Jólaferð til München

München er glæsileg á aðventunni en hún skartar fallegum jólamarkaði sem breiðir úr sér frá ráðhúsi borgarinnar á Marienplatz torginu. Úr turni ráðhússins hljómar ægifagurt klukknaspil tvisvar sinnum á dag. Ljómi og ilmur aðventunnar kemur okkur í jólastemningu í þessari aðalmenningar- og listaborg Þýskalands en tákn borgarinnar er Maríukirkjan með sínum háu turnum. Við fljúgum til München þar sem gist verður á hóteli í miðbænum. Farið verður í skemmtilega skoðunarferð um borgina þar sem ekið verður um helstu staði hennar, m.a. að Ólympíusvæðinu sem var byggt fyrir Ólympíuleikana árið 1972 og að BMW byggingunni og safninu. Einnig verður farið að Maximilianeum þinghúsi Bæjaralands, Konungstorginu, Gamla og Nýja Pinakothek listasafninu, Wittelsbacher brunninum og Viktualienmarkt sem er aðalmarkaður borgarinnar. Einnig gefum við okkur tíma í Hofbräukeller, einu frægasta brugg- og veitingahúsi borgarinnar, þar sem bæjarbúar hittast gjarnan og spjalla saman yfir góðum mat og drykk. Við förum í töfrandi dagsferð til gömlu ríkis- og virkisborgarinnar Nürnberg sem er önnur stærsta borg Bæjaralands. Þar má finna elsta og frægasta jólamarkað landsins og við njótum alls þess sem hann hefur upp á að bjóða. München er heillandi á þessum árstíma með aðventuskreytingum, jólamörkuðum, kirkjum, söfnum og mörgum skemmtilegum verslunargötum.

Verð á mann 154.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 39.900 kr.

Athugið að ef til þess kemur að Bændaferðir þurfi að fella niður ferðina er hún endurgreidd að fullu.


Innifalið

 • 5 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Ferðir milli flugvallar og hótels í München.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður allan tímann á hóteli.
 • Einn kvöldverður 10. desember.
 • Skoðunarferð til Nürnberg.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegis- og kvöldverðir.
 • Þjórfé.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

9. desember | Flug til München & rölt um borgina með fararstjóra

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 3 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 12:05 að staðartíma. Frá flugvelli verður ekið beint inn í miðbæ München og því nauðsynlegt að vera klæddur til útiveru en þar mun fararstjórinn sýna ykkur hvernig bærinn liggur og segja frá borginni. Við röltum saman að fallega ráðhústorginu, Marienplatz, en þar er einn af stærstu aðventumörkuðum borgarinnar. Á leiðinni þangað lítum við inn á Viktualienmarkt sem er aðalmatarmarkaður borgarinnar. Eftir það verður frjáls tími til að skoða sig betur um í borginni. Eftir góðan tíma þar verður haldið á hótel í miðborginni þar sem gist verður í fjórar nætur.

10. desember | Dagsferð til Nürnberg & frjáls tími

Skemmtilegur og töfrandi dagur í Nürnberg, þessari gömlu ríkis- og virkisborg sem er önnur stærsta borg Bæjaralands. Nærri 90% allra bygginga í borginni skemmdust í seinni heimsstyrjöldinni en stór hluti þeirra hefur verið endurbyggður í upprunalegri mynd. Þetta er yndisleg borg og áin Pegnitz setur fallegan svip á borgina. Hér verður farið í stutta skoðunarferð en svo er frjáls tími til að líta inn á kaupmenn borgarinnar sem eru fjölmargir. Í Nürnberg er elsti og frægasti jólamarkaður Þýskalands og er upplagt að við fáum okkur þar jólaglögg saman. Um kvöldið verður sameiginlegur kvöldverður á hótelinu okkar.

11. desember | Frjáls dagur í München

Í dag er frjáls dagur til að skoða sig betur um og jafnvel líta inn í verslanir. München er heillandi á þessum tíma með aðventuskreytingum, jólamörkuðum, kirkjum, söfnum, mjög skemmtilegum verslunargötum og óteljandi notalegum veitinga- og kaffihúsum. Fyrir þá sem vilja snæða saman á einhverjum af veitingahúsum borgarinnar, þá er mælt með að bóka borð fyrirfram

Opna allt

12. desember | Skemmtileg skoðunarferð um borgina & Hofbräukeller

Eftir góðan morgunverð og rólegheit förum við í skemmtilega skoðunarferð um borgina þar sem ekið verður um helstu staðina, m.a. að Ólympíusvæðinu sem var byggt fyrir Ólympíuleikana árið 1972 og að BMW byggingunni og safninu. Einnig verður farið að Maximilianeum þinghúsi Bæjaralands, Gamla og Nýja Pinakothek listasafninu, Wittelsbacher brunninum svo eitthvað sé nefnt. Endum ferðina í miðbænum og röltum saman að Hofbräukeller, einu frægasta brugg- og veitingahúsi borgarinnar, þar sem bæjarbúar hittast gjarnan og spjalla saman yfir góðum mat og drykk. Bæverski hertoginn Wilhelm V. stofnaði Hofbräukeller árið 1589 og átti það að sjá um bjór fyrir Wittelsbach ættina. Þar er upplagt að fá sér hressingu að hætti borgarbúa. Eftir það verður frjáls tími til að skoða sig betur um í borginni. Hópurinn gæti farið saman og fengið sér heitt jólaglögg á aðalaðventumarkaði borgarinnar.

13. desember | Heimferð frá München

Eftir yndislega ferð og góða daga verður ekið út á flugvöllinn í München. Brottför þaðan kl. 13:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00