Sælkeraferð til Norður-Ítalíu & rivíeran við Miðjarðarhaf
29. september – 9. október 2025 (11 dagar)
Töfrandi ferð fyrir sælkera um fallega héraðið Piedmont á norðvestur Ítalíu og slökun og glæsileiki við Miðjarðarhafið á ítölsku og frönsku rívíerunni. Piedmont héraðið stendur við rætur Alpanna. Landslagið er tilkomumikið og fjölbreytt, fjalllendi, sléttur og grónar hæðir og matargerðin er árstíðabundin, fáguð og ástríðukennd. Hér eru gróskumikil svæði sem kjörin eru til ræktunar, svo sem Langhe, Roero og Monferrato sem öll eru á heimsminjaskrá UNESO. Héraðið er sannkölluð matarkista og afurðir þaðan eru mikilvægar í ítalskri matargerðarlist. Trufflurnar frá Alba eru heimsfrægar, grjón í risotto eru stór hluti af framleiðslu héraðsins og nokkrir þekktir réttir koma héðan eins og t.d Gianduja, forveri Nutella, og Panna Cotta. Piedmont er jafnframt eitt af helstu vínræktarhéruðum Ítalíu og þar ber hæst vín úr Nebbiolo og Moscato þrúgum, svo sem Barolo, Barbaresco og Asti Spumante. Torino er í dag höfuðborg héraðsins en áður var hún höfuðborg konungsríkisins Ítalíu. Hún stendur við árbakka Po og hana prýða margar fagrar byggingar sem unun er að sjá. Við ferðumst um falleg þorp og bæi héraðsins eins og La Morra og Neive og fáum tækifæri til þess að bragða ýmsar afurðir úr héraði. Við sláumst í för með sveppaleitarmanni og kynnumst aðferðum heimamanna við að finna þessar gersemar í náttúrunni. Við skoðum eitt af heilögu fjöllum Ítalíu, Sacro Monte di Crea, þorpið Cella Monte og fallegu borgina Asti sem var stórveldi á miðöldum. Við höldum síðan í suðurátt til ítölsku rivíerunnar og heillandi blómabæjarins San Remo þar sem við dveljum seinni hluta ferðarinnar. Þaðan verður farið í furstadæmið Mónakó og til yndislegu borgarinnar Nice við Côte d’Azur ströndina á frönsku rivíerunni. Í Cannes fetum við í fótspor kvikmyndastjarnanna, meðal annars á strandgötunni La Croisette þar sem finna má lúxus verslanir, fágaða veitingastaði og glæsilegar snekkjur sem lóna úti fyrir ströndinni. Í þessari yndislegu og fjölbreyttu ferð njótum við lystisemda Ítalíu, í búsældarlegum sveitum og við hina dásamlegu rívíeru þar sem glæsileikinn og milt loftslag Miðjarðarhafsins eru í aðalhlutverki.