Aðventuævintýri við Wolfgangsee
4. - 11. desember 2023 (8 dagar)
Verið velkomin með í aðventuævintýri inn á milli Alpafjallanna í hinu dásamlega Salzburgerlandi í Austurríki sem er sérlega heillandi á þessum árstíma. Borgir og bæir skarta sínu fegursta og ilmur frá jólaglöggi og piparkökum svífur um. Flogið er til München og þaðan haldið til St. Wolfgang við Wolfgangsee þar sem fegurðin er töfrandi á þessum tíma og við látum dekra við okkur á hóteli við vatnið. Ljúfar ferðir verða í boði m.a. til verslunarborgarinnar Wels en þar prýða glæstar byggingar borgina og Welser ljósastígurinn lýsir upp miðbæinn. Við förum í siglingu til Strobl og St. Gilgen sem er einstaklega töfrandi bær og sér í lagi á aðventunni. Ljósadýrðin lætur ekki á sér standa í Bad Ischl sem er þekktur fyrir heilsulindir og hrífur alla en á 19. öld heilluðust Franz Joseph I, keisari Habsborgara, og Sissi kona hans af dásamlegri staðsetningunni og náttúrufegurðinni sem umvefur staðinn. Við njótum dýrðarinnar í bænum St. Wolfgang og förum með aðventulest upp á Schafberg Alm. Að síðustu er aðventublærinn áþreifanlegur í Hallstatt við Hallstättersee sem er einn fallegasti staður Salzkammergut héraðsins en bærinn og umhverfi hans er á heimsminjaskrá UNESCO.