Ljúfir dagar í Napólí & Róm

Glæsileg ferð til tveggja töfrandi, ítalskra borga. Ferðin hefst með ljúfum dögum í hrífandi borginni Napólí sem er höfuðborg Campania héraðs við Napólíflóa. Gamli hluti Napólí hefur yndislegan sjarma, hann var stofnaður á bronsöld og er á heimsminjaskrá UNESCO. Borgin er sem fyrrum konungsborg rík af glæstum byggingum, fallegum torgum og áhugaverðum söfnum. Héðan verður farið í ævintýralega siglingu til sæbrattrar klettaeyjunnar Caprí þar sem siglt verður í kring um eyjuna og farið með stólalyftu upp á hæsta fjall hennar, Monte Solaro. Dásamlega borgin Róm bíður okkar en á leiðinni þangað er áð í Pompei sem geymir frægustu fornminjar veraldar. Engin borg í heiminum er eins rík af fornminjum og Róm og hér verða margir áhugaverðir staðir skoðaðir, m.a. Kapítólhæðin, Forum Romanum, Palatínhæðin, Pantheon og komið að Colosseum. Við upplifum iðandi mannlíf Rómarbúa hjá Treví brunni sem er frægur fyrir hið ljúfa líf kvikmyndar Fellínís, La dolce vita, sæluna við Spænsku tröppurnar og torgið Piazza Navona. Einnig verður Péturskirkjan og söfn páfa í Vatíkaninu sótt heim og San Callisto katakomburnar skoðaðar. Fáar borgir vekja eins mikla aðdáun og Róm en þar verður góður tími til að upplifa og njóta.

Verð á mann 435.000 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 174.500 kr.


Innifalið

  • 10 daga ferð.
  • Flug með Icelandair til Rómar og flugvallarskattar. 
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Fjórir kvöldverðir á hótelum.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Ferja til og frá Caprí og litlir strætisvagnar um Caprí.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Vínsmökkun.
  • Hádegisverðir.
  • Tveir kvöldverðir í Napólí. 
  • Þrír kvöldverðir í Róm.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Valfrjálst

  • Blái hellirinn u.þ.b. € 32. 
  • Stólalyfta upp á Monte Solaro fjallið á Caprí u.þ.b. € 13. 
  • Sigling um eyjuna Capri u.þ.b € 22.
  • Aðgangseyrir í Vatíkan safnið u.þ.b. 35 € með leiðsögn.
  • Upp á Kúpul Péturskirkjunnar u.þ.b. € 15.
  • San Callisto katakomburnar u.þ.b. € 14.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

18. september | Flug til Róm & Napólí

Brottför frá Keflavík kl. 08:30, mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Róm kl. 15:00 að staðartíma. Nú verður stefnan tekin á Napólí sem er höfuðborg Campania héraðsins á Ítalíu. Þar tekur töfrandi fegurð Napólíflóans á móti okkur, eins fallegasta flóa landsins. Hér verður gist í fjórar nætur á hóteli í miðbæ Napólí. Á hótelinu er gæða veitingastaður með útsýni yfir borgina. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli okkar.

19. september | Hrífandi skoðunarferð í Napólí

Nú verður farið í skemmtilega skoðunarferð um Napólí sem er heillandi borg á suðausturströnd Ítalíuskagans. Gamli miðbærinn í borginni var stofnaður á bronsöld en hann er á heimsminjaskrá UNESCO og hefur töluverðan sjarma sem umvefur okkur á göngu um hann. Skoðum það helsta í borginni en hana prýða glæstar byggingar og konungleg torg. Eftir skoðunarferð verður tími til að njóta lífsins í þessu einstaka umhverfi og fá sér hressingu, eins og t.d. hina dæmigerðu Pizza Napoletana sem er afar ljúfeng. Kvöldverður á eigin vegum.

20. september | Sigling til Caprí

Í dag höldum við í yndislega siglingu til Caprí, perlu Napólíflóans, en hún er með fallegustu eyjum Miðjarðarhafsins. Við skoðum eyjuna, förum í heillandi siglingu og förum upp til Anacapri þar sem við njótum stórfenglegs útsýnis. Áhugasömum gefst einnig tækifæri til að fara með stólalyftu upp á fjallið Monte Solaro. Komið verður í bæinn Caprí þar sem fína fólkið heldur til. Jafnframt verður hægt að fá sér hressingu og skoða alls kyns handunnar vefnaðarvörur eins og kniplinga, dúka og fatnað. Hægt verður að velja á milli þess að fara í siglingu um eyjuna eða fara í siglingu að bláa hellinum, Grotta Azzurra. Kvöldverður á eigin vegum.

Opna allt

21. september | Frjáls dagur í Napólí

Nú verður frjáls dagur til að skoða sig betur um í þessari líflegu borg. Áhugasamir geta t.a.m. skoðað þjóðminjasafn Ítalíu en þar má meðal annar sjá heilmikið af hlutum sem grafnir hafa verið upp eftir eldgosið í Pompei. En svo er líka hægt að rölta um borgina, skoða sig um á Via Toledo verslunargötunni eða staldra við á fallegu torgum borgarinnar og horfa á mannlífið sem er ansi litríkt og skemmtilegt. Kirkjur og hallir borgarinnar eru líka ófáar. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli.

22. september | Fornminjar í Pompei & Róm

Nú kveðjum við Napólí og leið okkar liggur til hinnar einstöku og yndislegu Rómaborgar. Hún var byggð á sjö hæðum og var á blómaskeiði sínu fyrsta borg heims til að ná einni milljón íbúa. En við byrjum á að aka til Pompei þar sem skoðaðar verða einhverjar frægustu fornminjar veraldar. Rústir gömlu Pompei eru eitt stórkostlegasta dæmið um fornleifauppgröft heillar byggðar og mun heimamaður leiða okkur í allan sannleikann um söguna. Gist verður í fimm nætur á góðu hóteli í miðborg Rómar. Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu.

23. september | Skoðunarferð um eilífu borgina Róm

Á dagskránni í dag er fróðleg skoðunarferð um borgina eilífu, Róm, og munum við staldra við á helstu stöðum borgarinnar. Engin borg í heiminum er eins rík af fornminjum og fögrum stöðum eins og Róm. Meðal þess sem skoðað verður er Piazza Venezia, Kapítólhæð, Forum Romanum, Palatínhæð, Pantheon, Colosseum, Treví brunnurinn, Navona torgið og Spænsku tröppurnar. Einnig verður frjáls tími til að kynnast borginni og mannlífinu eins og hvern og einn lystir. Kvöldverður á eigin vegum.

24. september | Péturskirkjan & Vatíkanið

Eftir morgunverð verður haldið að Péturskirkjunni og Vatíkaninu, meistaraverkum síns tíma. Við förum í skoðunarferð um Péturskirkjuna og þeir sem vilja geta farið upp í kúpul kirkjunnar en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir borgina og Péturstorgið. Eftir það verður frjáls tími og nú geta þeir sem ætla sér farið inn á safn Vatíkansins sem er eitt mikilvægasta safn menningar- og listaverðmæta í heiminum og hýsir listaverk páfans. Frægasta safnið í Vatíkaninu er Sixtínska kapellan en þar málaði einn frægasti listamaður endurreisnartímans, Michelangelo, eitt þekktasta listaverk í heimi á loft kapellunnar. Það er þó einnig vel þess virði að skoða veggmyndirnar, þær voru unnar af þekktum listamönnum endurreisnartímans eins og Botticelli, Perugino, Rosselli og fleirum. Kvöldverður á eigin vegum.

25. september | Dýrðardagur í Rómaborg

Nú er upplagt að skoða sig betur um í Róm en engin önnur borg í heiminum býður upp á eins mikið að skoða og upplifa. Hægt er að fara t.d. inn í Colosseum hringleikahúsið, ganga um Forum Romana eða upp á minnisvarðann sem var byggður til heiðurs Viktorio Emanuele ll konungi. Eins er heillandi að koma inn í Castel Sant´Angelo grafhýsi Hadrianusar keisara svo eitthvað sé nefnt. Kvöldverður á eigin vegum.

26. september | Ljúfa líf Rómar

Nú er upplagt að njóta þessarar glæsilegu borgar en fáar borgir vekja eins mikla aðdáun og söguríka Róm. Ein af perlum borgarinnar eru Spænsku tröppurnar og Trevi brunnurinn sem er einnig frægur fyrir hið ljúfa líf kvikmyndar Fellínís, La dolce vita. Það er líka dásamlegt að stoppa á yndislega torginu Piazza Navona þar sem listamenn sitja og bjóða verk sín og finna má fjöldann allan af skemmtilegum veitingahúsum. Svo má ekki gleyma Piazza della Rotonda torginu við best varðveittu fornbyggingu Rómar, Pantheon. Kaupmenn láta sig ekki heldur vanta í borginni, fínar verslanir eru við Spænsku tröppurnar en aðalverslunargöturnar eru Via del Corso og Via dei Condotti. Sameiginlegur kvöldverður á hóteli okkar.

27. september | Heimflug frá Róm & San Callisto katakomburnar

Í dag er komið að heimferð eftir yndislega daga en eftir morgunverð ætlum við samt að skoða katakomburnar sem eru fornir grafreitir kristinna manna á tímum Rómarveldis og því helgir staðir. Frægasta katakomban, San Callisto, er við forna veginn Via Appia og er kennd við heilagan Callíxtus. Eftir þetta verður ekið út á flugvöll. Brottför þaðan kl. 16:00 og lent í Keflavík kl. 18:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir




Póstlisti