Suður-Kórea

Suður-Kórea býður gestum sínum upp á framúrskarandi úrval upplifana! Blanda af ævagamalli menningu og nútímavæddu hátæknisamfélagi, stórbrotinni náttúru og einstakri gestrisni þjóðar sem á sér 5000 ára sögu. Heimsækjum Seúl, hina gríðarstóru höfuðborg með háum skýjakljúfum, hátækni neðanjarðarlestarkerfi og poppmenningu. Borgin er einnig ákaflega hefðbundin og er þar að finna búddamusterið Jogyesa, Gyeongbokgung höllina, en byggingu hennar lauk árið 1395 og götumarkaði líkt og Gwangjang markaðinn sem er sá elsti í Suður-Kóreu, með yfir 5000 verslanir! Í Seúl má finna Bukchon Hanok þorpið, mjög hefðbundið kóreskt þorp sem á sér um 600 ára sögu en það stendur á hæð á milli Gyeongbokgung hallarinnar og Jongmyo helgidómsins. Þorpið samanstendur af mörgum húsasundum og svokölluðum Hanoks, hefðbundnum kóreskum húsum en þau fyrstu voru byggð á 14. öld. Namsan turninn, 236 m hár sjónvarpsturn í Seúl, stendur á samnefndu fjalli. Hægt er að fara upp með kláfi frá fjallsrótum upp á topp fjallsins, að fótum turnsins þar sem útsýnið er stórkostlegt. Þá verður farið til borgarinnar Gyeongju á suðausturströndinni sem er ómissandi að skoða þegar komið er til Suður-Kóreu. Borgin er oft nefnd safnið án veggja en hún var höfuðborg Silla veldisins sem ríkti yfir stórum hluta Kóreuskagans fyrir þúsund árum og er með 31 þjóðargersemi á heimsminjaskrá UNESCO. Kóreubúar eru þekktir fyrir að taka vel á móti ferðalöngum. Kurteisi og greiðvikni er einkennandi fyrir þjóðina og er oft eitt af því sem stendur upp úr þegar ferðast er til þessa ævintýralands.

Verð á mann 549.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 99.900 kr.


Innifalið

 • Áætlunarflug með Finnair: Keflavík - Helsinki - Seúl.
 • Áætlunarflug með Finnair: Seúl - Helsinki - Keflavík.
 • Flugvallaskattar fyrir alla ferðina.
 • Allar rútuferðir samkvæmt ferðalýsingu í loftkældri rútu.
 • Skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Gisting í 12 nætur í tveggja manna herbergi á 4* hótelum, samkvæmt landsmælikvarða.
 • Sjá í ferðalýsingu hvaða máltíðir eru innifaldar. (M= morgunverður, H= hádegisverður, K= kvöldverður).
 • Staðarleiðsögn.
 • Íslensk fararstjórn.
 • Undirbúningsfundur með fararstjóra fyrir ferð.

Ekki innifalið

 • Þjórfé fyrir erlenda staðarleiðsögumenn og rútubílstjóra.
 • Aðrar máltíðir en þær sem taldar eru upp í ferðalýsingu.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

6. október | Flug til Helsinki & Seúl

Brottför frá Keflavík kl. 9:25. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Helsinki kl. 15:50 að staðartíma. Fljúgum áfram til Seúl kl. 17:30. Lendum kl. 8:20 (+1) morguninn eftir. 

7. október | Koma til Seúl

Lendum í Seúl kl. 8:20. Tekið verður á móti okkur á flugvellinum og þaðan haldið með rútu á hótelið okkar þar sem við gistum næstu 3 nætur. Seinni partinn ætlum við að keyra að N Seúl turninum, oft nefndur Namsan turninn, en hann stendur á Namsan fjalli. Síðan heimsækjum við Namsan Hanok þorpið þar sem hægt er að líta fegurð hins hefðbundna, kóreska arkitektúrs. Í lok dags verður farið á Gwangjang markaðinn, hefðbundinn götumarkað í Jongno-gu, miðborg Seúl. Þetta er einn elsti markaður Suður-Kóreu og er þar að finna fleiri en 5000 verslanir og um 20 þúsund verslunarmenn.

 • Kvöldverður

8. október | Skoðunarferð um Seúl

Í dag verður farið í skoðunarferð um hina kraftmiklu Seúl. Hún er á sama tíma tísku- og tækniborg en einnig mjög svo hefðbundin og sýnir bæði hallir, musteri og nútímalega hönnun. Við skoðum m.a. Gyeongbokgung höllina, hið hefðbundna, kóreska Bukchon Hanok þorp og búddamusterið Jogyesa. Förum í hverfið Insa-dong sem er sannkölluð blanda nútíðar og fortíðar. Hverfið er þekkt fyrir Insadong götuna en við hana tengjast fjölmörg stræti og sund þar sem er að finna bæði fjölda antíkverslana og dæmigerð Hanok heimili. Einnig lítum við á Cheonggyecheon svæðið og förum á Dongdaemun markaðinn sem er stórt verslunarsvæði, mjög vinsælt hjá ferðamönnum.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður
Opna allt

9. október | Seúl – DMZ

Þrátt fyrir stormasama fortíð er DMZ svæðið (Korean Demilitarized Zone), sem skilur að Norður- og Suður-Kóreu, mjög öruggt fyrir ferðamenn og mjög áhrifaríkt að sjá. Svæðið er eingöngu hægt að skoða í skipulögðum ferðum með leiðsögn og gefst tækifæri til að sjá JSA (Joint Security Area) eða Panmunjom, þar sem leiðtogar ríkjanna tveggja hittust í friðarviðræðum. Þarna býðst gestum að kynnast örlítið sögunni um átökin á milli þessara tveggja landa. Hluti þessarar skoðunarferðar eru göngin The Third Infiltration Tunnel og Dora stjörnuathugunarstöðin, þar sem hægt er að sjá yfir til Norður-Kóreu í gegnum sjónauka ef veður leyfir. Förum einnig í Imjingak friðargarðinn og á Dorasan járnbrautarstöðina sem áður tengdi löndin tvö. Snæðum hádegisverð á veitingastað á svæðinu. Höldum aftur til Seúl og heimsækjum elsta og stærsta markað í Kóreu, Namdaemun markaðinn.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður

10. október | Seúl – Gyeongju

Höldum áfram ferð okkar til borgarinnar Gyeongju. Ferðin þangað tekur um 5 klst. og verður farið beint á hótelið. Um eftirmiðdaginn förum við svo í skoðunarferð um þessa fyrrum höfuðborg Silla veldisins sem náði yfir nánast alla Kóreu. Gyeongju liggur í suðausturhluta landsins, nálægt strönd Japanshafs. Borgin býr yfir fjöldanum öllum af sögulegum stöðum sem eru ferðamönnum mikið aðdráttarafl. Förum m.a. í Cheomseongdae stjörnuathugunar-stöðina, þá elstu í Austur-Asíu. Einnig verður farið að Anapji vatninu og Gyeongju Gyochon þorpinu, hanok þorpi sem leyfir gestum að líta inn í líf þekktu ættarinnar Gyeongju Choi Clan. Gistum í Gyeongju næstu 2 nætur.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

11. október | Gyeongju

Í dag heimsækjum við Bulguksa hofið, búddahof sem er sagt vera meistaraverk blómatíma búddalistar á tímum Silla veldisins. Það hýsir sjö þjóðargersemi Suður-Kóreu, m.a. tvær gullhúðaðar búddastyttur. Eftir hádegisverð skoðum við einnig Seokguram hellinn, sem er hluti Bulguksa hofsins. Seinnipartinn förum við að Daereungwon grafreitunum og í þjóðminjasafn Gyeongju.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður

12. október | Gyeongju – Busan

Eftir ævintýralega daga í Gyeongju höldum við áfram til Busan, annarrar stærstu borgar Suður-Kóreu á eftir Seúl. Við förum í hinn 69.000 m2 stóra Yongdusan garð og Busan turninn sem er staðsettur þar og býður upp á frábært útsýni yfir borgina. Þar er einnig að finna Yongdusan listasafnið og stærsta sædýrasafn í Suður-Kóreu. Garðurinn hýsir u.þ.b. 70 mismunandi trjátegundir og því er margt fallegt að sjá. Ekki er hægt að heimsækja Busan án þess að stoppa við Gukje alþjóðamarkaðinn og hinn gríðarstóra Jalgalchi fiskimarkað. Báðir tveir bjóða heillandi vöruúrval og er heimsókn þangað frábær leið til að kynnast lífi heimamanna. Gistum 2 nætur í Busan.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður

13. október | Busan

Höldum skoðunarferð okkar áfram og förum í Haedong Yonggung hofið, búddahof í Gijang-gun í Busan, sem byggt var árið 1376. Einnig verður litið á Nurimaru-APEC húsið, sérlega fallega byggingu þar sem þjóðarleiðtogar hittust árið 2005 og minningakirkjugarð Sameinuðu þjóðanna. Förum að Taejongdae garði sem er líklega einn af stórkostlegustu áfangastöðum í Busan. Á afskekktum stað er komið inn á þetta gróskumikla svæði þétts skóglendis gengt klettóttum dröngum við ströndina og áhrifamiklum sjónum sem birtist manni í mismunandi bláum litum. Endum daginn í sögulega ríkum fjallabæ sem reis frá því að vera fátækrahverfi yfir í að hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn eftir að hafa fengið listræna yfirhalningu háskólanema árið 2009. Í dag er hér litagleðin allsráðandi og kaffihús og listagallerí á hverju horni. Sjón er sögu ríkari!

 • Morgunverður

14. október | Busan – Tongyeong – Yeosu

Eftir morgunverð förum við til Tongyeong þar sem við förum með kláfi upp á fjallið Mireuksan (461 m). Umhverfis fjallið er einstaklega fallegt, þétt skóglendi, hreint vatn, merkilegar klettamyndanir, hellar og forn hof. Ef bjart er í veðri er jafnvel hægt að sjá yfir til Tsushima eyju í Japan. Frá Tongyeong höldum við áfram til Yeosu þar sem við gistum 1 nótt.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

15. október | Yeosu – Suncheon – Namwon

Í dag verður haldið til Suncheon og könnum við t.a.m. mýrlendi Suncheon-man flóans, Naganeup-seong þorpið með vel varðveittum bæjarkastala og Songkwangsa hofið sem talið er eitt af þremur gersemum kóresks búddisma. Endum daginn í Namwon þar sem við gistum 1 nótt.

 • Morgunverður

16. október | Namwon – Damyang – Jeonju

Eftir morgunverð höldum við áfram ferð okkar til Damyang sem er vel þekktur fyrir vörur úr héraði þ.á m. úr bambus og jarðarberjum. Ferðumst í gegnum Sunchang þorpið og síðan heimsækjum við Juknokwon bambusgarðinn. Stoppum á leiðinni til að fá okkur hádegisverð. Áður en við komum til Jeonju ökum við um hina svokölluðu Metasequoia-lined götu, breiðgötu sem er líkt og í ævintýri! Gistum í Jeonju í 1 nótt.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður

17. október | Jeonju – Seúl

Í dag heimsækjum við Hanok þorp þar sem 800 hefðbundin Hanok hús hafa verið vel varðveitt inni í þessari nútímalegu borg. Lærum um Joseon veldið sem var stofnað í Jeonju og hefur haft mikil áhrif á margar hefðir Kóreu nútímans. Borðum hádegisverð á veitingastað á svæðinu og ökum svo sem leið liggur aftur til Seúl. Um kvöldið er okkur boðið í glæsilegan kveðjukvöldverð ásamt stórfenglegri sýningu í hinu þekkta Korea House. Þar sjáum við hefðbundið gjörningalistform sem fyrst var kynnt árið 1981 af hópum gjörningalistamanna á vegum stofnunar um menningararfleifð Kóreu. Allar götur síðan hefur fegurð þessa kóreska listforms verið í hávegum haft og fáum við þess notið hér.
Gleðin er allsráðandi og kóresk tónlist og þjóðdansar munu skilja eftir sig minningu um ógleymanlega kvöldstund. Gistum síðustu 2 næturnar í Seúl.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður
 • Kvöldverður

18. október | Frídagur í Seúl

Í dag er frídagur frá skipulagðri dagskrá og er hægt að rölta um, fylgjast með litríku mannlífi Seúl, fá sér eitthvað gott að borða eða kíkja í verslanir.

 • Morgunverður

19. október | Heimferð

Þá er komið að heimferð. Leggjum af stað frá hóteli kl. 07:00 eftir snemmbúinn morgunverð og förum út á flugvöll. Fljúgum frá Seúl til Helsinki kl. 10:20 og lendum kl. 13:55 að staðartíma. Höldum áfram með flugi til Íslands kl. 16:10. Lendum kl. 17:00 að íslenskum tíma.

 • Morgunverður

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Eyrún Ingadóttir

Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, er fædd á Hvammstanga árið 1967. Hún er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1993 og diplóma í stjórnun- og starfsmannamálum frá Endurmenntun Háskóla Íslands 2003. Hún starfar hjá Lögmannafélagi Íslands og Lögfræðingafélagi Íslands og hefur frá árinu 2003 skipulagt og farið sem fararstjóri í ferðir sem félögin standa fyrir árlega. Meðal annars hefur hún farið til Suður-Afríku, Argentínu, Indlands, Georgíu, á Íslendingaslóðir í Kanada, Tyrklands (Istanbul), Eistlands, Víetnam og Kambódíu. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir