Aðventuævintýri við Wolfgangsee

Verið velkomin með í aðventuævintýri inn á milli Alpafjallanna í hinu dásamlega Salzburgerlandi í Austurríki sem er sérlega heillandi á þessum árstíma. Borgir og bæir skarta sínu fegursta og ilmur frá jólaglöggi og piparkökum svífur um. Flogið er til München og þaðan haldið til St. Wolfgang við Wolfgangsee þar sem fegurðin er töfrandi á þessum tíma og við látum dekra við okkur á hóteli við vatnið. Ljúfar ferðir verða í boði m.a. til verslunarborgarinnar Wels en þar prýða glæstar byggingar borgina og Welser ljósastígurinn lýsir upp miðbæinn. Við förum í siglingu til Strobl og St. Gilgen sem er einstaklega töfrandi bær og sér í lagi á aðventunni. Ljósadýrðin lætur ekki á sér standa í Bad Ischl sem er þekktur fyrir heilsulindir og hrífur alla en á 19. öld heilluðust Franz Joseph I, keisari Habsborgara, og Sissi kona hans af dásamlegri staðsetningunni og náttúrufegurðinni sem umvefur staðinn. Við njótum dýrðarinnar í bænum St. Wolfgang og förum með aðventulest upp á Schafberg Alm. Að síðustu er aðventublærinn áþreifanlegur í Hallstatt við Hallstättersee sem er einn fallegasti staður Salzkammergut héraðsins en bærinn og umhverfi hans er á heimsminjaskrá UNESCO.

Verð á mann 272.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 74.700 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hóteli.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar, vínsmökkun og kláfar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.
 • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

 • Aðventusigling á Wolfgangsee u.þ.b € 25.
 • Aðventulest upp á Schafberg Alm fjallið u.þ.b € 30.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

4. desember │ Flug til München & St. Wolfgang við Wolfgangsee

Brottför frá Keflavík kl. 07:20 og lending í München kl. 12:05 að staðartíma. Nú verður ekin falleg leið til St. Wolfgang við Wolfgangsee í Salzkammergut héraðinu þar sem fegurðin við vatnið er töfrandi á þessum árstíma. Gist verður þar í sjö nætur í bænum St. Wolfgang. Á hótelinu er heilsulind með gufubaði, innrauðum klefa og hvíldarherbergi með upplýstum náttúrulegum saltsteini.

5. desember │ Aðventudýrð í borginni Wels

Wels er ein af menningar- og verslunarborgum Austurríkis og þessi sjöunda stærsta borg landsins er sannkölluð ljósaborg og yndisleg á aðventunni. Rómverjar kölluðu borgina Ovilava en í meira en 2000 ár hefur menning verið í hávegum höfð og borgin sérlega lífleg. Glæstar byggingar prýða borgina, Welser ljósastígurinn lýsir upp miðbæinn í kringum Welser jólaheiminn og jólafígúrur skreyta göngugötuna. Við byrjum á skemmtilegri gönguferð um elsta hluta borgarinnar. Eftir það verður tími til að skoða sig um á eigin vegum og líta inn á kaupmenn borgarinnar.

6. desember │ Ljúfur dagur í St. Wolfgang

Bærinn St. Wolfgang við samnefnt vatn er ævintýralegur bær sem áður var mikilvægur áfangastaður pílagríma. Bærinn hefur frá alda öðli tekið á móti gestum og enn í dag eru fjölmargir sem koma hingað til að njóta dásemdarinnar sem á aðventunni er einstakt augnayndi. Bærinn er ótrúlega fallega skreyttur og sérstaka athygli vekur upplýst, stór jólabjalla úti á vatninu. Í dag ætlum við að fara saman í smá rölt um bæinn en eftir það verður frjáls tími til að kanna líf bæjarbúa á eigin vegum.

Opna allt

7. desember │ Aðventusigling á Wolfgangsee til St. Gilgen & Stobl

Í dag verður farið í aðventusiglingu frá St. Wolfgang til St. Gilgen, sem er fæðingarbær móður Mozarts. Bærinn er einstaklega fallegur, sér í lagi á aðventunni og einnig verður siglt til Strobl, en þetta eru aðal bæirnir við Wolfgangsee vatnið. Aðventustemning og ljósadýrð er mikil á þessu svæði, skemmtileg veitinga- og kaffihús og iðandi mannlíf. Hér má finna líflega aðventumarkaði með fallegu handverki og tréútskurði.

8. desember │ Heilsulindir Bad Ischl - Keisaraborgarinnar

Í hjarta Salzkammergut svæðisins, umvafinn ánum Traun og Ischl, liggur bær heilsulindanna, Bad Ischl. Strax á 19. öld heilluðust hjónin Franz Joseph keisari Habsborgara og Elisabeth „Sisi“ af bænum, dásamlegri staðsetningu og náttúrufegurðinni allt um kring. Á rólegri göngu um bæinn, sem þekktur er undir nafninu Keisaraborgin, upplifum við konunglega fortíð hennar en margar aðrar þekktar persónur sóttu borgina heim og gerðu hana að hjarta heimsborgara í Austurríki. Borgin er glæsileg á aðventunni og við ætlum að njóta til fulls alls þess sem hún býður upp á. Þar má nefna hrífandi jólamarkaði en einnig gefst góður tími til að líta inn á kaupmenn borgarinnar og auðvitað er mikið af keisaralegum kaffi- og veitingahúsum sem gaman er að heimsækja.

9. desember │ Dagur í St. Wolfgang & aðventulest upp á Schafberg Alm fjallið

Rólegur dagur í St. Wolfgang, nú er hægt að taka því rólega og njóta dýrðarinnar við Wolfgangsee vatnið og nota aðstöðuna við hótelið. Eftir hádegi förum við með aðventulest upp á Schafberg Alm, heimafjallið í St. Wolfgang sem er 1364 m, þar sem við fáum okkur hressingu saman og náttúrufegurðin og útsýnið yfir vatnið og fjallahringinn er dásamlegt.

10. desember │ Aðventutöfrar í Hallstatt & Hallstättersee

Að morgunverði loknum verður ekin í rólegheitum falleg leið til bæjarins Hallstatt. Bærinn og landsvæðið umhverfis hann var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996. Þetta er yndislegur bær sem gaman er að rölta um. Við lítum m.a. inn í beinakirkjuna sem er með mjög merkilegu, útskornu altari frá árinu 1520 og skoðum hauskúpu grafhýsið sem tengt er kirkjunni. Að því loknu gefst drjúgur tími til að njóta þess að vera á þessum dásamlega stað áður en aftur verður ekið á hótelið.

11. desember │ Heimferð München

Nú er komið að heimferð eftir ljúfa daga við Wolfgangsee. Eftir morgunverð verður ekið til München. Brottför þaðan kl. 13:05 og lending í Keflavík kl. 15:40 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00
Póstlisti