Páskar við Bodensee

Hér er á ferðinni ljúf og glæsileg ferð þar sem byrjað verður á að dvelja í borginni Konstanz við Bodensee vatnið. Konstanz hefur verið kölluð sál Evrópu en þar er að finna hrífandi staði þar sem náttúrufegurðin er einstök og menningarsagan mikil. Í lok miðalda var Boden vatnasvæðið afar mikilvæg lífæð og umlukið sögufrægum miðaldabæjum og ósnortinni náttúrufegurð. Blómaeyjan fagra, Mainau, sem ætíð breytir um svip eftir árstíðum, verður sótt heim. Ekki lætur fegurðin á sér standa við Rínarfossa sem eru afar mikið sjónarspil en þeir eru með kraftmestu fossum í Evrópu. Í nágrenni fossanna upplifum við borgina Schaffhausen í Sviss, sem stendur við bakka Rínarfjótsins en þar má finna merkar og ríkulega skreyttar miðaldabyggingar. Við förum í ferjusiglingu yfir Boodensee vatnið að litríka miðaldabænum Meersburg en þar má finna elsta miðaldakastala Þýskalands. Í Unteruhldingen heimsækjum við lítið steinaldarþorp úti á vatninu sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Ævintýralandslagið bíður okkar við rætur Alpafjallanna í bænum Kempten í Allgäu í Þýskalandi. Hér dveljum við í lok ferðar og förum þaðan að bænum Füssen í Bæjaralandi. Hér er að finna eina stórfenglegustu höll Evrópu, Neuschwanstein, sem Bæjarakonungurinn Ludwig II, oft kallaður ævintýrakonungurinn, lét reisa 1869. Í þessari ljúfu ferð fræðumst við einnig um vín- og ávaxtarækt, röltum um notalega bæi og njótum lífsins í hrífandi náttúrufegurð.

Verð á mann í tvíbýli 359.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 54.100 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Tveir kvöldverðir á veitingastað í Konstanz.
  • Tveir kvöldverðir á hóteli í Kempten.
  • Tvær ferjusiglingar yfir Boodensee vatnið.
  • Létt hádegissnarl og vínsmökkun hjá vínbónda.
  • Aðgangur á blómaeyjuna Mainau.
  • Aðgangur að Rínarfossum.
  • Aðgangur í steinaldarþorpið.
  • Aðgangur í Neuschwanstein höllina.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur sem ekki er talið upp undir innifalið.
  • Hádegisverðir. 
  • Þrír kvöldverðir í Konstanz.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Frekari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

31. mars | Flug til Zürich & ekið til Konstanz í Þýskalandi

Brottför frá Keflavík kl. 07:20 . Mæting í Leifsstöð a.m.k. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Zürich í Sviss kl. 13:05 að staðartíma. Ekið verður til Konstanz sem er falleg borg í suðurhluta Þýskalands, rétt við landamæri Sviss. Hún liggur við Bodensee, eitt stærsta stöðuvatn Mið-Evrópu, en að vatninu liggja þrjú lönd, Þýskaland, Sviss og Austurríki. Gist verður í fimm nætur á hóteli í Konstanz. Sameiginlegur kvöldverður á veitingastað.

1. apríl | Töfrandi dagur á blómaeyjunni Mainau

Það bíður okkar töfrandi dagur því eftir morgunverð verður farið á blómaeyjuna Mainau. Eyjan er um 45 hektarar en fyrir 2000 árum var hún virki Rómverja og á 9. öld tilheyrði hún hinu volduga klaustri á nágrannaeyjunni Reichenau. Sænski greifinn Lennart settist þar að og á heiðurinn af þessum einstaklega glæsilega lystigarði sem við skoðum. Kvöldverður á eigin vegum.

2. apríl | Skoðunarferð & frjáls dagur í Konstanz

Við njótum þess að eiga góðan dag í Konstanz. Byrjað verður á því að fara í fróðlega skoðunarferð um borgina sem er sú stærsta við vatnið og einn helsti ferðamannastaðurinn. Konstanz er lífleg og áhugaverð borg þar sem gaman er að rölta um, skoða óvenjuleg útilistaverk, glæstar byggingar og líta inn á hugguleg kaffi- eða veitingahús. Kvöldverður á eigin vegum.

Opna allt

3. apríl | Schaffhausen, Rínarfossar & létt snarl hjá vínbónda

Dagurinn hefst á akstri til bæjarins Schaffhausen í Sviss sem stendur við bakka Rínarfjótsins. Í bænum standa nokkrar af tilkomumestu miðaldabyggingum landsins, allar ríkulega skreyttar. Eftir skoðunarferð í bænum verður haldið áfram að Rínarfossunum sem staðsettir eru skammt frá bænum. Fossarnir eru afar mikið sjónarspil, þeir eru með kraftmestu fossum Evrópu og falla um 23 metra milli stórskorinna klettadranga. Þegar við höfum notið þessarar mögnuðu náttúruperlu verður haldið til vínbónda þar sem boðið verður upp á létta hressingu. Kvöldverður á eigin vegum.

4. apríl | Sigling á Bodensee, Meersburg & steinaldarþorpið

Í dag verður farið með ferju frá Konstanz yfir til bæjarins Meersburg. Bærinn býr yfir miðaldatöfrum og lega hans í hæðunum við vatnið er heillandi. Kastalinn sem gnæfir yfir þröngum götunum er elsti kastali landsins og er mjög athyglisverður. Eftir hádegi höldum við til bæjarins Unterhuldingen, heimsækjum þar steinaldarþorp úti á vatninu við bæinn og er á heimsminjaskrá UNESCO. Þar förum við í mjög áhugaverða skoðunarferð. Eftir það verður ekin fögur leið meðfram Bodensee aftur til Konstanz. Sameiginlegur kvöldverður á veitingastað.

5. apríl | Lindau & Kempten í Allgäu í Þýskalandi

Nú kveðjum við Konstanz árla morguns, tökum ferju yfir vatnið og höldum til Kempten í Allgäu í Þýskalandi. Á leiðinni verður áð í Lindau sem er einn stærsti bærinn við vatnið og jafnframt afar heillandi en gamli hluti bæjarins er úti á eyju sem tengd er landi með brú. Við gefum okkur tíma til að njóta þessa einstaklega fallega miðaldabæjar og hér er upplagt að fá sér hádegishressingu áður en við höldum áfram ferð okkar til Kempten. Kempten er talin önnur elsta borg Þýskalands og var upphaflega byggð af Rómverjum 15 árum fyrir Krist burð. Borgin er höfuðborg Alpahéraðsins Allgäu og er við ána Iller. Þegar allir eru búnir að koma sér fyrir á hótelinu verður farið í stutta göngu í miðbæ Kempten. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

6. apríl | Neuschwanstein höllin & frjáls tími í Kempten

Í dag upplifum við Neuschwanstein höllina en Bæjarakonungurinn Ludwig II, oft kallaður ævintýrakonungurinn, lét reisa hana á árunum 1868–1869 og er hún með glæsilegustu höllum Evrópu. Ludwig ólst upp í eldri höllinni, Hohenschwangau, og eyddi mestum hluta ævi sinnar í þessu töfrandi landslagi. Farið verður í skoðunarferð um höllina en þeim sem hafa skoðað hana áður skal bent á að fara t.d. í staðinn í gömlu höllina, Hohenschwangau. Eftir það verður frjáls tími til að njóta þess sem bærinn Kempten hefur upp á að bjóða. Má þar t.d. nefna skemmtileg kaffihús á ráðhústorginu, hina merku barokkkirkju sem kennd er við heilagan Lorenz og markaðstorgið Hildegardsplatz þar sem furstahöllin er staðsett. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

7. apríl | Heimferð frá München

Eftir yndislega og skemmtilega ferð verður ekið til München. Brottför þaðan kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

Konstanz - Hotel Constantia

Kempten - Big Box Hotel

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Sveinsdóttir

Ég heiti Íris Sveinsdóttir og er hárgreiðslumeistari að mennt. Ég rek hárgreiðslustofur bæði á Íslandi og í Þýskalandi, en þar bjó ég í rúm 20 ár þangað til að ég ákvað að flytja aftur heim til Íslands 2007. Eftir heimkomuna hóf ég leiðsögunám í Endurmenntun Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2009. Síðan þá hef ég starfað sem leiðsögumaður bæði hér heima og erlendis.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti