Suður-Frakkland & Spánn

19. – 29. september 2025 (11 dagar)

Glæsileg ferð um Suður-Frakkland og Katalóníu á Spáni. Við lendum í Genf en höldum rakleitt til sögufrægu virkisborgarinnar Avignon í Provence héraði í Frakklandi sem er rómuð fyrir fegurð. Skemmtilegar skoðunarferðir eru í boði, svo sem til Pont du Gard brúarinnar, Arles með sínu magnað rómverska hringleikahúsi og klettabæjarins Les Baux þaðan sem útsýnið er stórkostlegt. Einnig verður komið til Aigues Mortes sem oft er nefndur Þyrnirósarbærinn. Síðan bíður ljúfi bærinn Saintes-Maries-de-la-Mer við Miðjarðarhafið sem er pílagrímsbær rómafólks í Evrópu. Á leið okkar til Katalóníu bregðum við okkur til Figueres, fæðingarbæjar Salvador Dalí, og skoðum safn með ævintýralegum verkum hans. Við dveljum lengst af í fallega bænum Tossa de Mar við Costa Brava ströndina á Spáni sem býr yfir merkum minjum og fornum borgarmúrum í hinum dulúðlega bæjarhluta Vila Vella. Hér njótum við hins ljúfa lífs! Við förum í dagsferð til glæsilegu og litríku heimsborgarinnar Barcelona og í yndislega siglingu á Lloret de Mar við Costa Brava ströndina. Einnig verður komið við í Montserrat klaustrinu sem stofnað var á 9. öld og stendur í 720 m hæð í samnefndum þjóðgarði, þar er fjallafegurðin ólýsanleg. 

Verð á mann 389.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 100.100 kr.


Innifalið

  • 11 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Átta kvöldverðir á hótelum.
  • Salvador Dalí safnið í Figueres.
  • Monserat klaustrið og drengja kórinn.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Siglingar.
  • Hádegisverðir.
  • Tveir kvöldverðir í Avignon.
  •  Vínsmökkun.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Kláfur upp á Sant Jeroni fjallið í Monserat ca € 19.
  •  Sigling til Lloret de Mar ca € 28.

Athugið

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

19. september | Flug til Genf & sögufræga borgin Avignon

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Genf kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið suður til sögufrægu borgarinnar Avignon í Provence héraði í Frakklandi sem er rómuð fyrir fegurð. Þar verður gist í fjórar nætur.

20. september | Skoðunarferð um Avignon & frjáls tími

Skemmtileg skoðunarferð um þessa fögru aldagömlu virkisborg Avignon. Brúin fræga St. Bénezet, virðulegir virkisveggirnir og gamli bærinn með höll páfans taka á móti okkur en allt er þetta varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO. Mjög gaman er að skoða elsta hluta borgarinnar sem er rétt hjá ráðhústorginu en þar eru skemmtilegar verslanir og heillandi götur. Einnig er gaman að fara út á St. Bénezet brúna og ganga virkisveggina.

21. september | Pont du Gard, Arles & Les Baux

Nú verður ekin stutt leið að Pont du Gard, hæstu vatnsveitubrú sem Rómverjar byggðu. Hún er hluti af 50 km langri vatnsleiðslu frá uppsprettu í nágrenni við bæinn Uzés. Hún er 49 m há og er þriggja hæða. Brúin var notuð í u.þ.b. 500 ár og liggja vatnsleiðslurnar til nágrannaborgarinnar Nîmes. Þetta er eitt af stórkostlegustu meistaraverkum frá tímum Rómaveldis. Síðan liggur leið okkar til bæjarins Arles, einnar af perlum Suður-Frakklands. Farið verður í skoðunarferð um þennan sögulega bæ þar sem við skoðum meðal annars magnað rómverskt hringleikahús. Í Arles er Van Gogh safn en listamaðurinn bjó þar um tíma og málaði þar mörg sín þekktustu verk, þ.á m. Gula kaffihúsið. Eftir frjálsan tíma verður ekið til ævintýralega klettabæjarins Les Baux sem var miðstöð trúbadora á miðöldum og mótmælenda á tímum siðaskipta. Les Baux er eitt fallegasta þorp Frakklands og hér eru rústir kastala frá miðöldum þar sem hægt er að skoða, turna, dýflissur og umsáturstæki. Ofan frá kastalanum blasir við mikilfenglegt landslag.  Hrikaleg fegurð umvefur staðinn og útsýnið er einstakt þar sem bærinn situr í Alpillesfjöllunum en þar er víðsýnt yfir láglendið um kring, ólífulundi, vínekrur og kalksteinshlíðar.  

Opna allt

22. september | Aigues Mortes & Saintes-Maries-de-la-Mer

Eftir morgunverð höldum við til Camargue, sem er friðlýst vatnasvæði myndað af árframburði Rhône. Þar má sjá flamingóa, svört naut  og hvíta arabíska hesta. Á leiðinni verður komið við í bænum Aigues Mortes sem oft er nefndur Þyrnirósarbærinn. Hann er umkringdur fallegum borgarmúr og þar var ein af mikilvægustu konungshöfnum við Miðjarðarhafið. Næst verður ekið til Saintes-Maries-de-la-Mer, pílagrímsbæ rómafólks í Evrópu sem dregur nafn sitt af þremur konum sem allar báru nafnið María og komu frá Palestínu en ein þeirra var María Magdalena. Þar verður Notre dame de la Mer kirkjan frá 11.-12. öld skoðuð og auðvitað verður gefin tími til að njóta náttúrufegurðar bæjarins við Miðjarðarhafið.

23. september | Salvador Dalí & Tossa de Mar

Nú yfirgefum við Avignon eftir töfrandi daga og höldum til Spánar. Á leið okkar heimsækjum við Figueres, fæðingarstað Salvador Dalí. Dalí safnið er eitt helsta aðdráttarafl ferðaþjónustunnar í Katalóníu og það er algjört ævintýri að koma þar inn en Dalí hannaði sjálfur safnið. Bærinn er mjög líflegur og skemmtilegur og upplagt er að fá sér hressingu áður en farið verður inn á safnið. Síðdegis höldum við ferð okkar áfram til miðaldabæjarins Tossa de Mar við Costa Brava ströndina. Hér munum við gista í sex nætur á góðu hóteli. 

24. september | Gönguferð í Tossa de Mar

Við hefjum daginn á skemmtilegri gönguferð um Tossa de Mar. Við förum meðal annars upp í elsta hlutann, klettabæinn Vila Vella, sem er umkringdur borgarmúrum og turnum frá 14. öld. Að koma inn í Vila Vella er eins og að ferðast aftur í tímann en það er enn búið í nokkrum gömlu húsanna innan virkisveggjanna. Stórfenglegt útsýni er þaðan yfir gjörvalla klettaströnd Tossa. Að skoðunarferðinni lokinni gefst hverjum og einum frjáls tími til að kanna umhverfið á eigin vegum. Fyrir áhugasama eru fornar minjar frá rómverskum tímum að finna í nágrenni hótelsins en í bænum eru einnig margar huggulegar, litlar verslanir.

25. september | Heimsborgin Barcelona

Barcelona, höfuðborg Katalóníu, er með fegurstu borgum álfunnar. Hún er þekkt fyrir glæsilegar byggingar arkitektsins Gaudí sem skreyta borgina hvert sem litið er. Barcelona er mjög gömul borg og saga hennar merkileg. Fegurð hennar og gestrisni íbúanna gera dvölina alveg einstaka. Af merkum byggingum eftir Gaudí má nefna kirkjuna La Sagrada Familia, húsin Casa Battló og Casa Milá og garðinn Güell en þessi verk Gaudí eru öll komin á heimsminjaskrá UNESCO. Gotneska hverfinu má ekki gleyma og kirkjunni við hafið sem er dásamleg og margir þekkja úr bók Ildefonso Falcones. Við höfum einnig tíma til að kanna líf bæjabúa og líta inn á líflega kaupmenn borgarinnar.

26. september | Ljúf sigling til Lloret de Mar

Að loknum morgunverði verður farið í siglingu til Lloret de Mar, eins vinsælasta ferðamannabæjarins við ströndina. Þetta er mjög snotur bær sem gaman er að rölta um en þar er m.a. að finna fallegu kirkjuna Sant Roma frá 16. öld. Einnig er hægt að fara í  góða göngu eftir ströndinni að miðaldavirkinu Sant Joan. Hér verður gefin góður tími til að njóta og upplagt að fá sér hressingu áður en ekið verður til baka.

27. september | Rólegheit & slökun

Frjáls dagur til að hvíla sig og njóta lífsins, fara í dekur á heilsulind hótelsins eða kanna umhverfið í rólegheitum. Í bænum kennir margra grasa menningar- og mannlífs, sem gaman er að kynna sér í rólegheitunum.

28. september | Montserrat klaustrið

Í dag heimsækjum við Montserrat klaustrið sem stofnað var á 9. öld en það stendur í 720 m hæð og er staðsett í Monserat fjalli í samnefndum þjóðgarði. Kirkjan er frægust fyrir líkneskið af dökkri Maríu mey en það hangir fyrir ofan altarið og er sagt að það boði gæfu að skoða hana og snerta. Um hádegisbil gefst færi á að hlýða á tvö lög hjá hinum fræga drengjakór klaustursins, Escolania de Montserrat. Í kórnum eru 50 drengir á aldrinum 9 -14 ára sem syngja þar næstum daglega. Þar er einnig listasafn sem geymir m.a. myndir eftir Picasso, Dalí, Miro og Degas. Útsýnið frá klaustrinu er stórbrotið og fjallasýnin ólýsanleg. Hægt er að fara með kláf upp á hæsta tindinn, Sant Jeroni, sem er í 1.235 m hæð yfir sjávarmáli.

29. september | Heimferð frá Barcelona

Eftir yndislega daga á Spáni, kveðjum við Tossa de Mar og ökum til Barcelona flugvallar. Brottför þaðan kl. 15:45 og lending í Keflavík kl. 18:20 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • Hotel Cloitre Saint Louis í Avignon
  • Hotel Bahia í Tossa de Mar

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti