Madeira - blómaeyjan fagra
17. - 24. febrúar 2026 (8 dagar)
Blómaeyjan portúgalska, Madeira, sem stundum er kölluð Hawaii Evrópu, er staðsett um 1.000 km suðvestur af Lissabon. Þessi yndislega eyja hefur upp á svo margt að bjóða, stórbrotið landslag, sól, milt loftslag og afar fjölbreytta afþreyingu. Saga Madeira er líka áhugaverð en eyjan var mikilvægur viðkomustaður portúgalskra leiðangursskipa á ferðum sínum til nýlendna Portúgals í Afríku og Suður-Ameríku en hér gátu þau fyllt á mat og drykkjarvatn. Verslun færði eyjunni síðar mikinn auð og vegna afar milds loftslags var Madeira vinsælt afþreyingarsvæði aðalsmanna á 19. öld. Í þessari nýju og glæsilegu ferð ætlum við að upplifa töfrandi náttúrufegurð blómaeyjunnar frá ýmsum sjónarhornum þar sem við skoðum m.a. hitabeltisgarðinn Monte Tropical, njótum ægifagurs útsýnis hinna mögnuðu Cao Girão kletta og röltum í gegnum lítil friðsæl þorp. Heimsækjum vínframleiðanda Madeira vínsins og kynnumst höfuðborginni Funchal við suðurströnd eyjunnar. Borgin, sem er afar snyrtileg og heillandi, er umlukin undurfögrum og gróðursælum fjallshlíðum og útsýnið yfir Atlantshafið er ógleymanlegt. Á rölti okkar um gamla borgarhlutann má sjá fallega og blómlega garða, steinlagðar stéttir og falleg lítil kaffihús á hverju horni. Madeira hefur svo sannarlega upp á margt að bjóða, yndisleg eyjaperla og töfrandi náttúrufegurð sem svíkur engan.