Madeira - blómaeyjan fagra

Blómaeyjan portúgalska, Madeira, sem stundum er kölluð Hawaii Evrópu, er staðsett um 1.000 km suðvestur af Lissabon. Þessi yndislega eyja hefur upp á svo margt að bjóða, stórbrotið landslag, sól, milt loftslag og afar fjölbreytta afþreyingu. Saga Madeira er líka áhugaverð en eyjan var mikilvægur viðkomustaður portúgalskra leiðangursskipa á ferðum sínum til nýlendna Portúgals í Afríku og Suður-Ameríku en hér gátu þau fyllt á mat og drykkjarvatn. Verslun færði eyjunni síðar mikinn auð og vegna afar milds loftslags var Madeira vinsælt afþreyingarsvæði aðalsmanna á 19. öld. Í þessari nýju og glæsilegu ferð ætlum við að upplifa töfrandi náttúrufegurð blómaeyjunnar frá ýmsum sjónarhornum þar sem við skoðum m.a. hitabeltisgarðinn Monte Tropical, njótum ægifagurs útsýnis hinna mögnuðu Cao Girão kletta og röltum í gegnum lítil friðsæl þorp. Heimsækjum vínframleiðanda Madeira vínsins og kynnumst höfuðborginni Funchal við suðurströnd eyjunnar. Borgin, sem er afar snyrtileg og heillandi, er umlukin undurfögrum og gróðursælum fjallshlíðum og útsýnið yfir Atlantshafið er ógleymanlegt. Á rölti okkar um gamla borgarhlutann má sjá fallega og blómlega garða, steinlagðar stéttir og falleg lítil kaffihús á hverju horni. Madeira hefur svo sannarlega upp á margt að bjóða, yndisleg eyjaperla og töfrandi náttúrufegurð sem svíkur engan. 

Verð á mann í tvíbýli 349.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 108.000 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Play og flugvallarskattar. 
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði á 5* hótelum.
  • Morgun-, hádegis- og kvöldverður á hóteli.
  • Heimsókn á vínsafnið Blandys ásamt vínsmökkun.
  • Kláfur í Funchal.
  • Aðgangur inn í Monte Tropical.
  • Hefðbundinn Madeira Fado kvöldverður. 
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í  hallir, kirkjur og söfn, að undanskildum þeim sem eru undir innfalið. 
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Nánari upplýsingar

  • Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

17. febrúar | Flug til Madeira & Funchal, höfuðborg eyjunnar

Brottför frá Keflavík kl. 09:00 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Madeira kl. 13:55 að staðartíma. Gist í sjö nætur á 5* hóteli í útjaðri höfuðborgar eyjunnar Funchal með töfrandi útsýni yfir Atlansdshafið.

18. febrúar | Glæsilegur dagur í Funchal & Madeira vín

Þessi ljúfi dagur er tileinkaður höfuðborg Madeira, Funchal, sem er stærsta borg eyjunnar, með um 112.000 íbúa. Í upphafi 15. aldar var borgin nánast óbyggð en á innan við öld var höfnin í Funchal orðin mikilvæg stoppistöð skipa á leiðum sínum frá Evrópu til Afríku og Suður-Ameríku. Á rölti okkar um þessa heillandi borg verða m.a. á vegi okkar kastalavirki, litlar þröngar götur og íbúðarhús þar sem fallega skreyttar veggmyndir og útidyrahurðir setja skemmtilegan svip á bæinn. Við kíkjum einnig inn í gamla markaðshöll, sem í dag er blómlegur markaður ferskra afurða úr nærumhverfi borgarinnar. Með útsýniskláfi höldum við svo upp í hlíðar Monte sem er í um 700 metra hæð yfir Funchal. Útsýnið yfir borgina er ægifagurt þar sem gróðursælar hlíðar fanga augað og mæta djúpbláu Atlantshafinu við ströndina. Þessum yndislega degi lýkur svo á heimsókn til eins elsta og stærsta framleiðanda Madeira vínsins en framleiðslan hefur verið í höndum sömu fjölskyldu í yfir 200 ár. Við kynnumst ferlinu og smökkum á þessu merka víni heimamanna.

19. febrúar | Pico Arieeiro, Machico & Santa Cruz

Við hefjum þennan viðburðaríka dag með því að aka yfir Poiso skarðið og í áttina að tindinum Pico Arieero en hann er yfir 1800 metrar og einn sá hæsti á eyjunni. Héðan blasir við okkur undurfagurt útsýni yfir fjalllendi Madeira með Atlantshafið í bakgrunni. Það er ekki að undra að þetta svæði sé best til þess fallið á eyjunni að njóta sólarupprásar á góðum degi. Á leið okkar til norðurhluta eyjunnar keyrum við í gegnum friðlandið Ribeiro Frio og Lauraze skóglendið en þar má finna fjölbreyttar viðartegundir eins og mahóní, lárvið og einitré. Í Quinta do Furão víngerðinni bíður okkar léttur hádegisverður áður en við höldum til bæjarins Porto da Cruz, þar sem við heimsækjum sykurreyrsverksmiðju. Síðasti viðkomustaður okkar þennan daginn er í Machico, elstu byggð á Madeira, sem nú er mikil túnfiskhöfn. Hér heimsækjum við m.a. Kraftaverkakapelluna, Capela dos Milagres, sem er ein af elstu kapellum Madeira. Hún er byggð þar sem talið er að fyrsta messan á Madeira hafi verið haldin þegar Portúgalir fundu eyjuna í kring um 1420.

Opna allt

20. febrúar | Slökun & rólegheit í Funchal

Eftir viðburðaríka og skemmtilega daga um þessa fögru eyju er kærkomið að fá frjálsan tíma. Það er upplagt að njóta þeirrar glæsilegu aðstöðu sem hótelið okkar býður upp á, kanna umhverfið betur eða fara í gönguferð. Hægt er að taka strætisvagn inn í Funchal, rölta um og skoða þessa undurfögru blómaborg, slaka á í einum af hinum fallegu almenningsgörðum, kíkja í verslanir eða tylla sér á eitt af fjölmörgum snotrum kaffihúsum borgarinnar.

21. febrúar | Hitabeltisgarðurinn Monte Tropical

Við hefjum þennan dásamlega dag á að aka til elsta borgarhluta Funchal þaðan sem við förum með kláfi upp að hitabeltisgarðinum Monte Tropical. Alfredo Guilherme Rodrigues reisti sér þar höll seint á 19. öld að fyrirmynd þeirra sem hann hafði séð á ferðum sínum um Evrópu. Árið 1910 var höllinni breytt í glæsihótel sem naut vinsælda fyrirfólks og auðmanna frá Evrópu en eftir miðja 20. öld var hótelinu lokað og eignin fór í niðurníðslu. Portúgalinn José Berardo keypti eignina árið 1987 með það að markmiði að breyta svæðinu umhverfis í grasagarð á heimsmælikvarða og það tókst honum en garðurinn er einn vinsælasti áfangastaðurinn á Madeira. Þar er myndarlegt safn plantna alls staðar að úr heiminum og má meðal annars finna svæði sem helgað er austurlenskum plöntum og menningu og afrískri list. Á göngu okkar um garðinn sjáum við einnig safn flísalistaverka sem sýna okkur minni úr portúgalskri sögu og menningu. Garðurinn er skreyttur fallegum tjörnum, fossum og lækjum og þar er úrval skrautfiska og ýmissa fugla eins og flamingóa, páfugla og svana. Eftir að hafa skoðað okkur um í þessum friðsæla og undurfagra garði geta þeir sem vilja farið í skemmtilega körfusleðaferð að bænum Livramento sem er rétt fyrir neðan garðinn. Við höldum síðan til fallega sjávarþorpsins Camara de Lobos sem er einn elsti landnámsstaður eyjunnar en landkönnuðurinn João Gonçalves Zarco gaf þorpinu nafn vegna sæljóna sem hann sá í flóanum. Höfnin þykir einstaklega falleg, marglitir bátar, snarbrattir klettar í kring og grænar vínekrur í fjarska. Við snæðum hér saman hádegisverð og njótum líðandi stundar.

22. febrúar | Klettaströndin Cabo Girão, Porto Moniz & São Vicente

Í dag höldum við til Cabo Girão, einna hæstu sjávarhamra heims, um 580 metra yfir sjávarmáli. Árið 2012 var byggður glerpallur út yfir hamrana og fyrir áhugasama er magnað að fara út á hann, útsýnið þaðan er ægifagurt og tilkomumikið að geta horft lóðbeint niður klettana, en kannski ekki fyrir lofthrædda. Við höldum ferð okkar áfram í suðvesturátt til Lugar de Baixo en þar komum við á eitt stærsta bananaræktunarsvæði eyjunnar í Ponta do Sol héraðinu. Þar göngum við í gegnum bananaplantekru og fræðumst um ræktun bananans. Á leið okkar um Paul da Serra hásléttuna sjáum við hin undurfögru og grösugu Rabaca gljúfur sem eru á heimsminjaskrá UNESCO. Í bænum Porto Moniz snæðum við hádegisverð en þar fáum við að smakka á einum vinsælasta fiski eyjunnar, Espada. Þetta er hvítur og matmikill fiskur, ekki ósvipaður þorsknum góða en matreiddur að hætti heimamanna, þar sem þeir nota m.a. banana við eldamennskuna. Hér gefst einnig tækifæri fyrir áhugasama að baða sig í náttúrulaugum sem myndast hafa við eldsumbrot og fyllst af kristaltærum sjó. Við virðum fyrir okkur lífið í bænum São Vicente en þar er fjölbreytileiki gróðurs og dýralífs mikill og margar fagrar gönguleiðir. Hér má einnig finna fræga eldfjallahella sem mynduðust fyrir 890 þúsund árum. Á leið okkar til baka verður keyrt í gegnum Serra de Agua dalinn og upp að Encumeada skarðinu en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir bæði norður- og suðurströndina á heiðskýrum degi.

23. febrúar | Frjáls dagur & hefðbundinn Madeira kvöldverður

Í dag er tilvalið að njóta náttúrufegurðarinnar við Atlandshafið frá hótelinu og nýta sér aðstöðuna þar, rölta af stað í gönguferð eða skoða sig betur um inni í höfuborginni. Um kvöldið snæðum við saman dýrindskvöldverð þar sem við gæðum okkur m.a. á Espetada sem er nautakjöt á teini, marinerað í hvítlauk, salti og lárviðarlaufum og er þessi réttur ásamt steiktum maísbitum afar vinæll hér á eyjunni. Yndslegu kvöldi ljúkum við svo með því að smakka á hinum vinsæla drykk heimamanna, poncha.

24. febrúar | Heimferð

Nú er þessari glæsilegu ferð um blómaeyjuna Madeira að ljúka. Brottför frá Madeira flugvelli er kl. 14.55 og lending í Keflavík kl. 20:20 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hotel Enotel Lido

Á þessu fallega 5* hóteli er allt innifalið í mat og drykk. Hótelið er staðsett í útjaðri höfuðborgarinnar Funchal. Á hótelinu er bæði inni- og útisundlaug, sauna, líkamsrækt og heilsulind þar sem hægt er að kaupa sér hinar ýmsu meðferðir. Öll herbergin eru með sjávarsýn og svölum.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Kristín Jóhannsdóttir

Kristín Jóhannsdóttir er fædd árið 1960 og uppalin í Vestmannaeyjum.  Eftir stúdentspróf frá MH lá leiðin til Noregs, en Kristín bjó í Osló og vann á skrifstofu Flugleiða í tvö ár. Eftir það fluttist hún til Þýskalands, en hún hefur búið bæði í austur og vesturhlutanum þ.e. Freiburg, Berlín, Leipzig og Frankfurt í 20 ár. Kristín stundaði nám í Freiburg, Berlín og Leipzig og lauk magisterprófi í bókmenntum og sagnfræði árið 1991 frá Freie Universität í Berlín.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti