Aðventutöfrar í Tíról

Í faðmi fjallanna er einstakt að vera á aðventunni og Tíról í Austurríki er alger ævintýraheimur. Við fljúgum til München en höldum þaðan til Seefeld, yndislegs bæjar í fjöllum Austurríkis. Bærinn hvílir í sal Wetterstein-, Mieminger- og Karwendel fjalla og verður hann okkar dvalarstaður í þessari aðventuferð. Við höldum í dagsferðir og skoðum dýrðina í Swarovski kristalsheiminum í bænum Wattens og förum einnig í bæinn Mittenwald sem státar af litlum, myndskreyttum húsum, bæjarlæk og skemmtilegum verslunum. Sterzing er töfrandi á aðventunni og við heimsækjum einnig miðaldaborgina Brixen, elstu borg Tíróls á Norður-Ítalíu, þar sem finna má stórfenglegan barokkarkitektúr við rætur töfrandi Alpanna. Innsbruck, höfuðborg Tíról í Austurríki, er ein af ævintýraborgum aðventunnar og þar er sérstaklega gaman að upplifa iðandi mannlíf. Á þessum ljúfu dögum upplifum við aðventu- og fjalladýrð í Seefeld og nágrenni.

Verð á mann 252.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 15.900 kr.


Innifalið

  • 6 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður á hóteli.
  • Heimabakaðar kökur á hóteli seinni partinn.
  • Glæsilegur 4 rétta kvöldverður með salathlaðborði.
  • Drykkir frá 11:00-22:00 (bjór, vín, gos, vatn og fleira, að frátöldum drykkjum á sérseðli).
  • Aðgangur að glæsilegri heilsulind.
  • Sloppur og handklæði fyrir gufuböð.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Vínsmökkun.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Aðgangur í fiðlusafnið í Mittenwald u.þ.b. € 7.
  • Vínsmökkun og snarl í Kloster Neustift u.þ.b. € 25.
  • Swarovski safnið u.þ.b. € 15.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

5. desember | Flug til München & Seefeld

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 12:05 að staðartíma. Við ökum af stað á gististað en á leiðinni verður komið við í þýska bænum Garmisch-Partenkirchen þar sem hægt er að fá sér síðdegishressingu áður en haldið er áfram til Tíról í Austurríki eða nánar tiltekið til Seefeld. Þetta er yndislegur bær inn á milli fjallanna í 1180 m hæð og við gistum fimm nætur á góðu hóteli í miðbænum. Notaleg heilsulind er á hótelinu með sundlaug, sauna, eimbaði með salt- og ilmstillingu, innrauðum hitaklefa og köldu keri.

6. desember | Jólaævintýri í Watten & Mittenwald

Við hefjum daginn á að aka Inndalinn til Wattens þar sem Swarovski verksmiðjurnar og kristalssafnið er til húsa en þar glitrar á ýmis djásn. Áfram höldum við til bæjarins Mittenwald en hann á sér engan líka, með litlum, myndskreyttum húsum, bæjarlæk og skemmtilegum verslunum. Bærinn er frægur fyrir smíði strengjahljóðfæra og stendur minnisvarði fyrir Matthias Klotz, upphafsmanns fiðlusmíði í Mittenwald, fyrir utan fiðlusafn bæjarins sem er mjög áhugavert. 

7. desember | Dagsferð til Sterzing & Brixen

Eftir góðan morgunverð ökum við stórbrotna og undurfallega leið yfir Brennerskarðið og höldum í endurreisnarbæinn Sterzing sem er töfrandi á aðventunni.
Því næst verður farið til gömlu biskupaborgarinnar Brixen í Suður-Tíról á Ítalíu. Farið verður í skemmtilega gönguferð um elsta hluta bæjarins sem er aðalbær Eisackdalsins, við rætur fjallsins Plose. Í þessum 20.000 manna snotra bæ eru gamlar götur, brýr, kirkjur og söfn. Þar mætast árnar tvær Isarco og Rienza og þetta allt gerir Brixen að einstaklega heillandi áfangastað.

Opna allt

8. desember | Aðventudýrð í Seefeld

Í dag njótum við þess að vera í fjalladýrðinni í Seefeld. Áður fyrr var þetta mikið vatnasvæði eins og nafn bæjarins ber með sér. Eftir morgunverð býður fararstjóri upp á gönguferð um bæinn en hér er líka margt hægt að gera, t.d. fara með hestvagni í rómantíska ferð um nágrennið eða ganga hringinn í kringum vatnið eftir góðum göngustíg. Mögulegt er að fara upp á Rosshütte fjallið með kláfi sem fer upp í 1784 m hæð. Þarna uppi er veitingahús og upplagt að fá sér kaffi og tertusneið.

9. desember | Innsbruck

Áfangastaður dagsins er Innsbruck en hún var ein af borgum Habsborgaranna, einnar mikilvægustu valdaættar Evrópu. Blómatími hennar var á 15. öld undir stjórn Maximilian I. af Habsborg. Hann lét byggja helsta kennileiti borgarinnar, húsið með gullþakinu, sem stendur við eitt fallegasta torgið í Tíról. Farið verður í stutta göngu með fararstjóranum en eftir það verður frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum og ylja sér á heitu Glühwein á aðventumarkaði borgarinnar. Borgin er sérstaklega ævintýraleg á aðventunni því borgarbúar nota gjarnan Grimmsævintýrin sem þema í skreytingunum. Tilvalið er að líta inn til kaupmanna í Maria-Theresien götunni en þar er einnig mikil jólastemning.

10. desember | Heimferð frá München

Nú er komið að heimferð eftir ljúfa ferð. Eftir morgunverð verður ekið til München. Brottför þaðan kl. 13:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Sigrún Valbergsdóttir

Sigrún Valbergsdóttir er fædd í Hafnarfirði og alin upp í Reykjavík. Sem barn dvaldi hún öll sumur í Svarfaðardal en á unglingsárunum rak móðir hennar sumarhótel í Grundarfirði og þar gekk hún um beina á daginn en upp til fjalla þegar kvöldaði. Sigrún hefur verið fararstjóri hjá Bændaferðum í aðventuferðum til Þýskalands og Austurríkis, einnig í Gardavatnsferðum og gönguferðum um Austurríki, Suður-Tíról og Færeyjar. 

Hótel

Hotel Bergland Aðventuferð

Gist verður allar næturnar á 4* hóteli í miðbæ Seefeld, Hótel Bergland. Innifalið er morgunverðarhlaðborð og kvöldverður er vel útilátin fjögurra rétta máltíð með salathlaðborði. Flestir drykkir frá 11:00 á morgnanna til 22:00 á kvöldin eru innifaldir. Notaleg heilsulind er á hótelinu með sundlaug, sauna, eimbaði með salt- og ilmstillingu, innrauðum hitaklefa og köldum kerum. Boðið er upp á ýmsar heilsumeðferðir gegn gjaldi. Herbergin eru öll með baði/sturtu, hárþurrku, síma, sjónvarpi og öryggishólfi. Gestir fá baðslopp til afnota á meðan á dvölinni stendur. Ókeypis þráðlaust net er á hótelinu. Sjá nánar á vefsíðu hótelsins.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti