Gullna borgin Porto

Í þessari stórglæsilegu ferð til Porto, einnar af fegurstu borgum Íberíuskagans, munum við fræðast um borgina sjálfa ásamt því að fara í skemmtilegar dagsferðir. Porto er staðsett við mynni Duoro fljótsins og dregur nafn sitt af púrtvíninu fræga. Við skoðum elsta hluta borgarinnar, Ribeira sem er á heimsminjaskrá UNESCO, og best skreyttu lestarstöð Evrópu þar sem inngangurinn er skreyttur með undurfögrum flísamálverkum sem vísa í mikilvæga atburði í sögu Portúgals. Farið verður til erkibiskupaborgarinnar Braga og að rómverska kastalavirkinu Castelo de Guimarães frá 10. öld. Við heimsækjum einnig borgina Aveiro sem er þekkt fyrir lítil síki sem liggja í gegnum miðbæinn og gefa borginni mikinn sjarma. Það er upplifun að rölta um gamla bæinn við mynni Aveiro lónsins og skoða litskrúðug húsin og bátana. Farið verður í tilkomumikla siglingu á helstu lífæð Portúgals, Duoro fljótinu, þar sem við siglum meðfram litlum þorpum og um helsta ræktunarsvæði púrtvínsins góða sem við fáum að sjálfsögðu að smakka á. 

Verð á mann í tvíbýli 399.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 158.100 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Play og flugvallarskattar. 
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði á 5* hóteli miðsvæðis í Porto.
  • Morgunverður á hóteli.
  • Þrír kvöldverðir. 
  • Hádegisverður í Aveiro. 
  • Aðgangur inn í kastala, kirkjur og söfn skv. ferðalýsingu.
  • Sigling á ánni Douro.
  • Púrtvínssmökkun í Porto.
  • Sex brúar sigling í Porto.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur aðrar en þær sem eru innfaldar. 
  • Hádegisverðir aðrir en í Aveiro.
  • Fjórir kvöldverðir.
  • Þjórfé.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

15. september | Flug með Play til Porto

Brottför frá Keflavík kl. 14:50 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Porto kl. 19:55 að staðartíma. Gist í sjö nætur á góðu hóteli miðsvæðis í Porto.

16. september | Gullna borgin Porto

Þennan fyrsta dag okkar ætlum að kynnast Porto betur og byrjum á því að rölta um gamla bæinn. Á vegi okkar verður m.a. hin fallega kirkja hins heilaga Franziskus sem upphaflega var byggð í rómverskum stíl en var svo eftir mikinn bruna endurbyggð í gotneskum stíl. Hin sögulega kauphöll borgarinnar frá 1830, Palácio da Bolsa, er sérlega glæsilega innréttuð en það átti á sínum tíma að laða að fjárfesta til borgarinnar. Það er afar tilkomumikið að skoða arabahöllina, Salão Árabe, en fyrirmynd hennar er að finna í Alhambra í Granada á Spáni. Best skreyttu lestarstöð í Evrópu er án efa að finna í Porto en hún var tekin í notkun árið 1896 og er inngangurinn skreyttur með undurfögrum flísamálverkum sem vísa í mikilvæga atburði í sögu Portúgals. Síðdegis verður farið í dásamlega siglingu á Duoro ánni sem kallast sex brúar siglingin, þar sem gott útsýni er yfir gamla miðbæinn og gömlu púrtvínsgeymslurnar við höfnina. Við endum skoðunarferð dagsins einmitt á heimsókn í púrtvínskjallara þar sem við fræðumst um framleiðsluferli púrtvínsins og að sjálfsögðu fáum við að smakka á þessu ljúfa og sæta djúpkirsuberjarauða víni.

17. september | Braga & Guimarães

Eftir góðan morgunverð höldum við til gömlu erkibiskupaborgarinnar Braga, sem er fyrir sínar mörgu og fögru kirkjur einnig kölluð Róm Portúgals. Við skoðum okkur aðeins hér um áður en haldið verður til fyrstu höfuðborgar Portúgals, Guimarães, en hér fæddist konungurinn Alfonso Henriques sem frelsaði landið undan márum. Við heimsækjum einnig Castelo de Guimarães, rómverskt kastalavirki frá 10. öld, sem er eitt það best varðveitta frá þessum tímum og er, eins og svo margar minjar og bæir á þessum slóðum, á heimsminjaskrá UNESCO. Á ferð okkar um borgina sjáum við margar litlar götur, verslanir, torgið fallega Largo da Oliveira og kirkjuna Nossa Senhra da Oliveira svo eitthvað sé nefnt. Hér verður gefinn tími til fá sér hádegishressingu og kanna líf bæjarbúa en Guimarães er mjög líflegur og skemmtilegur.

Opna allt

18. september | Frjáls dagur í Porto

Í dag er frjáls dagur og tilvalið að rölta um borgina á eigin vegum. Hvert sem litið er má hér finna merkar minjar eins og elstu járnbrautarbrúna yfir Douro, Ponte Maria Pia, sem var við vígsluna árið 1877 lengsta járnbogabrú í heimi. Brúin var hönnuð af Alexandre Gustave Eiffel, hönnuði Eiffel turnsins fræga í París. Það er áhugavert að heimsækja Lello bókabúðina sem er einkar sjarmerandi. Einnig er hægt að fara upp í 76 metra háan turn São Pedro dos Clérigos kirkjunnar sem býður upp á dásamlegt útsýni yfir borgina og er hennar helsta kennileiti.

19. september | Töfrandi dagur í Aveiro

Í dag höldum við til borgarinnar Aveiro. Hér áður fyrr héldu sjómenn frá Aveiro á ríkuleg fiskimið Nýfundnalands sem færðu borginni mikla velmegun. Í dag er Averia betur þekkt fyrir sín litlu síki sem liggja í gegnum miðbæinn og gefa borginni mikinn sjarma. Hér munum við fá okkur saman hádegisverð áður en við höldum áfram að njóta borgarinnar. Það er upplifun að rölta um Beira Mar, gamla bæinn í mynni Aveiro lónsins, þar sem falleg, litskrúðug hús í bland við saltvöruhús og síki borgarinnar láta mikið yfir sér.

20. september | Sigling á Duoro

Áin Duoro er lífæð Portúgal og er þriðja lengsta á Íberíuskagans, u.þ.b. 900 km að lengd og þar af eru 122 km sem mynda landamæri Spánar og Portúgals. Í dag ætlum við í töfrandi siglingu á Duoro ánni. Undurfagurt landslagið fangar okkur þar sem við siglum meðfram litlum, fallegum þorpum um eitt elsta landnámssvæði Portúgals. Rakt loftslagið, í bland við loftslag Atlantshafsins, gerir svæðið afar hentugt til rætkunar á grænmeti, korni, ólífum og víni. Innan Alto Duoro vínræktarsvæðisins er afmarkað svæði sem er sérstaklega hentugt til ræktunar á hinu þekkta púrtvíni Portúgala. Það er tilvalið að enda þennan yndislega dag með smökkun á góðu púrtvíni.

21. september | Frjáls dagur

Það er kærkomið að fá frjálsan dag til að njóta lífsins og kynnast Porto enn betur. Upplagt er að kíkja í verslanir, kaffihús eða nýta sér aðstöðu hótelsins. Sá sem heimsækir Portúgal má alls ekki fara þaðan án þess að smakka pastel de nata, litlu eggjakremstartaletturnar sem má segja að sé þjóðareftirréttur Portúgala.

22. september | Heimferð

Það er komið að kveðjustund eftir ljúfa og skemmtilega ferð en þar sem flugið er ekki fyrr en í kvöld er tilvalið að nýta daginn og skoða sig enn betur um í hinni fallegu Porto. Upplagt er að fá sér kvöldverð inni í borg áður en lagt verður af stað út á flugvöll. Brottför frá flugvellinum í Porto kl. 20:55 og lending í Keflavík kl. 23:55 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti