengið í hlíðum Koppensteig

Þessi ganga um fjallshlíðar Koppensteig er frekar jöfn þar til komið er upp fyrir Sonnenhang lyftuna. Þaðan er stórkostlegt útsýni. Við höldum svo eftir tengivegi upp í móti á Höhenweg slóðina. Leiðin liggur þá létt niður í móti að Gamsalm seli, þar sem má fá sér hressingu áður en gengið er niður að lestarstöð í dalnum.
 
         Göngutími: 3 klst.
         Hækkun: 400 m.
         Erfiðleikastig leiðar: Miðlungserfið

 Gengið um Ehrwalder Alm að Seebensee vatni 
 
3. Gengið um Ehrwalder Alm að Seebensee vatni

Við hefjum gönguna yfir engi að læk. Þaðan liggur leiðin að mestu um skóglendi þar til komið er að þessu undurfagra blágræna fjallavatni umkringt fjallstindum. Á þessari leið verða á vegi okkar beitilönd, þar sem kýrnar una sér í rólegheitum og klingja bjöllum sínum. Við Seebahn Alm er tilvalið að fá sér í svanginn áður en haldið er áfram göngu.
 
          Göngutími: 2,5 klst.
          Hækkun: 670 m.
          Erfiðleikastig leiðar: Miðlungserfið

 
 
4. Frá Lermoos, yfir Schlägle til Wolfratshauser Hütte

Í dag verður haldið á brattann á fjallshryggnum Schlägle gegnum skóglendi og skíðalendur að áningarstað okkar Wolfratshauser Hütte. Hér munum við staldra við áður en haldið er til baka sömu leið. 

 
          Göngutími: 2 klst.
          Hækkun: 810 m.
          Erfiðleikastig leiðar: Miðlungserfið

 
 
5. Biberwier hringgangurBiberwier hringgangur

Gengið verður hring í dalnum um þrjú vötn; Mittersee, Blindsee og Weissensee. Gangan í dag er létt upp í móti. Við hefjum gönguna um skóglendi þar til komið er að uppsprettu Loisach árinnar, en það þykir úrvals leikfimi fyrir bláæðarnar að vaða í þessum köldu fjallalindum. Við höldum áfram framhjá Mittersee og af hæðinni yfir að Blindsee höfum við víðfemt útsýni yfir vatnið. Þegar við komum að veitingahúsinu Zugspitzblick er kjörið að næra sig. Síðar komum við svo á útsýnisleiðina svokölluðu og henni fylgjum við að síðasta vatninu Weissensee.
 
          Göngutími: 3,5 klst.
          Hækkun: 600 m.
          Erfiðleikastig leiðar: Miðlungserfið

 
 
Sporthótel SchönruhSporthótel Schönruh

Hótelið Schönruh, er 4* og stendur í hlíð með stórkostlegri fjallasýn yfir Zugspitze og Wetterstein fjöllin. Eins og viðeigandi er á svæðinu er hótelið innréttað í huggulegum alpastíl, herbergin eru með sturtu/baðkeri, hárþurrku, síma og sjónvarpi ásamt ókeypis þráðlausri nettengingu.  
 
Glæsileg heilsulind er á hótelinu með rómversku og finnsku gufubaði, jurtagufu, innrauðum hitaklefa og heitum potti. Boðið er upp á ýmsar aðrar heilsumeðferðir gegn gjaldi. Einnig er líkamsræktaraðstaða á staðnum og aðgangur að sundlaugargarði í 400 m frá hótelinu fylgir. Einungis er um 3 mínútna gangur niður í Ehrwald þorpið, þar sem meðal annars er að finna klifurgarð. Á hótelinu er hægt að fá leigð fjallahjól og golfvöllur er í nágrenninu.

 
 
Flugið

Flogið verður með Icelandair til München þann 18. maí. Brottför frá Keflavík kl. 7.20, en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst fyrir brottför. Lending í München kl. 13.05 að staðartíma. Frá flugvellinum í München eru um 150 km til Ehrwald svo gera má ráð fyrir að rútuferðin tæpa tvo tíma. Á heimleið 25. maí leggjum við af stað út á flugvöll eftir morgunverð og flogið verður heim kl. 14.05 frá München. Lending á Íslandi kl. 16.00 að staðartíma.

 
 



 
 
Verð: 169.900 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 14.600 kr.

 
 Trítlað í Alpadölum
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
• Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins í Ehrwald.
• Gisting í tveggja manna herbergi með baði á fjögurra stjörnu hóteli í Ehrwald.
• Morgunverðarhlaðborð með heilsuhorni.
• Vel útilátinn 4 rétta kvöldverður með salat- og ostabar.
• Á sunnudögum er boðið upp á gala kvöldverð og á miðvikudögum austurrískt hlaðborð.
• Síðdegishressing á hótelinu.
• Aðgangur að öllu því sem heilsulindin hefur upp á að bjóða.
• Frítt internet á hótelinu.
• Göngudagskrá.
• Leiðsögn staðarleiðsögumanns í gönguferðum.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur. Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll, hádegisverður og þjórfé.

 
 
Mælt er með að þátttakendur kaupi sér Z kortið á afsláttarverði hjá hótelinu. Innifalið í því er ein ferð með kláfi upp á Zugspitze tindinn og til baka, og ótakmarkaðar ferðir með flestum lestum og kláfum á svæðinu. Ýmis önnur hlunnindi fylgja kortinu. Verð ca. € 56.

 
 
 
 
 

Ferðaskilmálar Bændaferða
 
 

 

Tengdar ferðir




Póstlisti