Aðventuljómi í Leipzig og Berlín

Við hefjum þessa aðventuferð í menningarborginni Leipzig, sem stundum er kölluð hin nýja Berlín. Stórskáld Þjóðverja, Johann Wolfgang von Goethe, kallaði Leipzig sína litlu París í hinum þekkta harmleik Faust. Þar átti hann við hversu framsækin Leipzig var og hversu hratt hún stefndi í átt til stórborgar strax á 19. öld. Miðborg Leipzig er einstaklega falleg og í skoðunarferð verður farið um alla helstu sögustaði borgarinnar. Við munum einnig fara í dagsferð til borgarinnar Dresden. Það telst með ólíkindum hversu vel heppnuð endurreisn Dresden var, eftir seinni heimstyrjöld, þar sem eyðileggingin var mikil. Borgin er í dag þekkt fyrir stórkostleg listasöfn, hallir og hið fræga óperuhús Semper. Seinni hluta ferðarinnar dveljum við í höfuðborginni Berlín þar sem menning og listir blómstra sem aldrei fyrr enda er borgin kraumandi suðupottur fjölmargra menningarheima. Í Berlín sjáum við ýmis kennileiti borgarinnar eins og leifar af Berlínarmúrnum, minnismerki um helförina og Brandenborgarhliðið. Við höldum í skemmtilega skoðunarferð um þessa stórbrotnu borg þar sem það markverðasta verður skoðað. Hér ríkir sannur jólaandi og það má finna jólamarkaði víðsvegar þar sem upplagt er að ylja sér með heitan drykk og njóta lífsins í sannri jólastemningu. 

Verð á mann 258.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 62.900 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður allan tímann á hótelum.
 • Þrír kvöldverðir á hóteli.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. 
 • Siglingar og vínsmökkun.
 • Hádegisverðir. 
 • Fjórir kvöldverðir.
 • Þjórfé.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

1. desember | Flug til Berlínar & Leipzig

Brottför frá Keflavík kl. 7:35. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lent í Berlín kl. 12:10 að staðartíma. Frá Berlín verður ekið til Leipzig þar sem við gistum næstu fjórar nætur á vel staðsettu 4* hóteli. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

2. desember | Skoðunarferð um Leipzig

Menningarborgin Leipzig var og er miðpunktur tónsmíða, tónlistar og verslunar. Upphaf byggðar borgarinnar nær aftur til forsögulegra tíma. Líklegt þykir að Slavar hafi komið þar á fót þorpi en germanskir hópar Saxa tóku við. Borgin var miðstöð verslunar á svæðinu á tímum Rómverja og seinna höfuðborg prentlistarinnar þegar hún kom til sögunnar. Borgin hefur einstakt aðdráttarafl og þar er margt áhugavert að skoða, meðal annars Tómasarkirkjuna þar sem Johann Sebastian Bach var lengst af organisti og tónlistarstjóri. Við skoðum einnig hinn stórkostlega minnisvarða, Völkerschlachtdenkmal, um bardagann mikla milli hers Napóleons og herja Rússa og Prússlands árið 1813. Hin þekkta Nikolai kirkja, sem var miðstöð andófshreyfingarinnar, verður heimsótt en þar er hægt að skoða ýmsa muni sem minna á dagana fyrir fall múrsins. Leipzig hefur verið kölluð borg hetjanna en íbúar borgarinnar gegndu leiðandi hlutverki í friðarbyltingunni árið 1989 sem leiddi til falls Berlínarmúrsins og sameiningar Þýskalands. Kvöldverður á eigin vegum.

3. desember | Frjáls dagur í Leipzig

Þennan dag gefst hverjum og einum tími til að kanna borgina nánar á eigin vegum. Mögulega skoða eitthvað betur sem bar fyrir augu í skoðunarferð gærdagsins en einnig er upplagt að rölta um borgina, kíkja í verslanir, fara á söfn, setjast inn á kaffihús og horfa á mannlífið. Það er úrval jólamarkaða víða um borgina þar sem hægt er að skoða handverk, fagurlega gerðar skreytingar og gæða sér á kræsingum eins og Glüwein (þýskt jólaglögg) og piparkökum. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

Opna allt

4. desember | Dagsferð til Dresden

Dresden stendur við norðurbakka árinnar Saxelfi og er þekkt fyrir hrífandi útsýni, ríkulegan menningararf og fallegan arkitektúr. Þar standa tilkomumikil mannvirki og upp úr gnæfa turnar halla, kirkna og opinberra bygginga. Þar má finna stórkostleg listasöfn, hallir og hið fræga óperuhús Semper. Það er ótrúlegt að ímynda sér að borgin hafi nánast verið þurrkuð út í loftárásum bandamanna árið 1945. Miklum menningarverðmætum hafði verið komið í skjól áður en árásirnar hófust en hefur verið komið fyrir á ný í glæsilegum söfnum borgarinnar. Borgin varð á 15. öld aðsetur Wettiner furstanna en meðal afkomanda þeirra var Ágúst sterki sem átti umfangsmikinn þátt í að gera Dresden að þeirri fallegu borg sem kölluð var Flórens við ána Saxelfi. Gegnt klassíska hluta borgarinnar er hin nýja Dresden þar sem hægt er að finna fjöldann allan af fjölbreyttum veitinga- og kaffihúsum, verslunum og eitt líflegasta næturlíf í austurhluta Þýskalands. Við skoðum markverðustu byggingarnar og listaverkin í skoðunarferð um borgina en síðan gefst frjáls tími til að kanna umhverfið, skoða söfn eða setjast inn á kaffi- eða veitingahús. Í Dresden er fallegur og vinsæll jólamarkaður sem er einn sá elsti í landinu. Borgin er einnig þekkt fyrir Dresdner Christstollen, ávaxtajólabrauðið, sem á sér langa hefð og tilvalið er að smakka. Kvöldverður á eigin vegum.

5. desember | Ekið til Berlínar

Eftir góða daga í Leipzig og nágrenni höldum við nú til Berlínar þar sem gist verður næstu þrjár nætur á vel staðsettu 4* hóteli. Borgin er fjölmenningarleg og hefur upp á ótal margt að bjóða. Þangað sækja margir menningarþyrstir og staðurinn er aðdráttarafl fyrir listamenn hvaðanæva úr heiminum. Eftir að komið er til Berlínar síðdegis mun fararstjórinn kynna nánasta umhverfi Potsdamer svæðisins þar sem er upplagt að ylja sér á Glühwein á fallegum jólamarkaði þessa sögufræga torgs. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

6. desember | Skoðunarferð um Berlín

Hin sögufræga höfuðborg Berlín hefur verið aðsetur þjóðhöfðingja allt frá því hún var stofnuð á 13. öld og er í dag stærsta borg Þýskalands. Við hefjum daginn á skoðunarferð um Berlín þar sem litið verður á öll þekktustu kennileiti borgarinnar. Þar má nefna Brandenborgarhliðið, breiðgötuna Unter den Linden, þinghúsið Reichstag, minnismerki um helförina, rústir af Berlínarmúrnum og hina sögufrægu kirkju Kaiser-Wilhelm-Gedächtniskirche í vesturhluta borgarinnar. Arkitektúrinn er mjög áhugaverður hvað varðar bæði fornar byggingar og nýjar, eins og t.d. þinghúsið Reichstag og tónlistarhúsið Berliner Philharmonie. Eftir skoðunarferðina er upplagt að fá sér hádegisverð á einum af hinum fjölmörgu veitingastöðum borgarinnar áður en haldið er af stað á eigin vegum í rölt um borgina eða á einn af hinum fjölmörgu undurfögru jólamörkuðum. Kvöldverður á eigin vegum.

7. desember | Frídagur í Berlín

Í dag gefst tími til að kanna nánar á eigin vegum eitthvað af því sem fyrir augu bar í skoðunarferðinni, rölta um, fara á söfn, setjast inn á kaffihús og skoða mannlífið. Borgin er kraumandi suðupottur fjölmargra menningarheima, menning og listir eru í hávegum hafðar og þetta endurspeglast í listalífi borgarinnar og safnaflóru. Glæsilegar verslanir og ljósum prýddar verslunargötur laða að. Það er einstakur andi í Berlínarborg og hún er alveg sérstaklega heillandi á aðventunni. Kvöldverður á eigin vegum.

8. desember | Heimferðardagur

Þá er komið að lokum þessarar ferðar okkar um merkar borgir í austurhluta Þýskalands en flogið verður heim kl. 13:10 og lent í Keflavík kl. 15:50 að íslenskum tíma.
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Kristín Jóhannsdóttir

Kristín Jóhannsdóttir er fædd árið 1960 og uppalin í Vestmannaeyjum.  Eftir stúdentspróf frá MH lá leiðin til Noregs, en Kristín bjó í Osló og vann á skrifstofu Flugleiða í tvö ár. Eftir það fluttist hún til Þýskalands, en hún hefur búið bæði í austur og vesturhlutanum þ.e. Freiburg, Berlín, Leipzig og Frankfurt í 20 ár. Kristín stundaði nám í Freiburg, Berlín og Leipzig og lauk magisterprófi í bókmenntum og sagnfræði árið 1991 frá Freie Universität í Berlín.

Hótel

Hótel í ferðinni Aðventuljómi í Leipzig & Berlín

Í Leipzig gistum við á Seaside Park, vel staðsettu 4* hóteli í Art Deco stíl. Þar er heilsulind með gufubaði og heitum potti. Í nánasta umhverfi er gamli bærinn og óperuhús borgarinnar. Í Berlín gistum við á öðru 4* hóteli, Precise Tale Berlin, skammt frá Potsdamer Platz í hjarta Berlínar.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790
Póstlisti