25. - 28. nóvember 2021 (4 dagar)
Dásamleg jólaferð til höfuðborgar Írlands, Dublin eða Dyflinnar eins og Íslendingar hafa þekkt hana í gegnum aldirnar. Þessi heimilislega stórborg er ljósum prýdd og íbúar borgarinnar í hátíðarskapi. Við höldum í skoðunarferð um miðbæinn með fararstjórann í broddi fylkingar. Á röltinu heimsækjum við helstu kennileiti Dyflinnar, s.s. dómkirkju heilags Patreks, Trinity College, Dyflinnar kastala og hinn sögufræga almenningsgarð, St. Stephens Green. Við röltum eftir Grafton street sem er helsta verslunargata borgarinnar og tyllum okkur niður í hinu líflega Temple bar hverfi, áður en við röltum yfir Ha’penny Bridge, brúna sem kennd er við hálft penní. Áhugasamir öldrykkjumenn geta fræðst um framleiðslu Guinness og smakkað á afurðinni á Guinness safninu. Heimsókn á bókasafn Trinity háskólans er mikil upplifun enda er menningarsaga Írlands þar alltumlykjandi. Það tilheyrir líka heimsókn til Dyflinnar að setjast inn á eitt eða jafnvel fleiri af 1.000 öldurhúsum borgarinnar og gleðjast með hinum fjörugu borgarbúum.