Sælkeraferð til Norður-Ítalíu & rivíeran við Miðjarðarhaf

29. september – 9. október 2025 (11 dagar)

Töfrandi ferð fyrir sælkera um fallega héraðið Piedmont á norðvestur Ítalíu og slökun og glæsileiki við Miðjarðarhafið á ítölsku og frönsku rívíerunni. Piedmont héraðið stendur við rætur Alpanna. Landslagið er tilkomumikið og fjölbreytt, fjalllendi, sléttur og grónar hæðir og matargerðin er árstíðabundin, fáguð og ástríðukennd. Hér eru gróskumikil svæði sem kjörin eru til ræktunar, svo sem Langhe, Roero og Monferrato sem öll eru á heimsminjaskrá UNESO. Héraðið er sannkölluð matarkista og afurðir þaðan eru mikilvægar í ítalskri matargerðarlist. Trufflurnar frá Alba eru heimsfrægar, grjón í risotto eru stór hluti af framleiðslu héraðsins og nokkrir þekktir réttir koma héðan eins og t.d Gianduja, forveri Nutella, og Panna Cotta. Piedmont er jafnframt eitt af helstu vínræktarhéruðum Ítalíu og þar ber hæst vín úr Nebbiolo og Moscato þrúgum, svo sem Barolo, Barbaresco og Asti Spumante. Torino er í dag höfuðborg héraðsins en áður var hún höfuðborg konungsríkisins Ítalíu. Hún stendur við árbakka Po og hana prýða margar fagrar byggingar sem unun er að sjá. Við ferðumst um falleg þorp og bæi héraðsins eins og La Morra og Neive og fáum tækifæri til þess að bragða ýmsar afurðir úr héraði. Við sláumst í för með sveppaleitarmanni og kynnumst aðferðum heimamanna við að finna þessar gersemar í náttúrunni. Við skoðum eitt af heilögu fjöllum Ítalíu, Sacro Monte di Crea, þorpið Cella Monte og fallegu borgina Asti sem var stórveldi á miðöldum. Við höldum síðan í suðurátt til ítölsku rivíerunnar og heillandi blómabæjarins San Remo þar sem við dveljum seinni hluta ferðarinnar. Þaðan verður farið í furstadæmið Mónakó og til yndislegu borgarinnar Nice við Côte d’Azur ströndina á frönsku rivíerunni. Í Cannes fetum við í fótspor kvikmyndastjarnanna, meðal annars á strandgötunni La Croisette þar sem finna má lúxus verslanir, fágaða veitingastaði og glæsilegar snekkjur sem lóna úti fyrir ströndinni. Í þessari yndislegu og fjölbreyttu ferð njótum við lystisemda Ítalíu, í búsældarlegum sveitum og við hina dásamlegu rívíeru þar sem glæsileikinn og milt loftslag Miðjarðarhafsins eru í aðalhlutverki.

Verð á mann 395.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 80.800 kr.


Innifalið

  • 11 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverðir allan tímann á hótelum.
  • Fimm kvöldverðir á hótelum.
  • Vínsmökkun ásamt léttu meðlæti í miðaldaþorpinu Neive.
  • Vínsmökkun ásamt léttu meðlæti í þorpinu Cella Monte.
  • Trufflusveppaleit ásamt vínpörun og léttum réttum úr trufflum úr héraði í bænum Alba.
  • Bicerin smökkun í Torino.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, spilavíti og kirkjur.
  • Siglingar.
  • Hádegisverðir.
  • Fimm kvöldverðir.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Spilavíti í Monte Carlo u.þ.b. € 17
  • Höll furstafjölskyldunnar í Mónakó u.þ.b. € 10.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

29. september | Flug til Mílanó & Piedmont

Brottför frá Keflavík kl. 8:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 14:30 að staðartíma. Við keyrum til norðvestur hluta Ítalíu, nánar tiltekið til Piedmont héraðs, þar sem við gistum næstu sex nætur. 

30. september | La Morra, vínsmökkun í Neive & Alba

Í dag förum við í skemmtilegan leiðangur um heillandi þorp og bæi Roero og Langhe svæðanna í Piedmont héraði. Þorpið La Morra stendur á fallegri hæð umkringt gróskumiklum vínekrum. Hér er afslappað andrúmsloft og huggulegar steinilagðar götur sem gaman er að ganga um. Torre Campanaria klukkuturninn er tilkomumikið kennileiti og hægt er að njóta fallegs útsýnis yfir landslag Langhe and Roero svæðanna úr útsýnisturninum Belvedere di La Morra. Við höldum áfram leið okkar í Grinzane Cavour kastalann en þekktasti íbúi hans var Camillo Benso greifi sem var leiðandi í sameiningu Ítalíu. Við röltum um götur miðaldaþorpsins Neive sem hefur verið tilnefnt eitt af fallegustu þorpum Ítalíu. Það stendur á einni af hæstu hæðunum í Langhe. Hér eru fallegir húsagarðar, lítil torg, litlar verslanir og vínkjallarar. Greifinn af Castelborgo í Neive var einn þeirra sem þróuðu víngerð úr Nebbiolo þrúgum, en úr þeim varð til ein af frægustu víntegundum héraðsins, Barbaresco. Við stöldrum við í vínkjallara, kynnumst vínræktarsögu svæðisins og smökkum á Barbaresco víni og öðrum girnilegum afurðum úr héraði. Líflegi bærinn Alba er höfuðstaður Langhe svæðisins. Hér eru fjölmörg kaffihús, skemmtilegar litlar verslanir og sælkerabúðir sem selja vinsælustu vörurnar úr héraði, hina víðfrægu hvítu trufflusveppi, vín og súkkulaði.

1. október | Asti & Monferrato

Við hefjum ferð okkar í Monferrato héraðinu þar sem saman koma saga, menning og fallegt landslag. Hér verður fyrst á vegi okkar rómversk-kaþólska klaustrið Sacro Monte di Crea. Klaustrið er staðsett á hæð þar sem er fallegt útsýni, umkringt friðsælum skógi og gróðursælum vínekrum. Sacro Monte di Crea hæðin hefur löngum verið heilagur staður og er eitt af níu Heilögu fjöllum Ítalíu. Á 16. og 17. öld voru byggðar hér nokkrar kapellur sem helgaðar eru ýmsum sögnum af Maríu mey og öðrum tilvísunum í guðfræði með fallegum veggmyndum og leirstyttum. Næst komum við í fallega þorpið Cella Monte sem stendur á stöllum í hlíðum Montferrato. Hér eru vínkjallarar neðanjarðar, höggnir úr steini. Við gæðum okkur á bragðsterku Barbera víni og meðlæti úr héraði. Við endum daginn í fallegu borginni Asti sem var stofnuð af Rómverjum og varð stórveldi á miðöldum. Þessu til merkis voru byggðar hallir, kirkjur og ótal turnar sem settu svip á borgina. Í Asti eru heimahagar Moscato vínþrúgunnar og allt í kring um borgina eru hæðir grónar vínviði. Hér blandast miðaldir saman við nútímann á skemmtilegan hátt, borgin er lifandi og skemmtileg og hér er úrval góðra veitingastaða og vandaðra sérverslana.

Opna allt

2. október | Langhe & sveppaleit

Langhe svæðið liggur sunnan við bæinn Alba og við könnum það nánar í dag. Hér eru blómlegar vínekrur í hæðóttu landslagi og héðan kemur hið fræga Barolo vín. Eins og við komumst að raun um í Alba eru trufflusveppirnir mikilvægir á þessu svæði og í dag fáum við að kynnast hvernig heimamenn finna þá. Við sláumst í för með sérstökum sveppaleitarmanni (trifulau) og tryggum hundi hans í sveppaleit. Þessi sérfræðingur leiðir okkur í allan sannleika um hvernig fyrri kynslóðir þróuðu áhrifaríkar leiðir til að finna þessa gullmola í matargerð. Eftir leitina gæðum við okkur á dýrindis réttum úr trufflum pöruðum við vín úr héraði, t.d. hið þekkta Barolo.

3. október | Frjáls dagur

Í dag er frjáls dagur, nú er upplagt að slaka á og nýta þá aðstöðu sem hótelið hefur upp á að bjóða. Einnig er tilvalið að rölta um, setjast á kaffi- eða veitingahús og njóta líðandi stundar.

4. október| Torino

Í dag liggur leið okkar til Torino. Hún er ein gömlu rómversku borganna við ána Po og var á árunum 1861 - 1865 höfuðborg konungsríkisins Ítalíu. Torino er einstaklega töfrandi og hér er margt að skoða, m.a. falleg torg og Porta Palatina hliðið frá tímum Rómaveldis. Hér má finna ótal glæstar, sögulegar byggingar og hallir. Tákn borgarinnar er hinn öflugi Mole Antonelliana turn sem er einstök bygging, 167,5 m á hæð, byggður árið 1889 en þá var hann önnur hæsta bygging í heimi. Það er mikil upplifun að fara upp í turninn og dást að útsýninu. Í Torino gefst okkur einnig færi á því að smakka heitan og góðan drykk sem er uppruninn í borginni, Bicerin. Hann er gerður úr espresso, súkkulaði og mjólk. 

5. október | San Remo við Liguraströndina & blómaströndin

Við kveðjum Piedmont hérað eftir ljúfa daga í sældarlegum sveitum norður Ítalíu og ökum í suður að rivíerunni til fallega strandbæjarins San Remo. Hann er einn vinsælasti ferðamannastaður Ligurastrandarinnar við svonefnda blómaströnd en hún dregur nafn sitt af gróskumikilli blómaræktun á svæðinu. Hér verður gist í fjórar nætur á góðu hóteli í miðbænum, stutt frá baðströnd bæjarins. Á þaki hótelsins er útsýnispallur með borðum, stólum og nuddpotti. Einnig er líkamsrækt og heilsulind með sauna og tyrknesku baði.

6. október | Nice & Cannes við Cote d´Azur ströndina

Í dag heimsækjum við dásamlegu borgina Nice við Cote d´Azur í Frakklandi. Það er ekki annað hægt en að hrífast af bæjarstæði hennar við Englaflóann og að borginni sjálfri. Nice er í hópi gömlu, grísku borganna en víðsvegar um hana standa glæsilegar byggingar, einskonar minnisvarðar liðins tíma. Hér er alltaf mikið um að vera og borgin bókstaflega iðar af mannlífi allt árið um kring. Þar má sjá skemmtileg lítil veitinga- og kaffihús, markaði með ferskvöru og blóm og litlar sérverslanir með ýmsan varning. Eftir góðan tíma og áhugaverða skoðunarferð um Nice verður ekið til glæsiborgarinnar Cannes, sem er hvað þekktust fyrir hina alþjóðlegu kvikmyndahátíð sem haldin er þar ár hvert. Að sjálfsögðu munum við feta í fótspor kvikmyndastjarnanna og ganga á rauða dreglinum að kvikmyndahöllinni. Síðdegis gefst frjáls tími til þess að kanna borgina á eigin vegum, sýna sig og sjá aðra.

7. október | Slökun í San Remo & stutt ganga með fararstjóra

Nú er rólegheitadagur hjá okkur í San Remo sem er líflegur og skemmtilegur bær. Við byrjum á því að kanna líf bæjarins og skoða glæstar byggingar sem prýða bæinn, m.a. Sanremo Casino spilavítið, San Siro dómkirkjuna og rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna svo eitthvað sé nefnt. Eftir það er upplagt að fá sér hressingu, líta inn á kaupmenn bæjarins sem eru fjölmargir eða fá sér göngutúr eftir ströndinni en þar eru margir skemmtilegir veitingastaðir. Einnig er hægt að fá sér sundsprett í Miðjarðarhafinu sem er aðeins nokkrum skrefum frá hótelinu okkar. Kvöldverður á eigin vegum.

8. október | Furstadæmið Mónakó & spilavítin í Monte Carlo

Þennan skemmtilega dag heimsækjum við furstadæmið Mónakó, stundum kallað dvergríkið Mónakó. Við höldum í skoðunarferð um klettaborgina en þar er að finna höll furstafjölskyldunnar og dómkirkjuna þar sem Grace Kelly var borin til grafar. Einnig verður komið við í Monte Carlo hverfinu hefur löngum verið vinsælt meðal efnaðasta og frægasta fólks heims. Þar er einnig finna eitt glæsilegasta og þekktasta spilavíti heims, Casino de Monte-Carlo sem margir þekkja úr kvikmyndunum um njósnarann James Bond.

9. október | Heimferð frá Mílanó

Nú er komið að heimferð eftir ljúfa daga. Ekið verður til Mílanó en brottför þaðan er kl. 15:40 og lending í Keflavík kl. 18:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Unnur Jensdóttir

Unnur Jensdóttir hefur undanfarin 30 ár starfað sem tónlistarkennari á veturna og leiðsögumaður á sumrin. Hún er fædd og uppalin á Íslandi en er færeysk í móðurætt, talar færeysku og lítur á Færeyjar sem sitt annað heimaland. Unnur er einnig frönskumælandi og hefur dvalið langdvölum bæði í Frakklandi og Sviss.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti